16. kafli
Stjórn Guðs tekur til starfa
1. (a) Hvers hafa trúaðir menn löngum hlakkað til? (b) Hvers vegna er ríki Guðs kallað „borg“?
UM ÞÚSUNDIR ára hafa menn, sem trúðu á stjórn Guðs, horft fram til þess tíma er hún tæki völd. Biblían segir til dæmis að hinn trúfasti Abraham hafi ‚vænst þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.‘ (Hebreabréfið 11:10) Þessi ‚borg‘ er ríki Guðs. Hvers vegna er það kallað ‚borg‘ hér? Vegna þess að til forna var algengt að konungur ríkti yfir einni borg sem var þá sjálfstætt borgríki. Fólk leit því oft á borgir sem konungsríki.
2. (a) Hvað sýnir að Guðsríki var raunverulegt fyrstu lærisveinum Krists? (b) Hvað vildu þeir fá að vita um það?
2 Ríki Guðs var raunverulegt fyrstu fylgjendum Krists eins og sjá má af brennandi áhuga þeirra á því. (Matteus 20:20-23) Ein sú spurning, sem brann á vörum þeirra, var þessi: Hvenær myndu Kristur og lærisveinar hans byrja að ríkja? Einu sinni, þegar Jesús birtist lærisveinunum eftir upprisu sína, spurðu þeir: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ (Postulasagan 1:6) Hefur þú brennandi áhuga á að vita hvenær Kristur byrjar að ríkja sem konungur stjórnar Guðs, alveg eins og lærisveinar hans höfðu?
STJÓRNIN SEM KRISTNIR MENN BIÐJA UM
3, 4. (a) Hvað sýnir að Guð hefur alltaf ríkt sem konungur? (b) Hvers vegna kenndi Kristur þá fylgjendum sínum að biðja þess að Guðsríki kæmi?
3 Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Einhver spyr kannski hvort Jehóva Guð hafi ekki alltaf ríkt sem konungur, og hvers vegna við ættum þá að biðja þess að ríki hans komi.
4 Að vísu er það rétt að Biblían kallar Jehóva ‚konung eilífðarinnar.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:17) Hún segir einnig: „[Jehóva] hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.“ (Sálmur 103:19) Jehóva hefur því alltaf verið æðsti drottnari yfir öllu sköpunarverki sínu. (Jeremía 10:10) En vegna uppreisnarinnar gegn drottinvaldi sínu í Edengarðinum ákvað Guð að setja á fót sérstaka stjórn. Það er stjórnin sem Jesús Kristur kenndi fylgjendum sínum síðar meir að biðja um. Hlutverk hennar er að binda enda á vandamálin sem upp komu þegar Satan djöfullinn og fleiri hættu að lúta stjórn Guðs.
5. Ef ríkið er ríki Guðs, hvers vegna er það þá líka kallað ríki Krists og ríki hinna 144.000?
5 Þessi nýja ríkisstjórn fær mátt sinn og rétt til að ríkja frá konunginum mikla, Jehóva Guði. Hún er ríki hans. Aftur og aftur kallar Biblían hana „Guðs ríki.“ (Lúkas 9:2, 11, 60, 62; 1. Korintubréf 6:9, 10; 15:50) En Jehóva hefur skipað son sinn æðsta ráðamann stjórnarinnar og þess vegna er hún líka kölluð ríki Krists. (2. Pétursbréf 1:11) Eins og við lærðum í fyrri kafla þessarar bókar munu 144.000 einstaklingar úr hópi mannanna stjórna með Kristi í þessu ríki. (Opinberunarbókin 14:1-4; 20:6) Biblían kallar það þess vegna líka ríki þeirra. — Daníel 7:27.
6. Hvenær tók Guðsríki til starfa að sögn sumra?
6 Sumir segja að ríki Guðs hafi tekið völd sama ár og Jesús steig upp til himna. Þeir segja að Kristur hafi byrjað að ríkja þegar hann úthellti heilögum anda yfir fylgjendur sína á hvítasunnuhátíð Gyðinganna árið 33 eftir okkar tímatali. (Postulasagan 2:1-4) En sú himneska ríkisstjórn, sem Jehóva ætlaði að láta binda enda á vandamálin sem uppreisn Satans olli, tók ekki til starfa þá. Ekkert bendir til að ‚sveinbarnið,‘ sem er stjórn Guðs með Krist sem konung, hafi fæðst þá og byrjað að ríkja. (Opinberunarbókin 12:1-10) Hafði Jesús þá einhvers konar ríki árið 33 að okkar tímatali?
7. Yfir hverjum hefur Kristur ríkt frá árinu 33 e.o.t.?
7 Já, Jesús fór þá að ríkja yfir söfnuði fylgjenda sinna sem með tíð og tíma skyldu sameinast honum á himnum. Biblían talar því svo um þá að þeir séu, meðan þeir eru á jörðinni, ‚fluttir inn í ríki hins elskaða sonar Guðs.‘ (Kólossubréfið 1:13) En þetta „ríki“ yfir kristnum mönnum með von um himneskt líf er ekki ríkisstjórnin sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um. Það fer aðeins með völd yfir þeim 144.000 einstaklingum sem munu ríkja með honum á himnum. Í aldanna rás hafa þeir verið einustu þegnar þess. Þetta ‚ríki hins elskaða sonar Guðs,‘ tekur því enda þegar hinn síðasti þessara þegna með himneska köllun deyr og sameinast Kristi á himnum. Þá verða þeir ekki lengur þegnar Krists heldur konungar ásamt honum í ríkisstjórninni sem Guð lofaði forðum daga.
TEKUR TIL STARFA MITT Á MEÐAL ÓVINA SINNA
8. (a) Hvað sýnir að Kristur þurfti að bíða eftir upprisu sína, áður en hann tæki við embætti? (b) Hvað sagði Guð við Krist þegar tíminn var kominn til að hann tæki völd?
8 Þegar Kristur sneri aftur til himna að lokinni upprisu sinni tók hann ekki völd þá þegar sem konungur ríkisstjórnar Guðs. Hann átti að bíða eins og Páll postuli útskýrir: „En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.“ (Hebreabréfið 10:12, 13) Þegar tíminn var kominn til að Kristur tæki um stjórnartaumana sagði Jehóva honum: „Drottna þú [eða sigra] mitt á meðal óvina þinna.“ — Sálmur 110:1, 2, 5, 6.
9. (a) Hvers vegna vilja ekki allir að Guðsríki komi? (b) Hvað gera þjóðirnar þegar ríkisstjórn Guðs tekur til starfa?
9 Hljómar það einkennilega að einhver geti verið óvinur stjórnar Guðs? Þó vilja ekki allir búa við stjórn sem krefst þess að þegnar hennar geri það sem er rétt. Biblían segir því, eftir að hafa lýst hvernig Jehóva og sonur hans myndu taka í sínar hendur valdið yfir heiminum, að ‚þjóðirnar hafi reiðst.‘ (Opinberunarbókin 11:15, 17, 18) Þjóðirnar taka ekki tveim höndum ríki Guðs vegna þess að Satan leiðir þær afvega til að berjast gegn því.
10, 11. (a) Hvað gerist á himnum þegar ríkisstjórn Guðs tekur um stjórnartaumana? (b) Hvað gerist á jörðinni? (c) Hvaða mikilvægt atriði viljum við því hafa í huga?
10 Þegar ríkisstjórn Guðs tekur til starfa eru Satan og englar hans enn á himnum. Úr því að þeir standa gegn stjórn Guðsríkis brýst þegar út stríð. Því lyktar svo að Satan og englum hans er varpað niður af himnum. Þá heyrist rödd mikil segja: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða.“ Já, ríkisstjórn Guðs tekur um stjórnartaumana! Satan og englum hans hefur verið úthýst af himnum og þar ríkir fögnuður: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið,“ segir Biblían. — Opinberunarbókin 12:7-12.
11 Ríkir líka hamingja og fögnuður á jörðinni? Nei! Þess í stað ganga yfir jörðina mestu erfiðleikar sem orðið hafa. Biblían segir okkur: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Hér kemur því fram atriði sem er mikilvægt að muna: Ríkisstjórn Guðs kemur ekki á friði og öryggi á jörðinni um leið og hún tekur til starfa. Sannur friður kemur síðar þegar ríki Guðs tekur öll völd á jörðinni. Það gerist við lok hins ‚nauma tíma‘ þegar Satan og englum hans verður rutt úr vegi svo að þeir geti ekki lengur valdið nokkrum manni erfiðleikum.
12. Hvers vegna getum við vænst þess að Biblían segi okkur hvenær ríki Guðs tekur til starfa?
12 En hvenær er Satan úthýst af himnum sem veldur erfiðleikum á jörðinni um „nauman tíma“? Hvenær tekur ríkisstjórn Guðs til starfa? Gefur Biblían svar við því? Við getum reiknað með því. Hvers vegna? Vegna þess að með löngum fyrirvara sagði Biblían fyrir um hvenær sonur Guðs myndi fyrst koma fram sem maður á jörðinni til að verða Messías. Meira að segja sagði hún nákvæmlega hvaða ár hann yrði Messías. En hvað þá um hina þýðingarmeiri komu Messíasar eða Krists til að taka við embætti sem konungur Guðsríkis? Við hljótum að vænta þess að Biblían segi okkur líka hvenær það skuli gerast!
13. Hvernig segir Biblían fyrir um árið sem Messías kom fram á jörðinni?
13 Einhver spyr kannski hvar Biblían segi fyrir um árið sem Messías kom fram á jörðinni. Daníelsbók í Biblíunni segir: „Frá þeim tíma, að sú skipun útgeingur, að Jerúsalemsborg skuli uppreist og byggð verða og allt til þess smurða, til höfðíngjans, eru sjö sjöundir, og tvær og 60 sjöundir (ára),“ alls 69 sjöundir. (Daníel 9:25, Ísl. bi. 1859) Hér er aftur á móti ekki verið að tala um 69 bókstaflegar vikur sem myndu jafngilda aðeins 483 dögum eða liðlega einu ári. Hér er átt við 69 sjöundir ára eða 483 ár. (Samanber 4. Mósebók 14:34.) Skipunin um endurreisn og endurbyggingu múra Jerúsalem var gefin árið 455 f.o.t.a (Nehemía 2:1-8) Þessum 69 sjöundum ára lauk því 483 árum síðar, það er árið 29 e.o.t. Það er sama árið og Jesús kom til Jóhannesar til að láta skírast! Þá var hann smurður með heilögum anda og varð Messías eða Kristur. — Lúkas 3:1, 2, 21-23.
ÞEGAR RÍKISSTJÓRN GUÐS TEKUR TIL STARFA
14. Hvað táknar ‚tréð‘ í 4. kafla Daníelsbókar?
14 Hvar segir Biblían þá fyrir um árið sem Kristur byrjaði að ríkja sem konungur ríkisstjórnar Guðs? Það er í sömu bók Biblíunnar, Daníelsbók. (Daníel 4:10-37) Þar er lýst risavöxnu, himinháu tré sem látið er tákna Nebúkadnesar konung Babýlonar. Hann var voldugasti þjóðarleiðtogi þeirra tíma. En Nebúkadnesar var neyddur til að viðurkenna að til væri honum æðra yfirvald. Það yfirvald er ‚Hinn hæsti‘ eða ‚konungur himnanna,‘ Jehóva Guð. (Daníel 4:34, 37) Í víðara og mikilvægara samhengi er hið himinháa tré því einnig látið tákna hið æðsta drottinvald Guðs, einkum gagnvart jörðinni. Stjórn Jehóva kom um tíma fram fyrir milligöngu konungsríkis sem hann hafði yfir Ísraelsþjóðinni. Konungar af ættkvísl Júda, sem ríktu yfir Ísraelsmönnum, voru því sagðir ‚sitja á hásæti Jehóva.‘ — 1. Kroníkubók 29:23.
15. Hvers vegna voru settir fjötrar á ‚tréð‘ þegar það var höggvið?
15 Samkvæmt frásögn Biblíunnar í 4. kafla Daníelsbókar var hið himinháa tré höggvið niður en eftir skilinn stubbur af því bundinn járn- og eirfjötrum. Fjötrarnir myndu koma í veg fyrir að stubburinn yxi fyrr en tími Guðs kæmi til að taka þá af honum og láta tréð vaxa upp á nýjan leik. En hvernig og hvenær var stjórn Guðs höggvin niður?
16. (a) Hvernig og hvenær var stjórn Guðs höggvin niður? (b) Hvað var síðasta Júdakonungi, sem sat á ‚hásæti Jehóva,‘ sagt?
16 Þegar tímar liðu varð Júdaríkið, sem Jehóva hafði komið á fót, svo spillt að hann leyfði Nebúkadnesar konungi að kollvarpa því, að höggva það niður. Það gerðist árið 607 f.o.t. Þá var Sedekía, síðasta Júdakonunginum sem sat á hásæti Jehóva, sagt: „Niður með kórónuna! . . . Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem á réttinn til ríkis. Honum mun ég selja ríkið í hendur.“ — Esekíel 21:25-27, neðanmáls.
17. Hvaða tímabil hófst árið 607 f.o.t.?
17 Stjórn Guðs, sem „tréð“ táknaði, var niðurhöggvin árið 607 f.o.t. Nú var engin ríkisstjórn til sem var fulltrúi stjórnar Guðs á jörðinni. Þess vegna hófst árið 607 f.o.t. tímabil sem Jesús Kristur kallaði síðar meir ‚tíma heiðingjanna‘ eða „tilteknar tíðir þjóðanna.“ (Lúkas 21:24, NW) Meðan þessar ‚tilteknu tíðir‘ stóðu hafði Guð enga ríkisstjórn sem var fulltrúi stjórnar hans á jörðinni.
18. Hvað átti að gerast þegar ‚tilteknum tíðum þjóðanna‘ lyki?
18 Hvað átti að gerast þegar þessum ‚tilteknu tíðum þjóðanna‘ lyki? Þá myndi Jehóva fá völdin í hendur honum ‚sem ætti réttinn til ríkis.‘ Það er Jesús Kristur. Ef við því getum komist að niðurstöðu um hvenær ‚tilteknum tíðum þjóðanna‘ lauk vitum við hvenær Kristur tók völd sem konungur.
19. Í hversu margar „tíðir“ yrði gert hlé á stjórn Guðs yfir jörðinni?
19 Samkvæmt fjórða kafla Daníelsbókar skyldu þessar ‚tilteknu tíðir‘ vera „sjö tíðir.“ Daníel segir að líða myndu „sjö tíðir“ þegar stjórn Guðs, táknuð með ‚trénu,‘ yrði ekki starfandi yfir jörðinni. (Daníel 4:16, 23) Hversu langar eru þessar „sjö tíðir“?
20. (a) Hve löng er ein „tíð“? (b) Hversu langar eru „sjö tíðir“? (c) Hvers vegna teljum við dag fyrir ár?
20 Af 12. kafla Opinberunarbókarinnar, 6. og 14. versi, lærum við að 1260 dagar jafngilda ‚tíð (það er, einni tíð) og tíðum (það er, tveim tíðum) og hálfri tíð.‘ Það eru samanlagt 3 1⁄2 tíð. Hver „tíð“ jafngildir því 360 dögum. „Sjö tíðir“ jafngilda þar af leiðandi sjö sinnum 360 dögum, alls 2520 dögum. Ef við teljum ár fyrir dag, samkvæmt reglu sem Biblían setur, jafngilda ‚tíðirnar sjö‘ 2520 árum. — 4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6.
21. (a) Hvenær byrja ‚tilteknar tíðir þjóðanna‘ og hvenær enda þær? (b) Hvenær tekur ríkisstjórn Guðs til starfa? (c) Hvers vegna er enn við hæfi að biðja um komu Guðsríkis?
21 Við höfum þegar komist að því að ‚hinar tilteknu tíðir þjóðanna‘ hófust árið 607 f.o.t. Með því að telja 2520 ár frá þeim tíma náum við fram til ársins 1914 e.o.t. Það ár lauk þessum ‚tilteknu tíðum.‘ Milljónir manna eru enn á lífi sem muna eftir atburðum ársins 1914. Það ár braust fyrri heimsstyrjöldin út sem var upphaf þeirra skelfilegu erfiðleika sem hafa verið allt fram til okkar daga. Þetta þýðir að Jesús Kristur tók við embætti sem konungur himneskrar ríkisstjórnar Guðs árið 1914. Með því að ríkið hefur nú þegar tekið til starfa er sannarlega tímabært að við biðjum að það „komi“ og afmái hið illa kerfi Satans af yfirborði jarðar! — Matteus 6:10; Daníel 2:44.
22. Hvers spyrja kannski sumir?
22 En spyrja má hvers vegna við sjáum ekki Krist ef hann er þegar snúinn aftur sem konungur í ríki föður síns.
[Neðanmáls]
a Um sögulegar heimildir fyrir því að þessi skipun hafi verið gefin árið 455 f.o.t. er fjallað undir yfirskriftinni „Artaxerxes“ í bókinni Aid to Bible Understanding, útgefin af Watch Tower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Kort á blaðsíðu 140, 141]
Árið 607 f.o.t. féll Júdaríkið.
Árið 1914 e.o.t. tók Jesús Kristur sæti sem konungur himneskrar stjórnar Guðs.
607 f.o.t. - 1914 e.o.t.
Október árið 607 f.o.t. til október árið 1 f.o.t. = 606 ÁR
Október árið 1 f.o.t. til október árið 1914 e.o.t. = 1914 ÁR
SJÖ TÍÐIR HEIÐINGJANNA = 2520 ÁR
[Mynd á blaðsíðu 134]
„Ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“
[Mynd á blaðsíðu 139]
Stóra tréð í 4. kafla Daníelsbókar táknar stjórn Guðs. Um hríð var Júdaríki fulltrúi hennar.
[Mynd á blaðsíðu 140, 141]
Tréð var höggvið þegar Júdaríkinu var eytt.