Draumur opinberar hve áliðið er
‚JEHÓVA er lifandi Guð og eilífur konungur.‘ (Jeremía 10:10) Aldrei hefur hann afsalað sér stjórn sinni á alheiminum en það var nokkuð sem Nebúkadnesar konungur í Babýlon til forna tók ekki tillit til. Til að festa hinum heiðna konungi í minni að „Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna“ lét hann konunginn dreyma draum og þjón sinn Daníel þýða hann. — Daníel 4:17, 18.
Í draumnum sá konungur risastórt tré. Það var „svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar.“ Að boði Guðs var tréð höggvið og stofn þess bundinn járn- og eirfjötrum. Fjötrarnir skyldu hafðir á þar til „sjö tíðir“ væru liðnar; þá gæti tréð vaxið upp á ný. — Daníel 4:10-17.
„Tréð, sem þú sást,“ sagði Daníel, „það ert þú, konungur, . . . og veldi þitt.“ Nebúkadnesar skyldi ‚höggvinn upp.‘ Hann átti að missa ríki sitt, meira að segja vitið, dæmdur til að ráfa um mörkina eins og villidýr í „sjö tíðir.“ Fyrst þegar þessi afmarkaði tími væri liðinn yrðu hinir táknrænu fjötrar leystir og konungur fengi endurheimt bæði vit sitt og hásæti. — Daníel 4:20-27.
„Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung“ eins og sagt var fyrir. (Daníel 4:28) Orðabókin Lexicon Linguae Aramaicae Veteris Testamenti segir að ‚tíðirnar sjö‘ í draumi Nebúkadnesars hafi verið sjö bókstafleg ár. Þar eð Nebúkadnesar ríkti í 43 ár (624-581 f.o.t.) er það rökrétt ályktun.
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur?
Jehóva hefur alltaf beitt drottinvaldi sínu yfir alheimi eins og hann álítur við hæfi. Um tíma gerði hann það á jörðinni í gegnum Ísraelsþjóðina og jarðneskir konungar hennar voru sagðir ‚sitja í hásæti Jehóva.‘ (1. Kroníkubók 29:23) Þegar Ísraelsmenn gerðu fráhvarf frá trúnni leyfði Jehóva að konungaætt Davíðs yrði knésett.
Því átti vel við að skömmu síðar skyldi Guð gefa Nebúkadnesar konungi — honum sem leyft var að fótum troða það ríki sem Guði tilheyrði — vísbendingu um að það þýddi alls ekki að hið réttmæta drottinvald Guðs væri á enda runnið. Það var nauðsynlegt að festa honum og öllum þeim heiðingjaþjóðum, sem myndu eftir hans dag fótum troða hið táknræna ríki Guðs, í minni að það ástand væri einungis tímabundið!
Bæði stundin sem draumurinn var gefinn, einstaklingurinn, sem dreymdi hann, og uppistaða hans, drottinvald Guðs, gefa því til kynna að þýðing hans sé langtum víðtækari en svo að hún nái aðeins til Nebúkadnesars. Þessar aðstæður gefa til kynna að líkt og hið höggna tré með fjötrunum yrði stjórn Guðs, eins og hún hafði birst í Jerúsalem, ekki reist við úr rústum sínum fyrr en þessir fjötrar væru af teknir að loknum ‚sjö tíðum.‘ Þá yrði útvalinn fulltrúi Guðs settur til valda í þessu ríki. Hann er nefndur ‚hinn lítilmótlegasti meðal mannanna‘ og er þar átt við hinn fyrirheitna Messías. Lærisveinar Jesú báðu hann að gefa sér tákn um hvenær Guð myndi gera þetta. — Daníel 4:17; Matteus 24:3.
Sitthvað fleira bendir til að rétt sé að túlka draum Nebúkadnesars með þessum hætti. Spádómurinn í Daníel 9:24-27 tilgreindi nákvæmlega það ár sem Messías myndi koma fram meira en 500 árum síðar.a Ef koma Messíasar sem maður var tímasett af slíkri nákvæmni, er þá ekki eðlilegt að ætla að hin enn þýðingarmeiri, ósýnileg endurkoma hans sem konungur Guðsríkis yrði sögð fyrir af jafnmikilli nákvæmni? Hver var betur fallinn til að gera það en Daníel? Mundu líka að Daníel var sagt eftir að hafa fært í letur sýnir sínar og spádómsdrauma, þeirra á meðal draum Nebúkadnesars um tréð: „Halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður.“ Hvers vegna þangað til? Vegna þess að þá ‚myndi þekkingin vaxa.‘ Ef það sem Daníel skrifaði átti að vera innsiglað, ekki skiljanlegt, fyrr en tími endalokanna rynni upp, gefur það þá ekki til kynna að rit hans hafi sérstaka spádómlega þýðingu á þeim tíma? — Daníel 12:4.
Hvenær hófust hinar „sjö tíðir“ og hvenær lýkur þeim?
Í tengslum við táknið talaði Jesús um hinar „sjö tíðir“ og nefndi þær ‚tíma heiðingjanna‘ eða „tilteknar tíðir þjóðanna.“ Hann sagði: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:24, sjá NW.) Í neðanmálsathugasemd í Oxford NIV Scofield Study Bible (1984) er okkur sagt að „ ‚tímar heiðingjanna‘ hafi hafist með hernámi Jerúsalemborgar undir forystu Nebúkadnesars. . . . Síðan hefur Jerúsalem verið ‚fótum troðin af heiðingjum‘ eins og Kristur sagði.“
Hve lengi áttu hinar „sjö tíðir“ eða „tímar heiðingjanna“ að standa? Ljóst er að þær myndu standa mun lengur en sjö bókstafleg ár 360 daga löng (eins og árið er reiknað í spádómum Biblíunnar) en það myndi jafngilda 2520 dögum. Biblían gefur fordæmi fyrir því að telja megi eitt ár fyrir hvern dag. (Sjá 4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6; samanber Opinberunarbókina 12:6, 14.) Sé þannig reiknað myndu hinar „sjö tíðir“ standa í 2520 ár. Ef þær hófust með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. lauk þeim árið 1914 e.o.t.
Í meira en þrjá áratugi fyrir 1914 vöktu vottar Jehóva athygli á mikilvægi þessa árs. Athyglisvert er þó að í bókinni International Crisis eftir Eugenia Nomikos og Robert C. North (1976), segir að „lítil sem engin merki hafi verið um vaxandi spennu og árekstra sem brutust síðar út í styrjöld.“ Þess í stað „virtist sambúð hinna voldugari ríkja stöðugri síðla árs 1913 og snemma árs 1914 . . . en verið hafði svo árum skipti.“ Núna, rúmlega sjö áratugum síðar, segja sagnfræðingar að árið 1914 hafi markað þáttaskil í sögu mannkynsins. Hið þýska Mayers Enzyclopädisches Lexikon segir til dæmis að „áhrif fyrri heimsstyrjaldarinnar hafi hreinlega verið byltingarkennd og haft djúptæk áhrif á líf nálega sérhvers manns, bæði efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega.“
Hinar stjórnmálalegu afleiðingar atburða ársins 1914 eru alkunnar. Um hinar þjóðfélagslegu breytingar er talað í bókinni 1913: An End and a Beginning eftir Virginia Cowles: „Árið 1913 markaði aldahvörf,“ segir hún. Um hinar efnahagslegu afleiðingar segir Ashby Bladen, sem er einn af framkvæmdastjórum bandarísks tryggingarfélags: „Fyrir 1914 samrýmdust peningakerfið og efnahagskerfið. . . . Ef litið er á ágúst 1914 sem mörkin milli nítjándu og tuttugustu aldarinnar er munurinn gífurlegur. Á mörgum sviðum mannlegra athafna snerist þróunin algerlega við. . . . Ein meginorsökin var sú að tengsl fjármálakerfisins og peninga, sem höfðu eiginlegt gildi, tóku að rofna árið 1914. . . . Að þessi tengsl skyldu rofna var örlagaríkur atburður. . . . Árið 1914 olli róttækri, og að síðustu skelfilegri umbreytingu þess kerfis.“
Hve áliðið er?
Sannanirnar fyrir því að tákn Jesú sé nú að uppfyllast eru jafnaðgengilegar og dagblaðið eða sjónvarpsfréttirnar. Þær færa óyggjandi sönnur á að tímareikningurinn tengdur árinu 1914, eins og hann kemur fram í draumi Nebúkadnesars, sé réttur. Núna, árið 1987, þýðir það að meira en 72 ár eru liðin á tíma endalokanna. Jesús hét því að sumir af kynslóðinni, sem er nógu gömul til að hafa séð upphaf endalokanna, yrðu enn á lífi þegar þrengingin mikla rynni upp sem endir þess tímabils. — Matteus 24:34.
Hvílík hvatning ætti þetta að vera okkur til að halda vöku okkar og hafa í brennidepli opinberun Guðs á því hve langt er liðið á endalokatímann! Hvílík lífsnauðsyn að forðast óþolinmæði, að reyna ekki að hraða tímaáætlun Guðs. Það myndi einungis valda okkur vonbrigðum. Það er jafnmikilvægt að gæta þess að verða ekki sinnulaus, reyna að hægja á gangi tímans og missa af tækifærinu. Mundu að miklu meira er í húfi en það að missa af strætisvagni eða flugvél. Sú hætta er fyrir hendi að þú missir af eilífu lífi í nýrri skipan Guðs. Það er alltof gott til að láta ganga sér úr greipum!
[Neðanmáls]
a Skýringu á þessu er að finna í bókinni „Let Your Kingdom Come,“ bls. 56-63, gefin út árið 1981 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hvenær lauk hinum ‚sjö tíðum‘?
Sumir halda því fram að jafnvel þótt hinar ‚sjö tíðir‘ séu spádómlegar og jafnvel þótt þær standi í 2520 ár hafi vottar Jehóva samt sem áður rangt fyrir sér varðandi þýðingu ársins 1914, vegna þess að þeir gefi sér rangt upphafsár. Þeir halda því fram að Jerúsalem hafi verið eytt árið 587/6 f.o.t., ekki árið 607 f.o.t. Ef satt væri myndi upphaf endalokatímans færast til um tvo áratugi. En árið 1981 birtu vottar Jehóva á prenti sannfærandi rök fyrir því að árið 607 f.o.t. sé hið rétta. („Let Your Kingdom Come,“ bls. 127-40, 186-9) Og geta þeir sem reyna að ræna árið 1914 biblíulegri þýðingu sinni sýnt fram á að árið 1934 — eða eitthvert annað ár — hafi haft djúptækari og augljósari áhrif á heimssöguna en 1914?
[Tafla á blaðsíðu 6]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Sjö „tímar heiðingjanna“ Tími endalokanna
(2520 ár)
607 f.o.t. 33 e.o.t. 1914 e.o.t. 1987 e.o.t.
Hinni jarðnesku „Jerúsalem“ Tími endalokanna Meira en 72 ár
Jerúsalem enn þá hefst liðin af endaloka-
eytt „fótum troðin“ (Daníel 12:4) tímanun
[Myndir á blaðsíðu 7]
Draumur Nebúkadnesars hefur víðtæka merkingu sem varðar þig!