Annar kafli
Daníelsbók dregin fyrir rétt
1, 2. Í hvaða skilningi sætir Daníelsbók ákæru og af hverju telur þú mikilvægt að skoða varnarrökin?
ÍMYNDAÐU þér að þú sért í réttarsal þar sem fram fara mikilvæg réttarhöld. Fyrir réttinum er maður ákærður um fölsun. Sækjandi staðhæfir að maðurinn sé sekur. Sakborningur er hins vegar alkunnur fyrir ráðvendni sína. Langar þig ekki til að heyra rök verjanda?
2 Við erum í svipaðri aðstöðu gagnvart Daníelsbók. Ráðvendni ritarans er alkunn. Bókin, sem ber nafn hans, hefur verið í hávegum höfð um þúsundir ára. Hún heldur því fram að hún segi ósvikna sögu ritaða af Daníel, hebreskum spámanni sem var uppi á sjöundu og sjöttu öld f.o.t. Nákvæmt biblíutímatal sýnir að bókin spannar tímann frá hér um bil 618 til 536 f.o.t. og að ritun hennar lauk það ár. En bókin sætir kæru. Ýmsar alfræðibækur og uppsláttarrit gefa í skyn eða hreinlega staðhæfa að hún sé fölsuð.
3. Hvað segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica um áreiðanleika Daníelsbókar?
3 Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica viðurkennir til dæmis að Daníelsbók hafi einu sinni „almennt verið álitin geyma sanna sögu og ósvikna spádóma.“ En Britannica fullyrðir að í raun réttri sé Daníelsbók „skrifuð síðar, á hættutímum í sögu þjóðarinnar — þegar Gyðingar sættu grimmilegum ofsóknum undir stjórn [sýrlenska konungsins] Antíokosar 4. Epífanesar.“ Alfræðibókin tímasetur ritun Daníelsbókar á árunum 167 til 164 f.o.t. Hún staðhæfir jafnframt að ritari Daníelsbókar sé ekki að spá um framtíðina heldur lýsi einfaldlega „liðnum atburðum í gervi spádóma um ókomna atburði.“
4. Hvenær tóku menn að gagnrýna Daníelsbók og hver var kveikjan að áþekkri gagnrýni á síðustu öldum?
4 Hvaðan eru slíkar hugmyndir komnar? Gagnrýni á Daníelsbók er engin nýlunda. Fyrstur til var heimspekingur á þriðju öld sem nefndist Porfýríus. Honum fannst sér standa ógn af áhrifum kristninnar, líkt og mörgum öðrum þegnum Rómaveldis, og skrifaði 15 bækur til að grafa undan þessari „nýju“ trú. Sú tólfta beindist gegn Daníelsbók. Porfýríus lýsti bókina falsaða og kvað hana skrifaða af Gyðingi á annarri öld f.o.t. Svipaðar árásir voru gerðar á 18. og 19. öld. Að mati æðri biblíugagnrýnenda og skynsemishyggjumanna er ógerningur að segja fyrir um óorðna atburði. Daníel varð helsti skotspónn þeirra. Segja má að hann og bók hans hafi verið dregin fyrir rétt. Gagnrýnendur þóttust hafa nægar sannanir fyrir því að bókin væri ekki skrifuð af Daníel á útlegðartíma Gyðinga í Babýlon heldur af einhverjum öðrum, öldum síðar.a Árásirnar voru svo gegndarlausar að rithöfundur einn skrifaði jafnvel varnarrit sem hann kallaði Daniel in the Critics’ Den (Daníel í ljónagryfju gagnrýnenda).
5. Af hverju er mikilvægt að fá úr því skorið hvort Daníelsbók sé ósvikin?
5 Geta þessir sjálfsöruggu gagnrýnendur sannað mál sitt eða styðja sönnunargögnin mál verjanda? Hér er mikið í húfi. Málið snýst ekki aðeins um orðspor þessarar fornu bókar heldur einnig um framtíð okkar. Sé Daníelsbók fölsuð eru fyrirheit hennar um framtíð mannkyns innantóm orð. En ef bókin geymir ósvikna spádóma ert þú eflaust óðfús að kynna þér hvað þeir þýða fyrir okkur nútímamenn. Við skulum hafa þetta í huga þegar við könnum nánar sumar af þeim ákærum sem Daníelsbók sætir.
6. Hvað er stundum fullyrt um söguna sem Daníelsbók segir?
6 Tökum sem dæmi ásökun alfræðibókarinnar The Encyclopedia Americana: „Margar sögulegar upplýsingar fyrri tímabilanna [svo sem útlegðaráranna í Babýlon] eru stórlega rangfærðar“ í Daníelsbók. Er raunin sú? Skoðum þrenn meint mistök hver um sig.
TÝNDI EINVALDURINN
7. (a) Af hverju voru gagnrýnendur Biblíunnar löngum kátir yfir því að Daníelsbók skyldi tala um Belsasar? (b) Hvernig fór fyrir þeirri hugmynd að Belsasar væri skáldsagnapersóna?
7 Daníel segir að Belsasar, „sonur“ Nebúkadnesars, hafi verið konungur Babýlonar þegar borgin féll. (Daníel 5:1, 11, 18, 22, 30) Lengi vel gripu gagnrýnendur þetta á lofti því nafnið Belsasar fyrirfannst hvergi annars staðar en í Biblíunni. Fornir sagnaritarar töluðu um Nabónídus, arftaka Nebúkadnesars, sem síðasta konung Babýlonar. Ferdinand Hitzig sagði þess vegna árið 1850 að Belsasar væri augljóslega uppspuni ritarans. En finnst þér það ekki eilítil fljótfærni af Hitzig að álykta svo? Það eitt að þessi konungur er hvergi nefndur sannar nú varla að hann hafi ekki verið til — einkum þegar haft er í huga að söguheimildir frá þessu tímabili eru æði fátæklegar. Árið 1854 fundust nokkur lítil leirkefli í rústum forn-babýlonsku borgarinnar Úr þar sem nú er Suður-Írak. Á þessum fleygrúnakeflum Nabónídusar konungs er meðals annars bæn fyrir „Bel-sar-ussur, elsta syni mínum.“ Jafnvel gagnrýnendur urðu að viðurkenna að þarna væri Belsasar Daníelsbókar fundinn!
8. Hvernig hefur sú lýsing Daníelsbókar sannast að Belsasar hafi verið konungur?
8 En gagnrýnendur létu sér ekki segjast. „Þetta sannar ekkert,“ skrifaði einn þeirra, H. F. Talbot að nafni. Hann hélt því fram að sonurinn í áletruninni hefði getað verið barn, en Daníel hefði hins vegar talað um konung er sat að völdum. Aðeins var liðið ár frá því að athugasemdir Talbots birtust þegar fleiri fleygrúnatöflur fundust sem töluðu um ritara Belsasars og þjónustulið á heimili hans. Hann var greinilega ekkert barn! Að lokum gerðu aðrar fleygrúnatöflur út um málið sem skýrðu frá því að Nabónídus hafi stundum verið að heiman frá Babýlon svo árum skipti. Þessar töflur sýndu jafnframt að elsta syni hans (Belsasar) hafi verið „falinn konungdómurinn“ yfir Babýlon. Belsasar var því konungur í reynd að föður sínum fjarstöddum — það er að segja meðstjórnandi föður síns.b
9. (a) Í hvaða skilningi kann Daníel að hafa talað um Belsasar sem son Nebúkadnesars? (b) Hvers vegna er það rangt þegar gagnrýnendur fullyrða að Daníel gefi ekki einu sinni í skyn að Nabónídus hafi verið til?
9 En sumir gagnrýnendur eru ekki af baki dottnir og minna á að Biblían tali um Belsasar sem son Nebúkadnesars en ekki Nabónídusar. Sumir standa á því fastar en fótunum að Daníel impri ekki einu sinni á því að Nabónídus hafi verið til. En báðar þessar mótbárur falla um sjálfa sig við nánari athugun. Nabónídus virðist hafa kvænst dóttur Nebúkadnesars og Belsasar hefur þá verið dóttursonur hans. Hvorki hebreska né arameíska hafa orð fyrir „afa“ eða „barnabarn.“ Orðið „sonur“ getur merkt „sonarsonur“ eða „dóttursonur“ eða jafnvel „afkomandi.“ (Samanber Matteus 1:1.) Og frásaga Biblíunnar lætur í það skína að Belsasar sé sonur Nabónídusar. Belsasar er skelfingu lostinn þegar hann sér hina óheillavænlegu áletrun á veggnum og í örvæntingu býður hann hverjum, sem geti ráðið fram úr orðunum, að verða þriðji yfirhöfðingi ríkisins. (Daníel 5:7) Af hverju þriðji en ekki annar? Boðið bendir til að fyrsta og annað sætið hafi verið upptekin. Þar sátu þeir Nabónídus og sonur hans, Belsasar.
10. Af hverju er frásaga Daníels af babýlonska konungdæminu ítarlegri en lýsingar annarra sagnaritara fortíðar?
10 Það er því ekki merki um ‚stórlega rangfærða‘ sagnaritun að Daníel skuli tala um Belsasar, heldur gefur hann okkur ítarlegri upplýsingar um babýlonska konungdæmið en fornir veraldlegir sagnaritarar eins og þeir Heródótos, Xenófón og Berossus, þótt hann sé reyndar ekki að skrifa sögu Babýlonar. Af hverju gat Daníel greint frá staðreyndum sem þeim sást yfir? Af því að hann var í Babýlon. Bók hans er verk sjónarvotts, ekki svindlara síðar á öldum.
HVER VAR DARÍUS FRÁ MEDÍU?
11. Hver var Daríus frá Medíu að sögn Daníels, en hvað hefur verið sagt um hann?
11 Daníel greinir frá því að „Daríus frá Medalandi“ hafi tekið við ríkinu þegar Babýlon féll. (Daníel 6:1) Nafnið Daríus frá Medalandi eða Medíu hefur enn ekki fundist í veraldlegum heimildum né við fornleifarannsóknir. Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica fullyrðir því að Daríus þessi sé „skálduð persóna.“
12. (a) Af hverju ættu biblíugagnrýnendur ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að Daríus frá Medíu hafi aldrei verið til? (b) Hver getur Daríus frá Medíu hafa verið og hvað styður það?
12 Sumir fræðimenn eru þó varfærnari. Því má ekki gleyma að gagnrýnendur sögðu líka einu sinni að Belsasar væri ‚skáldaður.‘ Það á eflaust eftir að sýna sig að gagnrýnendur fara með rangt mál í sambandi við Daríus. Fleygrúnatöflur hafa þegar leitt í ljós að Kýrus Persakonungur tók sér ekki titilinn „konungur Babýlonar“ strax að loknum sigri. Fræðimaður nokkur segir: „Hver sem bar titilinn ‚konungur Babýlonar‘ var lénskonungur Kýrusar, ekki Kýrus sjálfur.“ Er hugsanlegt að Daríus hafi verið stjórnandanafn eða titill voldugs embættismanns frá Medíu sem var falin stjórn Babýlonar? Sumir segja að Daríus kunni að hafa verið maður að nafni Gúbarú. Kýrus skipaði Gúbarú landstjóra í Babýlon og veraldlegar heimildir staðfesta að hann hafi farið með umtalsverð völd þar. Fleygrúnatafla segir að hann hafi skipað undirlandstjóra yfir Babýlon. Athygli vekur að Daníel segir Daríus hafa sett 120 jarla til að stjórna babýlonska ríkinu. — Daníel 6:2.
13. Af hverju er rökrétt að Daríus frá Medíu sé nefndur í Daníelsbók en ekki í veraldlegum heimildum?‘
13 Vera má að enn skýrari vísbendingar um það hver þessi konungur hafi verið eigi eftir að finnast. Hvað sem því líður er það tæplega tilefni til að kalla Daríus ‚skáldskap,‘ og þaðan af síður að kalla alla Daníelsbók fölsun, þótt fornleifafræðin hafi fátt um málið að segja. Það er miklu eðlilegra að líta á frásögn Daníels sem lýsingu sjónarvotts, sem ítarlegri frásögu en þekktar veraldlegar heimildir segja.
STJÓRNARTÍÐ JÓJAKÍMS
14. Hvers vegna er ekkert misræmi milli Daníels og Jeremía varðandi stjórnarár Jójakíms konungs?
14 Í Daníel 1:1 stendur: „Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana.“ Gagnrýnendur hafa sitthvað við þessa ritningargrein að athuga af því að hún virðist ekki koma heim og saman við Jeremíabók sem segir að fjórða ríkisár Jójakíms hafi verið fyrsta ríkisár Nebúkadnesars. (Jeremía 25:1; 46:2) Stangast Daníelsbók á við Jeremíabók? Málið er auðskýrt ef tíndar eru til meiri upplýsingar. Þegar Nekó faraó setti Jójakím í konungsembætti árið 628 f.o.t. var hann ekkert annað en strengjabrúða egypska valdhafans. Það var um þrem árum áður en Nebúkadnesar tók við konungdómi af föður sínum í Babýlon árið 624 f.o.t. Skömmu síðar (árið 620 f.o.t.) réðst Nebúkadnesar inn í Júda og gerði Jójakím að lénskonungi Babýlonar. (2. Konungabók 23:34; 24:1) Í augum Gyðings, sem bjó í Babýlon, var ‚þriðja ríkisár‘ Jójakíms þá þriðja árið sem konungurinn var lýðskyldur Babýlon. Daníel skrifaði frá þeim sjónarhóli. Jeremía skrifaði hins vegar frá sjónarhóli Gyðinga sem bjuggu í Jerúsalem. Frá hans bæjardyrum séð tók Jójakím við embætti þegar Nekó faraó skipaði hann konung.
15. Af hverju eru það veik rök að ráðast á tímasetninguna í Daníel 1:1?
15 Þetta meinta ósamræmi styður aðeins að Daníel hafi skrifað bók sína í Babýlon meðal Gyðinga sem voru þar í útlegð. En það er önnur augljós veila í þessari röksemd gegn Daníelsbók. Mundu að ritari Daníelsbókar hafði greinilega aðgang að Jeremíabók og vísaði meira að segja í hana. (Daníel 9:2) Ef ritarinn hefði verið klókur falsari, eins og gagnrýnendur halda fram, er harla ósennilegt að hann hefði tekið þá áhættu að láta skrif sín stangast á við jafnvirtan heimildarmann og Jeremía — meira að segja í fyrsta versi bókar sinnar.
VEIGAMIKIL SMÁATRIÐI
16, 17. Hvernig styðja fornleifarannsóknir frásögn Daníels af (a) trúarlíkneskinu sem Nebúkadnesar lét reisa og allir þegnar hans áttu að tilbiðja? (b) gorti Nebúkadnesars af byggingarframkvæmdum sínum í Babýlon?
16 Beinum nú athyglinni að jákvæðum rökum í stað neikvæðra. Lítum á fleira í Daníelsbók sem bendir til þess að ritarinn hafi þekkt af eigin raun þá tíma sem hann skrifar um.
17 Þekking Daníels á ýmsum smáatriðum varðandi Babýlon til forna bendir eindregið til þess að bók hans sé ósvikin. Daníel 3:1-6 segir til dæmis frá því að Nebúkadnesar hafi látið reisa risalíkneski sem allir áttu að tilbiðja. Fornleifafræðingar hafa fundið önnur merki um að konungurinn hafi viljað gera þegna sína sem virkasta í þjóðernis- og trúarathöfnum. Daníel segir frá því hvernig Nebúkadnesar gortar af byggingarframkvæmdum sínum. (Daníel 4:30) Það er fyrst á okkar tímum sem fornleifafræðingar hafa staðfest að Nebúkadnesar hafi staðið fyrir stórum hluta þeirra byggingarframkvæmda sem áttu sér stað í Babýlon. Og hvað stærilætið varðar má geta þess að maðurinn lét jafnvel stimpla nafn sitt á múrsteinana! Gagnrýnendur Daníelsbókar geta trauðla skýrt hvernig hinum ímyndaða falsara á Makkabeatímanum (167-63 f.o.t.) gat verið kunnugt um slíkar byggingarframkvæmdir — um fjórum öldum eftir að þær áttu sér stað og löngu áður en fornleifafræðingar drógu þær fram í dagsljósið.
18. Hvernig ber frásögn Daníels af ólíkum refsingum Babýloníumanna og Persa vott um nákvæmni?
18 Í Daníelsbók má einnig sjá mikilvægan mun á babýlonskum og medísk-persneskum lögum. Samkvæmt babýlonskum lögum var þrem félögum Daníels kastað í eldsofn fyrir að hlýða ekki skipun konungs. Áratugum síðar var Daníel varpað í ljónagryfju fyrir að hlýða ekki persneskum lögum sem stríddu gegn samvisku hans. (Daníel 3:6; 6:8-10) Sumir hafa kallað frásögnina af eldsofninum þjóðsögu og vísað henni á bug en fornleifafræðingar hafa fundið forn-babýlonskt bréf sem minnist beinlínis á þess konar hegningu. Í augum Meda og Persa var eldurinn heilagur þannig að þeir beittu annars konar grimmilegri refsingu. Ljónagryfjan kemur því ekki á óvart.
19. Hvaða munur var á löggjafarvaldi Babýloníumanna annars vegar og Meda og Persa hins vegar samkvæmt lýsingu Daníels?
19 Aðrar andstæður koma í ljós. Fram kemur hjá Daníel að Nebúkadnesar hafi getað sett lög og breytt þeim að vild. Daríus gat hins vegar ekki breytt ‚lögum Meda og Persa‘ — ekki einu sinni lögum sem hann sjálfur setti. (Daníel 2:5, 6, 24, 46-49; 3:10, 11, 29; 6:13-17) Sagnfræðingurinn John C. Whitcomb segir: „Fornaldarsagan sýnir fram á þennan mun á Babýlon, þar sem lögin voru háð konunginum, og Medíu-Persíu þar sem konungurinn var háður lögunum.“
20. Hvernig ber lýsing Daníels á veislu Belsasars vott um að hann hafi þekkt siði Babýloníumanna af eigin raun?
20 Frásagan af veislu Belsasars í 5. kafla Daníelsbókar er auðug af smáatriðum. Greinilegt er að hún hófst með glaðværu áti og stífri drykkju því að vín er nefnt nokkrum sinnum. (Daníel 5:1, 2, 4) Lágmyndir af sams konar veislum sýna reyndar einungis víndrykkju. Ljóst er að vín gegndi afarmiklu hlutverki í slíkum hátíðahöldum. Daníel minnist einnig á að konur hafi verið viðstaddar veisluna — konur og hjákonur konungs. (Daníel 5:3, 23) Fornleifafræðin staðfestir að þetta hafi verið siður Babýloníumanna. Á Makkabeatímanum hefði það þótt hneyksli, bæði meðal Gyðinga og Grikkja, að eiginkonur væru með mönnum sínum í veislum. Það kann að vera skýringin á því að þessar konur eru ekki nefndar í fyrstu útgáfum grísku Sjötíumannaþýðingarinnar af Daníelsbók.c Þó á meintur falsari Daníelsbókar að hafa verið uppi á þessu hellenska (gríska) menningarskeiði, jafnvel á sama tímabili og Sjötíumannaþýðingin var gerð.
21. Hver er eðlilegasta skýringin á ítarlegri þekkingu Daníels á siðum og tíðaranda útlegðarinnar í Babýlon?
21 Þegar horft er til þessa er nánast með ólíkindum að Britannica skuli segja að höfundur Daníelsbókar hafi aðeins haft „lauslega og ónákvæma“ þekkingu á útlegðartímanum. Hvernig gat einhver síðari tíma falsari verið svona gagnkunnugur siðum Forn-Babýloníumanna og Persa? Og mundu að bæði heimsveldin voru liðin undir lok sem slík löngu fyrir aðra öld f.o.t. Þá voru engir fornleifafræðingar til og Gyðingar þess tíma lögðu ekki metnað sinn í að þekkja til útlendrar menningar og sögu. Aðeins Daníel spámaður, sem var sjónarvottur að þeim atburðum sem hann skrifaði um og þekkti tíðarandann, getur hafa skrifað bókina sem við hann er kennd.
SANNA YTRI ÞÆTTIR AÐ DANÍELSBÓK SÉ FÖLSUÐ?
22. Hvað fullyrða gagnrýnendur um flokkun Daníelsbókar í helgiritasafni Hebresku ritninganna?
22 Ein algengustu rökin, sem beitt er gegn Daníelsbók, er flokkun hennar meðal helgirita Hebresku ritninganna. Rabbínar að fornu skiptu bókum Hebresku ritninganna í þrennt: Lögmálið, Spámennina og Ritningarnar. Þeir flokkuðu Daníelsbók ekki með Spámönnunum heldur Ritningunum. Gagnrýnendur halda því fram að þetta hljóti að merkja að bókin hafi verið óþekkt þegar verið var að taka saman hin spámannaritin. Hún sé flokkuð með Ritningunum af því að þær hafi verið teknar saman síðar.
23. Hvernig litu Gyðingar til forna á Daníelsbók og hvernig vitum við það?
23 Hins vegar eru biblíufræðingar ekki allir á því að rabbínar til forna hafi haft svona stífa flokkun á helgiritunum eða hafi útilokað Daníelsbók frá Spámönnunum. En jafnvel þótt rabbínar hafi flokkað Daníelsbók með Ritningunum, sannar það þá að hún hafi verið skrifuð síðar? Nei. Virtir fræðimenn hafa bent á margar hugsanlegar ástæður fyrir því að rabbínar hafi ekki flokkað Daníel með Spámönnunum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeim hafi ekki líkað bókin, eða þá að þeim hafi fundist Daníel ólíkur öðrum spámönnum af því að hann fór með veraldlegt embætti í öðru landi. Hvað sem því líður er aðalatriðið þetta: Gyðingar til forna báru mikla virðingu fyrir Daníelsbók og viðurkenndu hana sem helgirit. Og margt bendir til þess að helgiritasafn Hebresku ritninganna hafi verið fullgert löngu fyrir aðra öld f.o.t. Síðari viðbætur voru hreinlega ekki leyfðar, og þar með voru útilokaðar ýmsar bækur skrifaðar á annarri öld f.o.t.
24. Hvernig hefur hin apokrýfa Síraksbók verið notuð gegn Daníelsbók og hvað sýnir veiluna í þeirri rökfærslu?
24 Það er kaldhæðnislegt að eitt þessara síðari tíma verka, sem var hafnað, hefur verið notað sem röksemd gegn Daníelsbók. Hin apokrýfa Síraksbók mun hafa verið skrifuð um árið 180 f.o.t. af Jesú Sírakssyni. Gagnrýnendur benda gjarnan á að Daníel sé ekki nefndur meðal hinna mörgu réttlátu manna sem taldir eru upp í bókinni. Þess vegna hljóti hann að hafa verið óþekktur á þeim tíma. Þessi röksemd á miklu fylgi að fagna meðal fræðimanna. En hugsum um eitt: Í sömu upptalningu er ekki getið um Esra og Mordekai (sem báðir voru miklar hetjur í augum Gyðinga eftir útlegðina), hinn góða konung Jósafat né hinn réttláta Job; og af öllum dómurunum nefnir hún aðeins Samúel.d Eigum við að ætla að þessir menn séu skáldskapur einn fyrst þeir eru ekki nefndir í upptalningu bókar sem hvorki segist vera tæmandi né tilheyrir helgiritasafni Biblíunnar? Að halda slíku fram er fáránlegt.
YTRI VITNISBURÐUR SEM STYÐUR DANÍELSBÓK
25. (a) Hvernig bar Jósefus vitni um að bók Daníels væri ósvikin? (b) Hvernig kemur frásaga Jósefusar af Alexander mikla og lýsing Daníelsbókar heim og saman við þekkta sögu? (Sjá neðanmálsathugasemd.) (c) Hvaða málvísindaleg rök eru fyrir áreiðanleika Daníelsbókar? (Sjá bls. 26.)
25 Beinum athyglinni aftur að jákvæðum vitnisburði. Sagt er að engin bók Hebresku ritninganna sé jafn vel vottfest og Daníelsbók. Nefnum dæmi: Hinn kunni sagnaritari Gyðinga, Jósefus, vottar áreiðanleika hennar. Hann segir að Alexander mikli hafi komið til Jerúsalem þegar hann átti í stríði gegn Persum á fjórðu öld f.o.t. og prestar hafi sýnt honum eintak af Daníelsbók. Alexander dró þá ályktun að spádómsorð Daníels um sig vísuðu til herferðar sinnar gegn Persíu.e Þetta hefur verið um það bil einni og hálfri öld fyrir „fölsunina“ sem gagnrýnendur vilja halda fram. Gagnrýnendur hafa auðvitað gert harða hríð að orðum Jósefusar um þessa ritningargrein. Þeir ráðast einnig á hann fyrir að nefna að sumir spádómar Daníelsbókar hafi ræst. En eins og sagnfræðingurinn Joseph D. Wilson bendir á „vissi [Jósefus] sennilega meira um þetta mál en allir gagnrýnendur í heimi.“
26. Hvernig styðja Dauðahafshandritin áreiðanleika Daníelsbókar?
26 Fundur Dauðahafshandritanna í hellunum í Kúmran í Ísrael styður einnig að Daníelsbók sé áreiðanleg. Það kom mönnum á óvart hve mörg handrit og slitur af Daníelsbók voru meðal þess sem fannst árið 1952. Þau elstu eru frá síðari hluta annarrar aldar f.o.t. Daníelsbók var því vel þekkt og virt á þeim tíma. Fræðibókin The Zondervan Pictorial Encyclopedia of the Bible segir: „Þeirri hugmynd, að Daníelsbók hafi verið skrifuð á Makkabeatímanum, hefur nú verið hafnað, þó ekki væri nema sökum þess að það gat ekki verið liðinn nægur tími frá ritun hennar til að afrit af henni kæmust í bókasafn sértrúarflokks meðal Makkabea.“
27. Hver er elsti vitnisburður þess að Daníel sé sannsöguleg persóna og hafi verið vel þekktur á útlegðartímanum í Babýlon?
27 En til er mun eldri og áreiðanlegri staðfesting á því að Daníelsbók sé ósvikin. Spámaðurinn Esekíel var samtíða Daníel. Hann þjónaði líka sem spámaður í útlegðinni í Babýlon. Daníel er nefndur nokkrum sinnum með nafni í Esekíelsbók. (Esekíel 14:14, 20; 28:3) Það sýnir að Daníel var vel þekktur sem réttlátur og vitur maður meðan hann var uppi á sjöttu öld f.o.t., verðugur þess að vera nefndur í sömu andránni og guðsmennirnir Nói og Job.
MESTI VOTTURINN
28, 29. (a) Hver eru sterkustu rökin fyrir því að Daníelsbók sé ósvikin? (b) Af hverju ættum við að viðurkenna vitnisburð Jesú?
28 Að lokum ber að nefna mesta vottinn um áreiðanleika Daníelsbókar, en það er enginn annar en Jesús Kristur. Í umfjöllun sinni um hina síðustu daga minnist hann á ‚Daníel spámann‘ og einn af spádómum hans. — Matteus 24:15; Daníel 11:31; 12:11.
29 Ef Makkabeakenning gagnrýnendanna væri rétt yrði annað tveggja að vera rétt líka. Annaðhvort lét Jesús blekkjast af þessari fölsun eða hann sagði aldrei það sem Matteus hefur eftir honum. Hvorugt er trúverðugt. Ef við getum ekki treyst Matteusarguðspjalli, hvernig getum við þá treyst öðrum biblíubókum? Ef við tökum þessar setningar út úr guðspjallinu, hvað strokum við þá næst út af síðum heilagrar Biblíu? Páll postuli skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, . . . til leiðréttingar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Ef Daníelsbók er fölsuð, þá er Páll líka falsari! Er hugsanlegt að Jesús hafi látið blekkjast? Það er ólíklegt. Hann var á himnum þegar Daníelsbók var skrifuð. Hann sagði meira að segja: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ (Jóhannes 8:58) Af öllum mönnum, sem lifað hafa, er Jesús rétti maðurinn til að leita upplýsinga hjá um áreiðanleika Daníelsbókar. En við þurfum ekki að spyrja. Eins og við höfum séð getur vitnisburður hans tæpast verið skýrari.
30. Hvernig staðfesti Jesús áreiðanleika Daníelsbókar með öðrum hætti?
30 Jesús staðfesti áreiðanleika Daníelsbókar einnig þegar hann skírðist. Þá varð hann Messías og uppfyllti spádóm Daníels um áravikurnar 69. (Daníel 9:25, 26; sjá 11. kafla þessarar bókar.) Jafnvel þótt sú kenning væri rétt að Daníelsbók væri skrifuð síðar en bókin vill vera láta vissi ritarinn engu að síður með 200 ára fyrirvara hvað gerast myndi. En Guð myndi að sjálfsögðu ekki innblása einhverjum falsara að bera fram sanna spádóma undir fölsku nafni. Trúfastir þjónar Guðs viðurkenna vitnisburð Jesú af heilum hug. Þótt allir sérfræðingar og allir gagnrýnendur í heimi sameinuðust um að fordæma Daníelsbók myndi vitnisburður Jesú eftir sem áður sanna að þeir færu með rangt mál því að hann er „votturinn trúi og sanni.“ — Opinberunarbókin 3:14.
31. Af hverju eru margir biblíugagnrýnendur enn ekki sannfærðir um áreiðanleika Daníelsbókar?
31 En margir biblíugagnrýnendur láta sér ekki segjast. Eftir að hafa skoðað málið gaumgæfilega getur maður ekki annað en spurt hvort nokkur rök dygðu til að sannfæra þá. Prófessor við Oxfordháskóla skrifaði: „Það er til einskis að svara mótbárunum meðan hinir upphaflegu fordómar standa, það er að segja: ‚Yfirnáttúrlegir spádómar eru ekki til.‘“ Gagnrýnendurnir eru blindaðir af fordómum. En það er þeirra val — og þeirra tjón.
32. Hvað er framundan í rannsókn okkar á Daníelsbók?
32 Hvað um þig? Ef þú getur séð að það er engin raunveruleg ástæða til að efast um áreiðanleika Daníelsbókar, þá ertu undir það búinn að leggja upp í spennandi könnunarleiðangur. Þú átt eftir að uppgötva að frásagnir Daníelsbókar eru hrífandi og spádómarnir heillandi. Mestu máli skiptir þó að þú finnur trú þína vaxa með hverjum kafla sem þú kannar. Þig mun aldrei iðra þess að hafa gefið nákvæman gaum að spádómsbók Daníels!
[Neðanmáls]
a Sumir gagnrýnendur reyna að milda fölsunarkæruna með því að segja að ritarinn hafi notað Daníel sem dulnefni, ekki ósvipað og bækur utan Biblíunnar voru stundum skrifaðar undir dulnefni að fornu. En biblíugagnrýnandinn Ferdinand Hitzig hélt því fram að „um Daníelsbók gegndi öðru máli. Ef hún er verk einhvers annars er hún ritfölsun, og tilgangurinn er sá að blekkja lesendur þótt gert sé í góðum tilgangi.“
b Nabónídus var að heiman þegar Babýlon féll. Belsasar er því réttilega kallaður konungur á þeim tíma. Gagnrýnendur eru með hártoganir og segja að veraldlegar heimildir gefi Belsasar ekki opinberlega titilinn konungur. En fornar heimildir benda til að fólk hafi jafnvel kallað landstjóra konunga á þeim tíma.
c Hebreskufræðingurinn C. F. Keil segir um Daníel 5:3: „LXX fellir þarna úr, og einnig í v. 23, tilvísun til kvenna, í samræmi við siði Makedóna, Grikkja og Rómverja.“
d Í innblásinni upptalningu sinni á trúföstum körlum og konum í 11. kafla Hebreabréfsins virðist Páll postuli hins vegar ýja að atburðum sem Daníelsbók greinir frá. (Daníel 6:17-25; Hebreabréfið 11:32, 33) En upptalning postulans er ekki tæmandi heldur. Hann lætur marga ónefnda, þeirra á meðal Jesaja, Jeremía og Esekíel, en það sannar varla að þeir hafi aldrei verið til.
e Sumir sagnfræðingar hafa bent á að þetta kunni að skýra hvers vegna Alexander var jafnvinsamlegur við Gyðinga og raun bar vitni þótt þeir hefðu lengi verið í vinfengi við Persa, en hann ætlaði sér að útrýma öllum vinum Persa.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvaða ákærum hefur Daníelsbók mátt sæta?
• Af hverju eru árásir gagnrýnenda á Daníelsbók illa grundaðar?
• Hvað styður áreiðanleika Daníelsbókar?
• Hver er sterkasta sönnun þess að Daníelsbók sé ósvikin?
[Rammagrein á blaðsíðu 26]
Málvísindalega hliðin
Ritun Daníelsbókar lauk um árið 536 f.o.t. Hún er skrifuð á hebresku og arameísku og í henni finnast fáein grísk og persnesk orð. Slík tungumálablanda er óvenjuleg í Biblíunni en ekki óþekkt. Esrabók er líka skrifuð á hebresku og arameísku. En sumir gagnrýnendur halda því fram að ritari Daníelsbókar noti þessi tungumál á þann hátt að það sanni að hann hafi skrifað bókina síðar en árið 536 f.o.t. Einn gagnrýnandi, sem oft er vitnað til, segir að notkun grísku orðanna í Daníelsbók sýni að hún hljóti að vera skrifuð síðar. Hann staðhæfir að hebreskan styðji og arameískan að minnsta kosti útiloki ekki að bókin sé skrifuð síðar — jafnvel á annarri öld f.o.t.
En ekki eru allir málvísindamenn sammála honum. Sumir segja að hebreskan í Daníelsbók sé lík málinu á Esekíelsbók og Esrabók og ólík málinu á apokrýfubókum síðari tíma, svo sem Síraksbók. Hvað varðar notkun Daníels á arameísku má líta á tvö skjöl sem fundust meðal Dauðahafshandritanna. Þau eru einnig á arameísku og eru frá fyrstu og annarri öld f.o.t. — ekki löngu eftir meinta fölsun Daníelsbókar. En fræðimenn hafa bent á verulegan mun á arameískunni í þessum skjölum og þeirri sem er að finna í Daníelsbók. Sumir benda því á að Daníelsbók hljóti að vera nokkrum öldum eldri en gagnrýnendur fullyrða.
Hvað um hin „vafasömu“ grísku orð í Daníelsbók? Komið hefur í ljós að sum þeirra eru persnesk en ekki grísk! Einu orðin, sem enn eru talin grísk, eru nöfn þriggja hljóðfæra. Þýða þessi þrjú orð að Daníelsbók hljóti að vera skrifuð síðar en 536 f.o.t.? Nei, fornleifafræðingar hafa komist að raun um að áhrifa grískrar menningar gætti öldum áður en Grikkland varð heimsveldi. Og hefði Daníelsbók verið skrifuð á annarri öld f.o.t., þegar grískt mál og menning var allsráðandi, er ólíklegt að hún hefði innihaldið aðeins þrjú grísk orð. Þau hefðu verið mun fleiri. Málvísindalegi þátturinn styður því áreiðanleika Daníelsbókar.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 12]
[Myndir á blaðsíðu 20]
(Að neðan) Babýlonskt musteriskefli nefnir Nabónídus konung og son hans Belsasar.
(Að ofan) Í þessari áletrun gortar Nebúkadnesar af byggingarframkvæmdum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Samkvæmt Nabónídusar- kroníku komst her Kýrusar inn í Babýlon án bardaga.
[Myndir á blaðsíðu 22]
(Til hægri) „Söguljóðið um Nabónídus“ segir frá því að Nabónídus hafi treyst frumgetningi sínum fyrir stjórn ríkisins.
(Til vinstri) Babýlonsk frásögn af innrás Nebúkadnesars í Júda.