Þjónar Guðs — skipulagt fólk en hamingjusamt
„Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ — SÁLMUR 144:15.
1, 2. (a) Af hverju hefur Jehóva rétt til að leggja þjónum sínum lífsreglurnar? (b) Nefndu tvo eiginleika Jehóva sem við ættum sérstaklega að vilja líkja eftir.
JEHÓVA er alheimsdrottinn, alvaldur Guð, skaparinn. (1. Mósebók 1:1; Sálmur 100:3) Sem slíkur hefur hann réttinn til að leggja þjónum sínum lífsreglurnar þar eð hann veit hvað þeim er fyrir bestu. (Sálmur 143:8) Hann er fremsta fyrirmynd þeirra og þeir þurfa að líkja eftir eiginleikum hans. „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans,“ skrifaði einn postula hans. — Efesusbréfið 5:1.
2 Einn eiginleika Guðs, sem við þurfum að líkja eftir, tengist skipulagningu. Hann er „ekki Guð truflunarinnar“ eða glundroða. (1. Korintubréf 14:33) Þegar við virðum vandlega fyrir okkur það sem Guð hefur skapað getum við ekki annað en ályktað sem svo að hann taki öllum fram í skipulagshæfni. En Guð vill einnig að þjónar hans líki eftir hamingju hans, því að hann er ‚hinn sæli Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi. 1912) Skipulagsgáfa hans er því í jafnvægi við hamingju hans. Annað fær ekki að skyggja á hitt.
3. Hvernig sýnir hinn stjörnum prýddi himinn skipulagsgáfu Guðs?
3 Allt sem Jehóva hefur gert, allt frá hinu stærsta til hins smæsta, ber þess merki að hann sé Guð sem lætur sér annt um skipulag. Lítum á hinn sýnilega alheim sem dæmi. Stjörnurnar í honum skipta þúsundum milljarða. En þeim er ekki tvístrað handahófskennt um geiminn. Stjarneðlisfræðingurinn George Greenstein segir að það sé „mynstur í niðurröðun stjarnanna.“ Þeim er skipað saman í þyrpingar sem kallast vetrarbrautir, hundruð milljörðum í sumar þeirra. Og talið er að vetrarbrautirnar skipti milljörðum! Vetrarbrautirnar raðast líka saman þannig að viss fjöldi (frá fáeinum upp í nokkur þúsund) myndar vetrarbrautaþyrpingu. Og álitið er að vetrarbrautarþyrpingunum sé skipað saman í jafnvel enn stærri einingar sem kallast risaþyrpingar. — Sálmur 19:2; Jesaja 40:25, 26.
4, 5. Nefndu dæmi um skipulag meðal lifandi vera á jörðinni.
4 Hið frábæra skipulag sköpunarverka Guðs blasir alls staðar við, ekki bara í hinum sýnilega himingeimi heldur líka á jörðinni með sínum gríðarmörgu lífverum. Paul Davies, prófessor í eðlisfræði, skrifaði, að menn verði „gagnteknir lotningu“ við það að sjá „mikilfengleik og flókið skipulag efnisheimsins.“ — Sálmur 104:24.
5 Lítum á nokkur dæmi um hið ‚flókna skipulag‘ sem er að finna í lifandi verum. Taugaskurðlæknirinn Joseph Evans sagði um mannsheilann og mænuna: „Hér ríkir slík regla að hún er næstum yfirþyrmandi.“ Gerlafræðingurinn H. J. Shaughnessy sagði um hina smásæju frumu: „Hin margbrotna og fagra skipan örveruheimsins er svo stórkostleg að það er engu líkara en að guðlegur máttur sé höfundur hans.“ Og sameindalíffræðingurinn Michael Denton sagði um erfðalykil frumunnar (DNA): „Hann er svo mikilvirkur að allar þær upplýsingar . . . sem þarf til að lýsa gerð allra lífvera sem hafa verið til á jörðinni frá upphafi . . . kæmust fyrir í einni teskeið og það væri enn rúm fyrir allt efni allra bóka sem skrifaðar hafa verið.“ — Sjá Sálm 139:16, NW.
6, 7. Hvaða skipulag sýnir sig meðal andavera og hvernig láta þær í ljós að þær kunna að meta skapara sinn?
6 Jehóva skipuleggur ekki bara efnisheiminn heldur líka störf andaveranna sem hann skapaði á himnum. Daníel 7:10 segir okkur að ‚tíþúsundir tíþúsunda hafi staðið frammi fyrir Jehóva.‘ Hundrað milljónir voldugra andavera og hverri er falið sitt verkefni! Það er yfirþyrmandi að hugsa til þeirrar færni sem hlýtur að þurfa til að skipuleggja svo gríðarlegan fjölda. Biblían segir mjög svo viðeigandi: „Lofið [Jehóva], þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans. Lofið [Jehóva], allar hersveitir hans [englarnir], þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.“ — Sálmur 103:20, 21; Opinberunarbókin 5:11.
7 Það er stórfenglegt hve vel verk skaparans eru skipulögð og hve vel þau virka! Engin furða er að voldugar andaverur á himni skuli lýsa yfir með lotningu og undirgefni: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.
8. Hvaða dæmi sýna að Jehóva skipuleggur störf þjóna sinna á jörðinni?
8 Jehóva skipuleggur líka störf þjóna sinna á jörðinni. Þegar hann lét Nóaflóðið koma árið 2370 f.o.t. bjargaðist Nói og fjölskylduskipulag hans, alls átta manns. Í burtförinni árið 1513 f.o.t. leiddi Jehóva nokkrar milljónir þjóna sinna út úr ánauðinni í Egyptalandi og gaf þeim ítarlegt lagasafn til að skipuleggja daglegt líf þeirra og tilbeiðslu. Og síðar, í fyrirheitna landinu, var skipulögð sérstök þjónusta tugþúsunda þeirra í musterinu. (1. Kroníkubók 23:4, 5) Á fyrstu öldinni voru kristnu söfnuðurnir skipulagðir undir handleiðslu Guðs: „Frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té.“ — Efesusbréfið 4:11, 12.
Gott skipulag einnig meðal nútímaþjóna Guðs
9, 10. Hvernig hefur Jehóva skipulagt störf fólks síns nú á tímum?
9 Jehóva hefur á sama hátt skipulagt störf nútímaþjóna sinna þannig að þeir geti unnið með skilvirkni það sem hann vill láta vinna nú á tímum — að prédika fagnaðarerindið um ríkið áður en hann lætur endirinn koma yfir hið núverandi óguðlega heimskerfi. (Matteus 24:14) Hugleiddu hvað er fólgið í þessu starfi um heim allan og hve þýðingarmikið er að það sé vel skipulagt. Milljónir karla, kvenna og barna hljóta þjálfun í að kenna öðrum sannindi Biblíunnar. Til að aðstoða við þessa þjálfun er prentað mikið magn biblía og biblíutengdra rita. Upplag hvers einasta tölublaðs Varðturnsins er nú yfir 16 milljónir á 120 tungumálum og upplag Vaknið! er um 13 milljónir á 75 tungumálum. Efni blaðanna birtist samtímis á langflestum tungumálum þannig að nálega allir þjónar Jehóva fá sama efni á sama tíma.
10 Auk þess eru hinir liðlega 75.000 söfnuðir votta Jehóva um heim allan skipulagðir til að koma reglulega saman til biblíufræðslu. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þá eru líka haldnar fjöldasamkomur í þúsundatali — svæðismót og umdæmismót — á hverju ári. Unnið er í stórum stíl um allan heim að byggingu eða endurbótum á ríkissölum, mótshöllum, Betelheimilum og prentsmiðjum til útgáfu biblíurita. Víða um lönd eru starfræktir skólar til að veita biblíukennurum viðbótarmenntun, svo sem Gíleaðskóli Varðturnsfélagsins, sem er fyrir trúboða, og Þjónustuskóli brautryðjenda.
11. Hvaða gagn höfum við af því í framtíðinni að læra að skipuleggja hlutina vel núna?
11 Jehóva hefur sannarlega skipulagt hlutina vel meðal fólks síns á jörðinni þannig að þeir geti ‚fullnað þjónustu sína‘ með aðstoð englanna! (2. Tímóteusarbréf 4:5; Hebreabréfið 1:13, 14; Opinberunarbókin 14:6) En Guð áorkar öðru með því að kenna þjónum sínum gott skipulag núna. Verið er að undirbúa þjóna hans þannig að þegar þetta heimskerfi tekur enda verða þeir tilbúnir að hefja líf í nýja heiminum. Þá munu þeir byrja að byggja paradís um heim allan með skipulegum hætti undir handleiðslu Jehóva. Þeir verða líka vel undir það búnir að kenna þeim milljörðum manna, sem reistir verða upp frá dauðum, ítarlegar kröfur Guðs. — Jesaja 11:9; 54:13; Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 20:12, 13.
Skipulagning en ekki á kostnað hamingjunnar
12, 13. Af hverju getum við sagt að Jehóva vilji að fólk hans sé hamingjusamt?
12 Enda þótt Jehóva sé óhemjuafkastamikill og hafi frábæra skipulagsgáfu er hann ekki kaldlyndur, stífur eða vélrænn. Nei, hann er mjög hlýlegur og hamingjusamur og lætur sér annt um hamingju okkar. „Hann ber umhyggju fyrir yður,“ segir 1. Pétursbréf 5:7. Við getum séð umhyggju hans og löngun til þess að þjónar hans séu hamingjusamir af því sem hann hefur gert fyrir mennina. Hann skapaði til dæmis manninn og konuna fullkomin og setti þau í paradís unaðarins. (1. Mósebók 1:26-31; 2:8, 9) Hann gaf þeim allt sem þau þurftu til að þau gætu verið fullkomlega hamingjusöm. En þau glötuðu öllu saman með uppreisn sinni. Synd þeirra varð til þess að við erfðum ófullkomleika og dauða. — Rómverjabréfið 3:23; 5:12.
13 Enda þótt við mennirnir séum ófullkomnir núna getum við eigi að síður haft yndi af því sem Guð hefur gert. Margt er það sem veitir okkur ánægju — tignarleg fjöll, fögur stöðuvötn, ár, höf og strendur; litskrúðug, angandi blóm og annar gróður í óendanlegri fjölbreytni; úrval af bragðgóðum mat, tilkomumikil sólsetur sem við þreytumst aldrei á, stjörnum prýddur himinn sem við njótum þess að virða fyrir okkur að nóttu, dýrin í allri sinni fjölbreytni og ærslafullt ungviði þeirra, örvandi tónlist, skemmtileg og nytsamleg vinna og góðir vinir. Ljóst er að sá sem sá fyrir öllu þessu er hamingjusamur og hefur ánægju af því að veita öðrum hamingju.
14. Hvaða jafnvægis ætlast Jehóva til af okkur þegar við líkjum eftir honum?
14 Jehóva er því ekki bara að sækjast eftir skipulagningu og skilvirkni. Hann vill líka að þjónar hans séu hamingjusamir eins og hann. Hann vill ekki að þeir skipuleggi út í öfgar á kostnað hamingjunnar. Þjónar Guðs verða að láta skipulagsgáfuna vera í jafnvægi við hamingjuna eins og hann gerir, því að þar sem hinn máttugi heilagi andi hans er, þar er gleði. Og Galatabréfið 5:22 sýnir að „gleði“ er önnur í röðinni af ávöxtum heilags anda Guðs sem starfar í þjónum hans.
Kærleikur leiðir af sér hamingju
15. Hvers vegna er kærleikur svona mikilvæg forsenda þess að við séum hamingjusöm?
15 Það er mjög athyglisvert að Biblían skuli segja: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Hún segir hvergi: „Guð er skipulag.“ Kærleikur er æðsti eiginleiki Guðs sem þjónar hans verða að líkja eftir. Þess vegna er „kærleikur“ talinn upp fyrstur ávaxta anda Guðs í Galatabréfinu 5:22 og „gleði“ næst. Kærleikur leiðir af sér gleði. Þegar við líkjum eftir kærleika Jehóva í öllum samskiptum okkar við aðra fylgir hamingja í kjölfarið, því að kærleiksríkt fólk er hamingjusamt fólk.
16. Hvernig sýndi Jesús fram á mikilvægi kærleikans?
16 Í kennslu sinni lagði Jesús ríka áherslu á að líkja eftir kærleika Guðs. Hann sagði: „Ég [tala] það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28) Hvað var Jesú sérstaklega kennt sem hann síðan kenndi öðrum? Það að tvö mestu boðorðin væru að elska Guð og elska náungann. (Matteus 22:36-39) Jesús var fyrirmynd um slíkan kærleika. Hann sagði: „Ég elska föðurinn,“ og sannaði það með því að gera vilja Guðs allt til dauða. Og hann sýndi kærleika sinn til mannanna með því að deyja fyrir þá. Páll postuli sagði kristnum mönnum í Efesus: ‚Kristur elskaði ykkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir ykkur.‘ (Jóhannes 14:31; Efesusbréfið 5:2) Jesús sagði því fylgjendum sínum: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“ — Jóhannes 15:12, 13.
17. Hvernig sýndi Páll að það er áríðandi að sýna öðrum kærleika?
17 Páll benti á hve áríðandi þessi guðlegi kærleikur væri er hann sagði: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. . . . En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ — 1. Korintubréf 13:1-3, 13.
18. Hvers getum við vænst af Jehóva sem eykur hamingju okkar?
18 Þegar við líkjum eftir kærleika Jehóva getum við reitt okkur á kærleika hans til okkar, jafnvel þegar við gerum mistök, því að hann er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6) Ef við iðrumst mistaka okkar í einlægni heldur Guð ekki reikning yfir þau heldur fyrirgefur okkur í kærleika sínum. (Sálmur 103:1-3) Já, „[Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Sú vitneskja stuðlar að hamingju okkar.
Tiltölulega hamingjusamir núna
19, 20.(a) Af hverju er fullkomin hamingja ekki möguleg núna? (b) Hvernig sýnir Biblían að við getum verið tiltölulega hamingjusöm núna?
19 En er hægt að vera hamingjusamur núna á síðustu dögum þessa heims Satans sem er fullur af glæpum, ofbeldi og siðleysi og þar sem sjúkdómar og dauði blasa við okkur? Auðvitað getum við ekki vænst hamingju núna á borð við þá sem verður í nýjum heimi Guðs eins og orð hans lýsir: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ — Jesaja 65:17, 18.
20 Þjónar Guðs geta verið tiltölulega hamingjusamir núna vegna þess að þeir þekkja vilja hans og hafa nákvæma þekkingu á hinni undursamlegu blessun sem verður brátt að veruleika í nýjum paradísarheimi hans. (Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 21:4) Það er þess vegna sem Biblían getur sagt: „[Jehóva] hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér,“ „sæll er hver sá, er óttast [Jehóva], er gengur á hans vegum“ og „sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Sálmur 84:13; 128:1; Matteus 5:5) Við getum þannig verið tiltölulega hamingjusöm þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem við þurfum að takast á við núna. Jafnvel þegar við verðum fyrir skakkaföllum erum við ekki hryggir á sama hátt og þeir sem þekkja ekki Jehóva og hafa ekki vonina um eilíft líf. — 1. Þessaloníkubréf 4:13.
21. Hvernig stuðlar það að hamingju þjóna Jehóva að gefa af sjálfum sér?
21 Þjónar Jehóva uppskera líka hamingju vegna þess að þeir nota tíma sinn, krafta og fjármuni til að kenna öðrum sannindi Biblíunnar, einkum fólki sem ‚andvarpar og kveinar yfir öllum þeim svívirðingum‘ sem framdar eru í heimi Satans. (Esekíel 9:4) Biblían segir: „Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar [Jehóva] honum. [Jehóva] varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu.“ (Sálmur 41:2, 3) Eins og Jesús sagði er ‚sælla að gefa en þiggja.‘ — Postulasagan 20:35.
22. (a) Hvaða munur er á hamingju þjóna Guðs og þeirra sem ekki þjóna honum? (b) Af hvaða sérstakri ástæðu ættum við að búast við að vera hamingjusöm?
22 Enda þótt þjónar Guðs geti ekki búist við hamingju í sinni æðstu mynd nú á tímum, geta þeir samt sem áður notið hamingju sem er óþekkt meðal þeirra sem ekki þjóna Guði. Jehóva lýsir yfir: „Sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.“ (Jesaja 65:14) Og þeir sem þjóna Guði hafa mjög svo sérstaka ástæðu til að vera hamingjusamir núna — þeir hafa heilagan anda Guðs sem hann „hefur gefið þeim, er honum hlýða.“ (Postulasagan 5:32) Og munum að þar sem andi Guðs er, þar er einnig hamingja. — Galatabréfið 5:22.
23. Hvað skoðum við í næstu námsgrein?
23 Öldungarnir gegna þýðingarmiklu hlutverki í skipulagi þjóna Guðs nú á tímum, en þeir taka forystuna í söfnuðunum og stuðla að því að fólk Jehóva sé hamingjusamt. (Títusarbréfið 1:5) Hvernig ættu þeir að líta á ábyrgð sína og samband sitt við andlega bræður sína og systur? Um það er fjallað í greininni á eftir.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig ber sköpunarverkið vitni um skipulagsgáfu Jehóva?
◻ Hvernig hefur Jehóva skipulagt störf þjóna sinna fyrr og nú?
◻ Hvaða jafnvægi vill Jehóva að við sýnum?
◻ Hvaða þýðingu hefur kærleikur fyrir hamingju okkar?
◻ Hvers konar hamingju getum við vænst nú á tímum?
[Mynd/Rétthafi á blaðsíðu 8]
Efri mynd: Með leyfi ROE/Anglo-Australian Observatory, ljósmynd: David Malin