Tíundi kafli
Hver fær staðist gegn höfðingja höfðingjanna?
1, 2. Af hverju hefur sýnin, sem Daníel sá á þriðja ríkisári Belsasars, þýðingu fyrir okkur?
FIMMTÍU og sjö ár eru liðin síðan musteri Jehóva í Jerúsalem var eytt. Feðgarnir Belsasar og Nabónídus fara sameiginlega með völd í babýlonska heimsveldinu sem er þriðja heimsveldið í spádómum Biblíunnar.a Daníel, spámaður Guðs, er útlægur í Babýlon. Og á „þriðja ríkisári Belsasars konungs“ birtir Jehóva spámanninum sýn þar sem hann opinberar ýmislegt varðandi endurreisn sannrar tilbeiðslu. — Daníel 8:1.
2 Spádómssýn Daníels hafði djúp áhrif á hann og er mjög áhugaverð fyrir okkur sem lifum á „tíð endalokanna.“ Engillinn Gabríel segir Daníel: „Ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna.“ (Daníel 8:16, 17, 19, 27) Við skulum því rannsaka með brennandi áhuga það sem Daníel sá og kanna hvað það þýðir fyrir okkur.
TVÍHYRNDUR HRÚTUR
3, 4. Hvaða dýr sá Daníel standa við fljótið og hvað táknar það?
3 „Ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið,“ skrifar Daníel. (Daníel 8:2) Súsa var höfuðborg Elamhéraðs, um 350 kílómetrum austur af Babýlon. Ekki verður ráðið af hebreska textanum hvort Daníel var þar í raun og veru eða hvort það var aðeins í sýn, en íslenska biblían gefur hið síðarnefnda í skyn.
4 Hann heldur áfram: „Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið. Hann var tvíhyrndur.“ (Daníel 8:3a) Daníel gengur þess ekki dulinn hver hrúturinn er. Engillinn Gabríel segir síðar: „Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu.“ (Daníel 8:20) Medar voru ættaðir frá hásléttu austur af Assýríu og Persar komu upphaflega frá svæðinu norður af Persaflóa þar sem þeir höfðu lengst af lifað hirðingjalífi. En þegar heimsveldi Meda og Persa óx fiskur um hrygg gerðust íbúarnir mjög munaðargjarnir.
5. Hvernig varð hornið, sem ‚spratt síðar upp,‘ hærra en hitt?
5 „Og [voru] há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp,“ heldur Daníel áfram. (Daníel 8:3b) Hærra hornið, sem spratt upp síðar, táknar Persa en hitt hornið Meda. Í fyrstu gegndu Medar leiðandi hlutverki en árið 550 f.o.t. vann Kýrus Persakonungur auðveldan sigur á Astýagesi Medíukonungi. Kýrus blandaði saman siðum og lögum þjóðanna tveggja, sameinaði ríkin og lagði undir þau fleiri lönd. Þaðan í frá varð heimsveldið tvíveldi.
HRÚTURINN FRAMKVÆMIR MIKLA HLUTI
6, 7. Hvernig gerðist það að ‚engin dýr gátu við hrútnum staðist‘?
6 Daníel heldur áfram að lýsa hrútnum: „Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti.“ — Daníel 8:4.
7 Í sýninni á undan hafði Babýlon verið táknuð með dýri sem kom upp úr hafinu og líktist ljóni með arnarvængi. (Daníel 7:4, 17) Þetta táknræna dýr fer halloka fyrir ‚hrútnum‘ í nýju sýninni. Babýlon féll fyrir Kýrusi mikla árið 539 f.o.t. Í nálega 50 ár eftir það stóðst ekkert „dýr“ eða stjórnvald gegn medísk-persneska heimsveldinu — hinu fjórða í spádómum Biblíunnar.
8, 9. (a) Hvernig ‚stangaði hrúturinn mót vestri, norðri og suðri‘? (b) Hvað segir Esterarbók um arftaka Daríusar 1. Persakonungs?
8 Medísk-persneska heimsveldið kom úr „austurátt“ og það ‚stangaði mót vestri, norðri og suðri‘ og fór sínu fram. (Jesaja 46:11) Kambýses 2. tók við af Kýrusi mikla og vann Egyptaland. Síðan tók við ríkinu Daríus 1. Persakonungur sem hélt vestur yfir Bospórussund til Evrópu árið 513 f.o.t. og réðst inn í Þrakíu, en höfuðborg hennar var Býsans (nú Istanbúl). Árið 508 f.o.t. braut hann Þrakíu undir sig og árið 496 f.o.t. lagði hann undir sig Makedóníu. Á dögum Daríusar var medísk-persneski „hrúturinn“ því búinn að leggja undir sig lönd í þrjár höfuðáttir: Babýloníu og Assýríu í norðri, Litlu-Asíu í vestri og Egyptaland í suðri.
9 Biblían ber vitni um mikilleik medísk-persneska heimsveldisins og talar um arftaka Daríusar, Xerxes 1., sem ‚Ahasverus þann er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum.‘ (Esterarbók 1:1) En þetta mikla heimsveldi átti að lúta í lægra haldi fyrir öðru, og sýn Daníels nefnir margt athyglisvert sem styrkir trú okkar á spádómsorð Guðs.
GEITHAFURINN YFIRBUGAR HRÚTINN
10. Hvaða dýr réði niðurlögum „hrútsins“ í sýn Daníels?
10 Við getum ímyndað okkur undrun Daníels yfir því sem hann sér núna. Frásagan segir: „Er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna. Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði. Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans.“ (Daníel 8:5-7) Hvað merkir þetta?
11. (a) Hvernig útskýrði engillinn Gabríel ‚loðna geithafurinn‘ og „hornið mikla“? (b) Hvern táknaði „hornið mikla“?
11 Hvorki Daníel né við þurfum að giska á merkingu sýnarinnar. „Hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn,“ segir engillinn Gabríel við Daníel. (Daníel 8:21) Síðasti konungur Persaveldis, Daríus 3. (Kódómannus), var krýndur árið 336 f.o.t. Alexander varð konungur Makedóníu sama ár. Sagan sýnir að Alexander mikli var hinn fyrsti ‚Grikklands konungur‘ sem spáð hafði verið um. Alexander kom „vestan“ árið 334 f.o.t og fór hratt yfir. Það var eins og hann ‚kæmi ekki við jörðina‘ þegar hann lagði undir sig hvert svæðið af öðru og yfirbugaði „hrútinn.“ Grikkland batt þannig enda á nærri tveggja alda yfirráð Meda og Persa og varð fimmta heimsveldið sem gegnir hlutverki í biblíusögunni. Þetta er athyglisverð uppfylling biblíuspádóms.
12. Hvernig „brotnaði hornið mikla“ á hinum táknræna geithafri og hver voru hornin fjögur sem spruttu upp í staðinn?
12 En veldi Alexanders yrði ekki langlíft. Sýnin heldur áfram: „Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum.“ (Daníel 8:8) Gabríel útskýrir spádóminn svo: „Að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.“ (Daníel 8:22) Alexander „brotnaði“ eða dó á hátindi landvinninga sinna eins og spáð var, aðeins 32 ára að aldri. Og hið mikla heimsveldi skiptist síðar milli fjögurra af hershöfðingjum hans.
DULARFULLT LÍTIÐ HORN
13. Hvað óx út frá einu horninu og hvernig hegðaði það sér?
13 Uppfylling næsta hluta sýnarinnar nær yfir ríflega 2200 ár, allt til okkar daga. Daníel skrifar: „Út frá einu þeirra [hornanna fjögurra] spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna. Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir. Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn. Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt.“ — Daníel 8:9-12.
14. Hvað segir engillinn Gabríel um athafnir hins táknræna litla horns og hvað átti að verða um það?
14 Áður en við getum áttað okkur á þýðingu þessara orða þurfum við að athuga hvað engill Guðs segir. Eftir að hafa bent á að fjögur ríki skuli spretta af ríki Alexanders segir hann: „En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís. Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur. Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu. Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar.“ — Daníel 8:23-25.
15. Hvað átti Daníel að gera í sambandi við sýnina?
15 „En leyn þú þeirri sýn, því að hún á sér langan aldur,“ segir engillinn við Daníel. (Daníel 8:26) Þessi hluti sýnarinnar átti ekki að uppfyllast um „langan aldur“ og Daníel var sagt að ‚leyna henni.‘ Greinilegt er að þýðing hennar var Daníel hulin ráðgáta. En núna hlýtur þessi ‚langi aldur‘ að vera liðinn, svo að við spyrjum hvað megi ráða af mannkynssögunni um uppfyllingu þessarar spádómssýnar.
LITLA HORNIÐ GERIST VOLDUGT
16. (a) Af hvaða táknrænu horni óx litla hornið? (b) Hvernig varð Rómaveldi sjötta heimsveldi biblíuspádómanna en af hverju var það ekki litla hornið?
16 Mannkynssagan sýnir að litla hornið óx af einu af hornunum fjórum — því vestasta. Þetta var hið helleníska ríki Kassanders hershöfðingja sem náði yfir Makedóníu og Grikkland. Síðar rann það saman við ríki Lýsimakosar hershöfðingja, konungs í Þrakíu og Litlu-Asíu. Róm lagði þessi vestursvæði hellenísku ríkjanna undir sig á annarri öld fyrir okkar tímatal. Og árið 30 f.o.t. lagði Róm undir sig öll hellenísku ríkin og varð þar með sjötta heimsveldið í spádómum Biblíunnar. En Rómaveldi var ekki litla hornið í sýn Daníels því að heimsveldið stóð ekki fram á „tíð endalokanna.“ — Daníel 8:19.
17. (a) Hvert var samband Bretlands og Rómaveldis? (b) Hvernig er breska heimsveldið tengt hellenísku ríkjunum Makedóníu og Grikklandi?
17 Hver var þá þessi ágengi og ‚illúðlegi‘ konungur samkvæmt mannkynssögunni? Bretland var norðvesturangi Rómaveldis. Allt fram á fyrri hluta fimmtu aldar okkar tímatals voru rómverskar nýlendur þar sem nú er Bretland. Með tíð og tíma hnignaði Rómaveldi en áhrifa grísk-rómverskrar menningar gætti áfram á Bretlandi og í öðrum Evrópulöndum sem Rómverjar höfðu ráðið. „Kirkjan tók við eftir að Rómaveldi féll,“ segir mexíkóska nóbelsskáldið og rithöfundurinn Octavio Paz. „Kirkjufeðurnir og síðari tíma fræðimenn græddu gríska heimspeki við kenningar kristninnar,“ bætir hann við. Og 20. aldar heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Bertrand Russell segir: „Vestræn siðmenning, sem er grísk að uppruna, er byggð á heimspeki- og vísindahefð sem átti upptök sín í Míletus [grískri borg í Litlu-Asíu] fyrir 2500 árum.“ Það má því segja að menningarlegar rætur breska heimsveldisins liggi í hinum hellenísku ríkjum Makedóníu og Grikklandi.
18. Hvert er litla hornið sem var ‚illúðlegur konungur‘ á „tíð endalokanna“? Skýrðu svarið.
18 Árið 1763 var breska heimsveldið búið að yfirbuga Spán og Frakkland sem voru öflugir keppinautar þess. Þaðan í frá var það drottning heimshafanna og sjöunda heimsveldi biblíuspádómanna. Jafnvel eftir að hinar 13 amerísku nýlendur brutust undan yfirráðum Breta árið 1776 og stofnuðu Bandaríki Norður-Ameríku óx breska heimsveldinu svo fiskur um hrygg að það náði yfir fjórðung lands í heiminum og réði yfir fjórðungi jarðarbúa. Styrkur sjöunda heimsveldisins jókst enn þegar Bandaríki Norður-Ameríku tóku höndum saman við Bretland svo að úr varð ensk-ameríska tvíveldið. Í efnahagslegu og hernaðarlegu tilliti var þetta stórveldi vissulega orðið „illúðlegur“ konungur. Litla hornið, sem varð að illúðlegu stjórnmálaveldi á „tíð endalokanna,“ er því ensk-ameríska heimsveldið.
19. Hver er „prýði landanna“ sem nefnd er í sýninni?
19 Daníel sá að litla hornið „óx mjög“ og móti „prýði landanna.“ (Daníel 8:9) Fyrirheitna landið, sem Jehóva gaf útvalinni þjóð sinni, var svo fagurt að það var kallað „prýði meðal landanna,“ það er að segja allrar jarðarinnar. (Esekíel 20:6, 15) Að vísu lagði Bretland Jerúsalem undir sig hinn 9. desember árið 1917, og árið 1920 fól Þjóðabandalagið Stóra-Bretlandi stjórn Palestínu sem stóð til 14. maí árið 1948. En sýnin er spádómleg og auðug af táknum. Og „prýði landanna,“ sem nefnd er í sýninni, táknar ekki Jerúsalem heldur jarðneskt ástand þeirrar þjóðar sem er heilög í augum Guðs á valdatíma sjöunda heimsveldisins. Við skulum kanna hvernig ensk-ameríska heimsveldið reynir að ógna hinum heilögu.
„HANS HEILAGI BÚSTAÐUR“ RIFINN NIÐUR
20. Hver er „her himnanna“ og ‚stjörnurnar‘ sem litla hornið reynir að varpa til jarðar?
20 Litla hornið „óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum.“ „Her himnanna“ og ‚stjörnurnar,‘ sem litla hornið reynir að troða undir, eru ‚hinir heilögu‘ samkvæmt skýringu engilsins. (Daníel 8:10, 24) ‚Hinir heilögu‘ eru andasmurðir kristnir menn. Þeir hafa eignast samband við Guð í krafti nýja sáttmálans, sem tók gildi þegar blóði Jesú Krists var úthellt, og eru þar af leiðandi helgaðir, hreinsaðir og teknir frá til að þjóna Guði einum. (Hebreabréfið 10:10; 13:20) Þar eð Jehóva hefur gert þá að himneskum meðerfingjum sonar síns eru þeir heilagir í augum hans. (Efesusbréfið 1:3, 11, 18-20) „Her himnanna“ í sýn Daníels er því leifar hinna 144.000 „heilögu“ á jörð sem eiga að ríkja með lambinu á himnum. — Opinberunarbókin 14:1-5.
21. Hverjir eru í ‚helgidómi‘ sem sjöunda heimsveldið reynir að eyða?
21 Þeir sem eftir eru af hinum 144.000 eru jarðneskir fulltrúar „hinnar himnesku Jerúsalem,“ það er að segja ríkis Guðs, og musterisfyrirkomulags hennar. (Hebreabréfið 12:22, 28; 13:14) Í þeim skilningi eru þeir í ‚helgidómi‘ sem sjöunda heimsveldið reynir að troða niður og eyða. (Daníel 8:13) Daníel talar einnig um þennan helgidóm sem ‚heilagan bústað‘ Jehóva og segir: „Það [„litla hornið“] lét afnema hina daglegu fórn, og hans [Jehóva] heilagi bústaður var niður rifinn. Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt.“ (Daníel 8:11, 12) Hvernig rættist þetta?
22. Hvaða „glæp“ drýgði sjöunda heimsveldið í síðari heimsstyrjöldinni?
22 Vottar Jehóva voru ofsóttir grimmilega í síðari heimsstyrjöldinni. Ofsóknirnar hófust í löndum nasista og fasista, en áður en langt um leið var ‚sannleikanum varpað til jarðar‘ í hinu víðáttumikla ríki ‚litla hornsins sem varð valdamikið.‘ „Her“ boðbera Guðsríkis og boðun ‚fagnaðarerindisins‘ voru bönnuð nánast alls staðar í Breska samveldinu. (Markús 13:10) Þegar samveldisríkin kvöddu mannafla sinn í herinn sýndu þau enga virðingu fyrir guðræðislegri skipun þjóna Guðs og neituðu að veita þeim undanþágu vegna prestlegrar þjónustu þeirra. Trúfastir þjónar Jehóva í Bandaríkjunum máttu sæta skrílsofbeldi og ýmiss konar auðmýkingu. Sjöunda heimsveldið var að reyna að afnema reglulega og ‚daglega‘ lofgerðarfórn þjóna Jehóva, „ávöxt vara“ þeirra. (Hebreabréfið 13:15) Það drýgði þar með þann „glæp“ að ráðast inn á réttmætt yfirráðasvæði hins hæsta Guðs — ‚hans heilaga bústað.‘
23. (a) Hvernig reis ensk-ameríska heimsveldið „gegn höfðingja höfðingjanna“ í síðari heimsstyrjöldinni? (b) Hver er ‚höfðingi höfðingjanna‘?
23 Með því að ofsækja ‚hina heilögu‘ í síðari heimsstyrjöldinni hugði litla hornið á stórræði gegn „höfðingja hersins“ eða, eins og engillinn Gabríel segir, það reis „gegn höfðingja höfðingjanna.“ (Daníel 8:11, 25) Titillinn ‚höfðingi höfðingjanna‘ er aðeins notaður um Jehóva Guð. Hebreska orðið sar, sem þýtt er „höfðingi,“ er skylt sögn sem merkir „að fara með yfirráð.“ Það er oft notað um konungsson eða konungborinn mann, en er auk þess notað um þann sem er fremstur. Daníelsbók nefnir aðra höfðingja eða verndarengla, til dæmis Míkael. Guð er yfirhöfðingi allra slíkra höfðingja. (Daníel 10:13, 21; samanber Sálm 83:19.) Getum við ímyndað okkur að nokkur geti risið gegn Jehóva — höfðingja höfðingjanna?
„HELGIDÓMURINN“ FÆRÐUR Í SAMT LAG
24. Hvaða loforð gefur Daníel 8:14?
24 Enginn getur risið gegn höfðingja höfðingjanna — ekki einu sinni „illúðlegur“ konungur á borð við ensk-ameríska heimsveldið. Þessum konungi tekst ekki að eyða helgidóm Guðs. Eftir ‚tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgna,‘ segir engillinn, „þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag,“ eða „vera sigursæll.“ — Daníel 8:13, 14; The New English Bible.
25. Hve langt tímabil eru hinir 2300 dagar og hvaða atburði hljóta þeir að tengjast?
25 Dagarnir 2300 eru spádómlegir svo að miðað er við spádómlegt ár sem er 360 dagar. (Opinberunarbókin 11:2, 3; 12:6, 14) Þessir 2300 dagar svara því til 6 ára, 4 mánaða og 20 daga. Hvenær stóð þetta tímabil yfir? Á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar hörðnuðu ofsóknir á hendur vottum Jehóva víða um heim, og í síðari heimsstyrjöldinni voru þeir grimmilega ofsóttir í löndum ensk-ameríska tvíveldisins. Hvers vegna? Vegna þess að þeir voru harðákveðnir í að ‚hlýða Guði framar en mönnum.‘ (Postulasagan 5:29) Dagarnir 2300 hljóta því að tengjast stríðinu.b En hvað má segja um upphaf og endi þessa spádómlega tímabils?
26. (a) Frá hvaða tíma ætti í fyrsta lagi að telja dagana 2300? (b) Hvenær enduðu dagarnir 2300?
26 Hinir 2300 dagar, þegar „helgidómurinn“ átti að vera ‚kominn aftur‘ í rétt horf, hljóta að hafa hafist þegar hann var áður í ‚lagi‘ frá sjónarhóli Guðs. Það var í fyrsta lagi 1. júní árið 1938 þegar fyrri hluti greinarinnar „Skipulag“ birtist í Varðturninum. Síðari hlutinn birtist 15. júní 1938. Ef taldir eru 2300 dagar (6 ár, 4 mánuðir og 20 dagar samkvæmt almanaki Hebrea) frá 1. eða 15. júní 1938 er komið að 8. eða 22. október árið 1944. Haldið var sérstakt mót í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum dagana 30. september og 1. október 1944, og fyrri daginn talaði forseti Varðturnsfélagsins um efnið: „Guðræðisleg niðurröðun nú á tímum.“ Á ársfundinum 2. október var stofnskrá Félagsins breytt til að færa hana eins nálægt guðræðislegu fyrirkomulagi og hægt væri samkvæmt lögum. Eftir að kröfur Biblíunnar höfðu verið skýrðar nánar á prenti voru söfnuðir votta Jehóva fljótlega færðir nær guðræðislegu skipulagi.
27. Hvað ber vitni um að ‚hin daglega fórn‘ hafi verið skert verulega á ofsóknarárum síðari heimsstyrjaldarinnar?
27 Meðan dagarnir 2300 liðu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, sem hófst árið 1939, var ‚hin daglega fórn‘ í helgidómi Guðs skert verulega sökum ofsókna. Árið 1938 var Varðturnsfélagið með 39 útibú sem höfðu umsjón með starfi vottanna um heim allan, en árið 1943 voru þau aðeins 21. Boðberum Guðsríkis fjölgaði líka hægt á þessu tímabili.
28, 29. (a) Hvað gerðist í skipulagi Jehóva undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar? (b) Hvað má segja um grimmilegar tilraunir óvinarins til að eyða „helgidóminn“ og eyðileggja hann?
28 Eins og bent hefur verið á staðfestu vottar Jehóva ásetning sinn, á síðustu mánuðum síðari heimsstyrjaldarinnar, að upphefja stjórn Guðs með því að þjóna honum sem guðræðislegt skipulag. Það var í þessum tilgangi sem hafist var handa við að endurskipuleggja starf þeirra og stjórnarfyrirkomulag árið 1944. Hinn 15. október 1944 birtist í Varðturninum grein sem hét „Skipulagðir til lokastarfs.“ Þessi grein og aðrar þjónustutengdar greinar á sama tímabili gáfu til kynna að dagarnir 2300 væru á enda og „helgidómurinn“ væri aftur kominn í „samt lag.“
29 Grimmilegar tilraunir óvinarins til að eyða ‚helgidóminn‘ og eyðileggja hann höfðu algerlega misheppnast. Þeir sem eftir voru á jörðinni af „hinum heilögu“ og félagar þeirra af ‚múginum mikla‘ höfðu gengið með sigur af hólmi. (Opinberunarbókin 7:9) Og helgidómurinn er nú kominn í rétt, guðræðislegt horf og er Jehóva áfram til heilagrar þjónustu.
30. Hvað verður bráðlega um ‚konunginn illúðlega‘?
30 Ensk-ameríska heimsveldið er enn við völd. En engillinn Gabríel sagði að það yrði ‚sundur mulið án manna tilverknaðar.‘ (Daníel 8:25) Mjög bráðlega verður þetta sjöunda heimsveldi biblíuspádómanna — þessi ‚illúðlegi konungur‘ — brotið niður, ekki með mannahöndum heldur fyrir ofurmannlegu afli í Harmagedónstríðinu. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14, 16) Það er stórkostleg tilhugsun að þá skuli drottinvald Jehóva Guðs, höfðingja höfðingjanna, verða upphafið!
[Neðanmáls]
a Þau sjö heimsveldi, sem hafa sérstaka biblíulega þýðingu vegna afskipta sinna af fólki Jehóva, eru Egyptaland, Assýría, Babýlonía, Medía-Persía, Grikkland, Rómaveldi og ensk-ameríska tvíveldið.
b Daníel 7:25 talar líka um tímabil þegar ‚hinir heilögu hins hæsta eru kúgaðir.‘ Eins og fram kom í kaflanum á undan var það tengt fyrri heimsstyrjöldinni.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvað táknar
„tvíhyrndi hrúturinn“?
„hinn loðni geithafur“ með „hornið mikla“?
hornin fjögur sem komu í stað ‚hornsins mikla‘?
litla hornið sem spratt af einu af hornunum fjórum?
• Hvernig reyndi ensk-ameríska heimsveldið að eyða „helgidóminn“ í síðari heimsstyrjöldinni og tókst því það?
[Kort/mynd á blaðsíðu 166]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
Heimsveldið Medía-Persía
MAKEDÓNÍA
EGYPTALAND
Memfis
EÞÍÓPÍA
Jerúsalem
Babýlon
Ekbatana
Súsa
Persepólis
INDLAND
[Kort/mynd á blaðsíðu 169]
(Sjá uppaðaðann texta í bókinni)
Gríska heimsveldið
MAKEDÓNÍA
EGYPTALAND
Babýlon
Indus
[Kort á blaðsíðu 172]
(Sjá uppaðaðann texta í bókinni)
Rómaveldi
BRITANNÍA
ÍTALÍA
Róm
Jerúsalem
EGYPTALAND
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 164]
[Myndir á blaðsíðu 174]
Nokkrir helstu forystumenn ensk-ameríska heimsveldisins:
1. George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna (1789-97).
2. Viktoría Bretadrottning (1837-1901).
3. Woodrow Wilson, forseti Bandaríkjanna (1913-21).
4. David Lloyd George, forsætisráðherra Bretlands (1916-22).
5. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands (1940-45, 1951-55).
6. Franklin D. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna (1933-45).