Tólfti kafli
Sendiboði Guðs styrkir hann
1. Hvaða umbun fékk Daníel fyrir brennandi áhuga sinn á tilgangi Jehóva?
DANÍEL fékk ríkulega umbun fyrir áhuga sinn á tilgangi Jehóva og framvindu hans. Honum var gefinn hinn hrífandi spádómur um vikurnar eða sjöundirnar 70 þar sem komutími Messíasar er opinberaður. Hann hlaut einnig þá blessun að sjá trúfastar leifar þjóðar sinnar snúa heim. Það gerðist árið 537 f.o.t., undir lok ‚fyrsta ríkisárs Kýrusar Persakonungs.‘ — Esrabók 1:1-4.
2, 3. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að Daníel fór ekki heim til Júda með leifum Gyðinga?
2 Daníel var ekki í hópi þeirra sem sneru heim til Júda. Hann var orðinn háaldraður og ferðalagið hefði kannski reynst honum ofraun. Hvað sem því leið hafði Guð önnur verkefni handa honum í Babýlon. Tvö ár liðu. Síðan segir frásagan: „Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs fékk Daníel, sem kallaður var Beltsasar, opinberun, og opinberunin er sönn og boðar miklar þrengingar. Og hann gaf gætur að opinberuninni og hugði að sýninni.“ — Daníel 10:1.
3 ‚Þriðja ár Kýrusar‘ hefur verið árið 536/535 f.o.t. Meira en 80 ár voru liðin síðan Daníel var fluttur til Babýlonar ásamt öðru ungu fólki af konungs- og höfðingjaættum. (Daníel 1:3) Hafi hann verið rétt kominn á táningsaldur þegar það gerðist var hann orðinn næstum tíræður þegar hér var komið sögu. Hann átti að baki langa og trúfasta þjónustu.
4. Hvaða mikilvægu hlutverki átti Daníel að gegna áfram í þjónustu Jehóva, þrátt fyrir háan aldur?
4 En þrátt fyrir háan aldur Daníels var hlutverki hans í þjónustu Jehóva ekki lokið. Enn átti Guð eftir að nota hann til að flytja geysiþýðingarmikinn spádóm. Þessi spádómur átti að ná allt til okkar tíma og fram yfir. Jehóva taldi rétt að styrkja Daníel fyrir þá þjónustu sem framundan var.
ÁHYGGJUR SPÁMANNSINS
5. Hvaða fregnir hafa líklega valdið Daníel áhyggjum?
5 Þótt Daníel sneri ekki heim til Júda með leifum þjóðar sinnar hafði hann brennandi áhuga á því sem var að gerast í ástkæru heimalandi sínu. Eftir fréttum að dæma var ekki allt með felldu þar. Altarið hafði verið reist á ný og grunnur lagður að musterinu í Jerúsalem. (Esrabók, 3. kafli) En grannþjóðirnar settu sig upp á móti endurreisninni og hugðust vinna hinum heimkomnu Gyðingum tjón. (Esrabók 4:1-5) Daníel hafði vissulega ástæðu til að hafa áhyggjur af mörgu.
6. Af hverju var Daníel órótt vegna ástandsins í Jerúsalem?
6 Daníel var vel kunnugur spádómi Jeremía. (Daníel 9:2) Hann vissi að endurbygging musterisins í Jerúsalem og viðreisn sannrar tilbeiðslu þar var nátengd tilgangi Jehóva með fólk sitt. Og allt yrði þetta undanfari þess að hinn fyrirheitni Messías kæmi fram. Daníel fékk reyndar þau miklu sérréttindi að fá spádóm frá Jehóva um hinar „sjötíu vikur.“ Af spádóminum skildi hann að Messías myndi koma 69 ‚vikum‘ eftir að orðið gekk út um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem. (Daníel 9:24-27, New World Translation) Í ljósi þess að Jerúsalem var í rústum og bygging musterisins hafði tafist er hins vegar auðskilið að Daníel skuli hafa verið niðurdreginn, dapur og daufur í dálkinn.
7. Hvað gerði Daníel í þrjár vikur?
7 „Á þeim dögum var ég, Daníel, harmandi þriggja vikna tíma,“ segir frásagan. „Ég neytti engrar dýrindisfæðu, kjöt og vín kom ekki inn fyrir varir mínar, og ég smurði mig ekki fyrr en þrjár vikur voru liðnar.“ (Daníel 10:2, 3) Að harma og fasta í „þrjár vikur“ eða 21 dag var óvenjulangur tími, en honum lauk greinilega „tuttugasta og fjórða dag hins fyrsta mánaðar.“ (Daníel 10:4) Föstutími Daníels náði því yfir páskahátíðina, sem haldin var 14. dag fyrsta mánaðarins, nísan, og hina sjö daga hátíð ósýrðu brauðanna sem fylgdi í kjölfarið.
8. Hvenær áður hafði Daníel sóst ákaft eftir leiðsögn Jehóva og með hvaða árangri?
8 Daníel hafði reynt eitthvað svipað áður þegar hann braut heilann um uppfyllingu spádóms Jehóva um 70 ára mannauðn Jerúsalemborgar. Hvað gerði hann þá? „Ég sneri þá ásjónu minni til [Jehóva] Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku,“ segir hann. Jehóva svaraði bæn hans með því að senda engilinn Gabríel til hans með mjög hughreystandi boðskap. (Daníel 9:3, 21, 22) Ætlaði Jehóva að gera eitthvað svipað núna og veita Daníel þá uppörvun sem hann þarfnaðist svo sárlega?
ÓGNVEKJANDI SÝN
9, 10. (a) Hvar var Daníel þegar hann sá sýn? (b) Lýstu sýn Daníels.
9 Daníel varð ekki fyrir vonbrigðum. Hann greinir svo frá: „Var ég staddur á bakka hins mikla Tígrisfljóts. Þá hóf ég upp augu mín og sá mann nokkurn, klæddan línklæðum og gyrtan skíragulli um lendar.“ (Daníel 10:4, 5) Í hebreska textanum er áin nefnd Kíddekel, en hún var ein af ánum fjórum sem runnu frá Edengarðinum. (1. Mósebók 2:10-14) Í fornpersnesku var Kíddekel kölluð Tigra sem gríska nafnið Tígris er dregið af. Landið milli hennar og Efrat var kallað Mesópótamía, „landið milli fljótanna.“ Það staðfestir að Daníel hafi enn verið í Babýloníu þegar hann sá þessa sýn, þótt hann hafi ef til vill ekki verið í sjálfri borginni Babýlon.
10 Það var mögnuð sýn sem Daníel sá. Ljóst er að það var enginn venjulegur maður sem blasti við honum þegar hann leit upp. Daníel lýsir honum svo: „Líkami hans var sem krýsolít, ásjóna hans sem leiftur, augu hans sem eldblys, armleggir hans og fætur sem skyggður eir og hljómurinn af orðum hans eins og mikill gnýr.“ — Daníel 10:6.
11. Hvaða áhrif hafði sýnin á Daníel og mennina sem með honum voru?
11 Þrátt fyrir allan ljómann í sýninni ‚sáu mennirnir, sem með mér voru, ekki sýnina,‘ segir Daníel. Af einhverri óskýrðri ástæðu kom yfir þá „mikil hræðsla, og flýðu þeir í felur.“ Daníel var því einn eftir á árbakkanum, en svo yfirþyrmandi var ‚þessi mikla sýn‘ að hann viðurkennir: „Hjá mér var enginn máttur eftir orðinn, og yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir.“ — Daníel 10:7, 8.
12, 13. Hvaða ályktun má draga af (a) klæðnaði sendiboðans? (b) útliti hans?
12 Lítum nánar á þennan áberandi sendiboða sem gerði Daníel svona hræddan. Hann var ‚klæddur línklæðum og gyrtur skíragulli um lendar.‘ Belti æðstaprestsins í Forn-Ísrael, hökullinn, brjóstskjöldurinn, og einnig skikkjur hinna prestanna, voru úr fínni, tvinnaðri baðmull og gulli skreytt. (2. Mósebók 28:4-8; 39:27-29) Klæðnaður sendiboðans er því vísbending um heilagleika hans og tignarstöðu.
13 Útlit sendiboðans vakti einnig lotningu Daníels — ljómandi líkaminn sem glitraði eins og gimsteinn, blindandi birtan af andliti hans, skarpskyggn, logandi augun og sterklegir handleggir og fætur sem glampaði á. Valdsmannleg röddin var jafnvel ógnvekjandi. Allt bendir þetta greinilega til þess að hann hafi verið ofurmannlegur. ‚Línklæddi maðurinn‘ var háttsettur engill sem þjónaði frammi fyrir Jehóva, og þaðan kom hann með boðskap sinn.a
„ÁSTMÖGUR“ STYRKTUR
14. Hvaða hjálp þurfti Daníel til að geta tekið við boðskap engilsins?
14 Það er þungur og flókinn boðskapur sem engill Jehóva hefur að færa Daníel. Spámaðurinn er svo veikburða og aðþrengdur að hann þarf að fá hjálp áður en hann getur tekið við boðskapnum. Engillinn gerir sér það greinilega ljóst svo að hann hjálpar honum og hvetur hann hlýlega. Látum Daníel sjálfan segja frá.
15. Hvernig hjálpaði engillinn Daníel?
15 „Er ég heyrði hljóminn af orðum hans, hné ég í ómegin á ásjónu mína, með andlitið að jörðinni.“ Trúlega hefur Daníel verið næstum rænulaus af ótta og kvíða. Hvað gerði engillinn fyrir hann? „Og sjá, hönd snart mig og hjálpaði mér óstyrkum upp á knén og hendurnar,“ segir Daníel. Og engillinn hvetur spámanninn og segir: „Daníel, þú ástmögur Guðs, tak eftir þeim orðum, er ég tala við þig, og statt á fætur, því að ég er nú einmitt til þín sendur.“ Daníel hjarnaði við þegar engillinn rétti honum hjálparhönd og hughreysti hann. Hann „stóð upp“ þótt „skjálfandi“ væri. — Daníel 10:9-11.
16. (a) Hvernig sést að Jehóva bregst skjótt við bænum þjóna sinna? (b) Af hverju tafðist engillinn sem kom Daníel til hjálpar? (Sjá einnig rammagrein á bls. 204-5.) (c) Hvaða boðskap flutti engillinn Daníel?
16 Engillinn lætur þess getið að hann sé kominn sérstaklega til að styrkja Daníel. „Óttast þú ekki, Daníel, því að frá því er þú fyrst hneigðir hug þinn til að öðlast skilning og þú lítillættir þig fyrir Guði þínum, eru orð þín heyrð, og ég er vegna orða þinna hingað kominn,“ segir hann. Síðan skýrir hann hvers vegna hann hafi tafist á ferð sinni: „En verndarengill Persaríkis stóð í móti mér tuttugu og einn dag, en sjá, Míkael, einn af fremstu verndarenglunum, kom mér til hjálpar, og hann skildi ég eftir þar hjá Persakonungum.“ Með aðstoð Míkaels tókst englinum að ljúka því erindi sínu að færa Daníel þennan áríðandi boðskap: „Nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga.“ — Daníel 10:12-14.
17, 18. Hvernig var Daníel hjálpað öðru sinni og hvað gat hann þá gert?
17 En tilhugsunin um þennan forvitnilega boðskap virðist ekki hressa Daníel heldur hafa þveröfug áhrif. Frásagan segir: „Og er hann talaði þessum orðum til mín, leit ég til jarðar og þagði.“ En engillinn var reiðubúinn að hjálpa honum öðru sinni. Daníel segir: „Sjá, einhver í mannslíki snart varir mínar, og ég lauk upp munni mínum [og] talaði.“b — Daníel 10:15, 16a.
18 Daníel styrktist við það að engillinn snerti varir hans. (Samanber Jesaja 6:7.) Nú fékk hann málið aftur og gat sagt sendiboðanum frá erfiðleikum sínum. Hann segir: „Herra minn, sökum sýnarinnar eru kvalir þessar yfir mig komnar, og kraftur minn er þrotinn. Og hvernig ætti ég, þjónn þinn, herra, að geta talað við slíkan mann sem þú ert, herra? Og nú er allur kraftur minn að þrotum kominn, og enginn lífsandi er í mér eftir orðinn.“ — Daníel 10:16b, 17.
19. Hvernig var Daníel hjálpað þriðja sinni og með hvaða árangri?
19 Daníel var hvorki að kvarta né afsaka sig. Hann var einfaldlega að segja frá vandræðum sínum, og engillinn tók það gott og gilt og hjálpaði honum þriðja sinni. „Sá sem í mannslíki var, snart mig þá aftur [og] styrkti mig,“ segir spámaðurinn. Sendiboðinn fylgdi eftir hinni styrkjandi snertingu með hughreystandi orðum: „Óttast þú ekki, ástmögur, friður sé með þér! Vertu hughraustur, vertu hughraustur!“ Kærleiksrík snerting engilsins og uppbyggjandi orð hans virðast hafa nægt Daníel því að hann segir: „Er hann talaði við mig, fann ég að ég styrktist og sagði: ‚Tala þú, herra minn, því að þú hefir gjört mig styrkan.‘“ Nú var Daníel tilbúinn að takast á við enn eitt krefjandi verkefni. — Daníel 10:18, 19.
20. Af hverju var það áreynsla fyrir engilinn að inna verkefni sitt af hendi?
20 Eftir að engillinn hafði styrkt Daníel og endurnært huga hans og líkama endurtók hann erindi sitt: „Veistu, hvers vegna ég er til þín kominn? En nú verð ég að snúa aftur til þess að berjast við verndarengil Persíu, og þegar ég fer af stað, sjá, þá kemur verndarengill Grikklands. Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar.“ — Daníel 10:20, 21.
21, 22. (a) Hvað má læra af reynslu Daníels um samskipti Jehóva við þjóna sína? (b) Styrk til hvers hafði Daníel nú fengið?
21 Jehóva er hugulsamur og kærleiksríkur. Hann tekur alltaf tillit til getu þjóna sinna og takmarka. Annars vegar veit hann hvað þjónar sínir geta og hann felur þeim verkefni í samræmi við það, jafnvel þótt þeim finnist þeir stundum ekki ráða við þau. Hins vegar er hann fús til að hlusta á þá og veita þeim síðan þá hjálp sem þeir þurfa til að gera verkefnum sínum skil. Megum við alltaf líkja eftir himneskum föður okkar, Jehóva, með því að hvetja trúbræður okkar í kærleika og styrkja þá. — Hebreabréfið 10:24.
22 Hughreystandi boðskapur engilsins var mjög hvetjandi fyrir Daníel. Þótt háaldraður væri var hann endurnærður og tilbúinn að taka við enn einum stórmerkum spádómi og skrásetja hann til gagns fyrir okkur.
[Neðanmáls]
a Engillinn er ekki nafngreindur en þetta virðist vera sami engill og sagði Gabríel að útskýra fyrir Daníel sýn er hann hafði séð. (Berðu saman Daníel 8:2, 15, 16 og 12:7, 8.) Og Daníel 10:13 segir að Míkael, „einn af fremstu verndarenglunum,“ hafi komið þessum engli til aðstoðar. Þessi ónafngreindi engill hlýtur því að hafa notið þeirra sérréttinda að starfa náið með Gabríel og Míkael.
b Þótt engillinn, sem snerti varir Daníels og hressti hann, kunni að vera sá sami og talaði við hann býður orðalagið upp á þann möguleika að þetta hafi verið annar engill, til dæmis Gabríel. Hvort heldur var styrkti engillinn Daníel.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Af hverju tafðist engill Jehóva sem kom Daníel til hjálpar árið 536/535 f.o.t.?
• Hvað má ráða af klæðnaði og útliti engilsins sem sendur var frá Guði?
• Hvaða hjálpar þarfnaðist Daníel og hvernig hjálpaði engillinn honum þrívegis?
• Hvaða boðskap hafði engillinn handa Daníel?
[Rammagrein á blaðsíðu 204, 205]
Verndarenglar eða djöflahöfðingjar?
DANÍELSBÓK veitir okkur margvíslegar upplýsingar um engla. Hún greinir frá hlutverki þeirra í að framfylgja orðum Jehóva og fyrirhöfn þeirra við að gera verkefnum sínum skil.
Engill Guðs segir að „verndarengill Persaríkis“ hafi tafið sig er hann var á leið til að tala við Daníel. Engillinn tókst á við hann í 21 dag en gat ekki haldið ferð sinni áfram fyrr en „Míkael, einn af fremstu verndarenglunum,“ kom honum til hjálpar. Engillinn segist þurfa að berjast við þennan óvin aftur og hugsanlega einnig ‚verndarengil Grikklands.‘ (Daníel 10:13, 20) Þetta var ekkert áhlaupaverk, jafnvel fyrir engil. En hverjir voru þessir verndarenglar Persíu og Grikklands?
Við tökum eftir að Míkael er kallaður „einn af fremstu verndarenglunum“ og „verndarengill yðar.“ Síðar er hann nefndur „hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa“ Daníels. (Daníel 10:21; 12:1) Það bendir til þess að Míkael sé engillinn sem Jehóva fól það verkefni að leiða Ísraelsmenn um eyðimörkina. — 2. Mósebók 23:20-23; 32:34; 33:2.
Lærisveinninn Júdas segir að ‚höfuðengillinn Míkael hafi átt í orðadeilu við djöfulinn um líkama Móse,‘ og það styður þessa ályktun. (Júdasarbréfið 9) Vegna stöðu sinnar var Míkael vissulega ‚höfuðengill‘ eða erkiengill, það er að segja æðsti engill. Enginn annar en Jesús Kristur, sonur Guðs, gat farið með þennan titil, bæði áður en hann var hér á jörð og eftir. — 1. Þessaloníkubréf 4:16; Opinberunarbókin 12:7-9.
Ber þá að skilja það svo að Jehóva hafi líka skipað engla yfir þjóðir eins og Persíu og Grikkland til að leiðbeina þeim? Jesús Kristur, sonur Guðs, sagði berum orðum: ‚Höfðingi heimsins á ekki neitt í mér.‘ Öðru sinni sagði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi . . . Ríki mitt [er] ekki þaðan.“ (Jóhannes 14:30; 18:36) Jóhannes postuli sagði að ‚allur heimurinn væri á valdi hins vonda.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er ljóst að þjóðir heims eru ekki og hafa aldrei verið undir leiðsögn eða stjórn Guðs eða Krists. Þótt Jehóva leyfi „yfirvöldum“ að starfa og stjórna málefnum jarðar setur hann ekki engla sína yfir þau. (Rómverjabréfið 13:1-7) Hver sá „verndarengill,“ sem þau eiga, hlýtur að vera handbendi ‚höfðingja heimsins,‘ Satans djöfulsins. Þetta hljóta að vera djöflahöfðingjar en ekki raunverulegir verndarenglar. Það standa því ósýnileg, ill öfl að baki hinum sýnilegu stjórnendum, og átök þjóða í milli eru meira en átök manna í milli.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 199]
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 207]