Fimmtándi kafli
Konungarnir tveir á tuttugustu öld
1. Hver voru forysturíki Evrópu á 19. öld, að sögn sagnfræðings?
„EVRÓPA nítjándu aldar bjó yfir áður óþekktri atorku,“ segir sagnfræðingurinn Norman Davies. „Evrópa ólgaði af krafti sem aldrei fyrr. Þessi kraftur braust fram í tækni, efnahag og menningu, og hann teygði sig til annarra heimsálfa.“ Forysturíki „hinnar sigurglöðu Evrópu á þessari ‚öld kraftarins‘ voru í fyrsta lagi Stóra Bretland . . . og á síðari áratugunum Þýskaland,“ segir Davies.
„HAFA ILLT Í HYGGJU“
2. Hvaða ríki voru í hlutverki ‚konungsins norður frá‘ og ‚konungsins suður frá‘ í lok 19. aldar?
2 Undir lok 19. aldar var Þýska keisaradæmið orðið „konungurinn norður frá“ og Bretland var ‚konungurinn suður frá.‘ (Daníel 11:14, 15) „Báðir konungarnir munu hafa illt í hyggju og tala flærðarsamlega að hinu sama borði,“ segir engill Jehóva, „en eigi mun það ná fram að ganga, því að enn er hinn tiltekni tími eigi liðinn á enda.“ — Daníel 11:27.
3, 4. (a) Hver var fyrsti keisari Þýska keisaradæmisins og hvaða bandalag var stofnað? (b) Hvaða stefnu fylgdi Vilhjálmur 2.?
3 Vilhjálmur 1. varð fyrsti keisari Þýska keisaradæmisins 18. janúar árið 1871. Hann skipaði Otto von Bismarck ríkiskanslara sinn sem einbeitti sér að því að efla hið nýja keisaradæmi. Bismarck forðaðist átök við aðrar þjóðir og gerði bandalag við Austurríki-Ungverjaland og Ítalíu sem kallað var Þríveldabandalagið. En brátt kom að því að hagsmunir þessa nýja konungs norður frá og konungsins suður frá rákust á.
4 Vilhjálmur 2. tók við embætti árið 1888 þegar Vilhjálmur 1. og arftaki hans, Friðrik 3., féllu frá. Hinn 29 ára gamli keisari neyddi Bismarck til að segja af sér og tók upp þá stefnu að auka áhrif Þýskalands um heim allan. Sagnfræðingur segir að Þýskaland hafi gerst „hrokafullt og árásargjarnt undir stjórn Vilhjálms 2.“
5. Hvernig sátu konungarnir tveir „að hinu sama borði“ og hvað töluðu þeir um?
5 Töluverð spenna var þjóða í milli þegar Nikulás 2. Rússlandskeisari boðaði til friðarráðstefnu í Haag í Hollandi hinn 24. ágúst árið 1898. Á þessari ráðstefnu og annarri, sem haldin var árið 1907, var komið á laggirnar gerðardómi með aðsetur í Haag. Með aðild að gerðardómnum létu Þjóðverjar og Bretar í veðri vaka að þeir aðhylltust frið. Þeir sátu „að hinu sama borði“ og létu vinalega en ‚höfðu illt í hyggju.‘ Sú stjórnkænska að „tala flærðarsamlega að hinu sama borði“ gat ekki stuðlað að sönnum friði. Stjórnmálaleg, hernaðarleg og viðskiptaleg markmið konunganna tveggja gátu ‚ekki náð fram að ganga‘ því að þeir hlutu að líða undir lok á ‚hinum tiltekna tíma‘ Jehóva Guðs.
„Í MÓTI HINUM HEILAGA SÁTTMÁLA“
6, 7. (a) Í hvaða skilningi ‚hvarf konungurinn norður frá aftur heim í land sitt‘? (b) Hvernig brást konungurinn suður frá við vaxandi áhrifum konungsins norður frá?
6 Engill Guðs heldur áfram: „Og hann [konungurinn norður frá] mun hverfa aftur heim í land sitt með miklum fjárhlut og snúa huga sínum í móti hinum heilaga sáttmála, og hann mun koma fram áformi sínu og hverfa síðan aftur heim í land sitt.“ — Daníel 11:28.
7 Vilhjálmur keisari hvarf heim í „land“ konungsins norður frá að fornu með því að feta í fótspor hans og byggja upp stjórnarfar sem ætlað var að stækka Þýskaland og færa út áhrif þess. Hann rak nýlendustefnu í Afríku og víðar. Til að ögra yfirráðum Breta á hafinu hóf hann smíði öflugs herskipaflota. „Á rétt rúmum áratug óx herskipafloti Þýskalands úr nánast engu í öflugasta flota heims á eftir Bretlandi,“ segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica. Bretar urðu reyndar að efla sjóherinn til að viðhalda yfirburðum sínum. Þeir gerðu vináttubandalag við Frakka og svipað bandalag við Rússa, hið svonefnda Samúðarsamband. Evrópa skiptist nú í tvennar herbúðir — Þríveldabandalagið og Samúðarsambandið.
8. Hvernig fékk Þýska keisaradæmið ‚mikinn fjárhlut‘?
8 Þýska keisaradæmið var árásarsinnað og hlaut ‚mikinn fjárhlut‘ fyrir, enda var það öflugasta ríki Þríveldabandalagsins. Austurríki-Ungverjaland og Ítalía voru rómversk-kaþólsk. Þríveldabandalagið naut því velvildar páfa en konungur suðursins ekki, enda var kaþólsk trú í minnihluta innan vébanda Samúðarsambandsins.
9. Hvernig var hugur konungsins norður frá „í móti hinum heilaga sáttmála“?
9 Hvernig vegnaði þjónum Jehóva? Þeir höfðu boðað lengi að „tímar heiðingjanna“ tækju enda árið 1914.a (Lúkas 21:24) Það ár var ríki Guðs stofnsett á himnum í höndum Jesú Krists, erfingja Davíðs konungs. (2. Samúelsbók 7:12-16; Lúkas 22:28, 29) Í marsmánuði árið 1880 setti tímaritið Varðturninn stjórn Guðsríkis í sambandi við það að „tímar heiðingjanna“ tækju enda. En hugur hins þýska konungs norður frá var „í móti hinum heilaga sáttmála“ um Guðsríki. Í stað þess að viðurkenna stjórn þess vann Vilhjálmur keisari að „áformi sínu“ um heimsyfirráð en sáði um leið frækornum fyrri heimsstyrjaldarinnar.
KONUNGURINN LÆTUR „HUGFALLAST“ Í STRÍÐI
10, 11. Hvernig hófst fyrri heimsstyrjöldin og á hvaða „ákveðnum tíma“?
10 „Á ákveðnum tíma mun hann [konungurinn norður frá] aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri,“ segir engillinn. (Daníel 11:29) ‚Ákveðinn tími‘ Guðs til að binda enda á yfirráð heiðingja yfir jörðinni rann upp árið 1914 þegar hann stofnsetti himneskt ríki sitt. Hinn 28. júní það ár voru Franz Ferdínand, erkihertogi af Austurríki, og kona hans myrt af serbneskum hryðjuverkamanni í Sarajevó í Bosníu. Það var neistinn sem kveikti ófriðarbál fyrri heimsstyrjaldarinnar.
11 Vilhjálmur keisari hvatti Austurríki-Ungverjaland til að hefna morðsins. Austurríki-Ungverjaland þóttist öruggt um stuðning Þjóðverja og lýsti yfir stríði á hendur Serbíu hinn 28. júlí árið 1914. En Rússar komu Serbum til aðstoðar. Þegar Þjóðverjar sögðu Rússum stríð á hendur studdu Frakkar (sem tilheyrðu Samúðarsambandinu) Rússa. Þjóðverjar lýstu þá yfir stríði á hendur Frökkum og réðust inn í Belgíu í þeim tilgangi að eiga greiðari leið að París. Bretar höfðu hins vegar ábyrgst hlutleysi Belga og sögðu Þjóðverjum stríð á hendur. Fleiri þjóðir drógust inn í átökin og Ítalir skiptu um bandamenn. Bretar gerðu Egyptaland að verndarsvæði sínu í stríðinu til að koma í veg fyrir að konungurinn norður frá lokaði Súesskurðinum og réðist inn í landið þar sem konungurinn suður frá hafði setið að fornu.
12. Í hvaða skilningi ‚tókst síðari förin ekki jafnvel og hin fyrri‘ í heimsstyrjöldinni fyrri?
12 „Þrátt fyrir stærð og styrk Bandamanna virtist litlu muna að Þjóðverjar ynnu stríðið,“ segir alfræðibókin The World Book Encyclopedia. Í fyrri átökum konunganna tveggja hafði Rómaveldi, konungurinn norður frá, ævinlega gengið með sigur af hólmi. En ‚síðari förin tókst ekki jafnvel og hin fyrri‘ og konungur norðursins tapaði stríðinu. Engillinn tilgreinir ástæðuna: „Skip Kittím munu koma í móti honum, og hann mun láta hugfallast.“ (Daníel 11:30a, neðanmáls) Hver voru „skip Kittím“?
13, 14. (a) Hvaðan voru „skip Kittím“ aðallega sem komu í móti konungi norðursins? (b) Hvernig fjölgaði skipunum frá Kittím er leið á fyrri heimsstyrjöldina?
13 Á dögum Daníels var Kittím Kýpur. Bretar innlimuðu Kýpur snemma í fyrri heimsstyrjöldinni. Samkvæmt The Zondervan Pictorial Encyclopedia of the Bible er merking nafnsins Kittím „víkkuð til að ná yfir Vesturlönd almennt, þó einkum siglingaþjóðir Vesturlanda.“ Biblíuþýðingin New International Version þýðir orðin „skip Kittím“ sem „skip vestrænu strandríkjanna.“ Í fyrri heimsstyrjöldinni voru skipin frá Kittím aðallega skip Bretlands sem lágu út af vesturströnd Evrópu.
14 Þegar stríðið dróst á langinn fékk breski sjóherinn fleiri skip frá Kittím til liðs við sig. Hinn 7. maí árið 1915 sökkti þýski kafbáturinn U-20 farþegaskipinu Lusitania suður af Írlandi. Meðal látinna voru 128 Bandaríkjamenn. Síðar teygðu Þjóðverjar kafbátahernað sinn út á Atlantshaf. Í kjölfar þess sagði Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti Þýskalandi stríð á hendur hinn 6. apríl 1917. Með herskipum og liðsauka frá Bandaríkjunum var konungurinn suður frá — ensk-ameríska heimsveldið — kominn að fullu í stríð við keppinaut sinn.
15. Hvenær lét konungurinn norður frá „hugfallast“?
15 Konungur norðursins ‚lét hugfallast‘ fyrir áhlaupi ensk-ameríska heimsveldisins og lýsti sig sigraðan í nóvember árið 1918. Vilhjálmur 2. flúði í útlegð til Hollands og Þýskalandi var breytt í lýðveldi. En konungur norðursins var ekki búinn að vera.
KONUNGURINN LÆTUR FINNA FYRIR SÉR
16. Hvernig lýsir spádómurinn viðbrögðum konungsins norður frá við ósigrinum?
16 „[Konungurinn norður frá mun] halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og gefa þeim gætur, sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála.“ (Daníel 11:30b) Þannig spáði engillinn og svona fór.
17. Hvað leiddi til þess að Adolf Hitler komst til valda?
17 Hinir sigursælu Bandamenn settu refsiákvæði gegn Þýskalandi inn í friðarsamninginn sem gerður var að stríðinu loknu. Samningsákvæðin reyndust þýsku þjóðinni þung í skauti og hið nýja lýðveldi var veikburða frá upphafi. Þjóðverjar skjögruðu áfram í nokkur ár við miklar þrengingar. Þeir urðu hart úti í kreppunni miklu og sex milljónir manna misstu atvinnuna. Í byrjun fjórða áratugarins voru hagstæð skilyrði fyrir Adolf Hitler að komast til valda. Hann varð ríkiskanslari í janúar 1933 og árið eftir tók hann sér forsetaembætti Þriðja ríkisins sem nasistar kölluðu svo.b
18. Hvernig lét Hitler finna fyrir sér?
18 Hitler var ekki fyrr kominn til valda en hann réðst af mikilli grimmd gegn „hinum heilaga sáttmála“ sem smurðir bræður Jesú Krists voru fulltrúar fyrir. (Matteus 25:40) Hann lét þessa dyggu kristnu menn ‚kenna á reiði sinni‘ og ofsótti marga þeirra grimmilega. Hitler varð vel ágengt í efnahags- og utanríkismálum. Á fáeinum árum gerði hann Þýskaland að ríki sem lét finna fyrir sér á alþjóðavettvangi.
19. Til hverra biðlaði Hitler eftir stuðningi?
19 Hitler ‚gaf þeim gætur sem yfirgáfu hinn heilaga sáttmála.‘ Hverjir voru það? Bersýnilega er átt við leiðtoga kristna heimsins sem fullyrtu að þeir stæðu í sáttmálasambandi við Guð en voru hættir að vera lærisveinar Jesú Krists. Hitler heppnaðist að tryggja sér stuðning þeirra sem ‚yfirgáfu hinn heilaga sáttmála.‘ Hann gerði til dæmis sáttmála við páfann í Róm. Hann stofnaði kirkjumálaráðuneyti árið 1935, og var eitt af markmiðunum að koma hinum evangelísku kirkjudeildum undir ríkisyfirráð.
KONUNGURINN SENDIR ÚT ‚HERFLOKKA‘
20. Gegn hverjum notaði konungurinn norður frá ‚herflokka‘ sína?
20 Fljótlega var Hitler kominn í stríð eins og engillinn hafði réttilega sagt fyrir: „Herflokkar hans munu bera hærri hlut og vanhelga helgidóminn, vígið, afnema hina daglegu fórn.“ (Daníel 11:31a) Konungurinn norður frá notaði þessa herflokka til að berjast gegn konungi suðursins í síðari heimsstyrjöldinni. „Herflokkar“ nasista réðust inn í Pólland 1. september árið 1939. Bretar og Frakkar komu Pólverjum til hjálpar tveim dögum síðar og sögðu Þjóðverjum stríð á hendur. Síðari heimsstyrjöldin var hafin. Pólland féll skömmu síðar og áður en langt um leið voru Þjóðverjar búnir að hernema Danmörku, Noreg, Holland, Belgíu, Lúxemborg og Frakkland. „Þjóðverjar réðu yfir meginlandi Evrópu í árslok 1941,“ segir alfræðibókin The World Book Encyclopedia.
21. Hvernig snerist taflið gegn konungi norðursins í síðari heimsstyrjöldinni og hvernig lyktaði því?
21 Þrátt fyrir að Þjóðverjar og Sovétmenn hefðu gert með sér sáttmála um samvinnu, vináttu og landamæri réðst Hitler inn í Sovétríkin 22. júní 1941. Við innrásina gerðust Sovétmenn bandamenn Breta. Sovéski herinn veitti harða mótspyrnu þrátt fyrir ótrúlega velgengni þýska hersins í upphafi innrásarinnar, og 6. desember 1941 varð þýski herinn að láta í minni pokann við Moskvu. Daginn eftir gerðu Japanar sprengjuárás á Pearl Harbor á Hawaii, en þeir voru bandamenn Þjóðverja. Þegar Hitler frétti það sagði hann aðstoðarmönnum sínum: „Nú er óhugsandi að við töpum stríðinu.“ Í hvatvísi sagði hann Bandaríkjunum stríð á hendur 11. desember. En Hitler vanmat styrk Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Taflið snerist fljótlega og sovéski herinn sótti fram úr austri og breskar og bandarískar hersveitir nálguðust úr vestri. Þýski herinn missti nú hvert landsvæðið á fætur öðru og gafst upp fyrir Bandamönnum hinn 7. maí árið 1945, eftir að Hitler hafði svipt sig lífi.
22. Hvernig ‚vanhelgaði konungurinn norður frá helgidóminn og afnam hina daglegu fórn‘?
22 Herflokkar nasista munu ‚vanhelga helgidóminn, vígið, og afnema hina daglegu fórn,‘ sagði engillinn. Helgidómurinn var hluti musterisins í Jerúsalem í Júda til forna. En þegar Gyðingar höfnuðu Jesú hafnaði Jehóva þeim og musteri þeirra. (Matteus 23:37–24:2) Síðan á fyrstu öld hefur musteri Jehóva verið andlegt. Hið allrahelgasta er á himnum og andlegur forgarður á jörðinni og þar þjóna smurðir bræður æðstaprestsins Jesú. Frá því á fjórða áratug 20. aldarinnar hefur hinn ‚mikli múgur‘ dýrkað Guð ásamt hinum smurðu leifum og er því sagður þjóna ‚í musteri Guðs.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 15; 11:1, 2; Hebreabréfið 9:11, 12, 24) Í þeim löndum, sem konungur norðursins réð yfir, vanhelgaði hann jarðneskan forgarð musterisins með linnulausum ofsóknum á hendur hinum smurðu og félögum þeirra. Svo harðar voru ofsóknirnar að ‚hin daglega fórn‘ — opinber lofgerðarfórn um nafn Jehóva — var afnumin. (Hebreabréfið 13:15) En þrátt fyrir ógurlegar þjáningar héldu trúfastir smurðir kristnir menn og hinir ‚aðrir sauðir‘ áfram að prédika meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði. — Jóhannes 10:16.
‚VIÐURSTYGGÐ EYÐINGARINNAR REIST‘
23. Hver var ‚viðurstyggðin‘ á fyrstu öld?
23 Þegar hillti undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar gerðist annað eins og engill Guðs hafði boðað: „[Þeir munu] reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar.“ (Daníel 11:31b) Jesús hafði líka talað um þessa „viðurstyggð.“ Á fyrstu öld var hún rómverski herinn sem kom til Jerúsalem árið 66 til að berja niður uppreisn Gyðinga.c — Matteus 24:15; Daníel 9:27.
24, 25. (a) Hver er ‚viðurstyggðin‘ á okkar tímum? (b) Hvenær og hvernig var ‚viðurstyggðin reist‘?
24 Hvaða „viðurstyggð“ hefur verið ‚reist‘ á okkar tímum? Greinilega er um að ræða ‚viðurstyggilega‘ fölsun á ríki Guðs. Þetta var Þjóðabandalagið, skarlatsrauða dýrið sem fór í undirdjúpið og hvarf af sjónarsviðinu sem heimsfriðarstofnun þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. (Opinberunarbókin 17:8) En „dýrið“ átti að „stíga upp frá undirdjúpinu“ sem það og gerði þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 24. október árið 1945. Stofnríkin voru 50, þeirra á meðal Sovétríkin fyrrverandi. Þannig var reist sú „viðurstyggð“ sem engillinn spáði, það er að segja Sameinuðu þjóðirnar.
25 Þýskaland hafði verið einn aðalóvinur konungsins suður frá í báðum heimsstyrjöldunum og gegnt hlutverki konungsins norður frá. Hver skyldi hafa tekið við af því?
[Neðanmáls]
a Sjá 6. kafla þessarar bókar.
b Heilaga rómverska keisaradæmið var fyrsta ríkið og Þýska keisaradæmið annað.
c Sjá 11. kafla þessarar bókar.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvaða ríki gegndu hlutverki konunganna norður frá og suður frá við lok 19. aldar?
• Hvernig ‚tókst síðari förin ekki jafnvel og hin fyrri‘ hjá konunginum norður frá í fyrri heimsstyrjöldinni?
• Hvernig efldist Þýskaland á alþjóðavettvangi undir stjórn Hitlers í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar?
• Hvernig lyktaði átökum konunganna norður frá og suður frá í síðari heimsstyrjöldinni?
[Tafla/myndir á blaðsíðu 268]
KONUNGARNIR Í DANÍEL 11:27-31
Konungurinn Konungurinn
norður frá suður frá
Daníel 11:27-30a Þýska keisaradæmið Bretland og síðan
(fyrri heimsstyrjöldin) ensk-ameríska
heimsveldið
Daníel 11:30b, 31 Þriðja ríki Hitlers Ensk-ameríska
(síðari heimsstyrjöldin) heimsveldið
[Mynd]
Woodrow Wilson forseti með Georgi konungi 5.
[Mynd]
Margir kristnir menn voru ofsóttir og hnepptir í fangabúðir.
[Mynd]
Ýmsir leiðtogar kristna heimsins studdu Hitler.
[Mynd]
Bifreiðin sem Ferdínand erkihertogi var myrtur í.
[Mynd]
Þýskir hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni.
[Myndir á blaðsíðu 257]
Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, Franklin D. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, og Jósef Stalín, forsætisráðherra Sovétríkjanna, samþykktu á fundi í Jalta árið 1945 áætlun um hersetu Þýskalands, nýja stjórn í Póllandi og ráðstefnu um stofnun Sameinuðu þjóðanna.
[Myndir á blaðsíðu 258]
1. Ferdínand erkihertogi 2. Þýskt herskip og kafbátur 3. Bresk herskip 4. Lusitania 5. Stríðsyfirlýsing Bandaríkjanna
[Myndir á blaðsíðu 263]
Adolf Hitler var sigurviss eftir sprengjuárás Japana á Pearl Harbor, en þeir voru bandamenn Þjóðverja í stríðinu.