Konungur vanhelgar helgidóm Jehóva
„Þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa.“ — DANÍEL 11:32.
1, 2. Hvaða stórbrotin átök hafa einkennt mannkynssöguna síðastliðin 2000 ár?
TVEIR konungar takast á og beita öllum brögðum í valdaglímunni. Fyrst hefur annar yfirburði, síðan hinn, og átökin halda áfram í meira en tvö þúsund ár. Á okkar dögum hafa þessi átök haft áhrif á flesta jarðarbúa og reynt á ráðvendni fólks Guðs. Glímunni lýkur með atburði sem hvorugt veldið sér fyrir. Þessi stórbrotna söguþróun var opinberuð spámanninum Daníel til forna. — Daníel 10. til 12. kafli.
2 Spádómurinn fjallar um óslitinn fjandskap konungsins norður frá og konungsins suður frá og var fjallað ítarlega um hann í bókinni „Your Will Be Done on Earth“ („Verði vilji þinn á jörðu“). a Bókin sýndi fram á að konungurinn norður frá var upphaflega Sýrland sem lá norður af Ísrael. Síðan tók Róm við því hlutverki. Konungurinn suður frá var í upphafi Egyptaland.
Átök á endalokatímanum
3. Hvenær og hvernig átti spádómurinn um konunginn norður frá og konunginn suður frá að skiljast, að sögn engilsins?
3 Engillinn, sem opinberaði Daníel þetta, sagði: „En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ (Daníel 12:4) Já, spádómurinn varðar tíma endalokanna — tímabil sem hófst árið 1914. Á þessu auðkennda tímabili myndu margir „rannsaka“ Heilaga ritningu og með hjálp heilags anda myndi sönn þekking, meðal annars skilningur á spádómum Biblíunnar, vaxa. (Orðskviðirnir 4:18) Eftir því sem liðið hefur á þann tíma hafa æ fleiri smáatriði í spádómum Daníels skýrst. Hvernig eigum við þá að skilja spádóminn um konunginn norður frá og konunginn suður frá núna árið 1994, 36 árum eftir að bókin „Verði vilji þinn á jörðu“ kom út?
4, 5. (a) Hvar er árið 1914 staðsett í spádómi Daníels um konunginn norður frá og konunginn suður frá? (b) Hvað átti að gerast árið 1914, að sögn engilsins?
4 Fyrri heimsstyrjöldin og önnur heimsbágindi, sem Jesús sagði fyrir, voru til marks um upphaf endalokatímanna árið 1914. (Matteus 24:3, 7, 8) Getum við bent á þetta ártal í spádómi Daníels? Já. Upphaf endalokatímanna er hinn ‚ákveðni tími‘ sem talað er um í Daníel 11:29. (Sjá „Verði vilji þinn á jörðu“, bls. 269-70.) Jehóva hafði þegar ákveðið þennan tíma á dögum Daníels því að hann rann upp við lok þeirra 2520 ára sem gefin eru til kynna í hinum spádómlega þýðingarmiklu atburðum 4. kafla Daníelsbókar.
5 Þessi 2520 ár, frá eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. á unglingsárum Daníels fram til 1914, voru kölluð „tímar heiðingjanna.“ (Lúkas 21:24) Hvaða pólitískir atburðir myndu marka endi þeirra? Engillinn opinberaði Daníel það. Engillinn sagði: „Á ákveðnum tíma mun hann [konungurinn norður frá] aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri.“ — Daníel 11:29.
Konungurinn tapar stríði
6. Hver var konungurinn norður frá árið 1914 og hver var konungurinn suður frá?
6 Árið 1914 var Þýskaland, með Vilhjálm keisara sem þjóðarleiðtoga, búið að taka við hlutverki konungsins norður frá. (Orðið „keisari“ er komið af rómverska titlinum „Caesar.“) Ófriðurinn, sem braust út í Evrópu, voru enn ein hólmgangan í átakahrinu milli konungsins norður frá og konungsins suður frá. Bretland var nú í hlutverki hins síðarnefnda, konungsins suður frá, og var það fljótt til að leggja Egyptaland undir sig sem var yfirráðasvæði hins upphaflega konungs suður frá. Þegar stríðið færðist í aukana gekk fyrrverandi nýlenda Bretlands, Bandaríki Norður-Ameríku, í lið með því. Konungurinn suður frá varð hið ensk-ameríska heimsveldi, voldugasta heimsveldi sögunnar.
7, 8. (a) Hvernig tókst síðari förin, í fyrri heimsstyrjöldinni, ekki „jafnvel og hin fyrri“? (b) Hverjar urðu lyktir fyrri heimsstyrjaldarinnar, en hvernig brást konungurinn norður frá við samkvæmt spádóminum?
7 Í fyrri átökum konunganna tveggja hafði Rómaveldi, konungurinn norður frá, hvað eftir annað gengið með sigur af hólmi. Núna tókst ‚síðari förin ekki jafnvel og hin fyrri.‘ Hvers vegna ekki? Vegna þess að konungurinn norður frá tapaði stríðinu. Ein ástæðan var sú að „skipin frá Kittím“ komu á móti konunginum norður frá. (Daníel 11:30, NW) Hvaða skip voru það? Á tímum Daníels var Kýpur kölluð Kittím og snemma í fyrri heimsstyrjöldinni innlimaði Bretland Kýpur. Samkvæmt The Zondervan Pictorial Encyclopedia of the Bible er merking nafnsins Kittím „víkkuð til að ná yfir Vesturlönd almennt, þó einkum siglingaþjóðir Vesturlanda.“ New International Version þýðir orðin „skipin frá Kittím“ sem „skip vestrænu strandríkjanna.“ Í fyrri heimsstyrjöldinni reyndust skipin frá Kittím vera skip Bretlands sem lágu út af vesturströnd Evrópu. Síðar fékk breski flotinn liðsauka frá flota Norður-Ameríku í Vesturálfu.
8 Andspænis þessari árás lét konungurinn norður frá „hugfallast“ og játaði sig sigraðan árið 1918. En hann var ekki búinn að vera. „Hann [mun] halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og gefa þeim gætur, sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála,“ spáði engillinnn og þannig fór það. — Daníel 11:30.
Konungurinn lætur finna fyrir sér
9. Hvað leiddi til þess að Adolf Hitler komst til valda og hvernig lét hann kenna á reiði sinni?
9 Árið 1918, eftir stríðið, settu hinir sigursælu Bandamenn refsiákvæði í friðarsamninginn við Þýskaland, að því er virðist með það fyrir augum að halda þýsku þjóðinni við sultarmörk um ókomna framtíð. Afleiðingarnar urðu þær að eftir að Þýskaland hafði skjögrað áfram við miklar efnahagsþrengingar um nokkurra ára skeið var þar frjó jörð fyrir uppgang Adolfs Hitlers. Hann komst til æðstu valda árið 1933 og réðst þegar í stað af mikilli grimmd gegn „hinum heilaga sáttmála“ sem smurðir bræður Krists voru fulltrúar fyrir. Hann lét þessa trygglyndu, kristnu menn kenna á reiði sinni og ofsótti marga þeirra grimmilega.
10. Til hverra biðlaði Hitler eftir stuðningi og með hvaða árangri?
10 Hitler varð einnig ágengt bæði í efnahagsmálum og utanríkismálum og lét finna fyrir sér á þeim sviðum. Á fáeinum árum gerði hann Þýskaland að ríki sem taka þurfti með í reikninginni og naut þar hjálpar ‚þeirra sem yfirgáfu hinn heilaga sáttmála.‘ Hverjir voru það? Greinilega leiðtogar kristna heimsins sem fullyrtu að þeir stæðu í sáttmálasambandi við Guð en voru löngu hættir að vera lærisveinar Jesú Krists. Hitler heppnaðist að tryggja sér stuðning ‚þeirra sem yfirgáfu hinn heilaga sáttmála.‘ Páfinn í Róm gerði sáttmála við hann og bæði rómversk-kaþólska kirkjan og mótmælendakirkjurnar í Þýskalandi studdu Hitler þau 12 ár sem ógnarstjórn hans stóð yfir.
11. Hvernig ‚vanhelgaði konungurinn norður frá helgidóminn‘ og ‚afnam hina daglegu fórn‘?
11 Slík var velgengni Hitlers að hann fór í stríð eins og engillinn hafði réttilega sagt fyrir. „Herflokkar hans munu bera hærri hlut og vanhelga helgidóminn, vígið, afnema hina daglegu fórn.“ (Daníel 11:31a) Í Forn-Ísrael var helgidómurinn hluti musterisins í Jerúsalem. En þegar Gyðingar höfnuðu Jesú hafnaði Jehóva þeim og musteri þeirra. (Matteus 23:37–24:2) Allt frá fyrstu öldinni hefur musteri Jehóva verið andlegt musteri með hið allra helgasta á himnum og andlega forgarða á jörðinni þar sem smurðir bræður Jesú, æðsta prestsins, þjóna. Frá því á fjórða áratug aldarinnar hefur múgurinn mikli tilbeðið Guð ásamt hinum smurðu leifum og er því sagður þjóna ‚í musteri Guðs.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 15; 11:1, 2; Hebreabréfið 9:11, 12, 24) Jarðneskir forgarðar musterisins voru vanhelgaðir með linnulausum ofsóknum á hendur hinum smurðu og félögum þeirra í þeim löndum þar sem konungurinn norður frá réð ríkjum. Svo harðar voru ofsóknirnar að hin daglega fórn — opinber lofgerðarfórn til nafns Jehóva — var afnumin. (Hebreabréfið 13:15) En eins og sagan sýnir héldu trúfastir, smurðir kristnir menn, ásamt hinum ‚öðrum sauðum,‘ áfram að prédika neðanjarðar, þrátt fyrir ægilegar þjáningar. — Jóhannes 10:16.
‚Viðurstyggðin‘
12, 13. Hver var ‚viðurstyggðin‘ og — eins og hinn trúi og hyggni þjónn sá fyrir — hvenær og hvernig var henni komið aftur á laggirnar?
12 Þegar hillti undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar gerðist annað. Þeir munu „reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar.“ (Daníel 11:31b) Þessi „viðurstyggð,“ sem Jesús minntist líka á, hafði þegar verið kennd við Þjóðabandalagið, skarlatsrauða villidýrið sem fór í undirdjúpið að sögn Opinberunarbókarinnar. (Matteus 24:14; Opinberunarbókin 17:8; sjá Light (Ljós), annað bindi, bls. 94.) Það gerðist þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. En á Guðveldismóti nýja heimsins árið 1942 fjallaði Nathan H. Knorr, þriðji forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, um spádóminn í Opinberunarbókinni 17. kafla og benti á að dýrið myndi stíga aftur upp úr undirdjúpinu.
13 Sagan staðfesti orð hans. Milli ágúst og október 1944 var hafist handa í Dumbarton Oaks í Bandaríkjunum við að semja stofnskrá þess sem átti eftir að vera kallað Sameinuðu þjóðirnar. Fimmtíu og eitt þjóðríki samþykkti stofnskrána, þeirra á meðal Sovétríkin fyrrverandi, og þegar hún gekk í gildi þann 24. október 1945 steig Þjóðabandalagið sáluga í reynd upp úr undirdjúpinu.
14. Hvenær og hvernig tók annar á sig hlutverk konungsins norður frá?
14 Þýskaland hafði verið einn aðalóvinur konungsins suður frá í báðum heimsstyrjöldunum. Eftir síðari heimsstyrjöldina gerðist hluti Þýskalands bandamaður konungsins suður frá. En hinn hluti Þýskalands tók höndum saman við annað áhrifamikið stórveldi. Samtök kommúnistaríkja, sem hluti Þýskalands var nú aðili að, gerðust eindreginn andstæðingur ensk-ameríska bandalagsins og metingur þessara tveggja konunga varð að kalda stríðinu. — Sjá „Verði vilji þinn á jörðu“, bls. 264-84.
Konungurinn og sáttmálinn
15. Hverjir eru ‚þeir sem syndga gegn sáttmálanum‘ og hvaða samband hafa þeir haft við konunginn norður frá?
15 Nú segir engillinn: „Þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann með fláttskap tæla til fráhvarfs.“ (Daníel 11:32a) Hverjir eru það sem syndga gegn sáttmálanum? Sem fyrr geta það ekki verið aðrir en leiðtogar kristna heimsins sem fullyrða að þeir séu kristnir en vanhelga nafn kristninnar með verkum sínum. Í síðari heimsstyrjöldinni „freistaði sovéska stjórnin þess að fá fjárhagslega og siðferðilega aðstoð kirknanna til varnar fósturjörðinni.“ (Religion in the Soviet Union eftir Walter Kolarz) Eftir stríðið reyndu kirkjuleiðtogar að viðhalda þeirri vináttu þrátt fyrir guðleyssistefnu þess veldis sem gegndi núna hlutverki konungsins norður frá.b Kristni heimurinn varð þannig meir en nokkru sinni fyrr hluti af þessum heimi — viðurstyggilegt fráhvarf í augum Jehóva. — Jóhannes 17:14; Jakobsbréfið 4:4.
16, 17. Hverjir eru „hinir vitru“ og hvernig hefur þeim farnast undir yfirráðum konungsins norður frá?
16 En hvað um sannkristna menn? „Þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð. Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi, en um hríð munu þeir falla fyrir sverði og báli, fyrir herleiðingum og fjárránum.“ (Daníel 11:32a, 33) Kristnir menn á valdasvæði konungsins norður frá voru ‚yfirvöldum undirgefnir‘ eins og þeim bar en þeir hafa ekki verið hluti af þessum heimi. (Rómverjabréfið 13:1; Jóhannes 18:36) Þeir gættu þess að gjalda keisaranum það sem keisarans var en þeir gáfu líka ‚Guði það sem Guðs var.‘ (Matteus 22:21) Vegna þessa reyndi á ráðvendni þeirra. — 2. Tímóteusarbréf 3:12.
17 Með hvaða afleiðingum? Þeir bæði ‚stóðu stöðugir‘ og ‚féllu.‘ Þeir féllu í þeim skilningi að þeir voru ofsóttir og þjáðust skelfilega og sumir voru jafnvel drepnir. En þeir stóðu stöðugir í þeim skilningi að þeir voru langflestir trúfastir. Já, þeir sigruðu heiminn alveg eins og Jesús sigraði heiminn. (Jóhannes 16:33) Auk þess hættu þeir aldrei að prédika, jafnvel þótt þeir væru í fangelsi eða fangabúðum. Með því ‚kenndu þeir mörgum hyggindi.‘ Þrátt fyrir ofsóknir fjölgaði vottum Jehóva í flestum þeim löndum sem konungurinn norður frá ríkti yfir. Svo er trúfesti ‚hinna vitru‘ fyrir að þakka að sífellti fleiri af ‚múginum mikla‘ hafa komið fram í þessum löndum. — Opinberunarbókin 7:9-14.
18. Hvaða ‚dálitla hjálp‘ hafa hinar smurðu leifar á valdasvæði konungsins norður frá fengið?
18 Um ofsóknirnar á hendur fólki Guðs spáði engillinn: „Og þá er þeir falla, mun þeim veitast dálítil hjálp.“ (Daníel 11:34a) Hvernig gerðist það? Meðal annars þannig að sigur konungsins suður frá í síðari heimsstyrjöldinni var mikill léttir fyrir kristna menn á valdasvæði konungsins sem hann átti í kappi við. (Samanber Opinberunarbókina 12:15, 16.) Endrum og eins rofaði einnig til hjá þeim sem arftaki hans ofsótti, og þegar leið að lokum kalda stríðsins rann upp fyrir mörgum leiðtogum að þeim stafaði engin ógn af trúföstum kristnum mönnum þannig að þeir veittu þeim lagalega viðurkenningu.c Mikil hjálp hefur einnig orðið í hinum ört stækkandi mikla múgi sem hefur brugðist jákvætt við trúfastri prédikun hinna smurðu og hjálpað þeim eins og lýst er í Matteusi 25:34-40.
Hreinsun fyrir fólk Guðs
19. (a) Hvernig ‚fylltu sumir flokk þeirra af yfirdrepskap‘? (b) Hvað er átt við með orðunum „allt til endalokanna“? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
19 Ekki höfðu allir, sem sýndu áhuga á því að þjóna Guði á þessum tíma, rétt tilefni með því. Engillinn varaði við: „Þá munu margir fylla flokk þeirra af yfirdrepskap. En þar sem nokkrir af hinum vitru falla, þá er það til að skíra, reyna og hreinsa aðra meðal þeirra, allt til endalokanna, því að hinn ákveðni tími er enn ekki liðinn.“d (Daníel 11:34b, 35) Sumir sýndu áhuga á sannleikanum en voru ekki fúsir til að vígja sig þjónustu við Guð af heilum huga. Aðrir, sem virtust taka við fagnaðarerindinu, voru í reynd njósnarar yfirvalda. Skýrsla frá einu landi segir: „Sumir þessara ófyrirleitnu manna voru svarnir kommúnistar sem höfðu læðst inn í skipulag Drottins, flaggað mikilli kostgæfni og jafnvel verið skipaðir í háar þjónustustöður.“
20. Hvers vegna leyfði Jehóva að sumir trúfastir kristnir menn ‚féllu‘ af völdum hræsnara sem laumuðust inn í skipulagið?
20 Þeir sem laumuðust inn í skipulagið urðu þess valdandi að sumir trúfastir einstaklingar féllu í hendur yfirvalda. Hvers vegna leyfði Jehóva að slíkt gerðist? Til að fága og hreinsa. Líkt og Jesús „lærði . . . hlýðni af því sem hann leið“ lærðu þessar trúföstu sálir þolgæði af því að trú þeirra var reynd. (Hebreabréfið 5:8; Jakobsbréfið 1:2, 3; samanber Malakí 3:3.) Þeir eru þannig ‚skírðir, reyndir og hreinsaðir.‘ Mikill fögnuður bíður slíkra trúfastra manna þegar tíminn kemur til að umbuna þeim þolgæðið. Við sjáum það þegar við skoðum meira af spádómi Daníels.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., og kynnt á ensku árið 1958 á alþjóðamóti votta Jehóva, „Vilji Guðs.“ Bókin er ekki til á íslensku.
b World Press Review birti í nóvember 1992 grein úr The Toronto Star þar sem sagði: „Nokkur undanfarin ár hafa Rússar séð tugi áður óhrekjandi tálsýna um sögu lands síns verða að engu gagnvart staðreyndunum. En mesta áfallið er þó afhjúpanirnar um samstarf kirkjunnar við kommúnistastjórnina.“
c Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. júlí 1991, bls. 8-11.
d „Allt til endalokanna“ gæti merkt „á endalokatímanum.“ Orðið, sem hér er þýtt „allt til,“ er að finna í arameískum texta Daníelsbókar 7:25 og merkir þar „á meðan“ eða „í“ (í tímamerkingu). Orðið hefur svipaða merkingu í hebreska textanum í 2. Konungabók 9:22, Jobsbók 20:5 og Dómarabókinni 3:26. Í flestum þýðingum á Daníel 11:35 er það hins vegar þýtt „allt til“ og ef það er réttur skilningur hljóta ‚endalokin‘ hér að vera endalok þess tíma sem fólk Guðs þarf að sýna þolgæði. — Samanber „Verði þinni vilji á jörðu“, bls. 286.
Manst þú?
◻ Hvers vegna ættum við nútímamenn að vænta þess að hafa gleggri skilning á spádómi Daníels en áður var?
◻ Hvernig ‚sneri konungurinn norður frá reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og lét hann kenna á henni‘?
◻ Hvernig sá þjónshópurinn fyrir að ‚viðurstyggðin‘ kæmi aftur fram á sjónarsviðið?
◻ Hvernig ‚féllu hinar smurðu leifar, stóðu stöðugar og veittist dálítil hjálp‘?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Undir stjórn Hitlers náði konungurinn norður frá sér fyllilega eftir ósigurinn fyrir konunginum suður frá árið 1918.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Leiðtogar kristna heimsins reyndu að rækta tengsl við konunginn norður frá.
[Rétthafi]
Zoran/Sipa Press