Stjórnarskipti verða — bráðlega!
FLESTIR hafa látið sér yfirsjást nokkuð sem skiptir sköpum í þessu máli. Það er þetta: Í baráttu sinni um heimsyfirráð hafa hinar stríðandi þjóðir ekki tekið tillit til þess að til er yfirvald sem er margfalt öflugra en þær. Þær virða að vettugi þá staðreynd að „Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.“ (Daníel 4:25) Hver er sá sem alvaldur Guð velur til konungs yfir allri jörðinni? Hvenær mun hann taka völdin í sínar hendur?
Enn einn konungur
Áður en Daníel spáði um ‚konunginn norður frá og konunginn suður frá‘ sá hann þessa spádómssýn viðvíkjandi útvöldum konungi Guðs: „Einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði [Jehóva Guð] var fyrir, og var leiddur fyrir hann. Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ — Daníel 7:13, 14.
Í þessari sýn birtust líka í dýrslíki hin ýmsu heimsveldi eins og þau hafa tekið við hvert af öðru. Og víst er að ‚einn maðurinn hefur drottnað yfir öðrum honum til ógæfu‘ með dýrslegri grimmd. (Prédikarinn 8:9) Drottnararnir sjálfir hafa líka orðið að lúta dýrslegri stjórn uppreisnargjarnra andahöfðingja sem eiga sér Satan sjálfan að höfðingja. (Daníel 7:17; 10:13; samanber Opinberunarbókina 12:9; 13:2-4.) En þá fær einhver „sem Mannssyni líktist“ vald frá Jehóva Guði til að fara með yfirráð. Þessi stjórnandi, skipaður af Guði, hefur til að bera þá hæfileika sem þarf til að ríkja yfir mönnum sem voru í upphafi gerðir „eftir Guðs mynd.“ (1. Mósebók 1:27) En hver er hann?
Jesús notaði nafngiftina „Mannssonur“ um sjálfan sig þegar hann var á jörðinni fyrir 1900 árum. Með því að hann var þá maður var hann bókstaflega „Mannssonur“ og í fari hans birtust í fullkominni mynd bæði kærleiki, miskunnsemi og réttvísi. Auk þess gaf hann líf sitt til lausnargjalds fyrir menn og kom þar með fram eins og nánasti ættingi mannkynsins — já, það mátti með réttu kalla hann ‚Mannsson.‘ — Matteus 20:28; Hebreabréfið 2:11-17.
Jesús vísaði líka í spádóm Daníels þegar hann sagði: „Menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ Síðar dró hann upp svipaða mynd af sjálfum sér og sagði: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.“ (Matteus 24:30; 25:31) Núna er Jesús ekki lengur maður hér á jörð. Frá dauða sínum og upprisu árið 33 hefur hann verið himnesk andavera í mynd og líkingu Guðs. Ólíkt mennskum drottnurum er hann eini konungurinn sem ‚hefur ódauðleika og býr í ljósi sem enginn fær til komist og enginn maður hefur litið hann né litið getur.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:16) Stjórn hans mun ekki einkennast af hinni dýrslegu grimmd illra anda sem hafa haft áhrif á stjórnir í höndum manna.
Jesús er því eini konungurinn sem er skipaður af Guði sem Messías eða Kristur; hann einn hefur vald til að ríkja yfir allri jörðinni. (Daníel 7:14) Það þýðir að allar stjórnir í höndum manna, þeirra á meðal „konungurinn norður frá“ og „konungurinn suður frá,“ verða að líða undir lok og víkja fyrir ríki Guðs í höndum Krists. — Daníel 2:44; Sálmur 2:7, 8, 12.
„Hinn mikli verndarengill“ tekur völd
Jesús hóf hins vegar ekki stjórn sína yfir mannkyninu árið 33. Hann þurfti að bíða. Að þeim biðtíma loknum gaf Jehóva honum vald til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna.‘ (Sálmur 110:1, 2; Postulasagan 2:32-36) Daníel sagði það fyrir með þessum orðum: „En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, . . . fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma.“ — Daníel 12:1.
Þessi spádómur kom á eftir því sem Daníel sagði um valdabaráttu ‚konungsins norður frá‘ og ‚konungsins suður frá‘ sem myndi ná hámarki sínu nú á tímum endalokanna. Þegar þar væri komið sögu myndi annar þessara ‚konunga‘ „í mikilli bræði hefja ferð sína“ til að tortíma fjölda fólks. (Daníel 11:40, 44, 45) Þá kæmi að því að Míkael, „sá er verndar“ þjóna Guðs, mynda grípa einbeittur inn í gang mála til að þeir kæmust undan. — Samanber Daníel 11:2, 3, 7, 20, 21; 12:1.
En hvernig tengist þetta Jesú? Við skulum hafa í huga að Jesús tengdi spádóma Daníels því er hann myndi í framtíðinni taka völd sem konungur. Í því sambandi talaði hann líka um ‚mikla þrengingu‘ sem ætti sér enga sína líka í sögu mannkyns. (Matteus 24:21, 29-31) Augljóst er að hann hafði þar í huga þá „hörmungatíð“ sem Daníel nefndi í tengslum við Míkael. (Samanber Matteus 24:15; Daníel 11:31.) Jesús gaf þannig í skyn að hann sjálfur væri sá Míkael er myndi ganga fram sem heimsdrottnari.
Jesús og Daníel báru fram þessa spádóma þegar þeir voru að lýsa atburðum á tímum endalokanna. Spádómar þeirra hafa ræst með athyglisverðum hætti frá og með 1914. Það ár tók Jesús völd sem konungur á himnum og hann hefur drottnað þaðan mitt á meðal óvina sinna. — Matteus 24:3, 7-12.
Paradís um allan heim — bráðlega!
Auðsætt er að þjóðir heims hafa ekki viðurkennt ríki Krists. Þær hafna boðskapnum um stofnsetningu þess og halda stíft fram eigin fullveldi. Þeim þykir þessi boðskapur heimskulegur. Því hefur „enginn af höfðingjum þessarar aldar“ þekkt visku Guðs sem birtist í vali hans á Kristi sem konungi. Blindaðir af heimsskipan undir yfirráðum Satans og uppreisnargjarnra andahöfðingja hans standa þeir sameinaðir gegn Messíasarríkinu. — 1. Korintubréf 2:8; samanber Lúkas 4:5, 6; 2. Korintubréf 4:4.
Eins og Jesús sagði fyrir eru þeir sem prédika ríki hans með trúfesti ofsóttir. En þeir eiga enn harkalegri árás í vændum. (Matteus 24:9, 14; Daníel 11:44, 45; samanber Esekíel 38:14-16.) Jesús mun þá ganga fram sem „konungur konunga og Drottinn drottna“ til að berjast fyrir þjóna sína. Því stríði mun ljúka með algerum sigri útvalins konungs Guðs. Þeir sem ráðist hafa á þjóna hans munu ‚líða undir lok og enginn hjálpa þeim.‘ Allir aðrir ‚konungar‘ verða knésettir. — Opinberunarbókin 11:15, 18; 19:11, 16, 19-21; Sálmur 2:1-3, 6-9.
Úr því að tímar endalokanna hófust árið 1914 er nú liðið mjög á þá. Jesús sagði að kynslóðin, sem sæi upphaf þess tíma, myndi líka sjá endalok hans. (Matteus 24:32-34) Við nálgumst því hraðbyri þá stórkostlegu tíma þegar Kristur Jesús mun taka að fullu í sínar hendur málefni jarðarinnar og sameina alla hlýðna menn undir sína einu stjórn.
Já, stjórnarskipti eru í vændum, mjög bráðlega. En hvað munu þau þýða fyrir þig? Þau gætu þýtt að líf þitt tæki enda með núverandi stjórnum jarðarinnar og þeim sem styðja þær. En takir þú rétta lífsstefnu gætu þau líka haft í för með sér fyrir þig eilíft líf og öryggi í jarðneskri paradís sem ríki Guðs viðheldur og stjórnar. Það getur orðið hlutskipti þitt ef þú styður drottinhollur stjórn Krists ásamt vottum Jehóva sem telja milljónir út um allan heiminn.