Hver fær umflúið ‚hörmungatíðina‘?
„Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ — JÓEL 3:5.
1. Hvað einkennir þá sem eiga í vændum hjálpræði í hinni komandi „hörmungatíð,“ að sögn Daníels og Malakí?
SPÁMAÐURINN Daníel horfði fram til okkar daga er hann skrifaði: „Það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ (Daníel 12:1) Þetta eru hughreystandi orð. Jehóva ætlar að muna eftir viðurkenndum þjónum sínum eins og Malakí 3:16 lýsir yfir: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða [„hugsa um,“ NW] hans nafn.“
2. Hvaða afleiðingar hefur það að hugsa um nafn Jehóva?
2 Það að hugsa um nafn Jehóva hefur í för með sér nákvæma þekkingu á honum, Kristi hans og öllum hinum stórkostlega tilgangi hans með ríkið. Þannig læra þjónar hans að bera lotningu fyrir honum, að stofna til náins vígslusambands við hann og að elska hann ‚af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti.‘ (Markús 12:33; Opinberunarbókin 4:11) Jehóva hefur af mikilli náð gert ráðstöfun, fyrir milligöngu fórnar Krists, til að auðmjúkir menn á jörðinni geti öðlast eilíft líf. Þess vegna geta þeir endurómað með trúartrausti orð hinna himnesku hersveita er lofuðu Guð þegar Jesús fæddist og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:14.
3. Hvaða verk Jehóva verður að eiga sér stað áður en friður getur orðið á jörðinni?
3 Þessi friður er nú nær en flestir halda. En fyrst verður að fullnægja dómi Jehóva á spilltum heimi. Spámaður hans, Sefanía, lýsir yfir: „Hinn mikli dagur [Jehóva] er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ Hvers konar dagur er það? Spádómurinn heldur áfram: „Heyr! Dagur [Jehóva]! Beisklega kveinar þá kappinn. Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta, dagur lúðra og herblásturs — gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum. Þá mun ég hræða mennina, svo að þeir ráfi eins og blindir menn, af því að þeir hafa syndgað gegn [Jehóva].“ — Sefanía 1:14-17; sjá einnig Habakkuk 2:3; 3:1-6, 16-19.
4. Hverjir þiggja núna boðið um að kynnast og þjóna Guði?
4 Til allrar hamingju svara milljónir manna nú á tímum boðinu um að koma til að kynnast og þjóna Guði. Spáð var um smurða kristna menn sem er gefin aðild að nýja sáttmálanum: „Þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir — segir [Jehóva].“ (Jeremía 31:34) Þeir hafa verið í fylkingarbrjósti í vitnisburðarstarfi nútímans. Og núna, eftir því sem fleiri og fleiri af hinum smurðu leifum ljúka jarðnesku lífi sínu, hefur hinn ‚mikli múgur‘ ‚annarra sauða‘ komið fram til að ‚veita Guði heilaga þjónustu dag og nótt‘ innan fyrirkomulags hans sem líkist musteri. (Opinberunarbókin 7:9, 15; Jóhannes 10:16) Ert þú einn þeirra sem nýtur þessara óviðjafnanlegu sérréttinda?
Hvernig þær „gersemar“ koma inn
5, 6. Hvaða björgunarverk á sér stað áður en allar þjóðir eru hrærðar til tortímingar?
5 Við skulum nú fletta upp í Haggaí 2:7 þar sem Jehóva spáir um andlegt tilbeiðsluhús sitt. Hann segir: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ Spádómar Biblíunnar sýna að átt er við það að Jehóva fullnægi dómi á þjóðunum þegar sagt er að ‚allar þjóðir verði hrærðar.‘ (Nahúm 1:5, 6; Opinberunarbókin 6:12-17) Þannig ná þær aðgerðir Jehóva, sem spáð er um í Haggaí 2:7, hámarki þegar þjóðirnar verða hrærðar til tortímingar — gereytt. En hvað um „gersemar allra þjóða“? Bíður það þessara eyðingarhræringa að þeim verði safnað saman? Tæplega.
6 Jóel 3:5 segir að „hver sem ákallar nafn [Jehóva] mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og [Jehóva] hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem [Jehóva] kallar.“ Jehóva kallar þá fram og þeir ákalla nafn hans í trú á fórn Jesú áður en þjóðirnar verða hrærðar til eyðingar í þrengingunni miklu. (Samanber Jóhannes 6:44; Postulasöguna 2:38, 39.) Til allrar hamingju kemur hinn dýrmæti mikli múgur, sem nú telur yfir fjórar milljónir, inn í tilbeiðsluhús Jehóva vegna þess að hann sér fram á að ‚allar þjóðir verði hrærðar‘ í Harmagedón. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14.
7. Hvað er fólgið í því að ‚ákalla nafn Jehóva?‘
7 Hvernig ákalla þeir sem lifa af nafn Jehóva? Jakobsbréfið 4:8 gefur okkur vísbendingu: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ Eins og hinar smurðu leifar sem vísuðu veginn, verða þeir sem vonast til að tilheyra þeim mikla múgi sem lifir af Harmagedón að vera einbeittir. Ef þú vonast til að lifa af verður þú að teyga djúpt af hreinsandi orði Jehóva og heimfæra réttláta staðla hans í lífi þínu. Þú verður að vera einbeittur í því að vígja líf þitt Jehóva og gefa tákn um það með vatnsskírn. Það að þú ákallar Jehóva í trú felur líka í sér að bera vitni um hann. Þannig skrifar Páll í Rómverjabréfinu 10. kafla, 9. og 10. versi: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn — og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“ Síðan, í 13. versi, vitnar postulinn í spádóm Jóels og leggur áherslu á að „hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“
‚Leitið, ástundið, ástundið‘
8. (a) Hvaða skilyrði setur Jehóva fyrir hjálpræði, að sögn spámannsins Sefanía? (b) Hvaða viðvörun er fólgin í orðunum „vera má“ í Sefanía 2:3?
8 Er við flettum upp hjá Sefanía í 2. kafla, 2. og 3. versi, lesum við hvers Jehóva krefst af þeim sem vilja öðlast hjálpræði: „Áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði [Jehóva] kemur yfir yður, áður en reiðidagur [Jehóva] kemur yfir yður. Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ Taktu eftir orðunum „vera má.“ Hér er ekki um það að ræða að vera ‚einu sinni hólpinn, alltaf hólpinn.‘ Það að verða falin á reiðidegi Jehóva er háð því að við höldum áfram að gera þetta þrennt: Við verðum að leita Jehóva, ástunda réttlæti og ástunda auðmýkt.
9. Hvernig er þeim sem ástunda auðmýkt umbunað?
9 Umbun þeirra sem ástunda auðmýkt er sannarlega stórkostleg! Í Sálmi 37, versi 9 til 11 lesum við: „Þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Og hvað um það að ástunda réttlæti? Vers 29 segir: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Um það að leita Jehóva segja 39. og 40. versið: „Hjálp réttlátra kemur frá [Jehóva], hann er hæli þeirra á neyðartímum. [Jehóva] liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.“
10. Hverjir af þeim sem neita að leita Jehóva og ástunda auðmýkt hafa vakið sérstaka athygli?
10 Sértrúarflokkar kristna heimsins hafa ekki leitað Jehóva. Klerkar þeirra neita jafnvel að viðurkenna nafn hans og sýna þá ofdirfsku að fella það niður í þýðingum sínum á Biblíunni. Þeir kjósa heldur að tilbiðja nafnlausan Drottin eða Guð og dýrka heiðna þrenningu. Og kristni heimurinn ástundar ekki heldur réttlæti. Margir af áhangendum hans taka upp eða beita sér fyrir undanlátssömum lífsstíl. Í stað þess að ástunda auðmýkt, eins og Jesús gerði, flíka þeir, til dæmis í sjónvarpi, óhófssömu og oft siðlausu líferni sínu. Klerkar fita sig á kostnað hjarðarinnar. Með orðum Jakobsbréfsins 5:5 hafa þeir „lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi.“ Er dagur Jehóva nálgast munu þeir örugglega finna rætast á sér hin innblásnu orð: „Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar.“ — Orðskviðirnir 11:4.
11. Hver er lögleysinginn og hvernig hefur hann bakað sér gríðarlega blóðskuld?
11 Á fyrstu öld okkar tímatals komust sumir kristnir menn í uppnám, eins og Páll postuli segir frá í síðara bréfi sínu til Þessaloníkumanna, því þeir héldu að ‚dagur Jehóva‘ væri þegar kominn yfir þá. En Páll varaði við því að fyrst yrði hið mikla fráhvarf að koma og „lögleysinginn“ að opinberast. (2. Þessaloníkubréf 2:1-3, neðanmáls) Núna, á 20. öldinni, gerum við okkur grein fyrir hve umfangsmikið fráhvarfið er og hve löglausir klerkar kristna heimsins eru í augum Guðs. Núna á síðustu dögum frá 1914 hafa klerkarnir bakað sér gríðarlega blóðskuld með því að styðja það að ‚smíðuð hafi verið sverð úr plógjárnum.‘ (Jóel 3:15) Þeir hafa líka haldið áfram að kenna falskar kenningar, svo sem um ódauðleika mannssálarinnar, hreinsunareld, kvalir í helvíti, barnaskírn, þrenningu og því um líkt. Hvar munu þeir standa þegar Jehóva fullnægir dómi sínum? Orðskviðirnir 19:5 segja: „Sá sem fer með lygar, kemst ekki undan.“
12. (a) Hverjir eru hinir mennsku ‚himnar‘ og ‚jörð‘ sem verður bráðlega eytt? (b) Hvað lærum við af komandi eyðingu þessa illa heims?
12 Í 2. Pétursbréfi 3:10 lesum við: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ Spilltum stjórnum, sem hafa tjaldað eins og himnar yfir mannkyninu, ásamt öllu því sem myndar hið hnignandi mannfélag nútímans, verður sópað burt af jörð Guðs. Framleiðendur og sölumenn dómsdagsvopna, svikahrappar, hræsnisfullir trúmenn og klerkar þeirra, þeir sem ýta undir siðspillingu, ofbeldi og glæpi — allir munu þeir hverfa. Þeir munu sópast burt á reiðidegi Jehóva. En Pétur bætir við þessum varnaðarorðum til kristinna manna í 11. og 12. versi: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“
Míkael lætur til skarar skríða
13, 14. Hver er sá sem hreinsar stjórn Jehóva af allri ákæru og hvernig hefur hann starfað frá 1914?
13 Hvernig getur nokkur komist af á ‚hörmungatíð‘ Jehóva? Sá sem Jehóva hefur tilnefnt til að sjá fyrir undankomu er erkiengillinn Míkael en nafn hans merkir „hver er Guði líkur?“ Það er því viðeigandi að hann sé sá sem helgar stjórn Jehóva, upphefur hann sem hinn eina sanna Guð og réttmætan drottinvald alls alheimsins.
14 Opinberunarbókin 12. kafli, vers 7 til 17 lýsa einstæðum atburðum í tengslum við ‚Drottins dag‘ frá 1914! (Opinberunarbókin 1:10) Erkiengillinn Míkael varpar hinum sviksama Satan niður af himnum til jarðar. Síðar, eins og lýst er í Opinberunarbókinni 19. kafla, versi 11 til 16 treður sá sem er kallaður „Trúr og Sannur“ „vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ Þessi volduga himneska stríðshetja er kölluð „Konungur konunga og Drottinn drottna.“ Loks, í Opinberunarbókinni 20. kafla, 1. og 2. versi, sjáum við mikinn engil kasta Satan í undirdjúpið og fjötra hann þar um þúsund ár. Augljóslega benda allir þessir ritningarstaðir til hans sem heldur á lofti drottinvaldi Jehóva, til Drottins Jesú Krists sem Jehóva setti í dýrðarhásæti sitt á himnum árið 1914.
15. Á hvaða séstakan hátt mun Míkael bráðlega „fram ganga“?
15 Míkael hefur ‚gengið fram,‘ eins og segir í Daníel 12:1, í þágu þjóna Jehóva æ síðan hann var settur í hásæti sem konungur árið 1914. En brátt mun Míkael „fram ganga“ í mjög sérstökum skilningi — sem fulltrúi Jehóva til að uppræta alla illsku af jörðinni og sem frelsari heimssamfélags þjóna Guðs. Hve mikil þessi „hörmungatíð“ mun verða má ráða af orðum Jesú í Matteusi 24:21, 22: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir daga styttir verða.“
16. Hvaða menn munu bjargast í þrengingunni miklu?
16 Við getum sannarlega glaðst yfir því að sumir menn komist af á þeim tíma! Ekki þó menn eins og hinir uppreisnargjörnu Gyðingar sem lokuðust inni í Jerúsalem árið 70 og voru sumir hverjir fluttir sem þrælar til Rómar. Þeir sem komast af á „endalokunum“ verða eins og kristni söfnuðurinn sem var búinn að flýja frá Jerúsalem þegar lokaumsátrið hófst. Þeir verða þjónar Guðs, hinn mikli múgur í milljónatali ásamt þeim sem kunna að vera eftir af hinum smurðu. (Daníel 12:4) Múgurinn mikli ‚kemur úr þrengingunni miklu.‘ Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem hann mynda „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Þeir iðkar trú á friðþægingarmátt hins úthellta blóðs Jesú og sýna þá trú með því að þjóna Guði í hollustu. Nú þegar breiðir Jehóva, hann „sem í hásætinu situr,“ verndartjald sitt yfir þá og lambið, Kristur Jesús, gætir þeirra og leiðir þá til vatnslinda lífsins. — Opinberunarbókin 7:14, 15.
17. Hvað er múgurinn mikli sérstaklega hvattur til að gera til að vera falinn á hinum komandi hörmungadegi?
17 Þegar hinn mikli múgur í milljónatali leitar Jehóva og ástundar réttlæti og auðmýkt má hann aldrei láta sinn fyrsta kærleika til sannleikans kólna. Hvað verður þú að gera ef þú ert einn af þessum sauðumlíku mönnum? Eins og segir í Kólossubréfinu 3. kafla, versi 5 til 14 verður þú að ‚afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans‘ algerlega. Leitaðu hjálpar Guðs til að ‚íklæðast hinum nýja persónuleika sem byggður er á nákvæmri þekkingu.‘ Í auðmýkt skaltu byggja upp og viðhalda kostgæfni í því að lofa Jehóva og kunngera öðrum dýrlegan tilgang hans. Þannig má vera að þú verðir falinn á ‚hörmungatíðinni,‘ á degi hinnar ‚brennandi reiði Jehóva.‘
18, 19. Á hvaða hátt er þolgæði orðið mjög mikilvæg forsenda hjálpræðis?
18 Þessi dagur er nálægur! Hann hraðar sér í áttina til okkar. Samansöfnun einstaklinga, sem mynda múginn mikla, hefur nú staðið í um það bil 57 ár. Margir þeirra hafa dáið og bíða upprisu sinnar. En við erum fullvissuð um það í spádómum Opinberunarbókarinnar að sem hópur muni múgurinn mikli koma út úr þrengingunni miklu sem kjarni ‚nýju jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 21:1) Verður þú þar? Það er hugsanlegt því að Jesús sagði í Matteusi 24:13: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“
19 Álagið, sem þjónar Jehóva verða fyrir í þessu gamla heimskerfi, getur aukist enn meir. Og þegar þrengingin mikla skellur á má vera að þú þurfir að þola erfiðleika. En haltu þér nærri Jehóva og skipulagi hans. Haltu vöku þinni! „Bíðið mín þess vegna — segir [Jehóva], — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.“ — Sefanía 3:8.
20. Hvað verðum við að gera eftir því sem hin mikla „hörmungatíð“ nálgast?
20 Okkur til verndar og uppörvunar hefur Jehóva af örlæti sínu séð þjónum sínum fyrir ‚hreinu tungumáli,‘ sem felur í sér hin dýrlega boðskap um hið komandi ríki hans, „svo að þær ákalli allar nafn [Jehóva] og þjóni honum einhuga.“ (Sefanía 3:9) Megum við, er hin mikla „hörmungatíð“ nálgast meir og meir, þjóna með kostgæfni og hjálpa öðrum auðmjúkum mönnum að ‚ákalla nafn Jehóva‘ til hjálpræðis.
Manst þú?
◻ Hvað verk Guðs verður undanfari friðar á jörðu?
◻ Hvað verðum við að gera til að frelsast, að sögn Jóels?
◻ Hvernig geta auðmjúkir menn, að sögn Sefanía, hlotið vernd fyrir brennandi reiði Jehóva?
◻ Hver er „lögleysinginn“ og hvernig hefur hann bakað sér gríðarlega blóðskuld?
◻ Hve mikilvæg forsenda hjálpræðis er þolgæði?