Spádómur Hósea er hjálp til að ganga með Guði
„Þeir munu fylgja Drottni.“ — HÓSEA 11:10.
1. Hvaða táknræna sjónleik er að finna í Hóseabók?
HEFURÐU gaman af áhrifamiklum sjónleikjum með heillandi persónum og spennandi söguþræði? Í Hóseabók er brugðið upp táknrænum sjónleik.a Hann fjallar um fjölskyldumál Hósea spámanns en þau eru síðan sett í samband við táknrænt hjónaband Jehóva við Ísraelsmenn sem byggðist á Móselögunum.
2. Hvað er vitað um Hósea?
2 Fyrsti kafli Hóseabókar lýsir vettvangi þessa sjónleiks. Hósea mun hafa búið í tíuættkvíslaríkinu Ísrael sem er einnig kallað Efraím eftir áhrifamestu ættkvíslinni. Hósea spáði í stjórnartíð síðustu sjö konunga Ísraels og Júdakonunganna Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía. (Hósea 1:1) Hann var því spámaður í að minnsta kosti 59 ár. Þótt Hóseabók hafi verið fullgerð skömmu eftir 745 f.Kr. á hún fullt erindi til okkar því að milljónir manna hafa tekið sömu stefnu og lýst er í bókinni: „Þeir munu fylgja Drottni.“ — Hósea 11:10.
Yfirlit
3, 4. Lýstu í stuttu máli efni 1. til 5. kafla hjá Hósea.
3 Stutt yfirlit yfir 1. til 5. kafla Hóseabókar ætti að gera okkur enn ákveðnari í að ganga með Guði með því að iðka trú og láta vilja hans ráða lífsstefnu okkar. Þótt íbúar Ísraelsríkis gerðust sekir um andlegan hórdóm ætlaði Guð að miskunna þeim ef þeir iðruðust. Meðferð Hósea á Gómer, eiginkonu sinni, var sýnidæmi um þetta. Eftir að hafa alið honum eitt barn virðist hún hafa eignast tvö óskilgetin börn. En Hósea tók aftur upp sambúð við hana, líkt og Jehóva var tilbúinn til að miskunna iðrandi Ísraelsmönnum. — Hósea 1:1–3:5.
4 Jehóva Guð hafði mál að kæra gegn Ísraelsmönnum vegna þess að í landinu var engin trúfesti, kærleikur né þekking á Guði. Hann ætlaði að gera upp sakirnar við skurðgoðadýrkendurna í Ísrael og við hina einþykku Júdamenn. Þegar að þeim þrengdi myndu þeir hins vegar leita Jehóva. — Hósea 4:1–5:15.
Framvinda sjónleiksins
5, 6. (a) Hve útbreiddur var hórdómur í tíuættkvíslaríkinu? (b) Af hverju á viðvörunin, sem Ísraelsmenn fengu, erindi til okkar?
5 Jehóva segir Hósea: „Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni.“ (Hósea 1:2) Hversu algengur var hórdómur í Ísrael? Biblían svarar: „Hórdómsandi hefir leitt þá [íbúa tíuættkvíslaríkisins] afvega, svo að þeir drýgja hór, ótrúir Guði sínum. . . . Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá. . . . Þeir [karlmennirnir] ganga sjálfir afsíðis með portkonum og fórna sláturfórnum með hofskækjum.“ — Hósea 4:12-14.
6 Hórdómur, bæði andlegur og bókstaflegur, var mjög útbreiddur í Ísrael. Jehóva ætlaði þar af leiðandi að „vitja“ Ísraelsmanna og krefja þá reikningsskapar gerða þeirra. (Hósea 1:4; 4:9) Þessi viðvörun á erindi til okkar vegna þess að Jehóva mun draga til ábyrgðar þá sem stunda siðlaust líferni og óhreina tilbeiðslu nú á dögum. En þeir sem ganga með Guði stunda hreina tilbeiðslu eftir mælikvarða hans, vitandi að „enginn frillulífismaður . . . á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs“. — Efesusbréfið 5:5; Jakobsbréfið 1:27.
7. Hvað táknaði hjónaband Hósea og Gómerar?
7 Gómer mun hafa verið hrein mey þegar Hósea gekk að eiga hana og hún var honum trú um þær mundir sem hún „fæddi honum son“. (Hósea 1:3) Þetta samsvarar því hvernig Guð gerði sáttmála við Ísraelsmenn sem var eins og sáttmáli um hreint hjónaband. Það var árið 1513 f.Kr., skömmu eftir að hann frelsaði þá úr ánauðinni í Egyptalandi. Með því að gangast undir sáttmálann hétu Ísraelsmenn að vera trúir Jehóva sem var eins og „eiginmaður“ þjóðarinnar. (Jesaja 54:5) Hreint hjónaband Hósea og Gómerar samsvaraði táknrænu hjónabandi Guðs og Ísraels. En það entist ekki lengi.
8. Hvernig varð tíuættkvíslaríkið Ísrael til og hvað er hægt að segja um guðsdýrkunina sem fór þar fram?
8 Eiginkona Hósea „varð aftur þunguð og ól dóttur“. Þessi dóttir og annað barn, sem hún átti síðar, voru sennilega hórgetin. (Hósea 1:6, 8) Þér er kannski spurn hvernig Ísrael, sem Gómer táknaði, hafi lagst í skækjulifnað. Tíu af ættkvíslunum slitu sambandi við Júda- og Benjamínsættkvísl árið 997 f.Kr. Kálfadýrkun var tekin upp í þessu tíuættkvíslaríki til að koma í veg fyrir að fólk færi suður til Júda til að tilbiðja Jehóva í musterinu í Jerúsalem. Dýrkun á falsguðinum Baal festi djúpar rætur en hún var meðal annars fólgin í kynsvalli.
9. Hvernig fór fyrir Ísrael eins og boðað var í Hósea 1:6?
9 Eftir að Gómer hafði fætt annað barnið, sem var líklega hórgetið, sagði Guð Hósea: „Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim“. (Hósea 1:6) Jehóva lét Assýringa flytja Ísraelsmenn í útlegð árið 740 f.Kr. en miskunnaði tveggjaættkvíslaríkinu og frelsaði það. Það var ekki gert með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum. (Hósea 1:7) Árið 732 f.Kr banaði einn engill 185.000 assýrskum hermönnum á einni nóttu þegar þeir ógnuðu Jerúsalem, höfuðborg Júda. — 2. Konungabók 19:35.
Mál Jehóva gegn Ísrael
10. Hvað táknaði siðlaust líferni Gómerar?
10 Gómer fór frá Hósea, gerðist ‚hórkona‘ og tók upp sambúð við annan mann. Þetta lýsir því hvernig Ísraelsríkið gerði pólitísk bandalög við þjóðir sem dýrkuðu skurðgoð og tók að treysta á þau. Ísraelsmenn þökkuðu ekki Jehóva velmegun sína heldur guðum þessara þjóða, og þeir rufu hjúskaparsáttmálann við Guð með því að stunda falska guðsdýrkun. Jehóva hafði eðlilega mál að sækja á hendur þessari andlega hórsömu þjóð. — Hósea 1:2; 2:2, 12, 13.
11. Hvað varð um lagasáttmálann þegar Jehóva leyfði að farið væri með Ísraelsmenn og Júdamenn í útlegð?
11 Hvaða refsingu hlutu Ísraelsmenn fyrir að yfirgefa eiginmann sinn? Assýríumenn höfðu flutt Ísraelsmenn í útlegð árið 740 f.Kr. eins og áður er getið en nú leiddi Guð þá „út í eyðimörk“ Babýlonar þegar Babýlon lagði Assýríu undir sig. (Hósea 2:14) En þótt Jehóva hafi látið tíuættkvíslaríkið líða undir lok felldi hann ekki úr gildi hjúskaparsáttmálann við ættkvíslirnar 12 sem mynduðu Ísraelsþjóðina í upphafi. Þegar hann lét Babýloníumenn eyða Jerúsalem árið 607 f.Kr. og leyfði þeim að flytja Júdamenn í útlegð felldi hann ekki úr gildi lagasáttmála Móse, hinn táknræna hjúskaparsáttmála milli sín og þjóðarinnar. Þetta samband tók ekki enda fyrr en leiðtogar Gyðinga höfðu hafnað Jesú Kristi og látið taka hann af lífi árið 33. — Kólossubréfið 2:14.
Jehóva áminnir Ísrael
12, 13. Lýstu inntakinu í Hósea 2:6-8 og skýrðu hvernig versin rættust á Ísrael.
12 Guð hvatti Ísraelsmenn til að ‚fjarlægja hórdóm sinn‘ en þá langaði hins vegar til að ‚elta friðla sína‘. (Hósea 2:2, 5) „Fyrir því vil ég girða fyrir veg hennar með þyrnum,“ segir Jehóva, „og hlaða vegg fyrir hana, til þess að hún finni ekki stigu sína. Og þegar hún þá eltir friðla sína, skal hún ekki ná þeim, og er hún leitar þeirra, skal hún ekki finna þá, heldur mun hún segja: ‚Ég vil fara og snúa aftur til míns fyrra manns, því að þá leið mér betur en nú.‘ Hún veit þá ekki, að það er ég, sem hefi gefið henni kornið og vínberjalöginn og olífuolíuna og veitt henni gnótt silfurs og gulls, en þeir hafa varið því handa Baal.“ — Hósea 2:6-8.
13 Þótt Ísraelsmenn leituðu hjálpar þjóðanna, sem höfðu verið ‚friðlar‘ þeirra, gat engin þeirra lagt þeim lið. Það var eins og girt væri kringum þá með þykku þyrnigerði þannig að þjóðirnar komu engri hjálp við. Höfuðborgin Samaría féll árið 740 f.Kr. eftir að Assýringar höfðu setið um hana í þrjú ár, og tíuættkvíslaríkið var aldrei endurreist. Einungis sumir af hinum herteknu Ísraelsmönnum myndu gera sér grein fyrir því hve forfeður þeirra hefðu haft það gott meðan þeir þjónuðu Jehóva. Þessi fámenni hópur átti eftir að hafna Baalsdýrkun og leitast við að endurnýja sáttmálasambandið við Jehóva.
Litið nánar á sjónleikinn
14. Hvernig bar það til að Hósea tók aftur upp sambúð við Gómer?
14 Lítum á Hósea 3:1 til að glöggva okkur betur á tengslunum milli hjúskaparmála Hósea og sambandi Ísraels við Jehóva. Þar stendur: „Drottinn sagði við mig: ‚Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá.‘“ Hósea gerði eins og fyrir hann var lagt með því að leysa Gómer frá manninum sem hún hafði búið með. Síðan áminnir Hósea konu sína stranglega: „Langan tíma skalt þú sitja ein án þess að drýgja hór og án þess að heyra nokkrum manni til.“ (Hósea 3:2, 3) Gómer tekur öguninni og Hósea tekur aftur upp eðlilega sambúð við hana. Hvernig á þetta við um samskipti Guðs við Ísraels- og Júdamenn?
15, 16. (a) Undir hvaða kringumstæðum gat þjóð Guðs hlotið miskunn hans? (b) Hvernig hefur Hósea 2:18 ræst?
15 Guð lét spámenn sína „hughreysta“ Ísraels- og Júdamenn meðan þeir voru í útlegð í Babýlon. Til að hljóta miskunn urðu þeir að sýna iðrun og snúa aftur til Jehóva, eiginmanns síns, líkt og Gómer hafði snúið aftur til Hósea. Eftir að hafa agað þjóð sína myndi Jehóva flytja hana úr „eyðimörk“ Babýlonar og fara með hana aftur heim til Júda og Jerúsalem. (Hósea 2:14, 15) Hann efndi þetta loforð árið 537 f.Kr.
16 Guð efndi einnig eftirfarandi loforð: „Á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.“ (Hósea 2:18) Hinn fámenni hópur Gyðinga, sem sneri heim til Ísraels, bjó öruggur og þurfti ekki að óttast villidýr. Spádómurinn rættist einnig árið 1919 þegar þeir sem eftir voru af andlegum Ísraelsmönnum voru frelsaðir úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Þeir búa nú öruggir í andlegri paradís ásamt félögum sínum sem vonast eftir eilífu lífi á jörð. Engin dýrsleg einkenni fyrirfinnast meðal þessara sannkristnu manna. — Opinberunarbókin 14:8; Jesaja 11:6-9; Galatabréfið 6:16.
Tökum boðskapinn til okkar
17-19. (a) Hvaða eiginleikum Guðs erum við hvött til að líkja eftir? (b) Hvaða áhrif ætti miskunn og umhyggja Jehóva að hafa á okkur?
17 Guð er brjóstgóður og miskunnsamur. Við skulum vera það líka. Þetta er eitt af því sem læra má af fyrstu köflum Hóseabókar. (Hósea 1:6, 7; 2:23) Að Guð skyldi vera fús til að sýna iðrandi Ísraelsmönnum miskunn er í samræmi við hinn innblásna orðskvið: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“ (Orðskviðirnir 28:13) Það sem segir í Sálmi 51:19 er einnig hughreystandi fyrir iðrandi syndara: „Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“
18 Spádómur Hósea leggur áherslu á að við eigum okkur brjóstgóðan og miskunnsaman Guð. Jafnvel þótt einhverjir villist út af vegi réttlætisins geta þeir iðrast og snúið við. ‚Hinn heilagi í Ísrael‘ tekur þeim opnum örmum ef þeir gera það. Hann miskunnaði iðrandi Ísraelsmönnum. Þjóðin, sem hann hafði gengið að eiga í táknrænum skilningi, hafði óhlýðnast honum og móðgað hann en hann var miskunnsamur og „minntist þess, að þeir voru hold“. (Sálmur 78:38-41) Miskunn Jehóva og umhyggja ætti að hvetja okkur til að halda áfram að ganga með honum.
19 Jehóva ‚hughreysti‘ Ísraelsmenn þó að syndir eins og morð, þjófnaður og framhjáhald væru algengar meðal þeirra. (Hósea 2:14; 4:2) Miskunn hans og umhyggja ætti að snerta hjörtu okkar og styrkja sambandið við hann. Við skulum því spyrja okkur hvernig við getum líkt betur eftir miskunn hans og umhyggju í samskiptum við aðra. Erum við reiðubúin til að líkja eftir Guði og fyrirgefa trúsystkini sem gerir á hlut okkar en biðst síðan fyrirgefningar? — Sálmur 86:5.
20. Nefndu dæmi sem sýnir að við getum treyst voninni sem Guð veitir okkur.
20 Guð veitir sanna von. Hann lofaði til dæmis: „Ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal [„Akórsdal,“ Biblían 1859] að Vonarhliði.“ (Hósea 2:15) Þjóð Jehóva til forna átti örugga von um að fá að snúa aftur til heimalands síns en þar var „Akórsdalur“. Jehóva efndi þetta loforð árið 537 f.Kr. þannig að við getum fagnað í hinni öruggu von sem hann veitir okkur.
21. Hvernig stuðlar þekking að því að við göngum með Guði?
21 Til að ganga með Guði þurfum við að halda áfram að fræðast um hann og fara eftir því sem við lærum. Þekking á Guði var sáralítil í Ísrael. (Hósea 4:1, 6) Sumir kunnu þó vel að meta kennslu Guðs, lifðu í samræmi við hana og hlutu mikla blessun fyrir. Hósea var einn þeirra, svo og þeir 7000 sem höfðu ekki beygt sig fyrir Baal á dögum Elía. (1. Konungabók 19:18; Rómverjabréfið 11:1-4) Ef við kunnum að meta kennsluna frá Guði hjálpar hún okkur að halda áfram að ganga með honum. — Sálmur 119:66; Jesaja 30:20, 21.
22. Hvernig ber að líta á fráhvarf?
22 Jehóva ætlast til þess að þeir sem fara með forystuna meðal þjóna hans hafni fráhvarfshugmyndum. Hins vegar segir í Hósea 5:1: „Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor.“ Leiðtogar, sem voru orðnir fráhvarfsmenn, voru eins og snara og net fyrir Ísraelsmenn og drógu þá út í skurðgoðadýrkun. Taborfjall og Mispa voru líklega miðstöðvar slíkrar tilbeiðslu.
23. Hvaða gagn hefurðu haft af því að skoða 1. til 5. kafla hjá Hósea?
23 Spádómur Hósea hefur sýnt okkur fram á að Jehóva er miskunnsamur Guð. Hann veitir von og blessar þá sem fara eftir fræðslu hans og hafna fráhvarfshugmyndum. Við skulum því leita Jehóva eins og iðrandi Ísraelsmenn forðum daga og gera okkur alltaf far um að þóknast honum. (Hósea 5:15) Þá hljótum við margs konar gæði og frið samfara óviðjafnanlegri gleði en hún er hlutskipti allra sem ganga með Guði í trúfesti. — Sálmur 100:2; Filippíbréfið 4:6, 7.
[Neðanmáls]
a Í Galatabréfinu 4:21-26 er sagt frá öðrum táknrænum sjónleik. Nánar er fjallað um hann í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 693-94. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
Hverju svarar þú?
• Hvað táknar hjónaband Hósea og Gómerar?
• Af hverju hafði Jehóva mál að kæra á hendur Ísraelsmönnum?
• Hvað þykir þér merkilegasti lærdómurinn sem draga má af 1. til 5. kafla hjá Hósea?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Veistu hvað eiginkona Hósea táknar?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Assýríumenn sigruðu íbúa Samaríu árið 740 f.Kr.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Fagnandi þjóð snýr heim á ný.