Lærdómur frá Ritningunni: Jóel 1:1-3:26
Ákallið nafn Jehóva og komist undan heil á húfi!
„EF plágan fer úr böndum breiðist hún til Austur-Afríku og Austurlanda nær. Það gæti haft í för með sér miklar hörmungar.“ Þetta sagði embættismaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um hin óseðjandi skorkvikindi sem nýverið héldu innreið sína í Norðvestur-Afríku milljónum saman — engispretturnar.
Jóel, spámaður Guðs, talaði árið 820 f.o.t. um svipaða plágu. Með líflegu orðfæri, sem á engan sinn líka í nákvæmni og raunsæi, lýsti hann hvernig Júda yrði lagt í eyði í skordýraárás. Sú plága var þó fyrirmynd annars sem var langtum þýðingarmeira en vistkreppa. Hún var boðberi ‚dags Jehóva‘! Kynslóð okkar stendur frammi fyrir þessum ‚mikla og ógurlega degi‘ og öllu eyðingarafli hans. Hvaða von er um björgun? Og hvaða lærdóma getum við dregið af spádómsbók Jóels?
Ógnvekjandi skordýrainnrás
Iðrun er nauðsynleg ef við viljum bjargast á hinum mikla og ógurlega degi Jehóva. Með augum Jóels sjáum við ógæfuna sem verður þegar mikill sægur fiðrildalifra, engisprettna og kakkalakka eyðir gróðrinum. Prestar, öldungar og aðrir Júdamenn eru hvattir til að iðrast og ‚hrópa til Jehóva‘ um hjálp. Forðabúrin standa auð og kornhlöðurnar eru rifnar af því að engar afurðir eru í þeim. Húsdýrin eigra ráðvillt um og leita árangurslaust að bithaga. Hvílíkur eyðingardagur af hendi hins Almáttka! — 1:1-20.
Nálægð dags Jehóva ætti að koma okkur öllum til að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni. (2. Pétursbréf 3:10-12) Jóel hjálpar okkur að sjá hann sem dag myrkurs, skýja og drunga. Engispretturnar eru ógnvekjandi fyrirboði þessa dags. Í kjölfar þeirra var Edenlíkt land Júda að óbyggilegu eyðilandi. Hljóðið í engisprettunum er líka uggvænlegt því að það líkist einna helst hljóðinu í stríðsvagni og hljóðinu í ofsafengnum eldi sem eyðir kornleggjum. Þegar engispretturnar sækja fram líkjast þær ‚voldugri þjóð sem búin er til bardaga.‘ Þær klífa veggi, ryðjast inn í borgir og fara inn í hýbýli. Jafnvel sólin, tunglið og stjörnurnar myrkvast meðan hinn ‚ógurlegi dagur Jehóva‘ stendur yfir. — 2:1-11.
Leiðin til björgunar
Til að bjargast verðum við að viðurkenna að ‚Jehóva er Guð og enginn annar.‘ ‚Snúið yður nú til mín af öllu hjarta,‘ ráðleggur Jehóva. Ungir sem aldnir eru hvattir til að safnast saman til hátíðarstefnu til að grátbæna Guð um náð. Guð mun sýna meðaumkun, bæta þeim upp eyðingu skordýranna og blessa þjóð sína með allsnægtum. Þeir sem viðurkenna stöðu Jehóva sem hins eina, sanna Guðs og uppsprettu hjálpræðis munu ekki verða til skammar. — 2:12-27.
Hjálpræði okkar veltur einnig á því að við áköllum nafn Jehóva í trú. Áður en ‚hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva‘ rennur upp mun Guð ‚úthella anda sínum yfir allt hold.‘ Ungir og gamlir, karlar og konur munu spá. Á þann hátt munu margir komast að raun um að „hver sem ákallar nafn [Jehóva] mun frelsast.“ — 3:1-5.
Þjóðirnar dæmdar
Jehóva mun bjarga trúföstum þjónum sínum þegar hann fullnægir dómi á þjóðunum. (Samanber Esekíel 38:18-23; Opinberunarbókina 16:14-16.) Týrus, Sídon og Filistea verða að gjalda þess að hafa leikið þjóð Guðs grátt og selt hana í ánauð. Jehóva mun leiða aftur heim hina herteknu Júda- og Jerúsalembúa og hann ögrar óvinum sínum með þessum orðum: „Búið yður í heilagt stríð!“ En þeir eru enginn jafnoki Guðs sem fullnægir dómi á þeim í hinum táknræna „Jósafatsdal.“ Þótt himinn og jörð muni nötra verður Jehóva hæli þjónum sínum. Trúfastir menn munu lifa af dóm hans yfir þjóðunum og hljóta líf við paradísarástand. — 3:6-24.
Lærdómur fyrir okkur: Iðrunar er krafist áður en maður getur bjargast á hinum ógurlega degi Jehóva. Nálægð þess dags ætti að knýja okkur til heilagrar breytni og guðrækni. Að sjálfsögðu er hjálpræði okkar undir því komið að við viðurkennum að Jehóva einn er Guð. Og ef við áköllum nafn hans í trú mun hann bjarga okkur þegar hann fullnægir dómi yfir þjóðunum.
Spádómur Jóels gefur okkur margt fleira til umhugsunar. ‚Hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva‘ er yfirvofandi! Vara þarf mannkynið við. Líkt og engispretturnar í spádómi Jóels leggja vottar Jehóva kristna heiminn í eyði með því að afhjúpa vægðarlaust andlega ófrjósemi hans. Það vekur upp reiði og andstöðu leiðtoga hans, en þótt þeir reyni að reisa múra til að tálma engisprettunum táknrænu er það til einskis. Jehóva hefur úthellt anda sínum yfir þjóna sína og gert þá albúna til að boða dóma hans. Þess vegna skulum við, á þeim skamma tíma sem eftir er fram að hinum ógurlega degi Guðs, eiga sem fyllstan þátt í að hjálpa öðrum að ‚ákalla nafn Jehóva til að þeir komist undan heilir á húfi.
[Rammi á blaðsíðu 18]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ 1:2 — Jóel ávarpaði ‚öldungana‘ sem höfðu afvegaleitt þjóðina. Með því að „íbúar landsins“ höfðu fylgt rangri forystu þeirra þurftu þeir líka að svara til saka frammi fyrir Jehóva. Trúarleiðtogar kristna heimsins nú á dögum hafa á sama hátt afvegaleitt hjarðir sínar. Líkt og Jóel hafa vottar Jehóva oftsinnis sent klerkastéttinni boðskap. Samt sem áður þarf að boða fólki almennt orð Guðs því að það þarf líka að standa Jehóva reikningsskap gerða sinna. — Jesaja 9:15-17; Rómverjabréfið 14:12.
○ 2:1-10; 3:1 — Ísraelsmenn voru varaðir við því að engisprettur og önnur kvikindi myndu éta uppskeru þeirra ef þeir óhlýðnuðust Guði. (5. Mósebók 28:38-45) Þar eð Ritningin greinir ekki frá skordýraárás á Kanaanland í þeim mæli sem Jóel getur er bersýnilega verið að tala um táknræna plágu. Spádómurinn byrjaði greinilega að uppfyllast á hvítasunnunni árið 33 þegar Jehóva byrjaði að ‚úthella anda sínum‘ yfir fylgjendur Jesú sem kvöldu áhangendur falskra trúarbragða með boðskapnum sem Guð gaf þeim. (Postulasagan 2:1, 14-21; 5:27-29) Vottar Jehóva vinna nú svipað eyðingarstarf.
○ 2:12, 13 — Til forna rifu menn klæði sín til tákns um sorg. (1. Mósebók 37:29, 30; 44:13) Það var einnig hægt að gera í óeinlægni, hræsnisfullt. Jóel sýndi fram á að ytri sorgartákn nægðu ekki. Menn þyrftu að ‚sundurrífa hjörtu sín‘ með því að sýna iðrun er næði til hjartans.
○ 3:4, 5 — Jehóva leyfði trúföstum mönnum að komast undan á dögum Jóels. Núna, á ‚síðustu dögum,‘ opnar Guð mönnum leið til hjálpræðis fyrir milligöngu Jesú Krists. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Rómverjabréfið 5:8, 12; 6:23) Það er þó nafn Jehóva sem syndugir menn verða að ákalla sér til eilífs hjálpræðis. Það felur í sér að þekkja nafn Guðs, sýna því fulla virðingu og reiða sig fullkomlega á þann sem ber það. Þeir sem þannig ákalla nafn Jehóva í trú ‚munu frelsast‘ þegar Guð fullnægir dómi sínum yfir þjóðunum á hinum ‚mikla og ógurlega degi‘ sínum. — Sefanía 2:2, 3; 3:12; Rómverjabréfið 10:11-13.
○ 3:7, 19 — Hinn táknræni staður, þar sem dómi Guðs á ‚degi Jehóva‘ er fullnægt, er kallaður ‚dómsdalurinn.‘ Hann er einnig nefndur ‚Jósafatsdalur.‘ Það er viðeigandi því að nafnið Jósafat merkir „Jehóva er dómari.“ Í stjórnartíð Jósafats konungs frelsaði Guð Júda og Jerúsalem undan her Móabíta, Ammoníta og Seírfjallabúa með því að láta verða ringulreið meðal þeirra þannig að þeir drápu hver annan. (2. Kroníkubók 20:1-30) Á okkar dögum þjónar ‚Jósafatsdalur‘ sem táknræn vínþröng þar sem þjóðirnar eru kramdar eins og vínber fyrir þá sök að hafa farið illa með þjóna Jehóva.
○ 3:11 — Týrus, Sídon og Filistea voru sek um að hafa selt Íónum eða Grikkjum Júda- og Jerúsalembúa. Hugsanlegt er að sumir Gyðingar, sem aðrar þjóðir tóku herskildi, hafi komist í hendur týrverskra, sídónskra og filistískra þrælasala. Enn verra var að þessar þjóðir hnepptu kannski Gyðinga, sem leituðu hælis fyrir óvinum sínum, í þrælkun. Hvernig svo sem til háttaði lét Guð slíka þrælasala svara til saka fyrir illa meðferð á þjónum sínum. Það gefur til kynna hvað bíður þeirra þjóða sem ofsækja þjóna Jehóva nú á dögum.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 19]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.