Hin meiri dýrð húss Jehóva
„Ég mun fylla hús þetta dýrð — segir [Jehóva] allsherjar.“ — HAGGAÍ 2:7.
1. Hvernig er heilagur andi tengdur trú og verkum?
VOTTUR Jehóva var að prédika hús úr húsi þegar hann hitti hvítasunnukonu sem sagði: ‚Við höfum heilagan anda en þið vinnið verkið.‘ Votturinn útskýrði háttvíslega fyrir henni að sá sem hefði heilagan anda fyndi eðlilega löngun hjá sér til að vinna verk Guðs. Jakobsbréfið 2:17 segir: „Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ Með hjálp anda Jehóva hafa vottar hans ræktað með sér sterka trú, og hann hefur ‚fyllt hús sitt dýrð‘ með því að láta þá vinna réttlát verk — einkum að ‚prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.‘ Þegar þessu verki er lokið í þeim mæli sem Jehóva vill, „þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
2. (a) Hvaða blessun fylgir því að sökkva sér niður í starf Jehóva? (b) Hvers vegna ætti sérhver ‚dráttur,‘ sem svo virðist, að vera okkur gleðiefni?
2 Af þessum orðum Jesú sést að við þurfum að einbeita okkur að því að prédika fyrir öðrum ‚fagnaðarerindið um dýrð hins sæla Guðs‘ sem okkur er trúað fyrir. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Því meir sem við sökkvum okkur glöð niður í þjónustu Jehóva, þeim mun fyrr virðist endirinn koma. Í Habakkuk 2:2, 3 lesum við orð Jehóva: „Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust. Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ Já, „vitrunin“ rætist jafnvel „þótt hún dragist.“ Sumum finnst kannski að vitrunin sé farin að dragast núna, á 83. stjórnarári Jesú. En ættum við samt ekki að fagna því að endirinn skuli ekki enn vera kominn? Eins og fyrir kraftaverk hefur hömlum verið létt af prédikunarstarfinu núna á tíunda áratugnum í Austur-Evrópu, Afríku og víðar. Sá ‚dráttur,‘ sem kann að virðast hafa orðið, gefur okkur tíma til að safna mörgum ‚sauðum‘ til viðbótar á þessum svæðum þar sem prédikunarstarfið hefur verið leyft nú nýverið. — Jóhannes 10:16.
3. Hvers vegna ætti endurbættur skilningur okkar á ‚þessari kynslóð‘ að örva okkur til að vera kappsöm í starfi Guðs?
3 „Hún mun . . . ekki undan líða,“ segir spámaðurinn. Jesús sagði að núverandi ill kynslóð myndi ekki líða undir lok uns ‚allt þetta væri komið fram.‘ (Matteus 24:34) Þýðir endurbættur skilningur okkar á orðum hans að prédikunarstarfið sé ekkert sérlega áríðandi?a Staðreyndirnar sýna hið gagnstæða! Kynslóð okkar er að steypast út í vonsku og spillingu sem á sér hvergi hliðstæðu í mannkynssögunni. (Samanber Postulasöguna 2:40.) Við ættum að vinna verk okkar af kappi. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Allir spádómar um tímasetningu þrengingarinnar miklu sýna að hún kemur skyndilega, snögglega og óvænt — líkt og þjófur. (1. Þessaloníkubréf 5:1-4; Opinberunarbókin 3:3; 16:15) „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:44) Þessi guðlausa kynslóð rambar á barmi tortímingar og við ættum sannarlega ekki að vilja kasta frá okkur hinni dýrmætu von um eilíft líf með því að fara aftur að ‚velta okkur í saur‘ veraldlegrar afþreyingar. — 2. Pétursbréf 2:22; 3:10; Lúkas 21:32-36.
4. Hvaða staða hefur kallað á aukinn „mat á réttum tíma“ og hvernig hefur þessari þörf verið fullnægt?
4 Eins og Jesús spáði var „upphaf fæðingarhríðanna“ árið 1914 þegar ‚endalokatími veraldar‘ gekk í garð. Sorgir, hamfarir og lögleysa hafa magnast og margfaldast allt fram á þennan dag. (Matteus 24:3-8, 12) Samtímis hefur Jehóva falið hinum smurða, trúa og hyggna þjónshópi að veita hjúum meistara hans, Krists, andlegan „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47) Frá hásæti sínu á himnum stýrir þessi Messíasarkonungur nú stórkostlegri, andlegri fræðsluáætlun um heim allan.
Ríkulegur ‚skammtur‘
5. Hvaða athygli fær aðalrétturinn á ‚matseðlinum‘?
5 Lítum nánar á tilreiðslu ‚skammtsins‘ eða matarbirgðanna. (Lúkas 12:42) Orð Guðs, Biblían, er aðalrétturinn á matseðli kristins manns. Auðlesin og nákvæm þýðing er mikilvæg til að hægt sé að kenna Biblíuna á áhrifaríkan hátt. Með árunum hefur þessari þörf verið fullnægt jafnt og þétt, einkum frá 1950 þegar Nýheimsþýðing kristnu Grísku ritninganna kom út á ensku. Árið 1961 var Nýheimsþýðing allrar Biblíunnar fáanleg á ensku og fljótlega var hún gefin út á öðrum helstu tungumálum heims. Með þeim 3 tungumálum, sem bættust við á þjónustuárinu 1996, er Nýheimsþýðingin komin út á 27 tungumálum, þar af í heild sinni á 14 tungumálum. Alls vinna 1174 vígðir kristnir menn í fullu starfi í 77 löndum í þeim tilgangi að annast þýðingu Biblíunnar og hjálpargagna til biblíunáms.
6. Hvernig hefur Félagið svarað þörfinni fyrir biblíurit?
6 Starfræktar eru prentsmiðjur við 24 útibú Varðturnsfélagsins, og þær fylgja starfi þessa þýðendahers eftir með sívaxandi framleiðslu rita. Haldið er áfram að bæta við afkastamiklum hverfiprentvélum við helstu útibúin til að anna eftirspurn. Upplag Varðturnsins og Vaknið! hefur vaxið frá mánuði til mánaðar og nemur nú alls 943.892.500 eintökum á ári sem er 13,4 prósenta aukning á ársgrundvelli. Heildarútgáfa biblía og bóka í hörðu bandi í Bandaríkjunum, Brasilíu, Finnlandi, Ítalíu, Japan, Kóreu, Mexíkó og Þýskalandi jókst um 40 prósent milli ára og nam alls 76.760.098 eintökum árið 1996. Önnur útibú hafa einnig átt verulegan þátt í aukinni bókaframleiðslu.
7. Hvernig ómar Jesaja 54:2 með vaxandi áhersluþunga núna?
7 Þessi aukning stafar að verulegu leyti af því að hömlum hefur verið létt af starfi votta Jehóva í Austur-Evrópu og Afríku á þessum áratug. Þar er mikið hungur eftir andlegri fæðu. Þess vegna ómar kallið með vaxandi áhersluþunga: „Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.“ — Jesaja 54:2.
8. Hvernig stendur örlæti bræðranna undir fjárþörfinni?
8 Það hefur því þurft að stækka húsnæði margra af hinum 104 útibúum Félagsins. Erfitt efnahagsástand á flestum þeirra svæða, þar sem bönnum hefur verið aflétt, veldur því að framlög til alþjóðastarfsins í hinum efnameiri löndum þurfa að verulegu leyti að standa undir kostnaðinum við þessar viðbætur. Sem betur fer hafa söfnuðir og einstaklingar brugðist við af heilum hug í anda 2. Mósebókar 35:21: „Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu [Jehóva] gjafir.“ Við notum þetta tækifæri til að þakka öllum sem hafa gefið af örlæti sínu. — 2. Korintubréf 9:11.
9. Hvernig er Rómverjabréfið 10:13, 18 að uppfyllast núna?
9 Rit Varðturnsfélagsins hafa vissulega vegsamað nafn Jehóva og tilgang til endimarka jarðar á árinu 1996 eins og Páll postuli sagði fyrir. Hann vitnaði í spádóm Jóels og í 19. sálminn og skrifaði: „‚Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘ En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, ‚raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.‘“ (Rómverjabréfið 10:13, 18) Með því að lofsyngja þannig hið dýrmæta nafn Jehóva hefur fólk hans gegnt þýðingarmiklu hlutverki í að fylla tilbeiðsluhús hans dýrð. En hvernig hefur þetta boðunarstarf dafnað, sérstaklega á árinu 1996? Kynntu þér ársskýrsluna á blaðsíðu 18-21.
Uppskerustarf um heim allan
10. Hvað stendur upp úr í starfi fólks Jehóva samkvæmt ársskýrslunni á blaðsíðu 18 til 21?
10 Orð Jesú í Lúkasi 10:2 hafa aldrei verið þýðingarmeiri: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Svarar þú þessu kalli? Milljónir manna um heim allan gera það. Það má sjá af nýju hámarki 5.413.769 boðbera Guðsríkis sem gáfu skýrslu um boðunarstarf árið 1996. Og 366.579 nýir bræður og systur létu skírast. Við kunnum sannarlega að meta þessar „gersemar allra þjóða“ sem eiga nú þátt í að ‚fylla tilbeiðsluhús Jehóva dýrð.‘ — Haggaí 2:7.
11. Hvers vegna höfum við öll ástæðu til að vera himinlifandi?
11 Fréttirnar af aukningunni á þeim svæðum, sem hafa opnast nýlega, eru hreint ótrúlegar. Öfundum við þá sem búa við slíka aukningu? Nei, þvert á móti gleðjumst við með þeim. Öll lönd áttu sína litlu byrjun. Sakaría, samtíðarspámaður Haggaí, talaði um að ekki mætti ‚lítilsvirða þessa litlu byrjun.‘ (Sakaría 4:10) Við erum himinlifandi yfir því að boðberar Guðsríkis skuli nú skipta milljónum í löndum þar sem boðunarstarfið á sér langa sögu, og að farið sé oft yfir svæðið, jafnvel vikulega í mörgum stórborgum. Höfum við ástæðu til að slá slöku við núna meðan Jehóva býður þeim tækifæri til hjálpræðis sem áður voru verr settir? Alls ekki! „Akurinn er heimurinn,“ sagði Jesús. (Matteus 13:38) Það þarf að halda áfram að bera rækilega vitni, alveg eins og lærisveinarnir á fyrstu öld báru rækilega vitni við endalok gyðingakerfisins. — Postulasagan 2:40; 10:42; 20:24; 28:23.
Sótt fram án afláts
12. Hvaða hvatningu höfum við til að stefna „beint af augum fram“? (Sjá einnig rammagreinina „Uppskorið ‚frá endimörkum jarðarinnar.‘“)
12 Já, við verðum að halda góðum hraða „beint af augum fram“ með himneskum stríðsvagni Jehóva. (Esekíel 1:12) Við höfum í huga orð Péturs: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Við skulum láta hrósunarverða kostgæfni bræðranna í löndum með bágan fjárhag vera okkur hvatningu. Með hverri töf, sem virðist vera á því að Harmagedónstríðið brjótist út, býðst hundruðum þúsunda manna í þessum löndum og einnig á mörgum vel störfuðum svæðum, tækifæri til að sameinast skipulagi Guðs. Það er engum blöðum um að fletta að „hinn mikli dagur [Jehóva] er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ (Sefanía 1:14) Við ættum líka að hraða okkur að gefa rækilegan lokavitnisburð!
13, 14. (a) Hvað má segja um ritadreifingu á árinu 1996? (b) Hvaða sérstakar áætlanir geta söfnuðir gert á hverju ári og hvernig hyggst þú eiga þátt í þeim?
13 Þótt það komi ekki fram í þjónustuskýrslunni í smáatriðum jókst dreifing biblía, bóka og tímarita umtalsvert á síðasta ári. Blaðadreifingin um heim allan jókst til dæmis um 19 af hundraði, í alls 543.667.923 eintök. Blöðin okkar bjóða upp á fjölbreytta prédikun — á götum úti, í lystigörðum, á strætisvagnabiðstöðvum og á viðskiptasvæðum. Skýrslur sýna að sums staðar, þar sem oft er starfað, er margt sérmenntað fólk hrifið af því hve vönduð blöðin eru og þiggur biblíunámskeið.
14 Í aprílmánuði ár hvert skipuleggja söfnuðirnir að jafnaði sérstakt blaðastarf þar sem starfað er daglangt með Varðturninn og Vaknið! hús úr húsi og á almannafæri. Tekur söfnuðurinn þinn þátt í því í apríl 1997? Frábær blöð hafa verið útbúin, og það ætti vissulega að hafa sín áhrif þegar þeim verður dreift á sama tíma um heim allan! Á eynni Kýpur höfðu söfnuðirnir sem slagorð að „ná til allra sem hægt er með boðskapinn um Guðsríki,“ og þeir hafa jafnvel fylgt því eftir í hverjum mánuði með fyrirfram ákveðnu blaðastarfi. Þeir dreifðu 275.359 blöðum á árinu sem er nýtt hámark og 54 prósenta aukning frá árinu áður.
Lokaboðskapur Haggaí
15. Hvers vegna sendi Jehóva meiri boðskap fyrir munn Haggaí? (b) Hvað ættum við að læra af þriðja boðskap Haggaí?
15 Sextíu og þrem dögum eftir að Haggaí hafði flutt annan boðskap sinn sendi Jehóva hann með þriðju yfirlýsinguna sem við ættum að taka til okkar núna. Haggaí talaði eins og Gyðingar væru að leggja grunninn að musterinu sem þeir höfðu reyndar gert 17 árum áður. Enn á ný taldi Jehóva við hæfi að hreinsa þá. Prestar og almenningur voru orðnir hirðulausir og voru þess vegna óhreinir í augum Jehóva. Getur verið að sumir af þjónum Jehóva séu farnir að slá slöku við og hafi jafnvel snúist á sveif með undanlátsemi og efnishyggju heimsins? Það er áríðandi fyrir okkur öll að einsetja okkur „í dag og héðan í frá“ að vegsama nafn Jehóva og treysta loforði hans: „Frá og með þessum degi mun ég veita blessun.“ — Haggaí 2:10-19, Biblíurit, ný þýðing 1994; Hebreabréfið 6:11, 12.
16. Hvaða ‚hræring‘ er í nánd og hvað hlýst af henni?
16 Á þessum sama degi kom orð ‚Jehóva allsherjar‘ til Haggaí í fjórða og síðasta sinn. Hann opinberaði hvað fælist í því að hann ‚hrærði himin og jörð‘ og sagði: „Ég kollvarpa veldisstólum konungsríkjanna og eyðilegg vald hinna heiðnu konungsríkja. Ég kollvarpa vögnum og þeim, sem í þeim aka, og hestarnir skulu hníga dauðir og þeir, sem á þeim sitja, hver fyrir annars sverði.“ (Haggaí 2:6, 21, 22) ‚Hræringin‘ nær því hámarki þegar Jehóva hreinsar jörðina algerlega í Harmagedón. „Gersemar allra þjóða“ verða þá komnar til að vera grundvöllur að þjóðfélagi nýja heimsins. Hvílíkt tilefni til að gleðjast og lofa Jehóva! — Haggaí 2:7; Opinberunarbókin 19:6, 7; 21:1-4.
17. Hvernig er Jesús eins og ‚innsiglishringur‘?
17 Haggaí lýkur spádómi sínum þannig: „Á þeim degi — segir [Jehóva] allsherjar — tek ég þig, Serúbabel . . . og fer með þig eins og innsiglishring, því að þig hefi ég útvalið — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Haggaí 2:23) Kristur Jesús er nú Messíasarkonungur og æðstiprestur Jehóva og sameinar á himnum þau embætti sem Serúbabel landstjóri og Jósúa æðstiprestur gegndu hvor í sínu lagi í Jerúsalem á jörð. Jesús er eins og opinber innsiglishringur á hægri hönd Jehóva í þeim skilningi að hann er verkfæri hans til að láta hin mörgu „fyrirheit Guðs“ verða að veruleika, og er þar með orðinn „játun“ þeirra. (2. Korintubréf 1:20; Efesusbréfið 3:10, 11; Opinberunarbókin 19:10) Spádómlegur boðskapur Biblíunnar í heild beinist að þeirri ráðstöfun Jehóva að Kristur sé konungur, prestur og lausnari. — Jóhannes 18:37; 1. Pétursbréf 1:18, 19.
18. Hvernig munu lokaorð ‚Jehóva allsherjar‘ rætast með upplífgandi hætti?
18 Nú á okkar dögum er mestu dýrðina að finna í hinu skínandi, andlega musteri Jehóva. Og bráðlega, eftir að Jehóva hefur sópað burt öllu kerfi Satans, hlýtur Haggaí 2:9 aðra unaðslega uppfyllingu: „Ég mun veita heill [„frið,“ NW] á þessum stað — segir [Jehóva] allsherjar.“ Loksins friður — varanlegur heimsfriður sem ‚innsiglishringur‘ Jehóva, Jesús Kristur er trygging fyrir. Hann er líka nefndur „Friðarhöfðingi“ og sagt er um hann: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka . . . Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ (Jesaja 9:6, 7) Dýrð tilbeiðsluhúss Jehóva mun endurspeglast um friðsælt alheimsríki hans um alla eilífð. Megum við alltaf dvelja í þessu húsi! — Sálmur 27:4; 65:5; 84:11.
[Neðanmáls]
a Sjá greinarnar „Bjargað frá ‚vondri kynslóð‘“ og „Tími til að vaka“ í Varðturninum 1. febrúar 1996.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig er hús Jehóva að ‚fyllast dýrð‘ nú á dögum?
◻ Hvers vegna hefur aldrei legið meira á að prédika fagnaðarerindið?
◻ Hvernig hvetur ársskýrslan 1996 til kappsamrar prédikunar?
◻ Hvernig þjónar Kristur sem ‚innsiglishringur‘ Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 16]
‚Gersemum allra þjóða‘ er safnað saman á eyjum hafsins (1), í Suður-Ameríku (2), Afríku (3), Asíu (4), Norður-Ameríku (5) og Evrópu (6).