Jehóva er ekki seinn á sér
„Þótt hún [vitrunin] dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ — HABAKKUK 2:3.
1. Hvaða einbeitni hefur fólk Jehóva sýnt og hvað hefur hún komið því til að gera?
„ÉG ÆTLA að nema staðar á varðbergi mínu.“ Þetta var ásetningur Habakkuks, spámanns Guðs. (Habakkuk 2:1) Fólk Jehóva á 20. öldinni hefur sýnt sams konar einbeitni. Það hefur brugðist kostgæfilega við kallinu sem gefið var á sögulegu móti í september 1922: „Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð upplýsingafulltrúar hans. Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“
2. Hverju gátu smurðir kristnir menn lýst yfir eftir að þeir voru reistir við til kröftugs starfs í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar?
2 Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar reisti Jehóva hinar trúföstu smurðu leifar við til kröftugs starfs þannig að þær gætu lýst yfir eins og Habakkuk: „[Ég ætla að] ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig.“ Hebresku orðin, sem þýdd eru „á varðbergi“ og „skyggnast um“ eða „vakið,“ koma fyrir í fjölmörgum spádómum.
Hún mun „ekki undan líða“
3. Hvers vegna verðum við að vera á varðbergi og vaka?
3 Vottar Jehóva boða viðvaranir Guðs nú á tímum og verða að vera sívakandi fyrir lokaorðum hins mikla spádóms Jesú: „Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Markús 13:35-37) Við verðum að vera á varðbergi líkt og Habakkuk og halda vöku okkar í samræmi við orð Jesú.
4. Hvernig er svipað uppi á teningnum núna og hjá Habakkuk um árið 628 f.o.t.?
4 Habakkuk lauk ritun spádómsbókar sinnar líklega um árið 628 f.o.t., jafnvel áður en Babýlon varð ráðandi heimsveldi. Um áraraðir hafði dómur Jehóva yfir hinni fráhverfu Jerúsalem verið kunngerður. Samt voru engar skýrar vísbendingar um það hvenær dóminum yrði fullnægt. Hver hefði trúað því þá að ekki væri nema 21 ár þangað til og að Babýlon yrði böðull Jehóva? Svipað er uppi á teningnum núna. Við vitum ekki á hvaða ‚degi eða stund‘ þetta heimskerfi endar. En Jesús hefur varað okkur við: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Matteus 24:36, 44.
5. Hvað er einkar uppörvandi í sambandi við orð Guðs í Habakkuk 2:2, 3?
5 Af ærinni ástæðu gaf Jehóva Habakkuk þessi hvetjandi fyrirmæli: „Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust. Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:2, 3) Illska og ofbeldi tröllríður heimi nútímans og það er vísbending um að við stöndum alveg á þröskuldi ‚hins mikla og ógurlega dags Jehóva.‘ (Jóel 3:4) Loforð Jehóva sjálfs er því sannarlega upörvandi: ‚Vitrunin mun ekki undan líða.‘ Uppfyllingu hennar seinkar ekki.
6. Hvernig getum við lifað af komandi dómsdag?
6 Hvernig getum við þá lifað af komandi dómsdag? Jehóva svarar spurningunni með því að bera saman hinn réttláta og hinn rangláta: „Sjá, hann er hrokafullur og ber eigi í brjósti sér ráðvanda sál, en hinn réttláti mun lifa fyrir trúfesti sína.“ (Habakkuk 2:4) Hrokafullir og ágjarnir leiðtogar og þjóðir hafa atað söguna blóði milljóna saklausra manna, einkum í heimsstyrjöldunum tveim og í blóðsúthellingum þjóðernishópa. Friðelskir smurðir þjónar Guðs hafa aftur á móti verið þolgóðir og trúfastir. Þeir eru „réttlátur lýður, . . . sá er trúnaðinn varðveitir.“ Þessi þjóð ásamt félögum sínum, hinum ‚öðrum sauðum,‘ fylgir hvatningarorðunum: „Treystið [Jehóva] æ og ætíð, því að [Jah Jehóva] er eilíft bjarg.“ — Jesaja 26:2-4; Jóhannes 10:16.
7. Hvað verðum við að gera í ljósi þess hvernig Páll heimfærir Habakkuk 2:4?
7 Páll postuli vitnar í Habakkuk 2:4 í bréfi sínu til kristinna Hebrea og segir fólki Jehóva: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum. Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.“ (Hebreabréfið 10:36-38) Nú er ekki tíminn til að slá slöku við eða ánetjast efnishyggju þessa skemmtanaóða heims Satans. Uns hinn ‚harla skammi tími‘ rennur út verðum við, sem tilheyrum heilagri þjóð Jehóva, að ‚seilast eftir því, sem framundan er, og keppa að markinu,‘ eilífa lífinu, líkt og Páll. (Filippíbréfið 3:13, 14) Og líkt og Jesús verðum við að ‚líða þolinmóðlega vegna gleði þeirrar er bíður okkar.‘ — Hebreabréfið 12:2.
8. Hver er ‚maðurinn‘ í Habakkuk 2:5 og hvað tekst honum ekki?
8 Habakkuk 2:5 bregður upp andstæðu og lýsir ‚manni,‘ sem ekki verður saddur, jafnvel þótt hann ‚glenni sundur gin sitt eins og Hel.‘ Hver er þessi „óseðjandi“ maður? Líkt og hin gráðuga Babýlon á dögum Habakkuks er þessi samsetti ‚maður‘ myndaður af stjórnmálaöflum — hvort heldur fasískum, nasískum, kommúnískum eða jafnvel lýðræðislegum — sem heyja stríð til að stækka lönd sín. Hann fyllir Helju eða gröfina saklausu fólki. En þessi sviksami, samsetti ‚maður‘ af heimi Satans er drukkinn af eigin girnd og tekst ekki að ‚safna til sín öllum þjóðum og draga að sér alla lýði.‘ Aðeins Jehóva Guð getur sameinað allt mannkyn og hann mun gera það fyrir tilstilli messíasarríkisins. — Matteus 6:9, 10.
Fyrsta ógnþrungna veiið af fimm
9, 10. (a) Hvað kunngerir Jehóva nú fyrir munn Habakkuks? (b) Hver er staða mála núna í sambandi við ranglátan gróða?
9 Nú boðar Jehóva fimm vei eða dóma fyrir munn Habakkuks sem þarf að fullnægja til að búa jörðina undir búsetu trúfastra tilbiðjenda hans. Þessir réttsinnuðu menn kveða „háðkvæði“ frá Jehóva. Við lesum í Habakkuk 2:6: „Vei þeim, sem rakar saman annarra fé — hversu lengi? — og hleður á sig pantteknum munum.“
10 Hér er áherslan lögð á ranglátan gróða. Í heimi nútímans verða hinir ríku ríkari og hinir fátæku fátækari. Fíkniefnasalar og svikahrappar sanka að sér miklum auðæfum meðan almúginn sveltur. Fjórðungur jarðarbúa er sagður lifa undir fátæktarmörkum. Lífsskilyrðin eru skelfileg í mörgum löndum. Þeir sem þrá réttlæti á jörð hrópa: „Hversu lengi“ fær óréttlætið að viðgangast? En endirinn er í nánd! Vitrunin mun „ekki undan líða,“ uppfyllingu hennar seinkar ekki.
11. Hvað segir Habakkuk um blóðsúthellingar og hvers vegna getum við sagt að blóðsekt heimsins sé mikil?
11 Spámaðurinn segir hinum óguðlega: „Því að eins og þú hefir rænt margar þjóðir, svo munu nú allar hinar þjóðirnar ræna þig fyrir manndrápin og fyrir ofríkið, sem landið hefir beitt verið, borgin og allir íbúar hennar.“ (Habakkuk 2:8) Blóðsekt heimsins er ógurleg. Jesús sagði berum orðum: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Samt hafa blóðsekar þjóðir og þjóðernishópar drepið rösklega eitt hundrað milljónir manna á 20. öldinni einni saman. Vei þeim sem þátt taka í blóðbaðinu!
Annað veiið
12. Hvert er annað veiið sem Habakkuk boðar og hvernig vitum við að illfenginn gróði kemur að engu gagni?
12 Annað veiið er skráð í Habakkuk 2:9-11 og beinist að „þeim, sem sækist eftir illum ávinningi fyrir hús sitt til þess að geta byggt hreiður sitt hátt uppi, til þess að geta bjargað sér undan hendi ógæfunnar.“ Illfenginn gróði kemur að engu gagni eins og sálmaskáldið bendir ótvírætt á: „Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil, því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.“ (Sálmur 49:17, 18) Páll postuli gefur því þessi viturlegu ráð: „Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17.
13. Hvers vegna eigum við að halda áfram að boða viðvaranir Guðs?
13 Það ríður á að láta dómsboðskap Guðs heyrast núna! Þegar faríseunum gramdist að mannfjöldinn skyldi hylla Jesú sem ‚konung í nafni Jehóva,‘ svaraði hann: „Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.“ (Lúkas 19:38, 40) Ef fólk Guðs afhjúpaði ekki illsku heimsins myndu ‚steinarnir hrópa út úr múrveggnum.‘ (Habakkuk 2:11) Höldum því hugrökk áfram að boða viðvaranir hans.
Þriðja veiið og spurningin um blóðsekt
14. Hvaða blóðsekt hvílir á trúarbrögðum heims?
14 Þriðja veiið, sem Habakkuk boðar, tengist blóðsekt. Habakkuk 2:12 segir: „Vei þeim, sem reisir stað með manndrápum og grundvallar borg með glæpum.“ Glæpir og manndráp haldast oft í hendur í þessu heimskerfi. Trúarbrögð heims bera ábyrgð á svívirðilegustu blóðsúthellingum sögunnar. Nægir að nefna krossferðirnar þar sem svokallaðir kristnir menn og múslimar bárust á banaspjót, kaþólska rannsóknarréttinn á Spáni og í Rómönsku Ameríku, þrjátíuárastríðið í Evrópu milli mótmælenda og kaþólskra og svo blóðugustu átök allra tíma, heimsstyrjaldirnar tvær sem báðar áttu upptök sín í kristna heiminum.
15. (a) Hvað halda þjóðirnar áfram að gera með stuðningi eða samþykki kirkjunnar? (b) Geta Sameinuðu þjóðirnar bundið enda á vígvæðingu heimsins?
15 Eitt hrottalegasta illvirki síðari heimsstyrjaldarinnar var fjöldamorð nasista á milljónum Gyðinga og annarra saklausra Evrópubúa. Það er ekki nema stutt síðan klerkaveldi rómversk-kaþólskra í Frakklandi viðurkenndi að hafa ekkert aðhafst til að koma í veg fyrir flutning hundruð þúsunda manna í dauðabúðir nasista. En þjóðirnar halda engu að síður áfram að búa sig undir blóðsúthellingar með stuðningi eða samþykki kirkjunnar. Tímaritið Time sagði nýverið um rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna: „Hin endurvakta kirkja hefur líka sterk áhrif þar sem áður var óhugsandi: á rússnesku stríðsvélina. . . . Blessun herþotna og herbúða er næstum alvanaleg. Í Danilovsky-klaustrinu, aðseturstað rússneska patríarkans, gekk kirkjan svo langt í nóvember að vígja kjarnavopnabúr Rússa.“ Geta Sameinuðu þjóðirnar komið í veg fyrir að heimurinn vígbúist djöfullegum hertólum á ný? Það er harla ólíklegt. Friðarverðlaunahafi segir í Lundúnablaðinu The Guardian: „Það er verulega uggvænlegt að ríkin fimm, sem eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eru fimm mestu vopnaframleiðendur heims.“
16. Hvað ætlar Jehóva að gera við stríðsæsingaþjóðir?
16 Ætlar Jehóva að fullnægja dómi yfir stríðsæsingaþjóðum? Habakkuk 2:13 lýsir yfir: „Kemur slíkt ekki frá [Jehóva] allsherjar? Þjóðir vinna fyrir eldinn, og þjóðflokkar þreyta sig fyrir ekki neitt!“ ‚Jehóva allsherjar‘! Já, Jehóva hefur himneskar englasveitir sem hann mun beita til að gera stríðandi þjóðir og þjóðflokka að engu.
17. Í hvaða mæli mun þekkingin á Jehóva fylla jörðina þegar hann hefur fullnægt dómi yfir ofbeldisfullum þjóðum?
17 Hvað fylgir í kjölfar þess að Jehóva fullnægir dómi yfir þessum ofbeldisfullu þjóðum? Habakkuk 2:14 svarar: „Því að jörðin mun verða full af þekking á dýrð [Jehóva], eins og djúp sjávarins vötnum hulið.“ Hvílíkar framtíðarhorfur! Í Harmagedónstríðinu verður drottinvald Jehóva réttlætt að eilífu. (Opinberunarbókin 16:16) Hann fullvissar okkur að hann muni ‚gera stað fóta sinna vegsamlegan,‘ það er að segja jörðina sem við búum á. (Jesaja 60:13) Allt mannkyn verður frætt um lífsveg Guðs svo að þekkingin á dýrlegum tilgangi hans fyllir jörðina eins og sjórinn hylur hafdjúpin.
Fjórða og fimmta veiið
18. Hvert er fjórða veiið sem Habakkuk boðar og hvernig endurspeglar það siðferðisástand heimsins?
18 Fjórða veiinu er lýst svo í Habakkuk 2:15: „Vei þeim, sem gefur vinum sínum að drekka úr skál heiftar sinnar og gjörir þá jafnvel drukkna til þess að sjá blygðan þeirra.“ Þetta lýsir hinum ósiðsama og afvegaleidda heimi nútímans. Siðleysið er útbreiddara en nokkru sinni fyrr og undanlátssemi trúfélaga á þar hlut að máli. Alnæmisplágan og aðrir kynsjúkdómar herja á allan heiminn. Í stað þess að endurspegla ‚dýrð Jehóva‘ sekkur þessi sjálfselskufulla kynslóð æ dýpra í siðspillinguna og stefnir hraðbyri að dómi hans. Hinn spillti heimur er ‚mettaður á smán en ekki á heiðri‘ og er í þann veginn að drekka af reiðibikar Jehóva sem táknar vilja hans gagnvart heiminum. Það kemur „vansi ofan á vegsemd“ þessa heims. — Habakkuk 2:16.
19. Hverju er lýst í aðdraganda fimmta veisins og hvers vegna hefur það þýðingu í heimi nútímans?
19 Í aðdraganda fimmta veisins er stranglega varað við tilbeiðslu úthöggvinna líkneskja. Jehóva lætur spámanninn mæla þessi kröftugu orð: „Vei þeim, sem segir við trédrumb: ‚Vakna þú! Rís upp!‘ — við dumban steininn. Mun hann geta frætt? Nei, þótt hann sé búinn gulli og silfri, þá er þó enginn andi í honum.“ (Habakkuk 2:19) Allt fram á þennan dag knékrýpur kristni heimurinn og heiðindómurinn fyrir róðukrossum, maríumyndum, helgimyndum og öðrum manna- og dýralíkneskjum. Ekkert þessara skurðgoða getur bjargað dýrkendum sínum þegar Jehóva kemur til að fullnægja dómi. Gull- og silfurflúr þeirra fölnar í samanburði við mikilfengleik Jehóva, hins eilífa Guðs, og dýrð sköpunarvera hans. Megum við lofsyngja óviðjafnanlegt nafn hans að eilífu!
20. Í hvaða musterisfyrirkomulagi höfum við þau gleðilegu sérréttindi að þjóna?
20 Já, Jehóva, Guð okkar, er verður alls lofs. Við skulum taka til okkar þessa kröftugu viðvörun gegn skurðgoðadýrkun, full lotningar fyrir honum. En hlustið! Jehóva er enn að tala: „[Jehóva] er í sínu heilaga musteri, öll jörðin veri hljóð fyrir honum!“ (Habakkuk 2:20) Spámaðurinn hefur eflaust í huga musterið í Jerúsalem. Við höfum aftur á móti þau sérréttindi að tilbiðja í andlegu musterisfyrirkomulagi, sem er miklu mikilfenglegra, þar sem Drottinn okkar Jesús Kristur er settur æðstiprestur. Hér í jarðneskum forgörðum þessa musteris komum við saman, þjónum og biðjum og veitum Jehóva þann heiður sem dýrlegt nafn hans á skilið. Hvílík gleði að geta tilbeðið ástríkan himneskan föður okkar af öllu hjarta!
Manstu?
• Hvernig líturðu á þau orð Jehóva að vitrunin muni „ekki undan líða“?
• Hvaða nútímaþýðingu hafa veiin sem Habakkuk boðaði?
• Hvers vegna eigum við að halda áfram að boða viðvaranir Jehóva?
• Í forgörðum hvaða musteris höfum við þau sérréttindi að þjóna?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Nútímaþjónar Guðs vita líkt og Habakkuk að Guð er ekki seinn á sér.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Kanntu að meta þau sérréttindi að tilbiðja Jehóva í forgörðum andlega musterisins?
[Mynd credit line á blaðsíðu 16]
Ljósmynd: U.S. Army