„Lát ekki hugfallast“
„Lát ekki hugfallast! [Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir.“ — SEFANÍA 3:16, 17.
1. Hvað sagði biblíufræðingur um spádóm Sefanía?
SPÁDÓMUR Sefanía benti langt fram yfir fyrri uppfyllingu sína á sjöundu og sjöttu öld f.o.t. Prófessor C. F. Keil segir í skýringum sínum við Sefaníabók: „Spádómur Sefanía . . . hefst ekki aðeins með tilkynningu um allsherjardóm yfir öllum heiminum, og upp úr því dóminum sem kemur yfir Júdamenn vegna synda þeirra og yfir heim þjóðanna vegna fjandskapar þeirra gegn fólki Jehóva, heldur fjallar hann líka um hinn mikla og ógurlega dag Jehóva í heild.“
2. Hvað er líkt með ástandinu á dögum Sefanía og í kristna heiminum núna?
2 Það er dómsúrskurður Jehóva nú á dögum að safna þjóðunum saman til langtum umfangsmeiri eyðingar en á tímum Sefanía. (Sefanía 3:8) Þær þjóðir, sem segjast vera kristnar, eru sérstaklega vítaverðar í augum Guðs. Kristni heimurinn verður að svara Jehóva fyrir gjálífi sitt, alveg eins og Jerúsalem galt ótryggðar sinnar við Jehóva dýru verði. Dómar Guðs yfir Júda og Jerúsalem á dögum Sefanía eiga í enn ríkari mæli við kirkjur og sértrúarflokka kristna heimsins. Þeir hafa líka flekkað hreina tilbeiðslu með svívirðilegum kenningum sínum sem eru margar af heiðnum uppruna. Þeir hafa fórnað hraustum sonum sínum í milljónatali á stríðsaltari nútímans. Og íbúar þess heimshluta, sem Jerúsalem táknar, blanda svokallaðri kristni saman við stjörnuspár, andatrú og gróft, kynferðislegt siðleysi sem minnir á Baalsdýrkun. — Sefanía 1:4, 5.
3. Hvað má segja um marga veraldlega leiðtoga og stjórnir nú á tímum, og hverju spáði Sefanía?
3 Margir af stjórnmálaleiðtogum kristna heimsins vilja gjarnan láta sjá sig í kirkju. En líkt og ‚höfðingjar‘ Júda arðræna margir þeirra fólkið eins og „öskrandi ljón“ og gráðugir „úlfar.“ (Sefanía 3:1-3) Pólitísk handbendi slíkra manna „fylla hús herra sinna með ofbeldi og svikum.“ (Sefanía 1:9, NW) Mútur og spilling eru í algleymingi. Og í vaxandi mæli hafa stjórnir innan og utan kristna heimsins „hroka í frammi“ við fólk Jehóva hersveitanna, votta hans, og fara með þá eins og fyrirlitinn ‚villuflokk.‘ (Sefanía 2:8; Postulasagan 24:5, 14) Sefanía spáði um alla slíka stjórnmálaleiðtoga og fylgjendur þeirra: „Hvorki silfur þeirra né gull fær frelsað þá á reiðidegi [Jehóva], heldur skal allt landið eyðast fyrir eldi vandlætingar hans. Því að tortíming, já bráða eyðing býr hann öllum þeim, sem á jörðunni búa.“ — Sefanía 1:18.
‚Faldir á reiðidegi Jehóva‘
4. Hvað sýnir að menn munu lifa dag Jehóva af, en hvað verða þeir að gera til þess?
4 Júdabúum var ekki öllum útrýmt á sjöundu öld f.o.t. Eins munu menn lifa af hinn mikla dag Jehóva. Hann sagði þeim fyrir munn spámannsins Sefanía: „Áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði [Jehóva] kemur yfir yður, áður en reiðidagur [Jehóva] kemur yfir yður. Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — Sefanía 2:2, 3.
5. Hverjir voru fyrstir til að gefa viðvörun Sefanía gaum núna á endalokatímanum og hvernig hefur Jehóva notað þá?
5 Á endalokatíma þessa heims voru leifar andlegra Ísraelsmanna, smurðir kristnir menn, fyrstar til að gefa hinu spádómlega boði gaum. (Rómverjabréfið 2:28, 29; 9:6; Galatabréfið 6:16) Þær höfðu leitað réttlætis, ástundað auðmýkt og sýnt virðingu fyrir dómsúrskurðum Jehóva, þannig að þær voru frelsaðar frá Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og þeim var veitt hylli hans á ný árið 1919. Þaðan í frá, einkum þó frá 1922, hafa þessar trúföstu leifar óttalaust boðað dóma Jehóva yfir kirkjum og sértrúarflokkum kristna heimsins og yfir hinum pólitísku þjóðum.
6. (a) Hverju spáði Sefanía um hinar trúföstu leifar? (b) Hvernig hefur þessi spádómur uppfyllst?
6 Sefanía spáði um þessar trúföstu leifar: „Ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni [Jehóva]. Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga. Já, þeir munu vera á beit og leggjast, án þess að nokkur styggi þá.“ (Sefanía 3:12, 13) Þessir smurðu kristnu menn hafa alltaf haldið nafni Jehóva á loft, en þó sér í lagi frá 1931 er þeir tóku sér nafnið vottar Jehóva. (Jesaja 43:10-12) Með því að leggja áherslu á drottinvald Jehóva hafa þeir heiðrað nafn hans og það hefur reynst þeim hæli. (Orðskviðirnir 18:10) Jehóva hefur nært þá vel andlega og þeir búa óttalausir í andlegri paradís. — Sefanía 3:16, 17.
‚Nafnkunnir og frægir meðal allra þjóða‘
7, 8. (a) Hvaða annar spádómur hefur ræst á leifum hins andlega Ísraels? (b) Hvað hafa milljónir manna gert sér ljóst og hvað finnst þér sjálfum?
7 Hin mikla tryggð leifanna við nafn Jehóva og réttlátar meginreglur orðs hans hafa ekki dulist. Einlægt fólk hefur séð muninn á breytni leifanna, og spillingu og hræsni forystumanna þessa heims í trúmálum og stjórnmálum. Jehóva hefur blessað „leifar [hins andlega] Ísraels.“ Hann hefur heiðrað þær með þeim sérréttindum að bera nafn hans, og hann hefur gefið þeim gott mannorð meðal þjóða jarðar. Það er eins og Sefanía spáði: „Á þeim tíma skal ég leiða yður heim, og það á þeim tíma, er ég smala yður saman. Því að ég skal gjöra yður nafnkunna og fræga meðal allra þjóða jarðarinnar, þá er ég sný við högum yðar í augsýn yðar, — segir [Jehóva].“ — Sefanía 3:20.
8 Frá 1935 hafa bókstaflega milljónir manna gert sér ljóst að blessun Jehóva hvílir yfir leifunum. Þeir fylgja þessum andlegu Gyðingum eða Ísraelsmönnum fúslega og segja: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sakaría 8:23) Þessir ‚aðrir sauðir‘ sjá að hinar smurðu leifar eru hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem Kristur hefur sett „yfir allar [jarðneskar] eigur sínar.“ Þeir þiggja með þökkum hina andlegu fæðu sem þjónshópurinn ber þeim „á réttum tíma.“ — Jóhannes 10:16; Matteus 24:45-47.
9. Hvaða „tungumál“ hafa milljónir manna lært að tala og í hvaða miklu starfi þjóna hinir aðrir sauðir „einhuga“ með hinum smurðu leifum?
9 Við hlið leifanna eru þessar milljónir annarra sauða að læra að tala og lifa í samræmi við hið ‚hreina tungumál.‘a Jehóva spáði fyrir munn Sefanía: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir [„hreint tungumál,“ NW], svo að þær ákalli allar nafn [Jehóva] og þjóni honum einhuga.“ (Sefanía 3:9) Já, hinir aðrir sauðir þjóna Jehóva „einhuga“ með hinni smurðu ‚litlu hjörð‘ í því áríðandi starfi að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . öllum þjóðum til vitnisburðar.“ — Lúkas 12:32; Matteus 24:14.
‚Dagur Jehóva mun koma‘
10. Hvað hafa hinar smurðu leifar alltaf verið sannfærðar um og hvað munu þær lifa að sjá sem hópur?
10 Hinar smurðu leifar hafa haft innblásin orð Péturs postula stöðugt í huga: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar. En dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur.“ (2. Pétursbréf 3:9, 10) Þeir sem tilheyra hinum trúa þjónshópi hafa aldrei efast um að dagur Jehóva komi á okkar tímum. Þessi mikli dagur mun hefjast með því að dómi Guðs verður fullnægt á kristna heiminum, sem Jerúsalem táknaði, og öðrum hlutum Babýlonar hinnar miklu. — Sefanía 1:2-4; Opinberunarbókin 17:1, 5; 19:1, 2.
11, 12. (a) Hvaða annar hluti spádóms Sefanía hefur ræst á leifunum? (b) Hvernig hafa hinar smurðu leifar farið eftir hvatningunni um að ‚láta ekki hugfallast‘?
11 Hinar trúföstu leifar fagna því að hafa verið leystar úr andlegum fjötrum Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða, árið 1919. Þær hafa fundið spádóm Sefanía uppfyllast: „Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem! [Jehóva] hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, [Jehóva], er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna. Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: ‚Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast! [Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir.‘“ — Sefanía 3:14-17.
12 Hinar smurðu leifar eru sannfærðar um að Jehóva sé hjá þeim og hafa kappnógar sannanir fyrir því. Þær hafa þess vegna gengið óttalaust fram í að rækja þær skyldur sem Guð hefur falið þeim. Þær hafa prédikað fagnaðarerindið um ríkið og kunngert dóma Jehóva yfir kristna heiminum, öðrum hlutum Babýlonar hinnar miklu og hinu illa heimskerfi Satans í heild. Frá 1919 hafa þær hlýtt fyrirmælum Guðs gegnum þykkt og þunnt: „Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!“ Þær hafa ekki slegið slöku við að dreifa smáritum, tímaritum, bókum og bæklingum í milljarðatali sem kunngera ríki Jehóva. Þær hafa verið trústyrkjandi fordæmi hinum öðrum sauðum sem hafa þyrpst til þeirra frá 1935.
„Lát ekki hugfallast“
13, 14. (a) Af hverju gerðust sumir Gyðingar fráhverfir þjónustunni við Jehóva og hvernig sýndi það sig? (b) Hvað væri óviturlegt af okkur að gera og hvaða starf ættum við ekki að slá slöku við?
13 En hvernig getum við haft gagn af spádómi Sefanía meðan við ‚höldum áfram að vænta‘ hins mikla dags Jehóva? Í fyrsta lagi ættum við að varast að verða eins og Gyðingarnir á dögum Sefanía sem gerðust fráhverfir Jehóva af því að þeir efuðust um að dagur hans væri nærri. Slíkir Gyðingar létu efasemdir sínar kannski ekki opinskátt í ljós, en lífsstefna þeirra sýndi að þeir trúðu ekki í alvöru að dagur Jehóva væri nærri. Þeir einbeittu sér að því að sanka saman auði í stað þess að vænta Jehóva. — Sefanía 1:12, 13; 3:8.
14 Núna er ekki rétti tíminn til að leyfa efasemdum að festa rætur í hjörtum okkar. Það væri mjög óviturlegt að slá degi Jehóva á frest í hugum okkar og hjörtum. (2. Pétursbréf 3:1-4, 10) Við ættum að varast að verða fráhverf Jehóva eða slá slöku við í þjónustu hans. Við megum ekki ‚vinna með hangandi hendi‘ að prédikun fagnaðarerindisins. — Orðskviðirnir 10:4; Markús 13:10.
Að berjast gegn sinnuleysi
15. Hvað gæti komið okkur til að slá slöku við í þjónustu Jehóva og hvernig var þetta vandamál sagt fyrir í spádómi Sefanía?
15 Í öðru lagi ættum við að varast hin lamandi áhrif sinnuleysis. Víða á Vesturlöndum getur áhugaleysi um andleg mál dregið kjarkinn úr sumum boðberum fagnaðarerindisins. Slíkt sinnuleysi var á dögum Sefanía. Jehóva sagði fyrir munn spámanns síns: „[Ég mun] vitja þeirra manna . . . er segja í hjarta sínu: ‚[Jehóva] gjörir hvorki gott né illt.‘“ (Sefanía 1:12) A. B. Davidson segir um þessa ritningargrein í biblíuskýringarritinu Cambridge Bible for Schools and Colleges að hún lýsi fólki sem var orðið „tilfinningalaust og sinnulaust eða jafnvel vantrúað á nokkur afskipti æðri máttarvalda af málefnum mannkyns.“
16. Hvert er hugarfar margra í kirkjufélögum kristna heimsins en hvaða hvatningu gefur Jehóva okkur?
16 Sinnuleysi er algengt viðhorf víða um heim nú á dögum, einkum í hinum efnameiri löndum. Jafnvel sóknarbörn kirkjufélaga kristna heimsins trúa ekki að Jehóva Guð muni hafa afskipti af málefnum mannanna á okkar dögum. Þau vísa okkur á bug þegar við reynum að koma fagnaðarerindinu um ríkið á framfæri við þau, annaðhvort með vantrúarbrosi eða með stuttaralegu svari: „Ég hef ekki áhuga!“ Þessar aðstæður geta reynt verulega á þrautseigju okkar og þolgæði í boðunarstarfinu. En Jehóva örvar trúfasta þjóna sína með spádómi Sefanía og segir: „Lát ekki hugfallast! [Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng.“ — Sefanía 3:16, 17.
17. Hvaða góðu fordæmi ættu nýir í hópi hinna annarra sauða að fylgja og hvernig?
17 Það er staðreynd í nútímasögu votta Jehóva að leifarnar og hinir elstu af öðrum sauðum hafa innt af hendi gríðarlegt uppskerustarf núna á síðustu dögum. Allir þessir trúföstu kristnu menn hafa sýnt þolgæði um áratuga skeið. Þeir hafa ekki látið sinnuleysi fjöldans í kristna heiminum draga úr sér kjarkinn. Megi hinir nýju meðal annarra sauða ekki heldur missa kjarkinn vegna þess sinnuleysis um andleg mál sem er svo útbreitt víða um lönd nú á tímum. Megi þeir ekki ‚láta hugfallast‘ og slá slöku við. Megi þeir nota hvert tækifæri til að kynna Varðturninn, Vaknið! og önnur ágæt rit sem eru sérstaklega gerð til að hjálpa sauðumlíkum mönnum að læra sannleikann um dag Jehóva og blessunina sem fylgir.
Haldið áfram meðan þið bíðið hins mikla dags
18, 19. (a) Hvaða hvatningu um þolgæði fáum við í Matteusi 24:13 og Jesaja 35:3, 4? (b) Hvaða blessun hljótum við ef við höldum sameinuð áfram í þjónustu Jehóva?
18 Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Engar „máttvana hendur“ eða „skjögrandi kné“ er við bíðum hins mikla dags Jehóva! (Jesaja 35:3, 4) Spádómur Sefanía segir hughreystandi um Jehóva: „Hetjan er sigur veitir.“ (Sefanía 3:17) Já, Jehóva mun veita ‚múginum mikla‘ sigur með því að koma honum lifandi gegnum lokakafla ‚þrengingarinnar miklu‘ er hann fyrirskipar syni sínum að sundurmola hinar pólitísku þjóðir sem hafa „haft hroka í frammi“ við fólk hans. — Opinberunarbókin 7:9, 14; Sefanía 2:10, 11; Sálmur 2:7-9.
19 Megum við, er hinn mikli dagur Jehóva nálgast, halda kostgæfin áfram og þjóna honum „einhuga“! (Sefanía 3:9) Þá erum við í aðstöðu til að ‚verða faldir á reiðidegi Jehóva‘ og verða vitni að helgun nafns hans.
[Neðanmáls]
a Ítarlegri umfjöllun um hið ‚hreina tungumál‘ er að finna í Varðturninum 1. september 1991, bls. 15-20 og 1. október 1991, bls. 9-19.
Til upprifjunar
◻ Að hvaða leyti er ástand trúmála í kristna heiminum sambærilegt við daga Sefanía?
◻ Hvernig líkjast margir stjórnmálaleiðtogar nútímans hinum veraldlegu ‚höfðingjum‘ á dögum Sefanía?
◻ Hvaða fyrirheit Sefaníabókar hafa ræst á leifunum?
◻ Hvað hafa milljónir manna gert sér ljóst?
◻ Af hverju ættum við ekki að slá slöku við í þjónustu Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Trúfastar leifar smurðra kristinna manna hafa boðað dóma Jehóva óttalaust líkt og Sefanía.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hinir ‚aðrir sauðir‘ hafa ekki leyft sinnuleysi fólks að draga úr sér kjarkinn.