Hreint tungumál fyrir allar þjóðir
„Þá mun ég gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál til að þær ákalli allar nafn Jehóva og þjóni honum hlið við hlið.“ — SEFANÍA 3:9, NW.
1, 2. (a) Hvað er Jehóva að gera á okkar dögum til uppfyllingar á Sefanía 3:9? (b) Hvaða spurningum þarf að svara til að skilja hvernig spádómur Sefanía varðar okkur?
JEHÓVA GUÐ er nú á dögum að vinna verk sem er sannarlega undursamlegt. Hann er að sameina menn af öllum þjóðum. Eins og hann sagði fyrir í heilögu orði sínu endur fyrir löngu gerir hann það með því að kenna þeim nýtt tungumál. — Sefanía 3:9.
2 Hvert er þetta tungumál? Hvers vegna er þörf á því? Hvers krefst það af okkur persónulega að læra það?
Tungumálið er Guðs gjöf
3. (a) Hvaða stórkostleg gjöf var Adam gefin? (b) Hvaða tungumál talaði Adam?
3 Hæfileikinn til að tjá sig með mæltu máli er ein af gjöfum Guðs sem skilur milli manna og dýra. Hinn fyrsti maður, Adam, var skapaður með huga sem var fær um að hugsa með greind og skynsemi. Honum voru gefin raddbönd, tunga og varir sem hægt var að nota til að tala, auk orðaforða og hæfileika til að mynda ný orð. Adam skildi Jehóva þegar hann talaði við hann og gat á móti komið orðum að hugsun sinni. (1. Mósebók 1:28-30; 2:16, 17, 19-23) Málið, sem Adam var gefið, var greinilega hið sama og síðar var nefnt hebreska. Að minnsta kosti fyrstu 1757 ár mannkynssögunnar virðist allt mannkynið hafa haldið áfram að tala þetta eina tungumál. — 1. Mósebók 11:1.
4. Hvernig höfðu atburðir á dögum Nimrods áhrif á tungumál manna?
4 Þá greip Jehóva til þess ráðs á dögum Nimrods að kollvarpa áformum óguðlegra manna með því að rugla tungumál allra sem höfðu látið skipa sér í sveit til að vinna að byggingu Babelturnsins. (1. Mósebók 11:3-9) Svo virðist sem Jehóva hafi fyrst þurrkað hið sameiginlega tungumál manna út úr hugum þeirra og síðan komið þar fyrir nýjum tungumálum. Þar var bæði um að ræða nýjan orðaforða, nýja málfræði og nýjan hugsunarhátt. Önnur tungumál þróuðust smám saman af þeim sem Jehóva myndaði í Babel og tungumálasérfræðingar segja að nú séu töluð um 3000 tungumál í heiminum.
5. Hvernig getum við gengið úr skugga um hvað felst í því að læra hið hreina tungumál?
5 Hvað felur það í sér að Guð ‚gefi nýtt tungumál‘ þeim sem tala þessi ólíku tungumál? Útheimtir það að þeir hætti að tala móðurmál sitt og læri hið upprunalega tungumál sem Guð gaf Adam? Kringumstæðurnar, er þessi spádómur var gefinn, hjálpa okkur að svara þessum spurningum.
Þörf á hreinu tungumáli
6-8. (a) Hvaða ástand í trúmálum var komið upp í Júda áður en spádómurinn í Sefanía 3:9 var borinn fram? (b) Hvaða viðhorf ríkti meðal þjóðanna umhverfis Júda?
6 Júdaríkið hafði skömmu áður verið undir stjórn Manasse og síðar Amóns sem höfðu reist Baal ölturu, farið með særingar og ýtt undir andatrúarathafnir. (2. Konungabók 21:1-6; 2. Kroníkubók 33:21-23) Af því leiddi að Jehóva fól Sefanía spámanni að vara við því á dögum Jósía, sonar og arftaka Amóns, að dómi Guðs yrði fullnægt á landinu. — Sefanía 1:1, 2.
7 Jafnvel þótt Júdamenn vissu frá sögu þjóðarinnar og frá hinum innblásnu Ritningum að Jehóva er hinn sanni Guð stunduðu þeir siðlausa trúarsiði Baalsdýrkunar. Þeir féllu fram fyrir sólinni, tunglinu og stjörnumerkjum dýrahringsins sem var ótvírætt brot á lögum Guðs. (5. Mósebók 4:19; 2. Konungabók 23:5) Í ofanálag tóku þeir þátt í eins konar samblandstrú og létu eins og öll trúarbrögð væru hin sömu, er þeir sóru eiða bæði í nafni Jehóva og nafni falsguðsins Milkóms. Viðhorf þeirra var að „[Jehóva] gjörir hvorki gott né illt.“ (Sefanía 1:4-6, 12) Þjóðirnar umhverfis Júda höfðu allar sýnt Jehóva og þjóð hans andstöðu, þannig að þær áttu líka í vændum að réttvísi Guðs yrði fullnægt á þeim. — Sefanía 2:4-15.
8 Það var við þessar aðstæður sem Jehóva sagði fyrir: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál, til að þær ákalli allar nafn Jehóva og þjóni honum hlið við hlið.“ — Sefanía 3:9, NW) Hvert er þá þetta hreina tungumál?
9. (a) Hvers vegna er hið hreina tungumál ekki hebreska eða einfaldlega ritað orð Guðs? (b) Hvað er hið hreina tungumál og hvernig hefur það áhrif á líf þeirra sem tala það?
9 Er það hebresk tunga? Nei, Júdamenn töluðu þegar hebreska tungu en það sem þeir sögðu og gerðu var augljóslega ekki hreint eða rétt í augum Guðs. Hið hreina tungumál er ekki heldur aðeins hið ritaða orð Guðs. Þeir höfðu það líka. En það sem þeir þörfnuðust var réttur skilningur á sannleikanum um Guð og tilgang hans, og einungis Guð gat gefið hann fyrir milligöngu anda síns. Er þeir lærðu að tala hið hreina tungumál myndi hugsun þeirra, tal og hegðun allt bera með sér viðurkenningu á þeirri staðreynd að Jehóva er hinn eini sanni Guði. (Sefanía 2:3) Þeir myndu setja traust sitt á hann og styðja drottinvald hans af alefli. Þetta er sérstaklega áhugavert fyrir okkur nú á dögum. Hvers vegna?
Þeir sem gefið er hið hreina tungumál
10. Á hvaða tímabili átti spádómurinn í Sefanía 3:9 að uppfyllast?
10 Sefanía 3:9 bendir á að spádómurinn uppfyllist á ákveðnu tímabili og segir: „Því þá mun ég gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál.“ Hvenær er það? Vers 8 svarar að það sé á þeim tíma er Jehóva ‚safnar saman þjóðum,‘ áður en hann ‚úthellir yfir þær brennandi reiði sinni,‘ að hann gefur auðmjúkum jarðarbúum hreint tungumál.
11. (a) Hvaða tvíþætta uppfyllingu átti Sefanía 3:9 sér fyrir okkar daga? (b) Hvernig er uppfylling spádómsins nú á dögum ólík?
11 Á dögum Jósía konungs, áður en Jehóva leyfði herjum Babýlonar að fullnægja dómi, yfirgáfu margir falska guðsdýrkun og þjónuði Jehóva í staðinn. (2. Kroníkubók 34:3-33) Eins var á fyrstu öld okkar tímatals, áður en Rómverjar lögðu Jerúsalem í rúst, að þúsundir manna lærðu sannleikann um Guð og tilgang hans og sameinuðust í þjónustu hans. Á þeim tíma auðgaðist tungumál sannleikans mjög við það sem Jesús Kristur sagði og gerði til uppfyllingar tilgangi Jehóva. En það er á okkar dögum sem spádómur Sefanía uppfyllist á heimsmælikvarða. Núna er verið að safna öllum þjóðum saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þessi samansöfnun hefur verið í gangi síðan Guðsríki fæddist árið 1914. Og það er á þessum sama tíma sem Jehóva hefur verið að gefa mönnum um allan heim hreint tungumál til uppfyllingar þessum spádómi. Það er lífsnauðsynlegt að læra þetta tungumál vegna þess að þeir sem lifa af hina komandi miklu þrengingu verða þeir sem hafa í sannleika tileinkað sér þetta hreina tungumál. — Jóel 3:5.
12. (a) Hvaða tengsl eru á milli sýnarinnar í 6. kafla Jesajabókar og spádómsins um hið hreina tungumál? (b) Hvers vegna þurftu hinar smurðu leifar hjálp til að geta haldið áfram að vera hæfar fyrir þjónustu Jehóva?
12 Í samræmi við þetta var það snemma á tímabilinu eftir fyrri heimsstyrjöldina að Jehóva byrjaði að opna skilningsaugu smurðra þjóna sinna fyrir hinni stórkostlegu sýn sem sagt er frá í 6. kafla Jesajabókar. (Versi 1-4) Þessi sýn leggur áherslu á hve hreinar varir eru mikilvægar til að þjóna Jehóva á velþóknanlegan hátt. Hún sýnir að Jehóva er heilagur í æðsta skilningi þess orðs. Þjónar hans verða líka að endurspegla þann eiginleika. (1. Pétursbréf 1:15, 16) En hinar smurðu leifar þurftu á hjálp að halda í þessu efni. Á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar höfðu þær að einhverju leyti látið flekka sig af þátttöku í málefnum heimsins. ‚Ótti Jehóva er hreinn‘ en þær höfðu látið ótta við menn og stofnanir manna hafa áhrif á varir sínar og þagga niður í sér þannig að þær hættu að miklu leyti að boða orð Guðs. (Sálmur 19:10) Vegna snertingar við kristna heiminn voru leifarnar enn óhreinar af sumum erfðavenjum hans og athöfnum.
13, 14. (a) Hvernig sýndu leifarnar rétt viðhorf og hvað gerði Jehóva fyrir þær? (b) Á hvaða hátt gaf Jehóva leifunum hreint tungumál?
13 Leifarnar gerðu sér grein fyrir stöðu sinni og sögðu eins og spámaðurinn Jesaja: „Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, [Jehóva] allsherjar.“ (Jesaja 6:5) Leifarnar gerðu sér grein fyrir að ástand þeirra var óviðunandi. Þær sýndu ekki það veiklyndi að halda áfram á rangri braut eða neituðu þvermóðskulega að þiggja áminningu Jehóva. Þær gengu ekki í lið með klerkunum í því að þjóna Guðsríki aðeins með vörunum en styðja síðan Þjóðabandalagið eins og það væri það ríki.
14 Sökum þess að hinar auðmjúku leifar voru í iðrunarhug hreinsaði Jehóva varir þeirra í miskunn sinni. Jesaja 6:6, 7 segir okkur: „Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, og hann snart munn minn með kolinu og sagði: ‚Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.‘“ Það var hreinsandi boðskapur frá orði Guðs sem eyddi eins og með eldi væri erfikenningum og hugsmíðum manna. Það hreinsaði úr hjörtum þeirra ótta við menn og gaf þeim í staðinn brennandi kostgæfni til að nota varir sínar til að heiðra Jehóva. Þannig uppfyllti Jehóva loforð sitt um að „gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál [bókstaflega hreina vör], til að þær ákalli allar nafn Jehóva.“ — Sefanía 3:9, NW.
15. Hver voru viðbrögð leifanna í samræmi við ástæðuna fyrir því að Jehóva gaf þeim hið hreina tungumál?
15 Þegar því Jesajahópur nútímans tók að heyra rödd Jehóva spyrja eins og segir í Jesaja 6:8: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ þá svaraði hann glaðlega: „Hér er ég, send þú mig!“ Það var ekki auðvelt fyrir þá alla í þeim hópi að komast af stað í hinni opinberu þjónustu en þeir vildu láta Guð nota sig og bera nafn hans. Andi hans styrkti þá og þeim fjölgaði.
16. (a) Hvaða óvæntan árangur bar prédikun leifanna? (b) Hvernig sýnir múgurinn mikli þess merki að hann tali líka hið hreina tungumál?
16 Með tímanum kom í ljós að prédikun þeirra skilaði óvæntum árangri. Fyrir milligöngu þeirra var Jehóva að hjálpa öðrum hópi að læra hið hreina tungumál. (Jesaja 55:5) Þessi hópur hafði ekki von um líf á himnum en taldi það sérréttindi að vera félagar þeirra sem eftir voru af erfingjum Guðsríkis og þjóna einhuga með þeim sem boðberar Guðsríkis. Jafnt og þétt hafa þeir komið „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ uns þeir mynda nú ‚mikinn múg‘ er telur milljónir. Þau orð, sem koma af munni þeirra, eru ekki þess eðlis að þeir verði tengdir neinum af sundrungaröflum heimsins. Þeir binda ekki vonir sínar nokkrum manni né stofnun manna. Þess í stað ‚hrópa þeir hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“‘ — Opinberunarbókin 7:9, 10.
Það sem það krefst af okkur að læra tungumálið
17. Hvers vegna er þýðingarmikið að læra hið hreina tungumál vel og bæta kunnáttu okkar í því?
17 Óháð því hve lengi við höfum verið í snertingu við skipulag Jehóva er margt sem við getum gert til að bæta þekkingu okkar á hinu hreina tungumáli og hæfni okkar í að nota það vel. Það er mikilvægt að leggja sig fram við að gera það. Hvers vegna? Vegna þess að það er merki um kærleika okkar til sannleikans.
18, 19. (a) Hvers vegna er mikilvægt, allt frá byrjun, að rækta með sér sterkan kærleika til sannleikans? (b) Hvers vegna er þýðingarmikið að halda áfram að næra þann kærleika?
18 Í byrjun stuðlar slíkur kærleikur að því að opna huga og hjarta einstaklings þannig að hann geti skilið innihald ritningarstaðanna sem honum er bent á; hann fær hann til að nálægja sig Jehóva og meta skipulag hans að verðleikum. Kærleikur til sannleikans er þannig lykilatriði í því að slíta sig lausan úr fjötrum falskra trúarbragða. Sumir segjast hafa áhuga á boðskap Biblíunnar en sleppa í rauninni aldrei öllu því sem fylgir falstrúarbrögðunum og undanlátssömum lífsstíl þeirra. Hvers vegna? Eins og 2. Þessaloníkubréf 2:10 segir ‚veita þeir ekki viðtöku og elska ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.‘ Það er sannarlega mikilvægt að við höfum þennan kærleika!
19 Eftir að við höfum tekið við sannleikanum er það eitt meginatriði andlegra framfara okkar að við nærum þennan kærleika. Höfum í huga að Jehóva talar um sannleikann sem „tungumál.“ Þegar við lærum nýtt tungumál verðum við að leggja okkur kappsamlega fram við að byggja upp orðaforða, æfa réttan framburð, læra málfræðina í smáatriðum og svo mætti lengi telja. Ást á hina nýju tungumáli og þeim sem tala það hjálpar okkur að halda áfram að taka framförum. Við getum kannski talað hið nýja tungumál að einhverju marki eftir nokkurra mánaða nám, en það kostar áralanga, samviskusama viðleitni að tala það eins og innfæddur maður. Það kostar sömu ástundun að ná tökum á hinu hreina tungumáli.
20. (a) Hvað gerir hið hreina tungumál hreint? (b) Hvers vegna þarf eitt og sérhvert okkar að sýna mikla varúð?
20 Það er sérlega eftirtektarvert að tungumálið, sem Guð gefur þjónum sínum, er sagt vera hreint. Það er hreint, ekki vegna málfræðilegrar uppbyggingar, heldur vegna þess að það ber merki siðferðilegs og andlegs hreinleika. Í þessu tungumáli er ekkert rúm fyrir lygar, undirferli eða svikula tungu. Þeir sem tala þetta tungumál verða alltaf að tala sannleika. (Sefanía 3:13; Efesusbréfið 4:25) Mál þeirra verður líka að endurspegla hina háu staðla Jehóva í kynferðismálum. (Efesusbréfið 5:3, 4) Ritningin gerir okkur líka viðvart um að hvaðeina, sem er tengt Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, sé óhreint. (Opinberunarbókin 18:2-4) Guðir hennar eru kallaðir ‚skítug skurðgoð.‘ (Jeremía 50:2, NW) Það er því eðlilegt að þeir sem læra hið hreina tungumál verði að losa sig við alla fylgihluti falskrar guðsdýrkunar, hafna kenningum hennar, slíta sig úr viðjum hátíða hennar og einnig uppræta úr máli sínu hvert það orðfæri sem ber vitni um hina röngu hugsun hennar. Auk þessa er okkur gert viðvart í Opinberunarbókinni 16:13-16 um að sá áróður, sem safnar þjóðunum saman í andstöðu við ríki Guðs, sé einnig óhreinn, innblásinn af illum öndum. Við þurfum því að vera á varðbergi þannig að ekkert af þessu sem óhreint er fái að menga mál okkar.
21. Hvað er fólgið í hinu hreina tungumáli auk hinna töluðu orða?
21 Það sem við erum að læra er kallað tungumál og það með réttu, en það merkir ekki að þeir sem tala það læri einungis að nota hugtök eða orðfæri sem eru sameiginleg þjónum Jehóva. Raddblær, svipbrigði og tilburðir skipta líka máli. Það segir stundum eitthvað sem orðin ein segja ekki. Það endurspeglar oft það sem býr innst inni með okkur. Það getur gefið til kynna hvort við höfum upprætt öfund, deilur og reiðiköst sem allt eru verk hins synduga holds. Þegar andi Guðs starfar óhindrað í lífi okkar verður ávöxtur hans augljós af því sem við segjum öðrum. — Galatabréfið 5:19-23; Efesusbréfið 4:31, 32.
22. Hvernig hefur hið hreina tungumál áhrif á ákvarðanir okkar þegar við kynnumst því vel?
22 Hver sá sem hefur lært nýtt tungumál veit að merkum áfanga er náð þegar hann stendur sig að því að hugsa á hinu nýja tungumáli í stað þess að þýða úr móðurmáli sínu. Eins er það þegar við nemum sannleikann, leggjum okkur einlæglega fram um að fara eftir honum í lífinu og segjum öðrum reglulega frá honum, þá förum við smám saman að hugsa í takt við sannleikann. Við erum ekki alltaf að bera saman hið gamla og nýja og berjast við að velja um það hvað við eigum að gera. Jafnvel í smáum atriðum koma meginreglur Biblíunnar upp í huga okkar til að veita okkur þá leiðsögn sem við þurfum. — Orðskviðirnir 4:1-12.
23. Hvað sýnir að vottar Jehóva um allan heim tala hið hreina tungumál, óháð þjóðtungu sinni?
23 Mannkynið talar að vísu þúsundir tungumála en það er hægt að nota þau öll til að tala hið hreina tungumál. Um alla jörðina eru vottar Jehóva sameinaðir í því að nota vel hið hreina tungumál, og þjóna hlið við hlið í því að bera opinberlega vitni til heiðurs Jehóva, hinum elskuríka Guði okkar!
Upprifjunarspurningar
◻ Hvað er fólgið í þeirri gjöf sem tungumálið er?
◻ Hvað er hið hreina tungumál?
◻ Á hverjum hefur Sefanía 3:9 uppfyllst?
◻ Hvernig getum við sýnt merki þess að við elskum hið hreina tungumál?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Þeir sem kunna hið hreina tungumál láta aðra njóta góðs af því.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Vottar Jehóva um allan heim tala hið hreina tungumál, óháð þjóðtungu sinni.