Þjónið Jehóva einhuga
„Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir, svo að þær ákalli allar nafn [Jehóva] og þjóni honum einhuga.“ — SEFANÍA 3:9.
1, 2. (a) Hvaða spádóm er Jehóva núna að uppfylla? (b) Hvaða spurningar vekur hann?
JEHÓVA Guð er núna að áorka því sem menn gætu aldrei gert af eigin rammleik. Um 3000 tungumál eru töluð í þessum sundraða heimi en Guð er núna að láta uppfyllast þennan spádóm: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir [nýtt tungumál,NW] svo að þær ákalli allar nafn [Jehóva] og þjóni honum einhuga.“ — Sefanía 3:9.
2 Hvert er þetta ‚hreina tungumál‘? Hverjir tala það? Hvað merkir það að ‚þjóna Guði einhuga‘?
Þeir tala hið ‚hreina tungumál‘
3. Hvert er hið ‚hreina tungumál‘ og hvers vegna eru þeir sem tala það ekki sundraðir?
3 Á hvítasunnudeginum árið 33 var heilögum anda Guðs úthellt yfir lærisveina Krists með þeim afleiðingum að þeir urðu færir um að tala tungumál sem þeir höfðu aldrei lært. Það gerði þeim kleift að tala við fólk af mörgum þjóðernum „um stórmerki Guðs.“ Jehóva byrjaði þannig að vinna að einingu manna af alls kyns þjóðernum. (Postulasagan 2:1-21, 37-42) Þegar trúaðir menn af þjóðunum gerðust síðar fylgjendur Jesú mátti með sanni segja að þjónar Guðs væru af mörgum kynþáttum, þjóðernum og tungum. Þeir hafa þó aldrei verið sundraðir vegna veraldlegra landamæra, vegna þess að þeir tala allir hið ‚hreina tungumál.‘ Það er hið sameiginlega tungumál biblíulegs sannleika sem sagt var fyrir í Sefanía 3:9. (Efesusbréfið 4:25) Þeir sem tala hið ‚hreina tungumál‘ eru ekki sundraðir heldur eru þeir „allir samhuga“ og „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10.
4. Hvernig bendir Sefanía 3:9 á samstarf manna af öllum þjóðernum og kynþáttum og hvar er það að finna nú á dögum?
4 Hinu ‚hreina tungumáli‘ var ætlað að koma því til leiðar að menn af öllum þjóðum og kynþáttum gætu þjónað Jehóva „hlið við hlið.“ (NW) Þeir áttu að þjóna Guði „samhuga“ (The New English Bible), eða „einhuga hlið við hlið.“ (The Amplified Bible) Önnur þýðing orðar það svona: „Þá mun ég hreinsa varir allra þjóða til að þær geti allar ákallað nafn Jehóva og unnið saman í þjónustu hans.“ (Byington) Slíka samvinnu allra tungna og kynþátta í þjónustu Guðs er aðeins að finna meðal votta Jehóva.
5. Með hvaða hætti geta vottar Jehóva notað sérhvert tungumál?
5 Með því að allir vottar Jehóva tala hið ‚hreina tungumál‘ biblíulegra sanninda geta þeir notað hvaða mannlegt tungumál sem verkast vill á þann háleitasta veg sem hugsast getur — til að lofa Guð og boða fagnaðarerindið um ríkið. (Markús 13:10; Títus 2:7, 8; Hebreabréfið 13:15) Það er stórfenglegt að hið ‚hreina tungumál‘ skuli þannig gera mönnum af öllum þjóðernum fært að þjóna Jehóva einhuga!
6. Hvernig lítur Jehóva á fólk en hvað getur hjálpað okkur ef við finnum fyrir þrálátri tilhneigingu til þess að fara í manngreinarálit?
6 Þegar Pétur bar vitni fyrir Kornelíusi og öðrum mönnum af þjóðunum sagði hann: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Samkvæmt orðalagi annarra biblíuþýðinga „gerir [Jehóva] ekki greinarmun á mönnum,“ „gerir ekki upp á milli manna“ eða „mismunar ekki mönnum.“ (The Emphatic Diaglott; Phillips; New International Version) Við, þjónar Jehóva, ættum að líta menn af öllum þjóðernum sömu augum og hann. En hvað getur kristinn maður gert ef hann finnur fyrir þrálátri hlutdrægni í hjarta sér? Þá væri honum hjálplegt að gefa því gaum hvernig hinn óhlutdrægi Guð okkar kemur fram við þjóna sína af sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð. — Sjá einnig Vaknið! þann 8. nóvember 1984, bls. 3-11 í enskri útgáfu.
Þeir eru gersemar
7. Hvers vegna er enginn munur eftir þjóðerni eða kynþætti á sambandi kristinna manna við Guð?
7 Ef þú ert skírður vottur Jehóva er líklegt að þú hafir einhvern tíma ‚andvarpað og kveinað yfir öllum þeim svívirðingum‘ sem framdar eru í þessu óguðlega heimskerfi. (Esekíel 9:4) Þú varst ‚dauður í syndum þínum‘ en í miskunn sinni dró Guð þig til sín fyrir milligöngu Jesú Krists. (Efesusbréfið 2:1-5; Jóhannes 6:44) Í öllu þessu varst þú ekkert frábrugðinn neinum af trúbræðrum þínum. Þeir liðu líka fyrir óguðleika umhverfisins, voru ‚dauðir í syndum sínum‘ og urðu þiggjendur miskunnar Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists. Og óháð kynþætti okkar eða þjóðerni er það aðeins vegna trúar sem nokkurt okkar getur staðið frammi fyrir Jehóva Guði sem vottur hans. — Rómverjabréfið 11:20.
8. Hvernig er Haggaí 2:7 að rætast núna?
8 Spádómsorðin í Haggaí 2:7 hjálpa okkur að hafa í huga hvernig okkur ber að líta á trúbræður okkar af ólíkum þjóðernum. Þar lýsir Jehóva yfir: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ Þessi upphafning sannrar guðsdýrkunar, sem hér er sögð fyrir, er núna að eiga sér stað í hinu sanna musteri Guðs, á því sviði þar sem hann er tilbeðinn. (Jóhannes 4:23, 24) En hverjar eru „gersemar allra þjóða“? Það eru þær þúsundir manna sem unna réttlætinu og bregðast rétt við prédikun Guðsríkis. Úr öllum þjóðum og kynþáttum streyma þeir til ‚fjallsins þar sem hús Jehóva stendur,‘ verða skírðir vottar hans og hluti hins alþjóðlega ‚mikla múgs.‘ (Jesaja 2:2-4; Opinberunarbókin 7:9) Þeir sem eru hluti af jarðnesku skipulagi Jehóva og dýrka hann sem slíkir eru hreinir, siðprúðir og guðræknir einstaklingar — mjög svo miklar gersemar. Sérhver sannkristinn maður ætti að vilja sýna bróðurkærleika öllum þessum gersemum þjóðanna sem sameiginlegur faðir okkar á himnum tekur á móti.
Þeir hafa nýjan persónuleika
9. Hvernig ber okkur að líta á menn af öðrum þjóðum, þótt við höfum kannski litið niður á þá áður en við gerðumst kristnir?
9 Andlegir bræður okkar og systur út um alla jörðina eru gersemar einnig vegna þess að þeir hafa fylgt því ráði að ‚afklæðast gamla persónuleikanum með gjörðum hans og íklæðast hinum nýja.‘ Þeir hafa ‚endurnýjast til fullkominnar þekkingar og orðið þannig mynd skapara síns. Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.‘ (Kólossubréfið 3:9-11) Ef ákveðinn einstaklingur hafði áður fyrr horn í síðu Gyðinga, Grikka eða annarra sem voru honum útlendingar ætti að vera orðin breyting á núna þegar hann er orðinn kristinn. Óháð kynþætti, þjóðerni eða menningarumhverfi rækta þeir sem bera ‚nýjan persónuleika‘ ávöxt heilags anda Guðs — kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Við það verða þeir ástfólgnir meðbræðrum sínum.
10. Hvernig geta orðin í Títusarbréfinu 1:5-12 hjálpað okkur ef við höfum tilhneigingu til neikvæðra athugasemda um trúbræður okkar af öðrum kynþætti eða þjóðerni?
10 Ólíkt þjónum Jehóva láta menn heimsins oft niðrandi orð falla um menn af öðrum þjóðernum en þeirra eigin. Meira að segja sagði spámaður á Krít einu sinni um sína eigin samlanda: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar“! Páll postuli var minntur á þessi orð þegar nauðsynlegt reyndist að þagga niður í falskennurum meðal kristinna manna á Krít. Páll var þó sannarlega ekki að segja að ‚allir kristnir menn á Krít væru síljúgandi, óargadýr og letimagar.‘ (Títusarbréfið 1:12) Nei, því að kristnir menn tala ekki niðrandi um aðra. Þar að auki höfðu langflestir þessara kristnu manna á Krít íklæðst ‚nýja persónuleikanum‘ og sumir voru andlega hæfir til að hljóta útnefningu sem öldungar. Þetta er alvarlegt íhugunarefni ef við finnum einhvern tíma fyrir freistingu hjá okkur til að láta ófögur orð falla um andlega bræður okkar og systur af ákveðnum kynþætti eða þjóðerni.
Metum aðra meira en sjálfa okkur
11. Hvað getur kristinn maður gert ef hann finnur fyrir því í hjarta sér að hann gerir upp á milli bræðra sinna?
11 Ef kristinn maður á hinn bóginn gerði á einhvern hátt upp á milli kynþátta eða þjóðerna myndi það sennilega birtast í orðum hans eða athöfnum. Það gæti síðan valdið sárindum, einkanlega í söfnuði fólks af ýmsum þjóðernum eða kynþáttum. Enginn kristinn maður ætti að vilja stofna einingu þjóna Guðs í voða með þeim hætti. (Sálmur 133:1-3) Ef því kristinn maður finnur fyrir einhverri hlutdrægni í hjarta sér væri rétt af honum að biðja: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ — Sálmur 139:23, 24.
12. Hvers vegna ættum við ekki að gorta af sjálfum okkur eða öðrum af sama þjóðerni?
12 Það er gott af okkur að hafa það raunsæja viðhorf að við séum öll ófullkomnir menn sem fengjum alls ekki að standa frammi fyrir Guði ef fórn Jesú Krists væri ekki fyrir að þakka. (1. Jóhannesarbréf 1:8-2:2) Hvað gerir okkur þá ólíka öðrum? Úr því að við eigum ekkert sem við höfum ekki fengið að gjöf, hvers vegna ættum við þá að monta okkur innra með okkur eða frammi fyrir öðrum vegna þjóðernis okkar? — Samanber 1. Korintubréf 4:6, 7.
13. Hvernig getum við stuðlað að einingu safnaðarins og hvað má læra af Filippíbréfinu 2:1-11?
13 Við getum stuðlað að einingu safnaðarins ef við viðurkennum og sýnum að við kunnum að meta góða eiginleika annarra. Páll postuli, sem var Gyðingur, gaf okkur öllum ærið umhugsunarefni þegar hann sagði Filippímönnum sem voru af þjóðunum: „Gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“ Jesús Kristur er fullkomið fordæmi um hvert skuli vera hið rétta viðhorf okkar til manna af sérhverjum kynþætti eða þjóðerni. Enda þótt hann væri voldug andavera ‚varð hann mönnum líkur‘ og lítillækkaði sig til dauða á kvalastaur, í þágu syndugra manna af sérhverjum kynþætti og þjóðerni. (Filippíbréfið 2:1-11) Ættum við, fylgjendur Jesú, þá ekki að vera kærleiksríkir, lítillátir og hluttekningarsamir, og viðurkenna að aðrir séu okkur fremri?
Hlustaðu og taktu eftir
14. Hvað getur hjálpað okkur til að líta á aðra sem okkur fremri?
14 Ef við hlustum þegar aðrir tala og gefum breytni þeirra nákvæman gaum getur það hjálpað okkur að meta þá meira en sjálfa okkur. Vera kann að við þurfum að viðurkenna í hreinskilni að samöldungur okkar — ef til vill af annarri þjóð eða kynþætti — sé okkur fremri í að gefa hagnýt ráð í Guðveldisskólanum. Okkur gæti orðið ljóst að það sé andlegur þroski hans, ekki framsögn eða málfar sem gerir honum kleift að ná góðum árangri í að hjálpa trúbræðrum sínum í að verða hæfir boðberar Guðsríkis. Og augljóst er að Jehóva blessar viðleitni hans.
15. Hverju getum við veitt athygli þegar við hlustum á trúbræður okkar?
15 Þegar við ræðum við bræður okkar og systur og hlustum á athugasemdir þeirra á samkomunum gæti okkur hugsanlega orðið ljóst að sumir þeirra hafa dýpri skilning á vissum biblíusannindum en við. Við gætum veitt því athygli að bróðurkærleikur þeirra virðist sterkari, þeir hafi meiri trú eða láti í ljós meira traust til Jehóva. Hvort heldur þeir eru af sama þjóðerni og við eða ekki geta þeir því hvatt okkur til kærleika og góðra verka, átt þátt í að styrkja trú okkar og hvatt okkur til að treysta enn betur á hinn himneska föður okkar. (Orðskviðirnir 3:5, 6; Hebreabréfið 10:24, 25, 39) Jehóva er augljóslega nálægur þeim og það ættum við líka að vera. — Samanber Jakobsbréfið 4:8.
Blessun Jehóva og stuðningur
16, 17. Lýstu með dæmum að Guð blessar þjóna sína af öllum kynþáttum og þjóðernum hlutdrægnislaust.
16 Jehóva er hlutdrægnislaus í að blessa þjóna sína af öllum þjóðum og kynþáttum. Tökum Brasilíu sem dæmi. Brasilía heyrði fyrst fagnaðarerindið um Guðsríki um árið 1920, ekki frá erlendum trúboðum heldur af vörum átta brasilískra sjómanna. Blessun Guðs hefur verið auðsæ því að á þjónustuárinu 1987 náðist nýtt hámark 216.216 boðbera Guðsríkis í því landi þar sem íbúar telja 141.302.000 — það svarar til eins boðbera á hverja 654 íbúa.
17 Lítum á annað dæmi um blessun Guðs. Í aprílmánuði 1923 voru tveir þeldökkir vottar Jehóva frá eynni Trínidad í Karíbahafi sendir til Vestur-Afríku til að boða Guðsríki. Þannig atvikaðist það að bróðir og systir W. R. Brown þjónuðu þar um langt árabil. Hann varð kunnur undir heitinu „Biblíu-Brown.“ Þau ‚gróðursettu‘ og „Guð gaf vöxtinn“ þegar aðrir tóku einnig að starfa á þessu víðáttumikla svæði. (1. Korintubréf 3:5-9) Núna eru 32.600 boðberar Guðsríkis í Ghana og yfir 133.800 í Nígeríu.
18, 19. Nefndu dæmi sem sýna að okkar óhlutdrægi Guð heldur uppi þjónum sínum af öllum kynþáttum og þjóðernum.
18 Jehóva lætur ekki við það sitja að blessa þjóna sína af öllum þjóðum og kynþáttum; hann heldur þeim einnig uppi. Nefnum tvo japanska votta Jehóva sem dæmi. Þann 21. júní 1939 voru Katsuo Miura og eiginkona hans handtekin, hneppt í fangelsi og aðskilin frá fimm ára gömlum syni sínum sem var skilinn eftir í umsjá ömmu sinnar. Systur Miura var sleppt úr haldi eftir átta mánaða fangelsisvist en bróður Miura var haldið í fangelsi í meira en tvö ár áður en hann var leiddur fyrir rétt. Honum var misþyrmt, hann var sakfelldur og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Guð hélt honum uppi í fangelsinu í Híróshíma með hjálp Ritningarinnar sem var honum óbrigðul uppspretta hughreystingar og styrktar. Eins og fyrir kraftaverk lifði bróðir Miura af þann 6. ágúst 1945 þegar kjarnorkusprengjan eyðilagði fangelsið. Tveim mánuðum síðar gat hann aftur sameinast konu sinni og syni í norðurhluta Japans.
19 Á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar máttu vottar Jehóva þola geysiharðar ofsóknir víða um lönd. Robert A. Winkler var einn þýskra bræðra sem þjáðist í fangabúðum nasista í Þýskalandi og Hollandi. Þar eð hann vildi ekki koma upp um samvotta sína var hann barinn svo grimmilega að hann var óþekkjanlegur. Hann skrifaði samt: „Tilhugsunin um loforð Jehóva um að hjálpa þjónum sínum í alls kyns erfiðleikum veitti mér næga hughreystingu og styrk til að halda allt þetta út. . . . Á laugardag höfðu Gestapómenn barið mig og næsta mánudag yfirheyrðu þeir mig aftur. Hvað skyldi gerast núna og hvað átti ég að gera? Ég leitaði til Jehóva í bæn og treysti á loforð hans. Ég vissi að ég yrði að beita guðræðislegri herkænsku til verndar starfi Guðsríkis og kristnum bræðrum mínum. Þetta var mikil þolraun fyrir mig og á sautjánda degi var ég algerlega úrvinda, en ég þakkaði Jehóva fyrir að í krafti hans gat ég haldið út í gegnum þessa prófraun og varðveitt ráðvendni.“ — Sálmur 18:36; 55:23; 94:18.
Þakklátir fyrir bræðrafélag okkar
20. Hvernig getur virðing okkar fyrir trúbræðrum af öðrum þjóðernum og kynþáttum aukist?
20 Enginn vafi leikur á að Jehóva blessar og heldur uppi vottum sínum af sérhverri þjóð og kynþætti. Hann fer ekki í manngreinarálit og við, vígðir þjónar hans, höfum enga afsökun eða ástæðu fyrir að gera upp á milli manna. Auk þess mun virðing okkar fyrir bræðrum og systrum af öllum kynþáttum og þjóðernum aukast ef við hugleiðum í hverju þau standa okkur framar. Þau fylgja líka viskunni frá Guði sem er veitt öllum og gefur afbragðsgóðan ávöxt. (Jakobsbréfið 3:13-18) Gæska þeirra, örlæti, kærleikur og aðrir eiginleikar Guði að skapi eru okkur gott fordæmi.
21. Hverju ættum við að vera staðráðin í?
21 Við ættum því að vera þakklát fyrir bræðrafélag okkar sem er samsett af mönnum af öllum kynþáttum og þjóðernum! Með hjálp og blessun hins himneska föður okkar skulum við „þjóna honum einhuga“ í bróðurkærleika og gagnkvæmri virðingu. Það ætti að vera einlæg þrá okkar og óhagganlegur ásetningur að þjóna Jehóva sem einn maður.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað gerir hið ‚hreina tungumál‘ þjónum Jehóva af öllum þjóðernum kleift?
◻ Hvernig er Haggaí 2:7 að rætast núna og hvaða áhrif ætti það að hafa á viðhorf okkar til annarra þjóna Guðs?
◻ Hvernig getur Filippíbréfið 2:3 haft áhrif á samband okkar við fólk af sérhverjum kynþætti og þjóðerni?
◻ Hverju munum við veita athygli hjá trúbræðrum okkar af öðrum þjóðernum ef við hlustum og fylgjumst vel með?
[Myndir á blaðsíðu 27]
Menn af öllum kynþáttum og þjóðernum lofa Jehóva einhuga.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Hlustaðu og fylgstu með af athygli. Kærleikur og trú, sem birtist í orðum og athöfnum annarra votta Jehóva, munu hafa áhrif á þig.