Hinn ógurlegi dagur Jehóva er í nánd
„Frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ — MALAKÍ 3:16.
1, 2. Hvaða ógurlegum degi varar Malakí við?
ÓGURLEGT! Í dagrenningu þann 6. ágúst 1945 var stór borg lögð í rúst á augabragði. Um 80.000 féllu! Tugþúsundir særðust til ólífis! Stjórnlaus eldur geisaði! Kjarnorkusprengjan hafði unnið verk sitt. Hvernig fór fyrir vottum Jehóva í þessum hamförum? Það var aðeins einn vottur í Híróshíma — innilokaður vegna kristilegrar ráðvendni sinnar bak við fangelsismúra sem vernduðu hann. Fangelsið hrundi til grunna en bróður okkar sakaði ekki. Eins og hann orðaði það var hann sprengdur með kjarnorkusprengju út úr fangelsi — kannski það eina góða sem sprengjan áorkaði.
2 Þótt kjarnorkusprengingin hafi verið ógurleg hverfur hún algerlega í skuggann af ‚hinum mikla og ógurlega degi Jehóva‘ sem er rétt framundan. (Malakí 4:5) Vissulega hafa verið ógurlegir dagar áður í sögunni, en þessi dagur Jehóva mun taka þeim öllum fram. — Markús 13:19.
3. Hvaða munur á ‚öllu holdi‘ og fjölskyldu Nóa var undanfari flóðsins?
3 Á dögum Nóa hafði „allt hold . . . spillt vegum sínum á jörðinni“ og Guð lýsti yfir: „Jörðin er full af glæpaverkum [mannanna]. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.“ (1. Mósebók 6:12, 13) Eins og skráð er í Matteusi 24:39 sagði Jesús að menn hefðu engan gaum gefið „fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ En hinn trúfasti Nói, ‚prédikari réttlætisins,‘ lifði flóðið af ásamt guðhræddri fjölskyldu sinni. — 2. Pétursbréf 2:5.
4. Hvernig eru Sódóma og Gómorra dæmi til viðvörunar?
4 „Eins og Sódóma og Gómorra,“ segir Júdasarbréfið 7, „og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað . . . og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.“ Þessir óguðlegu menn fórust vegna svívirðilegs saurlifnaðar síns. Kynóð samfélög þessa heims mega gæta sín! En tökum eftir að hinn guðhræddi Lot og dætur hans voru vernduð gegnum þessar hamfarir, alveg eins og tilbiðjendur Jehóva verða verndaðir í þrengingunni miklu sem nálgast óðfluga. — 2. Pétursbréf 2:6-9.
5. Hvað getum við lært af dómunum sem fullnægt var á Jerúsalem?
5 Lítum einnig á þau viðvörunardæmi, sem Jehóva gaf, er hann notaði innrásarheri til að jafna Jerúsalem við jörðu, borgina dýrlegu sem einu sinni hafði verið „gleði alls landsins.“ (Sálmur 48:3) Þessir sorglegu atburðir áttu sér stað, fyrst árið 607 f.o.t. og síðan aftur árið 70, vegna þess að þjóðin, sem sagðist vera fólk Guðs, yfirgaf sanna tilbeiðslu. Sem betur fer lifðu drottinhollir þjónar Jehóva af. Hörmungarnar árið 70 (sjá mynd á blaðsíðu 23) eru kallaðar slík „þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa.“ Hún eyddi hinu fráhverfa Gyðingakerfi fyrir fullt og allt og í þeim skilningi mun hún „aldrei verða“ aftur. (Markús 13:19) En jafnvel þessi fullnæging á dómi Guðs var einungis skuggi þeirrar ‚miklu þrengingar‘ sem ógnar öllu heimskerfinu núna. — Opinberunarbókin 7:14.
6. Af hverju leyfir Jehóva hörmungar?
6 Af hverju skyldi Guð leyfa svo ægilegar hörmungar og svona mikið manntjón? Á tímum Nóa, Sódómu og Gómorru og Jerúsalem var Jehóva að fullnægja dómi á þeim sem voru þegar búnir að spilla vegum sínum á jörðinni, sem höfðu saurgað þessa fögru reikistjörnu með bókstaflegri mengun og siðspillingu og höfðu fallið frá eða hafnað sannri tilbeiðslu. Við stöndum núna frammi fyrir því að endanlegum dómi verði fullnægt um heim allan. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.
„Á hinum síðustu dögum“
7. (a) Hvað voru dómar Guðs til forna spádómlegar fyrirmyndir um? (b) Hvaða dýrlegar framtíðarhorfur blasa við?
7 Nóaflóðið, eyðing Sódómu og Gómorru og Jerúsalem til forna voru spádómlegar fyrirmyndir um hina miklu og ógurlegu þrengingu sem lýst er í 2. Pétursbréfi 3:3-13. Postulinn segir: „Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum.“ Síðan beinir Pétur athyglinni að dögum Nóa og skrifar: „Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ Í kjölfar þessarar mestu þrengingar mannkynssögunnar nær hin langþráða konungsstjórn Messíasar nýju umfangi — sem ‚nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr.‘ Hvílíkar framtíðarhorfur!
8. Hvernig stefna heimsatburðirnir að hámarki?
8 Núna á 20 öldinni hafa heimsatburðirnir stefnt jafnt og þétt að hámarki. Enda þótt eyðing Hírosíma hafi ekki verið nein guðleg hegning getur hún talist hluti af þeim ‚ógnum‘ sem Jesús spáði að verða myndu á endalokatímanum. (Lúkas 21:11) Hún var upphaf kjarnorkuógnar sem grúfir enn eins og óveðursský yfir mannkyninu. Þannig stóð í fyrirsögn dagblaðsins The New York Times hinn 29. nóvember 1993: „Byssurnar eru kannski örlítið ryðgaðar en kjarnavopnin eru enn gljáfægð.“ Samtímis er haldið áfram að brytja niður fólk í styrjöldum milli þjóða, kynþátta og ættflokka. Fyrr á öldum var þorri fallinna úr röðum hermanna. Nú er sagt að 80 af hundraði fallinna séu óbreyttir borgarar, að ekki sé nú minnst á þær milljónir flóttamanna sem flýja heimalönd sín.
9. Hvernig hafa trúarleiðtogarnir reynst vera vinir heimsins?
9 Með því að blanda sér í stríð og blóðugar byltingar hafa trúarleiðtogar oft sýnt að þeir eru ‚vinir heimsins.‘ (Jakobsbréfið 4:4) Sumir hafa unnið með ágjörnum auðjöfrum viðskiptaheimsins sem fjöldaframleiða vopn og byggja upp fíkniefnastórveldi. Í frétt um morðið á suður-amerískum fíkniefnabarón sagði dagblaðið The New York Times til dæmis: „Hann faldi fíkniefnaviðskiptin bak við ímynd sína sem velgerðamaður og þóttist hafa auðgast á lögmætum viðskiptum. Hann stjórnaði eigin útvarpsþætti og sást oft í fylgd rómversk-kaþólskra presta.“ Tímaritið The Wall Street Journal skýrði frá því að auk þess að eyðileggja líf milljóna manna, sem ánetjuðust fíkniefnum, hafi þessi fíkniefnabarón persónulega stjórnað morðum á þúsundum manna. Lundúnablaðið The Times sagði: „Morðingjarnir greiða oft fyrir sérstaka þakkarmessu . . . á sama tíma og fórnarlambið er borið til grafar annars staðar.“ Hvílík mannvonska!
10. Hvernig ættum við að líta á það að heimsástandið skuli fara versnandi?
10 Hver veit hvaða skaða menn geta enn valdið hér á jörð undir áhrifum illra anda? Eins og 1. Jóhannesarbréf 5:19 segir er ‚allur heimurinn á valdi hins vonda,‘ Satans djöfulsins. Núna er ‚vei fyrir jörðina og hafið, því að djöfullinn er stiginn niður til okkar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.‘ (Opinberunarbókin 12:12) En til allrar hamingju fullvissar Rómverjabréfið 10:13 okkur um að ‚hver sem ákallar nafn Jehóva muni hólpinn verða.‘
Guð nálgast til að dæma
11. Hvaða ástand í Ísrael kallaði á spádóm Malakí?
11 Spádómur Malakí varpar ljósi á það sem nánasta framtíð ber í skauti sér. Malakí er síðastur í röð hinna mörgu hebresku spámanna til forna. Ísrael hafði upplifað eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. En 70 árum síðar hafði Jehóva sýnt miskunn og ástríka góðvild er hann leiddi þjóðina aftur heim í land sitt. En áður en hundrað ár voru liðin sótti í sama farið — vonsku og fráhvarf — hjá Ísraelsmönnum. Fólkið vanvirti nafn Jehóva, skeytti ekki um réttlát lög hans og saurgaði musteri hans með því að koma með blindar, haltar og sjúkar skepnur til fórnar. Menn skildu við eiginkonur æsku sinnar til að geta gengið að eiga útlendar konur. — Malakí 1:6-8; 2:13-16.
12, 13. (a) Hvaða hreinsun hefur verið nauðsynleg fyrir hinn smurða prestahóp? (b) Hvernig nýtur múgurinn mikli einnig góðs af hreinsun?
12 Hreinsunarstarf var nauðsynlegt. Því er lýst í Malakí 3:1-4. Líkt og Ísrael fortíðarinnar þurftu nútímavottar Jehóva að hreinsast, þannig að það má heimfæra hreinsunarstarfið, sem Malakí lýsti, á þá. Er dró að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar varðveittu Biblíunemendurnir, eins og vottarnir voru kallaðir á þeim tíma, ekki afdráttarlaust hlutleysi í málefnum heimsins. Árið 1918 sendi Jehóva ‚engil sáttmálans,‘ Krist Jesú, til hins andlega musterisfyrirkomulags síns til að hreinsa hinn litla hóp dýrkenda sinna af veraldlegri flekkun. Jehóva hafði spurt spádómlega: „Hver má afbera þann dag, er hann [engill sáttmálans] kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana [hinn smurða prestahóp] og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að [Jehóva] hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er.“ Sem hreinsað fólk hafa þeir einmitt gert það!
13 Þessi smurði prestahópur er aðeins 144.000 manns. (Opinberunarbókin 7:4-8; 14:1, 3) En hvað um aðra vígða kristna menn nú á tímum? Þeir skipta nú milljónum og mynda ‚mikinn múg‘ sem hefur líka hreinsast af veraldlegri háttsemi og „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Með því að trúa á lausnarfórn lambsins, Krists Jesú, geta þeir staðið hreinir frammi fyrir Jehóva. Þeim er heitið að þeir komist lifandi gegnum alla þrenginguna miklu, hinn ógurlega dag Jehóva. — Sefanía 2:2, 3.
14. Hvaða orðum ætti fólk Guðs að gefa gaum nú á dögum jafnhliða því að það heldur áfram að rækta með sér nýja persónuleikann?
14 Þessi mikli múgur verður, ásamt leifum prestahópsins, að gefa áframhaldandi orðum Guðs gaum: „Ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum og halla rétti útlendinga, en óttast mig ekki . . . Ég, [Jehóva], hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:5, 6) Nei, staðlar Jehóva breytast ekki, þannig að nútímafólk hans verður að óttast hann, forðast hvers kyns skurðgoðadýrkun, vera sannsögult, heiðarlegt og örlátt og halda áfram að rækta með sér kristna persónuleikann. — Kólossubréfið 3:9-14.
15. (a) Hvað býður Jehóva í miskunn sinni? (b) Hvernig getum við forðast að ‚pretta‘ Jehóva?
15 Jehóva býður hverjum þeim sem kann að hafa vikið af réttlátum vegum hans og segir: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ Ef þeir spyrja: „Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?“ svarar hann: „Þér prettið mig.“ Og í svari við næstu spurningu: „Í hverju höfum vér prettað þig?“ segir Jehóva að þeir hafi rænt hann með því að færa ekki sitt allra besta sem fórn til musterisþjónustu hans. (Malakí 3:7, 8) Við sem erum orðin hluti þjóðar Jehóva ættum sannarlega að vilja helga þjónustu hans stærstan hluta krafta okkar, hæfileika og efnislegra eigna. Í stað þess að pretta Guð höldum við þannig áfram að ‚leita fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ — Matteus 6:33.
16. Hvaða hvatningu finnum við í Malakí 3:10-12?
16 Allir sem snúa baki við efnishyggju og eigingirni heimsins eiga stórkostleg laun í vændum eins og Malakí 3:10-12 gefur til kynna: „Reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ Jehóva lofar öllum þakklátum mönnum andlegri velsæld og gæðum. Hann bætir við: „Þá munu allar þjóðir telja yður sæla, því að þér munuð vera dýrindisland.“ Hefur rauninekki verið sú hjá milljónum þakklátra þjóna Guðs um gjörvallan heim nú á dögum?
Ráðvandir menn í bók lífsins
17-19. (a) Hvaða áhrif hefur ólgan í Rúanda haft á bræður okkar þar? (b) Með hvaða sannfæringu hafa allir þessir trúföstu menn sótt fram?
17 Hér er við hæfi að segja nokkur orð um ráðvendni bræðra okkar og systra í Rúanda. Þau hafa alltaf komið með hinar bestu andlegu fórnir í andlegt tilbeiðsluhús Jehóva. Í desember 1993 var heildaraðsókn að umdæmismótinu „Kennsla Guðs“ 4075 þótt boðberar væru aðeins 2080. Þá létu 230 nýir vottar skírast, og af þeim skráðu næstum 150 sig til aðstoðarbrautryðjandastarfs í mánuðinum á eftir.
18 Þegar þjóðernishatrið braust út í apríl 1994 voru að minnsta kosti 180 vottar drepnir, þeirra á meðal borgarumsjónarmaðurinn í höfuðborginni Kígalí og fjölskylda hans öll. Þýðendurnir sex við útibú Varðturnsfélagsins í Kígalí, fjórir hútúar og tveir tútsar, héldu starfi sínu áfram um nokkurra vikna skeið þrátt fyrir miklar hótanir uns tútsarnir urðu að flýja. Þeir voru svo drepnir við eftirlitsstöð. Að síðustu flúðu hinir fjórir með þann tölvubúnað, sem eftir var, til Góma í Saír og héldu þar trúfastir áfram að þýða Varðturninn á kinjarúanda, tungu Rúandamanna. — Jesaja 54:17.
19 Þótt þessir landflótta vottar væru í miklum nauðum báðu þeir alltaf um andlega fæðu á undan efnislegum vistum. Bræður frá nokkrum löndum færðu miklar fórnir til að koma hjálpargögnum til þeirra. Þessir flóttamenn hafa gefið stórkostlegan vitnisburð, bæði með orðum sínum og eins með því að halda stillingu sinni undir álagi. Þeir hafa svo sannarlega haldið áfram að leggja fram sitt besta til tilbeiðslunnar á Jehóva. Þeir hafa sýnt sams konar sannfæringu og Páll lét í ljós í Rómverjabréfinu 14:8: „Ef vér lifum, lifum vér [Jehóva], og ef vér deyjum, deyjum vér [Jehóva]. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér [Jehóva].“
20, 21. (a) Nöfn hverra eru ekki skráð í minnisbók Jehóva? (b) Nöfn hverra standa í bókinni og hvers vegna?
20 Jehóva heldur skrá yfir alla sem þjóna honum í ráðvendni. Spádómur Malakí heldur áfram: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ — Malakí 3:16.
21 Það er sannarlega mikilvægt fyrir okkur nútímamenn að sýna guðsótta og heiðra nafn Jehóva! Ef við gerum það hljótum við ekki óhagstæðan dóm eins og þeir sem styðja og dást að þessu heimskerfi. Opinberunarbókin 17:8 segir að þeir eigi „ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók.“ Rökrétt er að æðsta nafnið, sem er skrifað í lífsbók Jehóva, sé nafn höfuðmiðlara lífsins, Guðs eigin sonar, Jesú Krists. Matteus 12:21 lýsir yfir: „Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“ Lausnarfórn Jesú tryggir öllum, sem trúa á hana, eilíft líf. Hvílík sérréttindi að fá nafni sínu bætt við nafn Jesú í þessari bók!
22. Hvaða mismunur verður augljós er Jehóva fullnægir dómi?
22 Hvernig mun þjónum Guðs farnast í dóminum? Jehóva svarar í Malakí 3:17, 18: „Ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum. Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ Allir munu sjá muninn á hinum óguðlegu, sem eru aðgreindir til eilífrar eyðingar, og hinum réttlátu sem eru velþóknanlegir og fá eilíft líf á jarðnesku yfirráðasvæði Guðsríkis. (Matteus 25:31-46) Þannig mun mikill múgur sauðumlíkra manna lifa af hinn mikla og ógurlega dag Jehóva.
Manst þú?
◻ Hvaða dómum fullnægði Jehóva á biblíutímanum?
◻ Hvernig er ástandið núna hliðstætt því sem var til forna?
◻ Hvaða hreinsun hefur átt sér stað sem uppfylling á spádómi Malakí?
◻ Nöfn hverra eru rituð í minnisbók Guðs?