Dagurinn sem ‚brennur eins og ofn‘
„Sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn.“ — MALAKÍ 4:1.
1. Hvaða spurningar vakna í sambandi við Malakí 4:1?
NÚNA á síðustu dögum eru þeir sælir sem fá nafn sitt ritað í minnisbók Jehóva. En hvað um þá sem ekki eru hæfir til að hljóta þau sérréttindi? Hvernig fer fyrir þeim mönnum, hvort heldur valdhöfum eða venjulegu fólki, sem sýna boðendum Guðsríkis og boðskap þeirra fyrirlitningu? Malakí talar um reikningsskiladag. Í 4. kafla, 1. versi lesum við: „Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim — segir [Jehóva] allsherjar — svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.“
2. Hvaða myndræna lýsingu gefur Esekíel á dómi Jehóva?
2 Aðrir spámenn líkja dómsdegi Jehóva yfir þjóðunum einnig við brennheitan ofn. Hversu vel á ekki Esekíel 22:19-22 við dóm Guðs yfir sértrúarflokkum hins fráhverfa kristna heims! Þar stendur: „Fyrir því segir [Jehóva] Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman . . . Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni, láta yður þar inn og bræða yður. Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar. Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, [Jehóva], hefi úthellt reiði minni yfir yður.“
3, 4. (a) Hvað hafa klerkarnir fullyrt í hræsni sinni? (b) Hvaða ófagra sögu hafa trúarbrögðin getið sér?
3 Sannarlega kröftug samlíking! Klerkastéttin, sem hefur færst undan því að nota nafn Jehóva og jafnvel lastað hið heilaga nafn, kemst ekki undan reikningsskiladeginum. Ósvífnislega heldur hún því fram að hún og pólitískir bandamenn hennar muni stofnsetja ríki Guðs á jörð eða að minnsta kosti gera jörðina að hæfum stað fyrir Guðsríki.
4 Hinn fráhverfi kristni heimur hefur gengið í lið með pólitískum stjórnendum í því að heyja hræðilegar styrjaldir. Mannkynssagan greinir frá krossferðum miðalda, hinum þvinguðu trúskiptum undir ægivaldi spænska rannsóknarréttarins, þrjátíu ára stríðinu sem stráfelldi Evrópubúa á 17. öld, og spænska borgarastríðinu á fjórða áratugnum sem átti að treysta kaþólsku kirkjuna á Spáni í sessi. Mesta blóðtakan átti sér stað í heimsstyrjöldunum tveim á okkar öld þegar kaþólskir og mótmælendur háðu allsherjarstyrjöld og drápu bæði trúbræður sína og fólk annarra trúarbragða án greinarmunar. Þá má líka nefna hin mannskæðu átök kaþólskra og mótmælenda á Írlandi, trúarlegra klofningshópa á Indlandi og trúarhópa í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Síður trúarsögunnar eru líka blóði drifnar af píslarvættisdauða þúsunda trúfastra votta Jehóva. — Opinberunarbókin 6:9, 10.
5. Hvaða dómur bíður falskra trúarbragða?
5 Við getum ekki annað en verið þakklát fyrir þá réttvísi Jehóva að Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og áhangendum hennar skuli bráðlega verða eytt. Þessari eyðingu er lýst í Opinberunarbókinni 18:21, 24: „Sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: ‚Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða. Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.‘“
6. (a) Hverjir verða sem hálmleggir og hvers vegna? (b) Hvað eru þeir sem óttast Jehóva fullvissaðir um?
6 Brátt verða allir óvinir réttlætisins og fylgismenn þeirra „sem hálmleggir.“ Dagur Jehóva mun brenna meðal þeirra eins og bræðsluofn, svo „hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.“ Á þessum reikningsskiladegi verður farið réttlátlega með börn eða kvisti, í samræmi við mat Jehóva á rótum þeirra, foreldrunum, sem hafa umsjón með þessum börnum. Óguðlegir foreldrar munu ekki eiga sér afkomendur til að viðhalda óguðlegum háttum sínum. En þeir sem trúa á fyrirheit Guðsríkis bifast ekki. Hebreabréfið 12:28, 29 hvetur þess vegna: ‚Vér skulum þakka og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta. Því að vor Guð er eyðandi eldur.‘
Er Jehóva grimmur Guð?
7. Hvernig tengist kærleikur Jehóva dómi hans?
7 Merkir þetta að Jehóva sé grimmur og hefnigjarn Guð? Fjarri fer því! Í 1. Jóhannesarbréfi 4:8 segir postulinn grundvallarsannindi: „Guð er kærleikur.“ Síðan, í 16. versi, leggur hann enn meiri áherslu á það: „Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.“ Það er vegna kærleika síns til mannkynsins sem Jehóva ætlar sér að hreinsa jörðina af allri illsku. Hinn kærleiksríki, miskunnsami Guð okkar lýsir yfir: „Svo sannarlega sem ég lifi . . . hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja?“ — Esekíel 33:11.
8. Hvernig lagði Jóhannes áherslu á kærleika en sýndi sig eigi að síður vera þrumuson?
8 Jóhannes talar oftar um agaʹpe, kærleika byggðan á meginreglum, en hinir þrír guðspjallaritararnir samanlagt, en þó er Jóhannesi sjálfum lýst í Markúsi 3:17 sem ‚þrumusyni.‘ Það var vegna innblásturs Jehóva sem þessi þrumusonur skráði opinberunarboðskap síðustu bókar Biblíunnar — Opinberunarbókarinnar. Hún lýsir Jehóva sem Guði er fullnægir réttvísinni. Þessi bók er full af orðum sem tengjast dómi, svo sem ‚reiði-vínþröng Guðs hin mikla,‘ ‚sjö skálar Guðs reiði‘ og „heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ — Opinberunarbókin 14:19; 16:1; 19:15.
9. Hvað sagði Jesús um dóma Jehóva og hvernig uppfylltust spádómar hans?
9 Drottinn okkar Jesús Kristur, sem er „ímynd hins ósýnilega Guðs,“ kunngerði dóma Jehóva djarflega meðan hann var á jörðinni. (Kólossubréfið 1:15) Dæmi um það eru hin sjö vei í 23. kafla Matteusarguðspjalls sem hann boðaði trúhræsnurum samtíðar sinnar umbúðalaust. Hann lauk fordæmingu sinni með orðunum: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ Þrjátíu og sjö árum síðar var dóminum fullnægt af rómverskum her undir stjórn Títusar hershöfðingja. Það var ógurlegur dagur, spádómleg fyrirmynd ógurlegasta dags allrar mannkynssögunnar — dags Jehóva sem skellur bráðlega á.
‚Sólin‘ rennur upp
10. Hvernig veitir „réttlætissólin“ fólki Guðs gleði?
10 Jehóva kunngerir að sumir muni lifa þennan dag af. Hann talar um þá í Malakí 4:2 og segir: „Yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum.“ Þessi réttlætissól er enginn annar en Jesús Kristur sjálfur. Hann er hið andlega „ljós heimsins.“ (Jóhannes 8:12) Hvernig rennur hann upp? Hann rís með græðslu eða lækningu undir vængjum sínum — fyrst andlega lækningu sem við getum notið nú þegar, og síðan, í hinum komandi nýja heimi, líkamlega lækningu fólks af öllum þjóðum. (Matteus 4:23; Opinberunarbókin 22:1, 2) Í óeiginlegri merkingu, eins og Malakí sagði, munu hinir læknuðu ‚koma og leika sér eins og kálfar sem hleypt er úr stíu‘ að vori. Hinir upprisnu, sem eiga í vændum að ná mannlegum fullkomleika, munu líka njóta mikillar gleði!
11, 12. (a) Hvaða örlög bíða hinna óguðlegu? (b) Hvernig ‚sundurtreður fólk Guðs hina óguðlegu‘?
11 En hvað um hina óguðlegu? Í Malakí 4:3 lesum við: „Þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, — á þeim degi er ég hefst handa — segir [Jehóva] allsherjar.“ Stríðsguð okkar varðveitir þá sem elska hann en sópar jörðina hreina af þessum ofríkisfullu óvinum með því að útrýma þeim. Satan og illir andar hans verða þá fjötraðir. — Sálmur 145:20; Opinberunarbókin 20:1-3.
12 Fólk Guðs á engan þátt í eyðingu hinna óguðlegu. Hvernig ‚sundur treður það þá hina óguðlegu‘? Það gerir það í óeiginlegri merkingu með því að taka þátt í miklum sigurfögnuði. Önnur Mósebók 15:1-21 lýsir slíkum fögnuði. Hann kom í kjölfar þess að Faraó og hersveitum hans var eytt í Rauðahafinu. Til uppfyllingar Jesaja 25:3-9 fylgir sigurveisla í kjölfar þess að ‚ofríkisfullar þjóðir‘ hverfa, og hún er tengd loforði Guðs: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það. Á þeim degi mun sagt verða: ‚Sjá, þessi er vor Guð, . . . Þessi er [Jehóva], vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!‘“ Þessi gleði einkennist ekki af hefnigirni eða því að hlakka yfir óförum óvinanna heldur af fögnuði yfir því að sjá nafn Jehóva helgað og jörðina hreinsaða sem friðsælan bústað sameinaðs mannkyns.
Stórkostleg fræðsluáætlun
13. Hvaða fræðsla mun eiga sér stað á ‚nýju jörðinni‘?
13 Í Malakí 4:4 voru Gyðingar hvattir til að ‚muna eftir lögmáli Móse.‘ Við þurfum því nú á dögum að fylgja ‚lögmáli Krists‘ eins og nefnt er í Galatabréfinu 6:2. Þeir sem lifa Harmagedón af fá vafalaust frekari fyrirmæli byggð á því, og vel kann að vera að þau séu rituð í „bókunum“ í Opinberunarbókinni 20:12 sem verða opnaðar á upprisutímanum. Það verður stórkostlegur tími þegar þeir sem reistir eru upp frá dauðum verða fræddir og tileinka sér lífsstíl ‚nýju jarðarinnar‘! — Opinberunarbókin 21:1.
14, 15. (a) Hver er Elía nútímans? (b) Hvaða ábyrgð axlar Elíahópurinn?
14 Það verður framhald af því fræðslustarfi sem Jehóva minnist á í Malakí 4:5: „Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ Hver er þá þessi Elía nútímans? Í Matteusi 16:27, 28 talaði Jesús um sjálfan sig „koma í ríki sínu“ og sagði: „Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.“ Sex dögum síðar var hann uppi á fjalli með Pétri, Jakobi og Jóhannesi og þar „ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.“ Var hann einn í þessari sýn? Nei, því að „Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.“ — Matteus 17:2, 3.
15 Hvað gat þetta merkt? Það benti á Jesú sem hinn fyrirheitna meiri Móse á þeim tíma er hann kæmi til að dæma. (5. Mósebók 18:18, 19; Postulasagan 3:19-23) Þá yrði hann í félagi við Elía nútímans til að ljúka áríðandi verki, því að prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið um alla jörðina áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva skylli á. Malakí 4:6 lýsir starfi þessa „Elía“ og segir: „Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.“ Þessi „Elía“ er hinn trúi og hyggni þjónshópur smurðra kristinna manna á jörð sem húsbóndinn, Jesús, hefur trúað fyrir öllum eigum sínum. Það felur í sér þá ábyrgð að veita heimafólki trúarinnar þann andlega „mat á réttum tíma“ sem það þarf. — Matteus 24:45, 46.
16. Hvaða ánægjulegur árangur hefur fylgt starfi Elíahópsins?
16 Við sjáum nú um allan heim hinn ánægjulega árangur þessarar næringaráætlunar. Tímaritið Varðturninn, sem prentað er í 16.100.000 eintökum hvert tölublað á 120 tungumálum, þar af samtímis á 97 tungumálum, streymir yfir jörðina með „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ (Matteus 24:14) Önnur rit á fjölmörgum tungumálum eru notuð í ýmsum greinum prédikunar- og kennslustarfs votta Jehóva. Elíahópurinn, hinn trúi og hyggni þjónn, er vakandi fyrir því að sjá ríkulega fyrir öllum sem „eru sér meðvitaðir um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Enn fremur eignast þeir sem taka við voninni um Guðsríki og breyta í samræmi við hana hlutdeild í stórkostlegri einingu um allan heim. Hún nær til mikils múgs „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Þegar þetta starf verður fullgert í þeim mæli sem Jehóva krefst, þá kemur endirinn og hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva.
17. Hvenær rennur hinn ógurlegi dagur Jehóva upp?
17 En hvenær rennur þessi ógurlegi dagur upp? Páll postuli svarar: „Dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja [kannski á óvenjulegan hátt]: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.
18, 19. (a) Hvernig er lýst yfir ‚friði og engri hættu‘? (b) Hvenær fær fólk Jehóva lausn?
18 Hvaða „menn“ eru það sem þessi spádómur talar um? Það eru stjórnmálaleiðtogar sem fullyrða að þeir geti byggt nýja, sameinaða heimsskipan úr brotum þessa ofbeldisfulla heims. Hinum mikilfenglegu smíðum þeirra, Þjóðabandalaginu og Sameinuðu þjóðunum, hefur mistekist það. Eins og spámaður Jehóva sagði segja þeir: „‚Það er friður! Það er friður!‘ þegar enginn friður er.“ — Jeremía 6:14; 8:11; 14:13-16, NW.
19 Þangað til verður fólk Jehóva að þola álag og ofsóknir þessa guðlausa heims. En bráðlega, eins og segir í Síðara Þessaloníkubréfi 1:7, 8, kemur lausnin „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“
20. (a) Hverju spá Sefanía og Habakkuk um daginn sem ‚brennur eins og ofn‘? (b) Hvaða ráðleggingu og hvatningu veita þessir spádómar?
20 Hve stutt er í það? Mörg okkar hafa beðið þess lengi. Á meðan eru margir auðmjúkir menn, sem munu lifa af, að svara kallinu í Sefanía 2:2, 3: „Leitið [Jehóva] . . . Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ Síðan hvetur Sefanía 3:8: „Bíðið mín þess vegna — segir [Jehóva], — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið [„jörðin,“ NW] verða eytt.“ Endirinn er nálægur! Jehóva veit daginn og stundina og hann breytir ekki tímaáætlun sinni. Við skulum þrauka með þolinmæði. „Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Hinn ógurlegi dagur Jehóva nálgast óðfluga. Munum að honum seinkar ekki!
Til upprifjunar
◻ Hvernig mun valdhöfum og þegnum farnast á hinum ógurlega degi Jehóva?
◻ Hvers konar Guð er Jehóva?
◻ Hvers konar menntun mun fólk Guðs fá?
◻ Til hvers hvetja spámenn Guðs okkur með hliðsjón af nálægð endalokanna?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Spænski rannsóknarrétturinn þvingaði marga til að taka kaþólska trú.
[Rétthafi]
The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck