15. KAFLI
Að heiðra aldraða foreldra
1. Hvað eigum við foreldrunum að þakka og hvernig ættum við þar af leiðandi að hugsa um þá?
„HLÝÐ þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul,“ ráðlagði vitur maður forðum daga. (Orðskviðirnir 23:22) „Ég myndi aldrei fyrirlíta móður mína!“ segirðu kannski. Flestum þykir innilega vænt um foreldra sína. Okkur er ljóst að við eigum þeim mikið að þakka. Í fyrsta lagi fengum við lífið að gjöf frá þeim. Jehóva er vissulega uppspretta lífsins en án foreldranna værum við ekki til. Við getum aldrei gefið þeim neitt sem er jafn dýrmætt og lífið. Og hugsaðu þér allar þær fórnir, umhyggju, útgjöld, ást og athygli sem það kostar að koma barni á legg. Það er því ósköp eðlilegt að okkur skuli vera ráðlagt í orði Guðs: „Heiðra föður þinn og móður . . . til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“ — Efesusbréfið 6:2, 3.
TILFINNINGALEGAR ÞARFIR
2. Hvernig geta uppkomin börn endurgoldið foreldrum sínum?
2 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum: „[Börn eða barnabörn] læri . . . fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.“ (1. Tímóteusarbréf 5:4) Uppkomin börn „endurgjalda“ foreldrum sínum og ömmum og öfum með því að sýna að þau séu þakklát fyrir áralanga ást þeirra, erfiði og umhyggju. Þau þurfa að hafa í huga að rétt eins og allir aðrir þarfnast aldraðir ástar og athygli — og það oft sárlega. Aldraðir þurfa að finna að þeir séu metnir að verðleikum. Þeir þurfa að finna að líf þeirra skipti máli.
3. Hvernig getum við heiðrað foreldra okkar og afa og ömmur?
3 Við getum sem sagt heiðrað foreldra okkar og afa og ömmur með því að segja þeim að okkur þyki vænt um þau. (1. Korintubréf 16:14) Ef foreldrar okkar búa ekki hjá okkur ættum við að muna að það er þeim mikils virði að heyra frá okkur. Skemmtilegt bréf, símtal eða heimsókn getur glatt þau mikið. Miyo, sem býr í Japan, skrifaði þegar hún var 82 ára: „Dóttir mín [en maðurinn hennar er farandumsjónarmaður] segir mér: ‚Mamma, viltu ekki slást í för með okkur?‘ Hún sendir mér ferðaáætlun sína viku fyrir viku og símanúmer þar sem hægt er að ná í þau. Síðan get ég tekið fram landakortið og sagt við sjálfa mig: ‚Já, nú eru þau stödd hérna.‘ Ég er Jehóva þakklát fyrir þá blessun að eiga svona dóttur.“
EFNISLEGAR ÞARFIR FORELDRANNA
4. Hvernig hvöttu erfikenningar Gyðinga til harðneskju í garð aldraðra foreldra?
4 Getur verið að fyrirmælin um að heiðra foreldra sína feli einnig í sér að sinna efnislegum þörfum þeirra? Já, oft er raunin sú. Trúarleiðtogar Gyðinga á dögum Jesú héldu fram þeirri erfikenningu að hægt væri að firra sig ábyrgð á að annast foreldra sína með því að lýsa eigur sínar eða fjármuni „musterisfé“. (Matteus 15:3-6) Hvílíkt tilfinningaleysi! Trúarleiðtogarnir voru í rauninni að hvetja fólk til að vera eigingjarnt og heiðra ekki foreldra sína heldur sýna þeim fyrirlitningu með því að neita að sinna þörfum þeirra. Það ættum við aldrei að gera. — 5. Mósebók 27:16.
5. Af hverju þurfa börn stundum að hlaupa undir bagga með foreldrum sínum, til viðbótar þeim stuðningi sem stjórnvöld veita?
5 Í mörgum löndum heims er almannatryggingakerfi sem veitir öldruðum vissa fjárhagsaðstoð eða sér þeim fyrir fæði, klæði og húsnæði. Og oft hafa aldraðir gert einhverjar ráðstafanir sjálfir til að sjá fyrir sér í ellinni. En ef féð gengur til þurrðar eða dugir ekki til heiðra börnin foreldra sína með því að gera það sem í þeirra valdi stendur til að sjá þeim borgið. Að annast aldraða foreldra er merki um guðrækni, það er að segja hollustu við Jehóva Guð sem er höfundur fjölskyldunnar.
ÁST OG FÓRNFÝSI
6. Hvað hafa sumir gert til að annast foreldra sína?
6 Mörg uppkomin börn hafa sýnt mikla ást og fórnfýsi til að geta annast lasburða foreldra. Sumir hafa tekið foreldrana inn á heimilið eða flust í nágrenni við þá en aðrir hafa flutt inn á heimili foreldranna. Oft hefur þetta orðið bæði foreldrum og börnum til blessunar.
7. Af hverju er skynsamlegt að vera ekki fljótfær þegar maður tekur ákvarðanir varðandi aldraða foreldra?
7 En slíkir flutningar hafa ekki alltaf orðið til góðs. Hvers vegna? Ef til vill vegna þess að ákvarðanir hafa verið teknar í fljótfærni eða byggst eingöngu á tilfinningum. Það er viturlegt að ‚athuga fótmál sín‘ eins og Biblían hvetur til. (Orðskviðirnir 14:15) Segjum til dæmis að öldruð móðir þín eigi erfitt með að búa ein og þú heldur að það yrði til góðs ef hún flytti inn á heimili þitt. Þú gætir athugað fótmál þín með því að spyrja eftirfarandi spurninga: Hverjar eru þarfir hennar í raun og veru? Er boðið upp á einhverja félagslega þjónustu sem gæti hentað henni betur? Vill hún flytja? Ef svo er, hvaða áhrif hefði það á líf hennar? Þyrfti hún að yfirgefa vini sína? Hvaða tilfinningaleg áhrif gæti það haft á hana? Hefurðu rætt þetta við hana? Hvaða áhrif gæti þetta haft á þig, maka þinn og börnin? Hver á að annast móður þína ef hún þarf á umönnun að halda? Er hægt að dreifa ábyrgðinni? Hefurðu rætt málin við alla í fjölskyldunni?
8. Við hverja gætirðu ráðfært þig varðandi umönnun aldraðra foreldra þinna?
8 Það er sameiginleg ábyrgð ykkar systkinanna að annast aldraða foreldra ykkar og því gæti verið gott að halda fjölskyldufund til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það gæti líka verið gott að ræða málið við öldunga í söfnuðinum eða vini sem hafa staðið í svipuðum sporum og þú. Biblían segir: „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ — Orðskviðirnir 15:22.
VERTU SKILNINGSRÍKUR
9, 10. (a) Hvaða virðingu ætti að sýna öldruðum þrátt fyrir áhrif ellinnar? (b) Hvernig ættu uppkomin börn að sýna öldruðum foreldrum sínum hugulsemi þó að þau geti þurft að ráðstafa einhverju fyrir þá?
9 Við heiðrum aldraða foreldra okkar með því að sýna þeim skilning og setja okkur í spor þeirra. Ellin tekur sinn toll með þeim afleiðingum að hinir öldruðu geta átt erfiðara með að ganga og borða og minnið tekur að bila. Þeir þurfa kannski á hjálp að halda. Börnunum gæti hætt til að ofvernda foreldrana og reyna að stýra þeim. En hinir öldruðu eru fullorðnar manneskjur. Þeir hafa aflað sér þekkingar og reynslu á langri ævi, hafa séð um sig sjálfir og tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Sjálfsvirðing þeirra og sjálfsmynd er nátengd hlutverki þeirra sem foreldrar og fullveðja einstaklingar. Það er hætta á að foreldrarnir verði niðurdregnir eða þeim gremjist ef þeim finnst þeir þurfa að afsala sér forræði sínu í hendur barnanna. Sumir spyrna við fótum ef þeim finnst að verið sé að reyna að ræna þá sjálfstæðinu.
10 Það eru engar einfaldar lausnir til á þessum vandamálum en það vitnar um hugulsemi að leyfa öldruðum foreldrum að sjá um sig sjálfir og ráða málum sínum að svo miklu leyti sem þeir geta. Við ættum ekki að ákveða hvað sé foreldrum okkar fyrir bestu án samráðs við þá. Ellin hefur tekið margt frá þeim. Leyfðu þeim að halda því sjálfstæði sem þeir ráða við. Líklegt er að þú eigir betra samband við foreldra þína ef þú reynir ekki að stjórna lífi þeirra um of. Þeim líður þá betur og þér líka. Þó að það geti verið þeim fyrir bestu að þú standir fast á vissum atriðum heiðrar þú þá með því að leyfa þeim að njóta þeirrar virðingar og reisnar sem þeir verðskulda. „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið,“ ráðleggur Biblían. — 3. Mósebók 19:32.
VARÐVEITTU RÉTT HUGARFAR
11-13. Hvernig getur fólk annast aldraða foreldra þótt sambandið hafi ekki verið sem skyldi á uppvaxtarárunum?
11 Uppkomin börn eiga stundum í erfiðleikum með að heiðra aldraða foreldra sína vegna þess að sambandið var ekki sem skyldi á árum áður. Faðir þinn var kannski kuldalegur og afskiptalaus eða móðir þín hörð og ráðrík. Ef til vill ertu enn þá reiður, sár og vonsvikinn af því að þau voru ekki þess konar foreldrar sem þú óskaðir þér. Er hægt að sigrast á slíkum tilfinningum?a
12 Basse, sem ólst upp í Finnlandi, segir svo frá: „Stjúpfaðir minn var SS-foringi í Þýskalandi á nasistatímanum. Hann missti oft stjórn á skapi sínu og þá var hann hættulegur. Hann lúbarði móður mína oft að mér ásjáandi. Einu sinni, þegar hann reiddist mér, sló hann mig með beltinu svo að sylgjan lenti í andlitinu á mér. Höggið var svo öflugt að ég kastaðist niður á rúmið.“
13 En stjúpinn átti sér aðrar hliðar. Basse heldur áfram: „Hann var hins vegar hörkuduglegur og lagði mikið á sig til að sjá fjölskyldunni farborða. Hann sýndi mér aldrei neina föðurást en ég vissi að hann var tilfinningalega skaddaður. Móðir hans hafði rekið hann að heiman þegar hann var stráklingur. Hann þurfti að spjara sig með hnúum og hnefum og fór ungur í stríðið. Ég gat að vissu leyti skilið hann og áfelldist hann ekki. Þegar árin liðu langaði mig til að hjálpa honum eins vel og ég gat þangað til hann féll frá. Það var ekki auðvelt en ég gerði mitt besta. Ég reyndi að vera honum góður sonur uns yfir lauk og ég held að hann hafi viðurkennt mig sem slíkan.“
14. Hvaða hvatning Biblíunnar á við um umönnun aldraðra foreldra?
14 Eftirfarandi hvatning Biblíunnar á við innan fjölskyldunnar rétt eins og annars staðar: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ — Kólossubréfið 3:12, 13.
GLEYMDU EKKI AÐ SINNA EIGIN ÞÖRFUM
15. Af hverju er stundum erfitt að annast aldraða foreldra?
15 Það er mikil ábyrgð og kostar mikla vinnu, ótal snúninga og langan vinnudag að annast lasburða foreldri. En erfiðasti þátturinn er oft tilfinningalegs eðlis. Það reynir á að horfa upp á foreldra sína missa heilsuna, minnið og sjálfstæðið. Sandy er frá Púertóríkó. Hún segir: „Móðir mín var akkerið í fjölskyldunni. Það var erfið lífsreynsla að þurfa að annast hana. Fyrst fór hún að haltra, svo þurfti hún að nota staf, því næst göngugrind og að síðustu hjólastól. Henni hrakaði jafnt og þétt uns hún dó. Hún fékk beinkrabba og þurfti stöðuga umönnun — dag og nótt. Við böðuðum hana, mötuðum hana og lásum fyrir hana. Það reyndi verulega á — sérstaklega á tilfinningarnar. Ég brast í grát þegar ég áttaði mig á því að hún var að deyja, vegna þess að mér þótti svo vænt um hana.“
16, 17. Hvað getur hjálpað þeim sem annast aldraða foreldra að gæta góðs jafnvægis?
16 Hvað geturðu gert til að ráða við álagið ef þú ert í svipaðri aðstöðu og hér er lýst? Það er mikil hjálp í því að tala við Jehóva í bæn og hlusta á hann með því að lesa í Biblíunni. (Filippíbréfið 4:6, 7) Gættu þess að borða staðgóðan mat og reyndu að fá nægan svefn. Þá ertu betur á þig kominn, bæði líkamlega og tilfinningalega, til að annast ástvin þinn. Kannski geturðu af og til skapað þér svigrúm til að hvílast frá hinu daglega amstri. Það er skynsamlegt að ætla sér einhvern tíma til að slaka á jafnvel þó að þú hafir ekki tök á að fara í frí. Ef til vill geturðu fengið einhvern annan til að vera hjá lasburða foreldri þínu til að þú komist aðeins frá.
17 Ekki er óalgengt að þeir sem annast aðra geri óraunhæfar kröfur til sjálfra sín. En þú þarft ekki að hafa sektarkennd út af einhverju sem þú getur ekki gert. Sú staða gæti komið upp að þú þurfir að koma ástvini þínum fyrir á elli- eða hjúkrunarheimili. Ef þú átt aldraða foreldra skaltu ekki gera of miklar kröfur til þín. Þú þarft að rata rétta meðalveginn milli þess að sinna þörfum foreldra þinna, barna, maka og sjálfs þín.
STYRKUR FRÁ JEHÓVA
18, 19. Hvernig hefur Jehóva heitið að styðja okkur og hvaða dæmi sýnir að hann stendur við það?
18 Í orði sínu, Biblíunni, gefur Jehóva kærleiksríkar leiðbeiningar sem geta verið mikil hjálp fyrir þá sem sjá um aldraða foreldra. En Jehóva hjálpar líka á annan hátt. Hann er „nálægur öllum sem ákalla hann,“ eins og sálmaskáldið sagði. „Hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ Jehóva styrkir trúa þjóna sína og verndar þá, jafnvel við erfiðustu aðstæður. — Sálmur 145:18, 19.
19 Myrna býr á Filippseyjum. Hún kynntist þessu af eigin raun þegar móðir hennar varð ósjálfbjarga eftir heilablóðfall. „Ekkert er eins dapurlegt og að horfa upp á ástvin sinn þjást þegar hann getur ekki einu sinni sagt hvar hann finnur til,“ skrifar Myrna. „Það var eins og að horfa á hana drukkna smám saman án þess að geta komið henni til bjargar. Oft féll ég á kné og sagði Jehóva hve úrvinda ég væri. Ég ákallaði hann eins og Davíð sem grátbændi hann um að safna tárum sínum í sjóð og minnast sín. [Sálmur 56:9]. Og Jehóva gaf mér þann styrk sem ég þurfti á að halda, rétt eins og hann hafði lofað. Hann var ‚stoð mín‘.“— Sálmur 18:19.
20. Hvaða loforð Biblíunnar geta hjálpað okkur að vera jákvæð þó að við missum ástvin?
20 Sagt hefur verið að það að sjá um aldraða foreldra sé „saga sem getur ekki endað vel“. Þótt við leggjum okkur öll fram deyja hinir öldruðu fyrr eða síðar, rétt eins og móðir Myrnu. Þeir sem treysta á Jehóva vita samt að sagan er ekki á enda þótt ástvinur deyi. Páll postuli sagði: „Þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Þeir sem hafa misst aldraða foreldra geta leitað huggunar í upprisuvoninni og loforðinu um unaðslegan nýjan heim Guðs þar sem „dauðinn mun ekki framar til vera“. — Opinberunarbókin 21:4.
21. Hvað gott hlýst af því að heiðra aldraða foreldra sína?
21 Þjónar Guðs bera djúpa virðingu fyrir foreldrum sínum þótt þeir séu hnignir að aldri. (Orðskviðirnir 23:22-24) Þeir heiðra þá og kynnast þar með því sem segir í innblásnum orðskvið: „Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.“ (Orðskviðirnir 23:25) Síðast en ekki síst heiðra þeir og gleðja Jehóva Guð þegar þeir heiðra aldraða foreldra sína.
a Hér er ekki verið að ræða um foreldra sem gerðu sig seka um að misbeita gróflega valdi sínu eða misnota traust barnanna í þeim mæli að það teljist varða við lög.