Kafli 57
Meðaumkun með nauðstöddum
JESÚS fer burt með lærisveinunum eftir að hann hefur fordæmt faríseana fyrir að fylgja eigingjörnum erfikenningum sínum. Skömmu áður hafði hann reynt að komast burt með lærisveinunum til að hvílast en fékk ekki ráðrúm til þess vegna þess að mannfjöldinn fann þá. Hann fer nú með lærisveinunum til byggða Týrusar og Sídonar langt í norðri. Að því er best verður séð er þetta eina ferðin sem Jesús fer með þeim út fyrir landamæri Ísraels.
Eftir að Jesús hefur fundið hús til að dveljast í nefnir hann að hann vilji ekki láta neinn vita af dvalarstað þeirra. En hann fær ekki einu sinni dulist utan Ísraels. Grísk kona, fædd þar í sýrlensku Fönikíu, finnur hann og tekur að hrópa: „Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svarar henni engu orði.
Loks segja lærisveinarnir við Jesú: „Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.“ Jesús skýrir nú fyrir þeim hvers vegna hann ansi henni ekki: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
En konan gefst ekki upp. Hún kemur til Jesú, fellur að fótum hans og sárbænir hann: „Herra, hjálpa þú mér!“
Jesús hlýtur að vera snortinn af því hve innilega konan biður hann. En hann bendir aftur á að ábyrgð hans sé fyrst og fremst sú að þjóna þjóð Guðs, Ísraelsmönnum. En Jesús vill greinilega reyna trú hennar og vísar til fordóma Gyðinga gagnvart öðrum þjóðum og segir: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Jesús sýnir eflaust með mildilegum raddblæ og meðaumkunarsvip hvernig hann lítur á fólk af öðrum þjóðum. Gyðingar eru vanir að líkja heiðingjum við hunda en samkvæmt frummálinu mildar Jesús samlíkinguna með því að tala um ‚litla hunda,‘ það er að segja hvolpa. Í stað þess að fyrtast við orð Jesú grípur konan skírskotun hans til fordóma Gyðinga á lofti og segir auðmjúk í bragði: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
„Kona, mikil er trú þín,“ svarar Jesús. „Verði þér sem þú vilt.“ Og henni verður að ósk sinni! Þegar hún kemur heim til sín finnur hún dótturina alheila í rúminu.
Jesús og lærisveinarnir halda nú frá strandhéraði Sídonar þvert yfir landið í átt að upptökum Jórdanar. Þeir vaða sennilega yfir Jórdan einhvers staðar norðan við Galíleuvatn og koma inn á Dekapólis-svæðið við vatnið austanvert. Þar ganga þeir upp á fjall en mannfjöldinn finnur þá og kemur til Jesú með halta menn, blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra sjúka. Þar er þeim næstum kastað við fætur Jesú og hann læknar þá. Fólkið er furðu lostið að sjá mállausa tala, halta ganga og blinda sjá, og það lofar Guð Ísraels.
Jesús gefur sérstakan gaum að manni sem er heyrnarlaus og næstum mállaus. Heyrnleysingjar verða oft vandræðalegir, einkum í mannfjölda, og Jesús sér kannski að þessi maður er sérstaklega taugaóstyrkur. Hann fer því með manninn afsíðis frá fólkinu. Þegar þeir eru orðnir einir gefur Jesús til kynna hvað hann ætli að gera fyrir hann. Hann stingur fingrunum í eyru hans og vætir tungu hans með munnvatni sínu. Síðan lítur Jesús til himins, andvarpar og segir: „Opnist þú.“ Samstundis fær maðurinn heyrnina og getur talað eðlilega.
Fólkið kann vel að meta allar lækningarnar sem Jesús hefur framkvæmt og segir: „Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ Matteus 15:21-31; Markús 7:24-37.
▪ Af hverju læknar Jesús ekki barn grísku konunnar þegar í stað?
▪ Hvert fer Jesús síðan með lærisveinunum?
▪ Hvernig sýnir Jesús heyrnarlausa og málhalta manninum sérstaka meðaumkun?