Guð fer ekki í manngreinarálit
„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti.“ — POSTULASAGAN 10:34, 35.
1. Hvaða mikilvæg orð lét Páll falla um kynþætti mannkyns í Aþenu?
„GUÐ, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum . . . hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:24-26) Hver mælti þessi orð? Kristni postulinn Páll í sinni frægu ræðu á Marshæð eða Areopagus í Aþenu í Grikklandi.
2. Hvað stuðlar að því að gera lífið fjölbreytt og ánægjulegt og hvað hafði áhrif á japanskan gest í Suður-Afríku?
2 Orð Páls geta fengið okkur til að hugsa um hina unaðslegu fjölbreytni sem er að finna í sköpunarverkinu. Jehóva Guð skapaði menn, dýr, fugla, skordýr og jurtir í óteljandi fjölbreytni. Lífið væri miklum mun leiðinlegra ef þau væru öll eins! Fjölbreytni þeirra stuðlar að því að gera lífið litríkt og skemmtilegt. Gesti frá Japan, sem sótti mót votta Jehóva í Suður-Afríku, fannst til dæmis mikið til um fjölbreytni kynþátta og litarháttar sem hann sá þar. Hann lét þess getið hve ólíkt það væri heimalandi hans þar sem þorri manna ber einkenni sama kynþáttar.
3. Hvernig líta sumir á mismunandi hörundslit og hvaða afleiðingar hefur það?
3 En ólíkur hörundslitur kynþáttanna er oft orsök alvarlegra vandamála. Margir álíta menn með annan hörundslit vera sér óæðri. Slíkt vekur upp fjandskap, jafnvel hatur, og er orsök þeirrar plágu sem kynþáttamisrétti er. Ætlaðist skapari okkar til þess? Eru sumir kynþættir öðrum æðri í hans augum? Fer Jehóva í manngreinarálit?
Fer skapari okkar í manngreinarálit?
4-6. (a) Hvað sagði Jósafat konungur um óhlutdrægni? (b) Hvernig staðfestu bæði Móse og Páll orð Jósafats? (c) Hvaða spurningum geta sumir slegið fram?
4 Við fáum nokkra hugmynd um viðhorf skaparans til alls mannkynsins með því að hverfa aftur í tímann. Jósafat konungur, sem réði ríkjum í Júda á árabilinu 936 til 911 f.o.t., gerði margvíslegar umbætur og sá til þess að dómskerfið, er byggðist á lögum Guðs, starfaði eins og vera bar. Hann gaf dómurunum þessi góðu ráð: „Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur [Jehóva] . . . hafið gát á breytni yðar, því að hjá [Jehóva], Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit.“ — 2. Kroníkubók 19:6, 7.
5 Öldum áður hafði spámaðurinn Móse sagt ættkvíslum Ísraels: „[Jehóva] Guð yðar, . . . sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur.“ (5. Mósebók 10:17) Og í bréfi sínu til Rómverjanna áminnti Páll: „Hvort sem um Gyðinga eða heiðingja er að ræða munu þeir uppskera sorg og þjáningar haldi þeir áfram í syndinni. . . . því Guð fer ekki í manngreinarálit.“ — Rómverjabréfið 2:9-11, Lifandi orð.
6 En einhver kynni að spyrja: ‚Hvað um Ísraelsmennina? Voru þeir ekki útvalin þjóð Guðs? Var hann ekki vilhallur þeim? Sagði ekki Móse öllum Ísrael: „Þig hefir [Jehóva] Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir“?‘ — 5. Mósebók 7:6.
7. (a) Hverjar urðu afleiðingar þess að Gyðingar höfnuðu Messíasi? (b) Hverjir geta núna notið stórfenglegrar blessunar frá Guði og hvernig?
7 Nei, Guð fór ekki í manngreinarálit með því að nota Ísraelsmenn í sérstökum tilgangi. Þegar Jehóva útvaldi þjóð í þeim tilgangi að leiða fram Messías valdi hann afkomendur hinna trúföstu, hebresku ættfeðra. En þegar Gyðingar höfnuðu Messíasi, Jesú Kristi, og fengu hann líflátinn glötuðu þeir hylli Guðs. En núna geta menn af hvaða kynþætti eða þjóð sem er notið stórkostlegra blessana og átt í vændum eilíft líf, ef þeir iðka trú á Jesú. (Jóhannes 3:16; 17:3) Það sannar að Guð fer ekki í manngreinarálit. Enn fremur bauð Jehóva Guð Ísraelsmönnum að ‚elska útlendinginn‘ og „eigi sýna honum ójöfnuð,“ hvert sem væri þjóðerni hans eða kynþáttur. (5. Mósebók 10:19; 3. Mósebók 19:33, 34) Okkar ástríki faðir á himnum fer sannarlega ekki í manngreinarálit.
8. (a) Hvað sannar að Jehóva sýndi Ísrael ekki vilhylli? (b) Hvernig notaði Jehóva Ísrael?
8 Að vísu nutu Ísraelsmenn ákveðinna sérréttinda en þeir urðu líka að axla mikla ábyrgð. Þeim var skylt að halda lögmál Jehóva og þeir sem ekki hlýddu því kölluðu yfir sig bölvun. (5. Mósebók 27:26) Meira að segja þurfti þráfaldlega að refsa Ísraelsmönnum fyrir að óhlýðnast lögum Guðs. Jehóva sýndi þeim því alls enga vilhylli. Hann notaði þá til að gefa spádómlegar fyrirmyndir og fordæmi til viðvörunar. Það var af Ísraelsþjóðinni sem Guð lét lausnarann Jesú Krist koma fram til blessunar öllu mannkyninu. — Galatabréfið 3:14; samanber 1. Mósebók 22:15-18.
Var Jesús hlutdrægur?
9. (a) Hversu líkir eru Jehóva og Jesús? (b) Hvaða spurningar vakna varðandi Jesú?
9 Fyrst Jehóva fer ekki í manngreinarálit, gæti Jesús þá hafa verið hlutdrægur? Íhugaðu það sem Jesús sagði sjálfur einu sinni: „Ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ (Jóhannes 5:30) Fullkomin eining ríkir milli Jehóva og hins ástkæra sonar hans, og Jesús gerir vilja föður síns í sérhverju tilliti. Meira að segja eru þeir svo líkir í viðhorfum og tilgangi að Jesús gat sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Í liðlega 33 ár hafði Jesús persónulega reynslu af því að lifa sem maður á jörðinni og Biblían gefur til kynna hvernig hann kom fram við aðra menn. Hver voru viðbrögð hans við fólki af öðrum kynþáttum? Var hann hleypidómafullur og fór í manngreinarálit? Var Jesús kynþáttahatari?
10. (a) Hvernig svaraði Jesús beiðni fönikísku konunnar um hjálp? (b) Sýndi Jesús fordóma með því að kalla heiðingja ‚hvolpa‘? (c) Hverju svaraði konan andmælum Jesú og með hvaða afleiðingum?
10 Jesús eyddi stærstum hluta jarðvistar sinnar með Gyðingum. En dag einn kom til hans fönikísk kona, heiðingi, sem sárbændi hann um að lækna dóttur sína. Jesús svaraði: „Eg er ekki sendur nema til týndra sauða af húsi Ísraels.“ En konan hélt áfram: „Herra, hjálpa þú mér.“ Þá bætti hann við: „Það er ekki fallegt að taka brauðið frá börnunum og kasta því fyrir hvolpana.“ Í hugum Gyðinga voru hundar óhrein dýr. Lét Jesús þá í ljós fordóma með því að líkja heiðingjum við ‚hvolpa‘? Nei, því að hann var nýbúinn að geta þess til hvaða sérstakra starfa Guð hefði sent hann, að annast ‚týnda sauði af húsi Ísraels.‘ Og með því að líkja heiðingjum við ‚hvolpa,‘ ekki villihunda, mildaði Jesús þessa samlíkingu eilítið. Að sjálfsögðu var það sem hann sagði viss prófraun fyrir konuna. Auðmjúk í bragði en þó staðráðin í að andmæla þessari mótbáru, svaraði hún háttvíslega: „Satt er það, herra‚ en hvolparnir eta þó af molum þeim, er falla af borðum húsbænda þeirra.“ Snortinn af trú konunnar læknaði Jesús dóttur hennar þegar í stað. — Matteus 15:22-28, Ísl. bib. 1912.
11. Hver voru viðhorf Gyðinga og Samverja hver til annars eins og sjá má af atviki úr ævi Jesú?
11 Lítum einnig á viðskipti Jesú við nokkra Samverja. Djúpstæð óvild ríkti milli Gyðinga og Samverja. Einhverju sinni gerði Jesús út sendiboða til að undirbúa komu sína til ákveðins þorps Samverja. En þessir Samverjar „tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem.“ Jakob og Jóhannes reiddust því svo að þeir vildu kalla eld af himni ofan og tortíma þeim. En Jesús ávítaði lærisveinana tvo og þeir fóru til annars þorps. — Lúkas 9:51-56.
12. Hvers vegna var samversk kona undrandi á beiðni Jesú?
12 Var Jesús einnig haldinn þeirri óvild sem var milli Gyðinga og Samverja? Við skulum líta á annað atvik. Jesús og lærisveinar hans voru á leið frá Júdeu til Galíleu og urðu að fara um Samaríu. Jesús var ferðalúinn og settist niður við Jakobsbrunn til að hvílast meðan lærisveinarnir fóru til Síkar að kaupa vistir. Á meðan þeir voru í burtu kom samversk kona til að sækja vatn. Nú hafði Jesús sjálfur einhverju sinni sagt Samverja vera af ‚öðrum kynþætti.‘ (Lúkas 17:16-18, The Kingdom Interlinear Translation of the Greek Scriptures) En hann sagði við hana: „Gef mér að drekka.“ Með því að Gyðingar áttu engin samskipti við Samverja svaraði konan undrandi: „Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ — Jóhannes 4:1-9.
13. (a) Hverju svaraði Jesús andmælum samversku konunnar og hvernig brást hún við? (b) Hver varð árangurinn?
13 En Jesús lét sem hann heyrði ekki andmæli konunnar. Hann greip tækifærið og bar vitni og játaði meira að segja fyrir henni að hann væri Messías! (Jóhannes 4:10-26) Furðu lostin skildi konan vatnskrúsina eftir við brunninn, hljóp aftur til borgarinnar og fór að segja öðrum frá því sem gerst hafði. Þótt hún hefði lifað siðlausu lífi kom áhugi hennar á andlegum málum í ljós þegar hún sagði: „Skyldi hann vera Kristur?“ Hver varð árangurinn? Margir bæjarbúar tóku trú á Jesú vegna hins góða vitnisburðar sem konan gaf. (Jóhannes 4:27-42) Í bók sinni A Biblical Perspective on the Race Problem segir safnaðarkirkjuguðfræðingurinn Thomas O. Figart þetta: „Ef Drottinn vor taldi nógu þýðingarmikið að víkja með vinsamlegum hætti til hliðar fornum kynþáttafordómum, þá ættum við að gæta þess að láta ekki holskeflu kynþáttahatursins nú á tímum hrífa okkur með sér.“
14. Hvernig birtist óhlutdrægni Jehóva í sambandi við þjónustu Filippusar trúboða?
14 Óhlutdrægni Jehóva Guðs hélt opinni leið fyrir fólk af ýmsum kynþáttum til að snúast til gyðingatrúar. Athugum einnig sem dæmi atvik sem átti sér stað fyrir nítján öldum á eyðimerkurveginum milli Jerúsalem og Gasa. Þeldökkur maður í þjónustu Eþíópíudrottningar var að lesa spádóm Jesaja á ferð í vagni sínum. Hirðmaður þessi var umskorinn og hafði tekið gyðingatrú og „hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir.“ Engill Jehóva birtist Filippusi trúboða og sagði honum: „Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum.“ Svaraði Filippus: „Nei! Hann er af öðrum kynþætti“? Því fer fjarri. Filippus þáði mjög fúslega boð Eþíópíumannsins um að stíga upp í vagninn, setjast hjá honum og skýra spádóm Jesaja um Jesú Krist! Þegar þeir komu að vatni nokkru spurði Eþíópíumaðurinn: „Hvað hamlar mér að skírast?“ Þar eð ekkert stóð í veginum fyrir því var Filippusi það fagnaðarefni að skíra Eþíópíumanninn og Jehóva viðurkenndi þennan hamingjusama mann sem smurðan fylgjanda sonar síns, Jesú Krists. (Postulasagan 8:26-39) En fleiri merki um óhlutdrægni Guðs áttu eftir að birtast innan tíðar.
Mikil breyting
15. Hvaða breyting átti sér stað eftir dauða Jesú og hvernig skýrir Páll hana?
15 Dauði Jesú Krists batt ekki enda á veraldlega kynþáttafordóma, en vegna hans breytti Guð sambandi lærisveina Jesú, sem voru Gyðingar, við fylgjendur hans af heiðnum þjóðum. Páll postuli gaf það til kynna þegar hann skrifaði kristnum mönnum í Efesus, sem voru af þjóðunum, og sagði: „Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar . . . Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum. Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans. Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að.“ Þessi ‚veggur‘ eða tákn aðgreiningar var lagasáttmálinn sem var eins og skilveggur milli Gyðinga og heiðingja. Hann var afnuminn vegna dauða Krists til að bæði Gyðingar og heiðingjar hefðu „hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.“ — Efesusbréfið 2:11-18.
16. (a) Hvers vegna voru Pétri fengnir lyklar himnaríkis? (b) Hve margir voru lyklarnir og hvaða árangri skilaði notkun þeirra?
16 Því er við að bæta að Pétri postula voru gefnir ‚lyklar himnaríkis‘ þannig að fólk af hvaða kynþætti sem er gæti kynnst tilgangi Guðs, ‚endurfæðst‘ af heilögum anda og orðið andlegir erfingjar með Kristi. (Matteus 16:19; Jóhannes 3:1-8) Pétur notaði þrjá táknræna lykla. Hinn fyrsti var fyrir Gyðinga, sá annar fyrir Samverja og sá þriðji fyrir heiðingja. (Postulasagan 2:14-42; 8:14-17; 10:24-28, 42-48) Hinn óhlutdrægi Guð, Jehóva, opnaði þannig útvöldum mönnum af öllum kynþáttum þau sérréttindi að verða andlegir bræður Jesú og samerfingjar með honum að ríkinu. — Rómverjabréfið 8:16, 17; 1. Pétursbréf 2:9, 10.
17. (a) Hvaða óvenjulega sýn fékk Pétur að sjá og hvers vegna? (b) Til heimilis hvers fóru nokkrir menn með Pétur og hverjir biðu hans þar? (c) Hvað minnti Pétur þessa heiðingja á en hvað hafði Guð sýnt honum greinilega?
17 Til að búa Pétur undir að nota þriðja lykilinn — þann sem ætlaður var heiðingjum — sá hann í óvenjulegri sýn óhrein dýr og var sagt: „Slátra nú, Pétur, og et!“ Lærdómurinn var þessi: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!“ (Postulasagan 10:9-16) Merking sýnarinnar var hin mesta ráðgáta fyrir Pétur, en ekki leið á löngu áður en þrír menn komu til að færa hann með sér heim til Kornelíusar sem var rómverskur hundraðshöfðingi í Sesareu. Eðlilegt var að Kornelíus byggi þar því að borgin var miðstöð rómverskra hersveita í Júdeu. Í þessu heiðna umhverfi beið Kornelíus ásamt ættingjum sínum og nánustu vinum eftir Pétri. Postulinn minnti þá á þetta: „Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan. Fyrir því kom ég mótmælalaust, er eftir mér var sent.“ — Postulasagan 10:17-29.
18. (a) Hvaða yfirlýsingu gaf Pétur á heimili Kornelíusar? (b) Hvað gerðist meðan Pétur var að bera vitni um Jesú? (c) Hvað var síðan gert í sambandi við þessa trúuðu heiðingja?
18 Eftir að Kornelíus hafði greint Pétri frá handleiðslu Guðs í málinu sagði Pétur: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:30-35) Þegar postulinn fór síðar að bera vitni um Jesú Krist gerðist mjög merkilegur atburður. „Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.“ Félagar Péturs, sem voru Gyðingar, „urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.“ Pétur sagði: „Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér.“ Hver gat andmælt því úr því að heilögum anda hins óhlutdræga Guðs á himnum hafði verið úthellt yfir þessa trúuðu menn af þjóðunum? Pétur bauð því „að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists.“ — Postulasagan 10:36-48.
Af öllum þjóðum
19. Hvers vegna og að hvaða marki færist kynþáttahatur í aukana?
19 Núna eru runnir upp ‚hinir síðustu dagar‘ og „örðugar tíðir“ eru staðreynd sem búa þarf við. Meðal annars eru menn eigingjarnir, raupsamir, hrokafullir, elska ekki það sem gott er, ósáttfúsir, taumlausir, grimmir, framhleypnir og ofmetnaðarfullir. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Í slíku þjóðfélagsumhverfi er ekki að undra að kynþáttahatur og átök færist í aukana um heim allan. Í mörgum löndum fyrirlíta eða jafnvel hata menn af ólíkum kynþáttum hver annan. Það hefur leitt til blóðugra átaka og jafnvel hræðilegra grimmdarverka í sumum löndum. Jafnvel í þjóðfélögum, sem eiga að teljast upplýst og menntuð, eiga margir erfitt með að sigrast á kynþáttafordómum. Og þessi „sjúkdómur“ virðist vera að breiðast út til svæða þar sem hans er síst að vænta, svo sem til eyja hafsins sem voru áður unaðslega friðsælar.
20. (a) Hvaða sýn sá Jóhannes? (b) Í hvaða mæli er þessi spádómssýn að uppfyllast? (c) Á hverju hafa sumir enn ekki sigrast fyllilega og hvar ættu þeir að leita lausnar?
20 En þótt friði milli kynþáttanna sé ekki fyrir að fara víða í heiminum sagði hinn óhlutdrægi Guð, Jehóva, fyrir að hann myndi leiða saman hjartahreina menn af öllum kynþáttum og þjóðernum og skapa með þeim eftirtektarverða einingu. Vegna guðlegs innblásturs sá Jóhannes postuli ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir Lambinu,‘ og lofuðu Jehóva. (Opinberunarbókin 7:9) Þessi spádómur er nú þegar að uppfyllast. Í meira en 200 löndum njóta nú yfir 3.300.000 vottar Jehóva af öllum kynþáttum og þjóðernum einingar og samheldni þótt af öllum kynþáttum séu. Að vísu eru þeir enn ófullkomnir. Sumir þeirra hafa jafnvel átt erfitt með að sigrast fyllilega á kynþáttafordómum, þótt þeir geri sér það kannski ekki ljóst. Hvernig er hægt að sigrast á þessu vandamáli? Við munum ræða það í greininni sem fylgir, en hún er byggð á gagnlegum ráðum frá innblásnu orði hins óhlutdræga Guðs, Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig má segja að Jehóva hafi ekki farið í manngreinarálit er hann notaði Ísraelsmenn?
◻ Hvað sannar að Jesús Kristur var ekki haldinn kynþáttafordómum eða hlutdrægni?
◻ Hvernig var Pétri hjálpað að skilja að „Guð fer ekki í manngreinarálit“?
◻ Hvaða spádómur um einingu er nú að uppfyllast, þrátt fyrir útbreitt kynþáttamisrétti í þessum heimi?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Páll postuli sagði Aþenumönnum að Guð hefði ‚skapað allar þjóðir manna og látið þær byggja allt yfirborð jarðar.‘
[Mynd á blaðsíðu 22]
Með því að Jesús fór ekki í manngreinarálit bar hann vitni fyrir samverskri konu við Jakobsbrunn í grennd við Síkar.