Það er mikilvægt að þekkja táknin
„Í fyrstu hélt ég að Andreas, sonur minn, væri bara með höfuðverk. En hann hafði enga matarlyst og fékk háan hita. Höfuðverkurinn versnaði og ég fór að verða áhyggjufull. Þegar maðurinn minn kom heim fórum við með Andreas til læknis. Hann skoðaði Andreas og sendi hann beint á sjúkrahúsið. Þetta var meira en bara höfuðverkur. Sonur okkar var með heilahimnubólgu. Hann fékk meðhöndlun og náði fljótt bata.“ — Gertrud, móðir í Þýskalandi.
MARGIR foreldrar kannast örugglega við reynslu Gertrudar. Þeir fylgjast með einkennum sem geta gefið til kynna að börnin séu veik. Þó að ekki sé alltaf um alvarleg veikindi að ræða mega foreldrar ekki horfa fram hjá merkjum um að börnin séu veik. Að fylgjast með einkennum og grípa til viðeigandi aðgerða getur skipt sköpum fyrir þau.
Þetta á líka við á öðrum sviðum. Til dæmis má nefna flóðbylgjuna sem skall á löndin við Indlandshaf í desember árið 2004. Jarðskjálftinn á norðanverðri Súmötru kom fram á mælum í Ástralíu og á Hawaii og þar sáu menn fram á að hætta væri á eftirköstum. En þeir höfðu enga leið til að vara fólk við yfirvofandi hættu. Yfir 220.000 manns týndu lífi.
Tákn sem hefur margfalt meiri þýðingu
Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sagði hann áheyrendum sínum hvernig þeir ættu að fylgjast með táknum og breyta í samræmi við þau. Hann var að tala um eitthvað sem hafði mikla þýðingu. Biblían segir svo frá: „Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni. Hann svaraði þeim: ‚Að kvöldi segið þér: „Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.“ Og að morgni: „Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.“ Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.‘“ — Matteus 16:1-3.
Með því að nefna „tákn tímanna“ beindi Jesús sjónum áheyrenda sinna að því að þeir ættu að gera sér grein fyrir að þeir lifðu á hættutímum. Þjóðskipulag Gyðinga átti í vændum miklar hörmungar sem myndu hafa áhrif á alla Gyðinga á þeim tíma. Nokkrum dögum fyrir dauða sinn talaði Jesús við lærisveina sína um annað tákn — tákn nærveru sinnar. Það sem hann sagði við það tækifæri hefur mjög mikla þýðingu fyrir alla nú á dögum.