‚Farið og gerið menn að lærisveinum, skírið þá‘
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — MATTEUS 28:19, 20.
1. Hvaða ákvörðun tók Ísraelsþjóðin við rætur Sínaífjalls?
FYRIR um það bil 3500 árum vann heil þjóð Guði heit. Ísraelsmenn voru saman komnir við rætur Sínaífjalls þar sem þeir gáfu þessa opinberu yfirlýsingu: „Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður.“ Frá þeirri stundu urðu Ísraelsmenn þjóð helguð Guði, „eiginleg eign“ hans. (2. Mósebók 19:5, 8; 24:3) Þeir hlökkuðu til þess að fá vernd hans og búa kynslóð fram af kynslóð í landi sem flaut „í mjólk og hunangi“. — 3. Mósebók 20:24.
2. Hvernig samband getur fólk átt við Guð nú á dögum?
2 En eins og sálmaritarinn Asaf benti á héldu Ísraelsmenn „eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans“. (Sálmur 78:10) Þeir stóðu ekki við heitið sem forfeður þeirra höfðu gefið Jehóva. Að lokum glataði þjóðin sérstöku sambandi sínu við Guð. (Prédikarinn 5:4; Matteus 23:37, 38) Þess vegna sá Guð til þess „að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans“. (Postulasagan 15:14) Núna á síðustu dögum safnar hann saman miklum múgi „sem enginn [getur] tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum,“ sem viðurkennir fúslega: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ — Opinberunarbókin 7:9, 10.
3. Hvað verður maður að gera til að eignast persónulegt samband við Guð?
3 Til að eignast þetta dýrmæta samband við Jehóva verður maður að vígja sig honum og tákna það opinberlega með vatnsskírn. Það er í samræmi við bein fyrirmæli Jesú til lærisveinanna: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Ísraelsmenn hlustuðu á upplestur úr sáttmálsbókinni og vissu því hvaða skyldur þeir höfðu gagnvart Jehóva. (2. Mósebók 24:3, 7, 8) Núna er líka nauðsynlegt að hafa nákvæma þekkingu á vilja Guðs, eins og hann er útlistaður í Biblíunni, áður en maður lætur skírast.
4. Hvað verður maður að gera til að verða hæfur til skírnar? (Sjá einnig rammann hér að ofan.)
4 Jesús vildi greinilega að trú lærisveinanna væri byggð á traustum grunni áður en þeir létu skírast. Hann sagði fylgjendum sínum ekki aðeins að fara og gera menn að lærisveinum heldur líka að kenna þeim að ‚halda allt það sem hann hafði boðið þeim‘. (Matteus 7:24, 25; Efesusbréfið 3:17-19) Þeir sem eru hæfir til skírnar hafa því yfirleitt numið Biblíuna í marga mánuði eða jafnvel eitt eða tvö ár. Þar af leiðandi er ákvörðun þeirra hvorki tekin í fljótræði né byggð á ónógum upplýsingum. Við skírnina sjálfa svara skírnþegarnir játandi tveimur grundvallarspurningum. Þar sem Jesús lagði áherslu á að já okkar ætti að vera já og nei okkar nei, væri gagnlegt fyrir okkur öll að skoða vandlega mikilvægi þessara tveggja skírnarspurninga. — Matteus 5:37.
Iðrun og vígsla
5. Hvaða tvö mikilvægu skref er lögð áhersla á í fyrri skírnarspurningunni?
5 Í fyrri spurningunni er skírnþeginn spurður hvort hann hafi iðrast fyrri lífsstefnu og vígt líf sitt Jehóva til að gera vilja hans. Þessi spurning leggur áherslu á tvö mikilvæg skref sem þarf að stíga fyrir skírnina, en þau eru iðrun og vígsla.
6, 7. (a) Af hverju þurfa allir skírnþegar að hafa iðrast? (b) Hvaða breytingar þurfa að koma í kjölfar iðrunar?
6 Af hverju þarf skírnþeginn að hafa iðrast áður en hann lætur skírast? Páll postuli útskýrir: „Vér lifðum fyrrum allir . . . í mannlegum girndum vorum.“ (Efesusbréfið 2:3) Áður en við fengum nákvæma þekkingu á vilja Guðs hegðuðum við okkur eins og heimurinn og lifðum í samræmi við gildi hans og mælikvarða. Lífsstefna okkar var undir stjórn Satans sem er guð þessarar aldar. (2. Korintubréf 4:4) En þegar við kynntumst vilja Guðs ákváðum við að lifa „ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur . . . að vilja Guðs.“ — 1. Pétursbréf 4:2.
7 Þessari nýju lífsstefnu fylgja margar blessanir. Fyrst og fremst gefur það okkur kost á að eignast dýrmætt samband við Jehóva. Davíð líkti því við að fá að gista í „tjaldi“ Guðs eða búa á ‚helgu fjalli hans‘ en það er sannarlega mikill heiður. (Sálmur 15:1) Að sjálfsögðu myndi Jehóva ekki bjóða hverjum sem er þennan heiður heldur aðeins þeim sem „fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta“. (Sálmur 15:2) Til að standast þessar kröfur getum við þurft að gera vissar breytingar, bæði í hegðun okkar og persónuleika, en það fer að sjálfsögðu mikið eftir því hverjar aðstæður okkar voru áður en við kynntumst sannleikanum. (1. Korintubréf 6:9-11; Kólossubréfið 3:5-10) Hvötin að baki slíkum breytingum er iðrun — innileg eftirsjá vegna fyrri lífsstefnu og einbeittur vilji til að þóknast Jehóva. Þetta veldur algerum umskiptum í lífi fólks og fær það til að hafna eigingjarnri og veraldlegri lífsstefnu og leitast við að þóknast Guði. — Postulasagan 3:19.
8. Hvernig vígjum við okkur Jehóva og hvernig tengist vígslan skírninni?
8 Í síðari hluta fyrri spurningarinnar eru skírnþegarnir spurðir hvort þeir hafi vígt sig Jehóva til að gera vilja hans. Vígsla er nauðsynlegt skref sem þarf að stíga fyrir skírnina. Við vígjum okkur í bæn þar sem við lýsum því yfir að við viljum helga Jehóva líf okkar fyrir milligöngu Krists. (Rómverjabréfið 14:7, 8; 2. Korintubréf 5:15) Þá verður Jehóva herra okkar og húsbóndi, og eins og Jesús höfum við yndi af því að gera vilja hans. (Sálmur 40:9; Efesusbréfið 6:6) Við gefum Jehóva þetta hátíðlega loforð aðeins einu sinni. En þar sem vígslan er aðeins milli okkar og Jehóva þjónar opinber yfirlýsing á skírnardeginum þeim tilgangi að láta alla vita að við höfum vígst föður okkar á himnum. — Rómverjabréfið 10:10.
9, 10. (a) Hvað er fólgið í því að gera vilja Guðs? (b) Hvernig gerðu jafnvel nasistaforingjar sér grein fyrir því hvað vígsla okkar merkir?
9 Hvað er fólgið í því að fylgja fyrirmynd Jesú og gera vilja Guðs? Jesús sagði við lærisveinana: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross [„kvalastaur,“ NW ] sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Hér nefnir hann þrennt sem við verðum að gera. Í fyrsta lagi þurfum við að afneita sjálfum okkur. Það þýðir að við verðum að hafna eigingjörnum og ófullkomnum tilhneigingum og samþykkja að fylgja leiðsögn Guðs. Í öðru lagi þurfum við að taka kvalastaur okkar. Á dögum Jesú var kvalastaur tákn smánar og þjáninga. Sem kristnir menn verðum við að gera okkur grein fyrir því að við gætum þurft að þola illt vegna fagnaðarerindisins. (2. Tímóteusarbréf 1:8) Þótt heimurinn gagnrýni okkur og spotti metum við „smán einskis“ eins og Kristur og gleðjumst þar sem við vitum að við erum Guði þóknanleg. (Hebreabréfið 12:2) Síðast en ekki síst fylgjum við Jesú stöðuglega. — Sálmur 73:26; 119:44; 145:2.
10 Það er athyglisvert að sumir andstæðingar okkar hafa meira að segja áttað sig á hvað það merkir fyrir votta Jehóva að vera vígðir Guði skilyrðislaust. Sem dæmi má nefna að í Buchenwald-fangabúðunum á valdatíma nasista í Þýskalandi þurftu vottar, sem vildu ekki afneita trú sinni, að skrifa undir eftirfarandi yfirlýsingu: „Ég er enn staðfastur Biblíunemandi og mun aldrei rjúfa þann eið sem ég hef svarið Jehóva.“ Þessi orð lýsa vel viðhorfi allra vígðra og trúfastra þjóna Guðs. — Postulasagan 5:32.
Auðkennd sem vottar Jehóva
11. Hvaða heiður hlýtur sá sem lætur skírast?
11 Í seinni spurningunni er skírnþeginn í fyrsta lagi spurður hvort honum sé ljóst að skírn hans auðkenni hann sem vott Jehóva. Eftir niðurdýfingarskírnina er hann vígður til starfa sem þjónn Jehóva og ber nafn hans. Þetta er bæði mikill heiður og alvarleg ábyrgð. Það veitir hinum skírða einnig von um eilíft hjálpræði svo framarlega sem hann er Jehóva trúr. — Matteus 24:13.
12. Hvaða skuldbinding fylgir þeim heiðri að bera nafn Jehóva?
12 Það er einstakur heiður að bera nafn hins alvalda Guðs, Jehóva. Spámaðurinn Míka sagði: „Allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.“ (Míka 4:5) En þessum heiðri fylgir skuldbinding. Þar sem við berum nafn Jehóva verðum við að leggja okkur fram um að lifa lífi okkar þannig að það sé honum til heiðurs. Páll minnti kristna menn í Róm á það að ef þeir hegðuðu sér ekki í samræmi við það sem þeir prédikuðu yrði nafn Guðs „fyrir lasti“. — Rómverjabréfið 2:21-24.
13. Af hverju bera vígðir þjónar Jehóva þá ábyrgð að vitna um Guð sinn?
13 Þegar einhver gerist vottur Jehóva tekur hann einnig á sig þá ábyrgð að vitna um Guð sinn. Jehóva bauð hinni vígðu Ísraelsþjóð að vera vottur sinn til að hún gæti vitnað um eilífan guðdóm hans. (Jesaja 43:10-12, 21) En þjóðin stóð ekki við þessa skuldbindingu og að lokum hafnaði Jehóva henni algerlega. Sannkristnir menn eru hins vegar stoltir að eiga þann heiður að bera vitni um Jehóva. Við gerum það vegna þess að við elskum hann og viljum umfram allt að nafn hans verði helgað. Hvernig getum við þagað þegar við þekkjum sannleikann um föður okkar á himnum og fyrirætlun hans? Okkur líður eins og Páli postula sem sagði: „Skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ — 1. Korintubréf 9:16.
14, 15. (a) Hvernig stuðlar söfnuður Jehóva að því að við þroskumst í trúnni? (b) Hverju hefur Jehóva séð okkur fyrir svo að við getum haldið okkur andlega vakandi?
14 Seinni spurningin minnir skírnþegann einnig á þá ábyrgð að starfa með söfnuði Jehóva sem hann stýrir með anda sínum. Við þjónum Guði ekki ein og þurfum að fá hjálp, stuðning og hvatningu alls bræðrafélagsins. (1. Pétursbréf 2:17; 1. Korintubréf 12:12, 13) Söfnuður Guðs stuðlar að miklu leyti að því að við þroskumst í trúnni. Hann sér okkur fyrir gnægð biblíurita sem hjálpa okkur að auka við þekkingu okkar, bregðast skynsamlega við vandamálum og eignast náið samband við Guð. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ gerir okkur kleift að taka framförum í trúnni með því að veita okkur næga andlega fæðu á réttum tíma eins og móðir sem sér til þess að barnið hennar fái nægan mat og góða umönnun. — Matteus 24:45-47; 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
15 Á vikulegum safnaðarsamkomum fá þjónar Jehóva þá leiðsögn og hvatningu sem þeir þurfa til að vera trúfastir vottar. (Hebreabréfið 10:24, 25) Í Boðunarskólanum lærum við að tala opinberlega og á þjónustusamkomunni er okkur kennt að flytja boðskap okkar á áhrifaríkan hátt. Þegar við mætum á samkomur og stundum sjálfsnám sjáum við anda Jehóva að verki og hvernig hann leiðir söfnuð sinn um allan heim. Guð notar þessa föstu dagskrá til að vara okkur við hættum, kenna okkur að vera úrræðagóðir boðberar og hjálpa okkur að halda okkur andlega vakandi. — Sálmur 19:8, 9, 12; 1. Þessaloníkubréf 5:6, 11; 1. Tímóteusarbréf 4:13.
Hvötin að baki ákvörðun okkar
16. Hvað fær okkur til að vígjast Jehóva?
16 Skírnarspurningarnar tvær minna skírnþegana á þýðingu vatnsskírnarinnar og ábyrgðina sem henni fylgir. En hver ætti að vera hvötin að baki þeirri ákvörðun að láta skírast? Við gerumst ekki skírðir lærisveinar vegna þess að einhver þvingar okkur til þess heldur vegna þess að Jehóva ‚dregur‘ okkur. (Jóhannes 6:44) Þar sem „Guð er kærleikur“ stjórnar hann alheiminum með kærleika en ekki valdi. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Við löðumst að Jehóva vegna aðlaðandi eiginleika hans og framkomu hans í okkar garð. Jehóva gaf okkur eingetinn son sinn og býður okkur bestu framtíð sem hægt er að hugsa sér. (Jóhannes 3:16) Það er okkur hvöt til að vígjast honum eða bjóða honum líf okkar. — Orðskviðirnir 3:9; 2. Korintubréf 5:14, 15.
17. Hverju erum við ekki vígð?
17 Við vígjum okkur ekki málstað eða starfi heldur Jehóva sjálfum. Verkefnið, sem Guð hefur gefið þjónum sínum, mun breytast en vígslan er sú sama. Sem dæmi má nefna að verkefnið sem hann fékk Abraham var gerólíkt því sem hann fékk Jeremía. (1. Mósebók 13:17, 18; Jeremía 1:6, 7) En báðir sinntu þeir verkefnum sínum af því að þeir elskuðu Jehóva og vildu gera vilja hans trúfastlega. Núna á endalokatímanum leggja allir skírðir fylgjendur Krists sig fram um að fylgja boði hans um að prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Ef við sinnum þessu verkefni heilshugar er það góð leið til að sýna að við elskum himneskan föður okkar og erum vígð honum af öllu hjarta. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
18, 19. (a) Hvaða opinberu yfirlýsingu gefum við þegar við látum skírast? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?
18 Já, skírninni fylgir mikil blessun en þetta skref þarf að ígrunda vandlega. (Lúkas 14:26-33) Skírnin sýnir að við höfum ákveðið að láta þjónustuna ganga fyrir öllu öðru. (Lúkas 9:62) Þegar við látum skírast erum við í rauninni að gefa opinbera yfirlýsingu um að Jehóva sé Guð okkar og muni leiða okkur um aldur og ævi. — Sálmur 48:15.
19 Í næstu grein munum við skoða fleiri spurningar sem geta vaknað í tengslum við skírnina. Gæti einhver haft góðar og gildar ástæður til að láta ekki skírast? Skiptir aldur einhverju máli? Hvernig geta allir stuðlað að því að skírnin verði virðulegur atburður?
Geturðu útskýrt?
• Af hverju þarf hver og einn að iðrast áður en hann lætur skírast?
• Hvað er fólgið í því að vera vígður Guði?
• Hvaða ábyrgð fylgir því að bera nafn Jehóva?
• Hvað ætti að vera okkur hvöt til að láta skírast?
[Rammi/mynd á blaðsíðu 24]
SKÍRNARSPURNINGARNAR TVÆR
Hefur þú, á grundvelli fórnar Jesú Krists, iðrast synda þinna og vígt þig Jehóva til að gera vilja hans?
Er þér ljóst að vígsla þín og skírn auðkenna þig sem einn af vottum Jehóva í samfélagi við söfnuð hans sem hann stýrir með anda sínum?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Vígslan er hátíðlegt loforð sem við gefum Jehóva í bæn.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Þátttaka okkar í prédikunarstarfinu sýnir að við erum vígð Guði.