Kafli 62
Lexía í auðmýkt
JESÚS vill snúa aftur heim til Kapernaum eftir að hann hefur læknað dreng haldinn illum anda í grennd við Sesareu Filippí. En hann vill vera einn með lærisveinunum á leiðinni þannig að hann geti búið þá betur undir dauða sinn og ábyrgð þeirra eftir það. „Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga,“ segir hann þeim.
Enda þótt Jesús hafi rætt þetta áður og þrír postulanna hafi séð ummyndunina þar sem rætt var um „brottför“ hans, skilja lærisveinarnir ekki enn um hvað málið snýst. Enginn reynir að vísu að mótmæla því að hann verði drepinn eins og Pétur hafði gert, en þeir þora ekki að spyrja hann nánar um það.
Loks koma þeir til Kapernaum sem hefur verið eins konar starfsbækistöð Jesú í þjónustu hans og er jafnframt heimaborg Péturs og sumra hinna postulanna. Menn, sem eru að innheimta musterisgjaldið, koma nú að máli við Pétur, ef til vill til að reyna að fá Jesú til að brjóta viðtekna siðvenju. Þeir spyrja: „Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?“
Pétur segir svo vera.
Jesús kann að hafa komið í húsið skömmu síðar og hann veit hvað fram hefur farið. Hann er því fyrri til að hefja máls á þessu og spyr Pétur: „Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?“
„Af vandalausum,“ svarar Pétur.
„Þá eru börnin frjáls,“ segir Jesús. Þar eð faðir Jesú er konungur alheimsins og tilbeðinn í musterinu er Jesú, syni Guðs, ekki skylt lögum samkvæmt að greiða musterisgjaldið. „En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening,“ segir Jesús. „Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig.“
Þegar lærisveinarnir koma saman aftur eftir komuna til Kapernaum, ef til vill í húsi Péturs, spyrja þeir: „Hver er mestur í himnaríki?“ Jesús veit hver er kveikjan að þessari spurningu því hann veit hvað þeir voru að ræða sín á milli þar sem þeir gengu á eftir honum frá Sesareu Filippí. Hann spyr því: „Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?“ Lærisveinarnir verða vandræðalegir og þegja því að þeir höfðu verið að þrátta um það hver þeirra væri mestur.
Það virðist kannski ótrúlegt að lærisveinarnir skyldu vera að deila um slíkt eftir að hafa notið kennslu Jesú í næstum þrjú ár. En það ber bara vitni um sterk áhrif mannlegs ófullkomleika og trúaruppruna. Trú Gyðinga, sem lærisveinarnir höfðu alist upp við, lagði áherslu á stétt og stöðu í öllum samskiptum. Og kannski fannst Pétri hann standa hinum framar úr því að Jesús hafði lofað að gefa honum „lykla“ Guðsríkis. Jakob og Jóhannes hafa ef til vill gert sér svipaðar hugmyndir af því að þeir urðu vitni að ummyndun Jesú.
Hvað sem því líður bregður Jesús upp hrífandi sýnikennslu í von um að leiðrétta viðhorf þeirra. Hann kallar á barn, setur það meðal þeirra, tekur utan um það og segir: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.“
Þetta er frábær aðferð til að leiðrétta lærisveinana! Jesús reiðist þeim ekki og kallar þá ekki hrokafulla, ágjarna eða metnaðargjarna. Nei, hann notar lítið barn sem dæmi til að leiðrétta þá, en börn eru að jafnaði hæversk, laus við metnaðargirni og gera sér yfirleitt engar hugmyndir um stöðu eða stétt sín á meðal. Þannig sýnir Jesús lærisveinunum fram á að þeir þurfi að þroska með sér þessa eiginleika sem einkenna auðmjúk börn. Hann segir að lokum: „Sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur.“ Matteus 17:22-27; 18:1-5; Markús 9:30-37; Lúkas 9:43-48.
▪ Hvað endurtekur Jesús eftir heimkomuna til Kapernaum og hvernig er því tekið?
▪ Af hverju er Jesú ekki skylt að greiða musterisgjaldið en hvers vegna greiðir hann það samt?
▪ Hvað kann að hafa stuðlað að deilu lærisveinanna og hvernig leiðréttir Jesús þá?