Fyrirgefur þú eins og Jehóva gerir?
„Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ — MATTEUS 6:14, 15.
1, 2. Hvers konar Guðs þörfnumst við og hvers vegna?
JEHÓVA er „náðugur og miskunnsamur . . . , þolinmóður og mjög gæskuríkur. Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður. Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — Sálmur 103:8-14.
2 Við sem erum getin í synd, fædd í misgerð og höfum erft ófullkomleika sem reynir sífellt að hneppa okkur í fjötra lögmáls syndarinnar, þörfnumst sannarlega Guðs sem ‚minnist þess að við erum mold.‘ Þrjú hundruð árum eftir að Davíð lýsti Jehóva svo fagurlega í Sálmi 103 dásamaði annar biblíuritari, Míka, þennan sama Guð á mjög svo svipaðan hátt fyrir að fyrirgefa svo náðarsamlega áður drýgðar syndir: „Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, — sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur? Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.“ — Míka 7:18, 19.
3. Hvað merkir það að fyrirgefa?
3 Í Grísku ritningunum merkir orðið, sem þýtt er „fyrirgefa,“ að „senda burt.“ Tökum eftir að Davíð og Míka, sem vitnað er í hér á undan, lýsa sömu hugmynd á fögru myndmáli. Til að bera fullt skyn á hve undraverð og víðtæk fyrirgefning Jehóva er skulum við rifja upp fáein dæmi af mörgum um það hvernig hún hefur birst í verki. Fyrsta dæmið sýnir að menn geta fengið Jehóva til að skipta um skoðun; að fyrirgefa í stað þess að tortíma.
Fyrirbæn Móse — Jehóva hlustar
4. Eftir hvaða sýningu á mætti Jehóva voru Ísraelsmenn enn hræddir við að ganga inn í fyrirheitna landið?
4 Jehóva leiddi Ísraelsþjóðina heilu og höldnu út úr Egyptalandi og í námunda við landið sem hann hafði heitið að gefa henni, en hún neitaði að ganga inn í landið af ótta við Kanverja. Eftir að hafa séð Jehóva frelsa þjóðina af hendi Egypta með plágunum tíu, opna henni undankomuleið gegnum Rauðahafið, eyða her Egypta sem reyndi að elta hana, fullgilda lagasáttmálann við hana við Sínaífjallið og gera hana að útvaldri þjóð sinni og sjá henni á undraverðan hátt fyrir daglegu manna af himni til viðurværis, var þjóðin hrædd við að ganga inn í fyrirheitna landið vegna nokkurra ofvaxinna Kanverja! — 4. Mósebók 14:1-4.
5. Hvernig reyndu tveir trúfastir njósnarar að stappa stálinu í Ísrael?
5 Móse og Aron voru miður sín og féllu fram á ásjónur sínar. Jósúa og Kaleb, tveir trúfastir njósnarar, reyndu að stappa stálinu í Ísraelsmenn: ‚Landið er mesta ágætisland sem flýtur í mjólk og hunangi. Hræðist ekki landsmenn; Jehóva er með okkur!‘ Í stað þess að láta slík orð hughreysta sig, reyndi hið óttaslegna og uppreisnargjarna fólk að grýta Jósúa og Kaleb. — 4. Mósebók 14:5-10.
6, 7. (a) Hvað ákvað Jehóva að gera þegar Ísrael streittist gegn því að ganga inn í fyrirheitna landið? (b) Af hverju andmælti Móse dómi Jehóva yfir Ísrael og með hvaða afleiðingum?
6 Jehóva reiddist! „[Jehóva] sagði við Móse: ‚Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra? Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru.‘ Móse sagði við [Jehóva]: ‚En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim, og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. . . . Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið: „Af því að [Jehóva] megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.“‘“ — 4. Mósebók 14:11-16.
7 Móse sárbændi Jehóva að fyrirgefa þjóðinni nafns hans vegna: „‚Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað.‘ [Jehóva] sagði: ‚Ég fyrirgef, eins og þú biður.‘“ — 4. Mósebók 14:19, 20.
Skurðgoðadýrkun Manasse og hórdómur Davíðs
8. Hvers konar orð gat Manasse Júdakonungur sér?
8 Manasse, sonur góða konungsins Hiskía, er einstakt dæmi um fyrirgefningu Jehóva. Manasse var 12 ára er hann tók við konungdómi í Jerúsalem. Hann reisti fórnarhæðirnar, byggði ölturu handa Baölunum, reisti helgisúlur eða asérur, féll fram fyrir stjörnum himinsins, stundaði kukl og galdra, skipaði andamiðla og spásagnamenn, setti útskorið líkneski í musteri Jehóva og lét syni sína ganga gegnum eldinn í Hinnomsdal. „Hann aðhafðist margt það, sem illt var í augum [Jehóva]“ og „leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er [Jehóva] hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.“ — 2. Kroníkubók 33:1-9.
9. Hvernig mildaðist Jehóva gagnvart Manasse og með hvaða afleiðingum?
9 Að lokum leiddi Jehóva Assýringa gegn Júda og þeir tóku Manasse til fanga og fluttu hann til Babýlonar. „En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka [Jehóva], Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna. Og er hann bað hann, þá bænheyrði Drottinn hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt.“ (2. Kroníkubók 33:11-13) Manasse fjarlægði þá útlendu guðina, skurðgoðin og ölturun og lét henda þeim út fyrir borgina. Hann byrjaði að færa fórnir á altari Jehóva og fékk Júdamenn til að þjóna hinum sanna Guði. Þetta var undravert dæmi um vilja Jehóva til að fyrirgefa þegar auðmýkt, bæn og leiðrétting bera ávöxt samboðinn iðruninni! — 2. Kroníkubók 33:15, 16.
10. Hvernig reyndi Davíð að breiða yfir synd sína með konu Úría?
10 Hórdómssynd Davíðs konungs með eiginkonu Úría Hetíta er velþekkt. Hann drýgði ekki aðeins hór með henni heldur fór auk þess út í flókið laumuspil til að fela verknaðinn þegar hún varð barnshafandi. Konungur gaf Úría leyfi frá herþjónustu og bjóst við hann færi heim til sín og hefði mök við konu sína. En af tillitssemi við samþjóna sína við víglínuna afþakkaði Úría það. Davíð bauð honum þá til málsverðar og lét hann drekka sig drukkinn, en þrátt fyrir það fór Úría ekki inn til konu sinnar. Davíð sendi þá boð til hershöfðingja síns um að setja Úría í fremstu víglínu til að hann félli sem og varð. — 2. Samúelsbók 11:2-25.
11. Hvernig var Davíð komið til að iðrast syndar sinnar en hvað þurfti hann samt að taka út?
11 Jehóva sendi Natan spámann til Davíðs til að afhjúpa synd hans. „Þá sagði Davíð við Natan: ‚Ég hefi syndgað móti [Jehóva].‘ Natan sagði við Davíð: ‚[Jehóva] hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.‘“ (2. Samúelsbók 12:13) Sektarkenndin lagðist þungt á Davíð og hann lét iðrun sína í ljós í innilegri bæn til Jehóva: „Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum — annars mundi ég láta þær í té — og að brennifórnum er þér ekkert yndi. Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ (Sálmur 51:18, 19) Jehóva fyrirleit ekki bæn Davíðs sem hann bar fram með sundurmörðu hjarta. Engu að síður tók Davíð út harða refsingu í samræmi við yfirlýsingu Jehóva um fyrirgefningu í 2. Mósebók 34:6, 7: Hann „lætur [syndanna] þó eigi með öllu óhegnt.“
Musterisvígsla Salómons
12. Hvers beiddist Salómon við musterisvígsluna og hver voru viðbrögð Jehóva?
12 Þegar Salómon lauk byggingu musteris Jehóva sagði hann í vígslubæn sinni: „Heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir bera fram á þessum stað, já, heyr þú hana frá aðseturstað þínum, frá himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.“ Jehóva svaraði: „Þegar ég byrgi himininn, svo að eigi nær að rigna, og þegar ég býð engisprettum að rótnaga landið, og þegar ég læt drepsótt koma meðal lýðs míns, og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrirgefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra.“ — 2. Kroníkubók 6:21; 7:13, 14.
13. Hvað sýnir Esekíel 33:13-16 um viðhorf Jehóva til fólks?
13 Þegar Jehóva horfir á þig viðurkennir hann þig eins og þú ert núna, ekki eins og þú varst áður. Í Esekíel 33:13-16 lýsir hann yfir: „Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ‚Þú skalt vissulega lífi halda!‘ og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt. Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ‚Þú skalt vissulega deyja!‘ og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja. Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!“
14. Hvað er sérstakt við fyrirgefningu Jehóva?
14 Sú fyrirgefning, sem Jehóva Guð veitir okkur, er sérstök á einn veg sem við mennirnir eigum erfitt með að líkja eftir þegar við fyrirgefum hver öðrum — hann bæði fyrirgefur og gleymir. Sumir segja: ‚Ég get fyrirgefið það sem þú hefur gert en ég get aldrei gleymt því.‘ En taktu eftir því sem Jehóva segist gera: „Ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ — Jeremía 31:34.
15. Hvaða afstöðu hefur Jehóva alltaf haft til fyrirgefningar?
15 Jehóva hefur fyrirgefið tilbiðjendum sínum á jörðinni um árþúsundir. Hann hefur fyrirgefið syndir sem þeir eru sér meðvitandi um og fjölmargar sem þeir hafa drýgt óafvitandi. Miskunn hans, langlyndi og fyrirgefning hefur verið takmarkalaus. Jesaja 55:7 segir: „Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“
Fyrirgefning í kristnu Grísku ritningunum
16. Af hverju getum við sagt að Jesús sé sama sinnis og Jehóva gagnvart fyrirgefningu?
16 Kristnu Grísku ritningarnar eru fullar af frásögum um fyrirgefningu Guðs. Jesús talar oft um hana og sýnir þannig að hann er sama sinnis og Jehóva. Jesús hugsar eins og Jehóva, hann endurspeglar Jehóva, hann er ímynd veru Jehóva; að sjá hann er að sjá Jehóva. — Jóhannes 12:45-50; 14:9; Hebreabréfið 1:3.
17. Hvernig lýsti Jesús með dæmisögu að Jehóva „fyrirgefur ríkulega“?
17 Að Jehóva skuli fyrirgefa ríkulega kemur í ljós í einni af dæmisögum Jesú þar sem segir frá konungi er gaf þræli upp 10.000 talentu skuld (um 2,2 milljarða króna). En þegar þrællinn vildi ekki gefa öðrum þræli upp hundrað denara skuld (um 4000 krónur) varð konungur ævareiður. „‚Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?‘ Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.“ Jesús heimfærði síðan dæmisöguna: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ — Matteus 18:23-35.
18. Hvernig var viðhorf Péturs til fyrirgefningar samanborið við viðhorf Jesú?
18 Rétt áður en Jesús sagði þessa dæmisögu hafði Pétur komið að máli við hann og spurt: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Pétur hélt að hann væri mjög örlátur. En þótt fræðimennirnir og farísearnir hefðu sett fyrirgefningu ákveðin takmörk svaraði Jesús: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum.“ (Matteus 18:21, 22, neðanmáls) Sjö sinnum dygði varla daglangt eins og Jesús sagði: „Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum. Og þótt hann misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ‚Ég iðrast,‘ þá skalt þú fyrirgefa honum.“ (Lúkas 17:3, 4) Þegar Jehóva fyrirgefur telur hann ekki skiptin — sem betur fer fyrir okkur.
19. Hvað verðum við að gera til að hljóta fyrirgefningu Jehóva?
19 Ef við erum nógu auðmjúk til að iðrast og játa syndir okkar fellst Jehóva á að sýna okkur velvild: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:9.
20. Hvaða fyrirgefningarvilja sýndi Stefán?
20 Stefán, fylgjandi Jesú, sýndi undraverðan fyrirgefningarhug er hann hrópaði þessa bæn meðan reiður múgurinn var að grýta hann: „‚Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.‘ Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: ‚[Jehóva], lát þá ekki gjalda þessarar syndar.‘ Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.“ — Postulasagan 7:59, 60.
21. Af hverju var vilji Jesú til að fyrirgefa rómversku hermönnunum svona undraverður?
21 Jesús sýndi enn undraverðara fordæmi um fyrirgefningarvilja. Óvinir hans höfðu handtekið hann, haldið ólögleg réttarhöld yfir honum, sakfellt hann, hætt hann, hrækt á hann, húðstrýkt hann með svipu sem líklega var með bein- og málmgöddum og loks neglt hann á staur og látið hann hanga þar klukkutímum saman. Rómverjar áttu þátt í mörgu af þessu. Þegar Jesús var að deyja á þessum kvalastaur sagði hann engu að síður við himneskan föður sinn um hermennina sem höfðu staurfest hann: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“ — Lúkas 23:34.
22. Hvaða orðum fjallræðunnar verðum við að reyna að fara eftir?
22 Jesús hafði sagt í fjallræðu sinni: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ Sjálfur fylgdi hann þessari meginreglu uns jarðneskri þjónustu hans lauk. Er það til einum of mikils ætlast af okkur sem eigum í baráttu við veikleika okkar fallna holds? Við ættum að minnsta kosti að reyna að fara eftir því sem Jesús kenndi fylgjendum sínum eftir að hann hafði kennt þeim fyrirmyndarbænina: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matteus 5:44; 6:14, 15) Ef við fyrirgefum eins og Jehóva, þá fyrirgefum við og gleymum.
Manst þú?
◻ Hvernig tekur Jehóva á syndum okkar og hvers vegna?
◻ Af hverju fékk Manasse að snúa aftur í ríki sitt?
◻ Hvað er sérstakt við fyrirgefningu Jehóva sem menn eiga erfitt með að líkja eftir?
◻ Hvernig var fyrirgefningarvilji Jesú sérstaklega undraverður?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Natan hjálpaði Davíð að skynja nauðsyn þess að hljóta fyrirgefningu Guðs.