Hjónabandið – upphaf þess og tilgangur
„Drottinn Guð sagði: ,Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.‘“ – 1. MÓS. 2:18.
1, 2. (a) Hvert er upphaf hjónabandsins? (b) Á hverju gætu fyrsti maðurinn og konan hafa áttað sig varðandi hjónabandið? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
HJÓNABANDIÐ er eðlilegur hluti lífsins. Að skoða upphaf þess og tilgang getur hjálpað okkur að sjá það í réttu ljósi og njóta betur þeirrar blessunar sem á að fylgja því. Eftir að Guð skapaði Adam, fyrsta manninn, voru dýrin leidd fyrir hann þannig að hann gæti gefið þeim nöfn. En maðurinn átti sér „enga meðhjálp við hæfi“. Guð lét því Adam falla í djúpan svefn, tók úr honum rifbein og bjó til úr því konu sem hann síðan færði manninum. (Lestu 1. Mósebók 2:20-24.) Guð er því höfundur hjónabandsins.
2 Jesús staðfesti að það hafi verið Jehóva sem sagði: ,Maður skal yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður.‘ (Matt. 19:4, 5) Guð notaði rifbein úr Adam til að skapa fyrstu konuna. Sú vitneskja hefur eflaust hjálpað fyrstu hjónunum að átta sig á hversu náin þau voru. Engar ráðstafanir voru gerðar um skilnað eða fjölkvæni.
HJÓNABANDIÐ ER ÞÁTTUR Í FYRIRÆTLUN JEHÓVA
3. Hver var einn aðaltilgangur hjónabandsins?
3 Adam var hæstánægður með þessa yndislegu eiginkonu sem hann síðar nefndi Evu. Hún var honum „meðhjálp við hans hæfi“ og þau veittu hvort öðru gleði dag eftir dag með því að taka hlutverk sín sem eiginmaður og eiginkona alvarlega. (1. Mós. 2:18) Einn aðaltilgangur hjónabandsins var að mennirnir fjölguðu sér og uppfylltu jörðina. (1. Mós. 1:28) Þó að börn elskuðu foreldra sína myndu þau yfirgefa þá til að giftast og stofna eigin fjölskyldur. Mennirnir áttu að fjölga sér þar til jörðin yrði fyllt að hæfilegu marki og yrði öll ein samfelld paradís.
4. Hvað gerðist hjá fyrstu hjónunum?
4 Adam og Eva þurftu að þola mikla erfiðleika í hjónabandinu vegna þess að þau kusu að misbeita frjálsum vilja sínum og óhlýðnast Jehóva. Satan djöfullinn, ,hinn gamli höggormur,‘ blekkti Evu með því að telja henni trú um að ef hún borðaði ávöxt af „skilningstré góðs og ills“ myndi hún öðlast sérstaka visku til að geta greint milli góðs og ills. Hún vanvirti forystuhlutverk eiginmanns síns með því að bera málið ekki undir hann. Og Adam óhlýðnaðist Guði með því að þiggja ávöxtinn sem Eva rétti honum. – Opinb. 12:9; 1. Mós. 2:9, 16, 17; 3:1-6.
5. Hvað lærum við af viðbrögðum Adams og Evu þegar Jehóva lét þau svara til saka?
5 Þegar Guð lét hjónin svara til saka skellti Adam skuldinni á eiginkonu sína og sagði: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Eva kenndi svo höggorminum um að hafa blekkt sig. (1. Mós. 3:12, 13) Þetta voru lélegar afsakanir sem réttlættu ekki neitt! Þar sem fyrstu hjónin höfðu óhlýðnast Jehóva voru þau dæmd uppreisnarseggir í hans augum. Þetta er okkur víti til varnaðar! Bæði hjónin þurfa að axla sína ábyrgð og hlýða Jehóva til að hjónabandið verði farsælt.
6. Útskýrðu 1. Mósebók 3:15.
6 Þrátt fyrir það sem Satan gerði í Eden bar Jehóva fram fyrsta spádóm Biblíunnar og veitti mannkyninu þar með von. (Lestu 1. Mósebók 3:15.) ,Niðji konunnar‘ átti að merja fyrstu andaveruna sem gerði uppreisn gegn Guði. Með þessum spádómi veitti Jehóva mönnunum innsýn í hve sérstakt samband hann á við þann mikla fjölda réttlátra andavera sem þjóna honum á himnum. Síðar opinberaði hann í orði sínu að sá sem myndi „merja“ djöfulinn kæmi úr alheimssöfnuði hans sem líkt er við eiginkonu. Sá myndi gera hlýðnum mönnum kleift að hljóta þá framtíðarvon sem fyrstu hjónin glötuðu, að lifa að eilífu á jörðinni eins og Jehóva ætlaðist til í upphafi. – Jóh. 3:16.
7. (a) Hvaða áhrif hefur uppreisn Adams og Evu haft á hjónabönd? (b) Hvaða kröfur gerir Biblían til eiginmanna og eiginkvenna?
7 Uppreisn Adams og Evu hafði áhrif á hjónaband þeirra og á öll hjónabönd þaðan í frá. Eva og allar konur komnar af henni myndu til dæmis upplifa miklar kvalir við barnsfæðingu. Konur myndu hafa löngun til manna sinna en menn ríkja yfir konum sínum og jafnvel misbeita valdi sínu, eins og við sjáum í mörgum hjónaböndum nú á tímum. (1. Mós. 3:16) Biblían segir að eiginmenn eigi að fara með forystu á kærleiksríkan hátt. Á móti eiga konurnar að virða forystu eiginmannsins. (Ef. 5:33) Þegar hjón, sem þjóna Guði, vinna saman er hægt að koma í veg fyrir ágreining að miklu leyti og jafnvel öllu.
HJÓNABANDIÐ FRÁ TÍMA ADAMS FRAM AÐ FLÓÐINU
8. Hvernig er saga hjónabandsins frá tíma Adams fram að flóðinu?
8 Áður en synd og ófullkomleiki dró Adam og Evu til dauða eignuðust þau syni og dætur. (1. Mós. 5:4) Fyrsti sonur þeirra, Kain, kvæntist konu sem var skyld honum. Lamek, afkomandi Kains, er fyrsti maðurinn sem sagt er að hafi átt tvær konur. (1. Mós. 4:17, 19) Af kynslóðunum frá Adam til flóðsins á dögum Nóa er aðeins greint frá fáeinum einstaklingum sem tilbáðu Jehóva. Meðal þeirra voru Abel, Enok og Nói ásamt fjölskyldu. Í Biblíunni segir að á dögum Nóa hafi synir Guðs séð „hve dætur mannanna voru fagrar. Þeir tóku sér þær konur sem þeir lögðu hug á.“ Þessir holdguðu englar stofnuðu til óeðlilegs sambands við konur og eignuðust með þeim risavaxna og ofbeldisfulla kynblendinga. Auk þess var ,illska mannanna orðin mikil á jörðinni og allar hneigðir þeirra og langanir snerust ætíð til ills‘. – 1. Mós. 6:1-5.
9. Hvað gerði Jehóva við illa menn á dögum Nóa og hvað getum við lært af því sem gerðist á þeim tíma?
9 Jehóva olli flóðinu á dögum Nóa til að eyða illum mönnum. Á þeim tíma var fólk svo upptekið af daglegu lífi, þar á meðal hjónabandinu, að það tók ekki mark á viðvörunum „Nóa, boðbera réttlætisins,“ um yfirvofandi eyðingu. (2. Pét. 2:5) Jesús líkti ástandinu á þeim tíma við það sem við sjáum núna. (Lestu Matteus 24:37-39.) Flestir nú á dögum neita að hlusta á fagnaðarerindið um ríki Guðs sem boðað er um alla jörð, öllum þjóðum til vitnisburðar áður en þessum illa heimi verður eytt. Hvað getum við lært af þessu? Við megum ekki láta neitt verða til þess að við gleymum hve nálægur dagur Jehóva er, ekki einu sinni fjölskyldumál eins og hjónaband og barnauppeldi.
HJÓNABANDIÐ FRÁ TÍMUM FLÓÐSINS TIL DAGA JESÚ
10. (a) Hvernig var siðferðið víða á tímum ættfeðranna? (b) Hvernig var hjónaband Abrahams og Söru til fyrirmyndar?
10 Nói átti aðeins eina konu og hið sama er að segja um syni hans þrjá. Fjölkvæni viðgekkst þó á tímum ættfeðranna. Víða varð kynferðislegt siðleysi talið eðlilegt, og það var jafnvel hluti af trúarsiðum fólks. Þegar Abram (Abraham) og Saraí (Sara), konan hans, hlýddu Guði og fluttust til Kanaanslands stundaði fólk þar líferni sem gerði lítið úr hjónabandinu. Jehóva ákvað að Sódómu og Gómorru skyldi eytt þar sem íbúar þessara borga stunduðu kynferðislegt siðleysi af versta tagi eða leyfðu því að viðgangast. Abraham fór með forystuna í fjölskyldunni eins og skyldi og Sara var til fyrirmyndar með því að virða stöðu hans. (Lestu 1. Pétursbréf 3:3-6.) Abraham sá til þess að Ísak, sonur sinn, kvæntist konu sem tilbað Jehóva. Sönn tilbeiðsla var líka Jokobi, syni Ísaks, hjartans mál, en synir hans urðu forfeður 12 ættbálka Ísraels.
11. Hvernig vernduðu Móselögin Ísraelsmenn?
11 Síðar gerði Jehóva sáttmála við afkomendur Jakobs (Ísraels). Í Móselögunum voru settar reglur um þá siði og venjur sem viðgengust í hjónaböndum á tímum ættfeðranna, meðal annars fjölkvæni. Þær vernduðu trú Ísraelsmanna þar sem bannað var að ganga í hjónaband með falsguðadýrkanda. (Lestu 5. Mósebók 7:3, 4.) Þegar erfiðleikar komu upp í hjónaböndum fengu hjónin oft aðstoð frá öldungunum. Tekið var á málum eins og framhjáhaldi, öfund og tortryggni á viðeigandi hátt. Skilnaðir voru leyfðir en um þá voru einnig sett lagaákvæði. Maður gat skilið við eiginkonu sína ef hann fann „eitthvað fráhrindandi við hana“. (5. Mós. 24:1) Ekki var skilgreint hvað teldist „fráhrindandi“ en ætla má að ekki hafi verið um smávægileg mál að ræða. – 3. Mós. 19:18b.
BREGÐUM ALDREI TRÚNAÐI VIÐ MAKA OKKAR
12, 13. (a) Hvernig komu sumir fram við eiginkonur sínar á tímum Malakís? (b) Hverjar yrðu afleiðingarnar ef skírður þjónn Guðs nú á dögum styngi af með maka einhvers annars?
12 Gyðingar á tímum Malakís spámanns brugðu margir hverjir trúnaði við eiginkonur sínar með því að skilja við þær, og fundu til þess alls konar ástæður. Þannig losuðu þeir sig við eiginkonu æsku sinnar, stundum til að kvænast yngri konu eða jafnvel heiðinni. Á dögum Jesú sviku Gyðingar enn konur sínar með því að skilja við þær „fyrir hvaða sök sem er“. (Matt. 19:3) Jehóva hataði slíka skilnaði. – Lestu Malakí 2:13-16.[1]
13 Nú á dögum eru svik í hjónabandi ekki látin viðgangast meðal þjóna Guðs. En segjum að giftur maður eða kona í söfnuðinum stingi af með maka einhvers annars og giftist honum eftir að hafa fengið skilnað. Ef einhver gerir það án þess að iðrast er honum vikið úr söfnuðinum til að halda honum andlega hreinum. (1. Kor. 5:11-13) Hann þarf að ,sýna í verki að hann hafi tekið sinnaskiptum‘ áður en hann er tekinn inn í söfnuðinn á ný. (Lúk. 3:8; 2. Kor. 2:5-10) Þó að ekkert segi til um hve langur tími þurfi að líða þangað til hann fær að koma aftur er ekki hægt að líta fram hjá slíkum svikum, sem eru reyndar sjaldgæf meðal þjóna Guðs. Það getur tekið langan tíma – ár eða lengur – fyrir þann sem syndgar að sanna að hann iðrist í einlægni. Og jafnvel þó að hann sé tekinn inn í söfnuðinn á ný þarf hann eftir sem áður að standa reikningsskap „frammi fyrir dómstóli Guðs“. – Rómv. 14:10-12; sjá Varðturninn á ensku 15. nóvember 1979, bls. 31-32.
HJÓNABÖND Í KRISTNA SÖFNUÐINUM
14. Hver var aðalástæðan fyrir lögmálinu?
14 Ísraelsmenn voru undir Móselögunum í meira en 1.500 ár. Þau hjálpuðu þjónum Guðs að hafa réttlátar meginreglur í huga þegar þeir tóku á fjölskyldumálum og öðru, og þau vernduðu þjóðina fram að komu Messíasar. (Gal. 3:23, 24) Þegar lögmálið féll úr gildi eftir dauða Jesú gerði Guð nýja ráðstöfun. (Hebr. 8:6) Sumt sem hafði verið leyft á tímum lögmálsins var það ekki lengur.
15. (a) Hvaða kröfum um hjónabandið er fylgt í kristna söfnuðinum? (b) Hvað ætti þjónn Guðs að hafa í huga ef hann íhugar að skilja við maka sinn?
15 Þegar farísear spurðu Jesú út í skilnað svaraði hann að Móse hefði leyft skilnað við vissar aðstæður en að ,frá upphafi hafi þetta eigi verið þannig‘. (Matt. 19:6-8) Jesús gaf þannig til kynna að kröfum Guðs um hjónabandið, eins og þær voru upphaflega í Eden, yrði fylgt eftir í kristna söfnuðinum. (1. Tím. 3:2, 12) Þar sem hjón eru „einn maður“ eiga þau að halda sig hvort við annað og leyfa kærleikanum til Guðs og hvort til annars að styrkja einingarböndin. Ef hjón skilja samkvæmt lögum af öðrum ástæðum en vegna framhjáhalds eru þau ekki frjáls að giftast aftur. (Matt. 19:9) Saklaus maki getur auðvitað kosið að fyrirgefa maka sínum sem hefur framið hjúskaparbrot en iðrast, rétt eins og Hósea spámaður fyrirgaf Gómer, eiginkonu sinni. Jehóva sýndi Ísraelsþjóðinni miskunn með svipuðum hætti þegar hún iðraðist eftir að hafa framið hjúskaparbrot í andlegum skilningi. (Hós. 3:1-5) Við þetta má bæta að ef einhver veit að maki hans hefur framið hjúskaparbrot og kýs að eiga við hann kynmök jafngildir það fyrirgefningu, og þá er ekki lengur biblíulegur grundvöllur fyrir skilnaði.
16. Hvað sagði Jesús um einhleypi?
16 Eftir að hafa bent á að hjá sannkristnum mönnum sé enginn grundvöllur fyrir skilnaði annar en hjúskaparbrot ræddi Jesús um þá „sem það er gefið“ að vera einhleypir. Hann sagði: „Sá höndli sem höndlað fær.“ (Matt. 19:10-12) Margir hafa kosið að vera einhleypir til að geta þjónað Jehóva með óskiptri athygli. Þeir eiga hrós skilið.
17. Hvað getur hjálpað þjónum Guðs að ákveða hvort þeir ætli að giftast?
17 Hver og einn þarf að ákveða í hjarta sínu hvort hann geti verið einhleypur eða hvort hann ætli að giftast. Páll postuli mælti með einhleypi en sagði samt: „Til þess að forðast saurlífi hafi hver karlmaður sína eiginkonu og hver kona sinn eiginmann.“ Páll bætti við: „Hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.“ Að giftast getur hjálpað manni að láta ekki undan kynhvötinni og stunda sjálfsfróun eða kynferðislegt siðleysi. Aldur getur einnig haft áhrif á ákvörðunina því að postulinn sagði að ef einhverjum fyndist hann hegða sér ósæmilega með því að giftast ekki og væri „á manndómsskeiði, þá geri hann sem hann vill ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.“ (1. Kor. 7:2, 9, 36; 1. Tím. 4:1-3) Engum ætti þó að finnast hann eiga að giftast ungur að árum bara vegna þess hve kynhvötin er sterk. Kannski hefur hann ekki þroska til að axla ábyrgðina sem fylgir hjónabandi.
18, 19. (a) Hvað ætti að vera efst í huga kristinna einstaklinga sem vilja giftast? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?
18 Kristinn karlmaður og kona, sem vilja ganga í hjónaband, ættu að vera vígð Jehóva og elska hann af öllu hjarta. Þau ættu líka að elska hvort annað svo heitt að þau langar að sameinast í hjónabandi. Þau hljóta auðvitað blessun fyrir að giftast ,aðeins í Drottni‘. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Og í hjónabandinu verða þau vafalaust sammála um að bestu ráðin til að eiga farsælt hjónaband sé að finna í Biblíunni.
19 Núna á lokaspretti ,hinna síðustu daga‘ hafa margir eiginleika sem vinna gegn farsælu hjónabandi. (2. Tím. 3:1-5) Í næstu grein er rætt um biblíuleg ráð sem geta hjálpað giftum þjónum Guðs að takast á við erfiðleikana sem fylgja því að lifa á þessum tíma. Jehóva hefur gefið okkur í dýrmætu orði sínu það sem við þurfum til að geta átt farsælt og hamingjuríkt hjónaband meðan við göngum með öðrum þjónum hans á veginum til eilífa lífsins. – Matt. 7:13, 14.
^ [1] (12. grein.) Malakí 2:16 (Biblían 1981): „Því að ég hata hjónaskilnað – segir Drottinn, Ísraels Guð, – og þann sem hylur klæði sín glæpum – segir Drottinn allsherjar. Gætið yðar því í huga yðar og bregðið aldrei trúnaði.“