Spurningar frá lesendum
Ber að skilja orð Jesú í Matteusi 19:10-12 þannig að þeim sem kjósa að vera einhleypir sé gefið fyrir kraftaverk að geta það?
Við hvaða aðstæður tjáði Jesús sig um einhleypi eins og haft er eftir honum í þessum versum? Þegar farísear komu til hans og spurðu hann út í hjónaskilnaði tók hann fram hvaða ákvæði Jehóva hefði sett um hjónaband. Samkvæmt lögmálinu gat maður gefið konu sinni skilnaðarbréf ef hann fann „eitthvað fráhrindandi“ í fari hennar en þannig hafði það ekki verið frá upphafi. (5. Mós. 24:1, 2) Síðan sagði Jesús: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ – Matt. 19:3-9.
Þegar lærisveinar hans heyrðu þetta sögðu þeir: „Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast.“ Jesús svaraði þá: „Það er ekki á allra færi að skilja þennan boðskap heldur þeirra einna sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, suma hafa menn gert vanhæfa, sumir hafa sjálfir gert sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli sem höndlað fær.“ – Matt. 19:10-12.
Sumir voru vanhæfir til hjónabands í bókstaflegri merkingu vegna fæðingargalla, slyss eða vegna þess að þeir höfðu verið vanaðir. En aðrir kusu sjálfir að lifa eins og þeir væru vanhæfir til hjónabands þó að þeir væru það ekki bókstaflega. Þótt þeir gætu hæglega gengið í hjónaband sýndu þeir sjálfstjórn og voru einhleypir „vegna himnaríkis“. Þeir kusu, líkt og Jesús, að vera einhleypir svo að þeir gætu helgað sig þjónustunni við ríki Guðs. Það var þeim hvorki meðfætt né höfðu þeir fengið þessa gjöf fyrir kraftaverk. Þeir ,höndluðu‘ þetta af því að þeir ákváðu sjálfir að vera einhleypir.
Páll postuli tók mið af orðum Jesú og benti á að allir í söfnuðinum, bæði giftir og ógiftir, gætu veitt Guði þjónustu sem hann hefði velþóknun á. Einhleypir þjónar hans gerðu þó „enn betur“ ef þeir væru ,staðfastir í hjarta sínu‘ og sáttir við stöðu sína. Hvernig þá? Þeir sem eru í hjónabandi þurfa að hluta til að nota tíma sinn og krafta til að þóknast maka sínum og annast hann. Þeir sem eru einhleypir geta hins vegar einbeitt sér að fullu að þjónustu Drottins. Þeir líta á stöðu sína sem „náðargjöf frá Guði“. – 1. Kor. 7:7, 32-38.
Af Biblíunni er því ljóst að þjónum Guðs, sem kjósa að vera einhleypir, er ekki gefið það fyrir kraftaverk. Þeir eru það af sjálfsdáðum til að geta einbeitt sér að þjónustunni við ríki Guðs án truflunar. Margir hafa af þessari ástæðu ákveðið í hjarta sér að vera einhleypir og aðrir ættu að styðja þá og styrkja.