Þjónaðu Jehóva truflunarlaust
1 „Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ (Sálm. 144:15) Eru þessi orð Davíðs enn sönn, jafnvel á þessum vondu dögum? (Ef. 5:16) Já, kristnir menn hafa enn ánægju af því að þjóna Jehóva. Það leikur ekki alltaf allt í lyndi hjá okkur. Satan veldur okkur erfiðleikum á þessum ‚örðugu tíðum.‘ Við erum þó ekki niðurbeygð. (2. Tím. 3:1, 2) Versnandi ástand er enn ein sönnun þess að tíminn sé í nánd fyrir ríki Guðs að sópa burt þessum hnignandi gamla heimi og setja í staðinn hreinan, nýjan heim. (2. Pét. 3:13) Myrkur þessa heims deyfir hvorki né slekkur á loga hinnar sælu vonar okkar. Þess í stað skín von okkar skærar en nokkru sinni fyrr. Gleður það þig ekki að þjóna Jehóva sem ljósberi í þessum myrka heimi? — Fil. 2:15.
2 Sem einstaklingar verðum við að gæta stöðugt að hvernig við þjónum Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að Satan er mikill truflari. Þessa truflun má skilgreina sem það „að snúa til hliðar,“ „að draga eða beina (athygli manns) að ólíku viðfangsefni eða samtímis í mismunandi áttir“ og „að espa upp eða rugla með ósamhljóða tilfinningum eða tilefni.“ Síðan Satan var varpað hingað niður til jarðarinnar hefur honum tekist að ‚afvegaleiða‘ mannkynið. Hann beitir mörgum kænskubrögðum til að snúa athygli mannsins frá því sem er raunverulega mál málanna á okkar tímum. (Opinb. 12:9) Hversu margt fólk gerir sér grein fyrir að helgun nafns Guðs og réttlæting drottinsvalds hans fyrir tilstuðlan Guðsríkis hefur meiri þýðingu en nokkuð annað? Tiltölulega fáir, og það þrátt fyrir að vottar Jehóva hafi lagt sig af krafti fram við að boða Guðsríki síðastliðin hundrað ár. (1. Jóh. 5:19) Ef Satan getur truflað milljarða manna hér á jörðu er sú hætta alltaf fyrir hendi að hann geti truflað okkur eða gripið athygli okkar svo að við leggjum niður þjónustuna við Jehóva. Því miður hafa truflanir Satans ruglað suma bræður okkar. Þeir hafa leyft huga sínum að dragast í mismunandi áttir. Það eru tril truflanir af öllum gerðum nú á tímum. Athugum aðeins fáeinar þeirra.
3 Fjárhagsvandamál og ást á efnislegum hlutum: Í flestum löndum heims hafa menn áhyggjur af atvinnuleysi og háum framfærslukostnaði. Að vísu verðum við að sjá okkur og fjölskyldum okkar fyrir fæði, klæði og húsnæði. En ef við leyfum okkur að verða of áhyggjufull út af lífsnauðsynjum hertekur það hugsun okkar. Í stað þess að veita málefnum Guðsríkis stuðning okkar getur mikilvægasta atriðið í lífi okkar orðið það eitt að komast af líkamlega. Páll postuli gaf ráðleggingar hvað þetta snertir í Hebreabréfinu 13:5, 6. Jesús Kristur fullvissar okkur um að þeir sem leiti fyrst Guðsríkis þurfi ekki að vera áhyggjufullir. Jehóva sér fyrir því sem við þurfum í raun og veru. (Matt. 6:25-34) Brautryðjendur og aðrir þjónar í fullu starfi út um allan heim geta staðfest að þetta er satt.
4 Heimur Satans stuðlar að ást á efnislegum hlutum. Öflun fleiri eigna eða varðveisla þeirra er drifkrafturinn í lífi milljóna manna. Svipaðar truflanir voru til á dögum Jesú. Ungur maður og auðugur spurði Jesú hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf. Jesús svaraði: „Ef þú vilt vera fullkominn [eða, alger], skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“ (Matt. 19:16-21) Svo virðist sem hinar miklu efnislegu eigur þessa unga manns hafi truflað hann í því að þjóna Guði af allri sálu. Hjarta hans beindist að auðæfum hans. Jesús vissi að það yrði unga manninum til góðs að losa sig við þetta sem truflaði hann. Eignirnar komu í veg fyrir að hann væri alger í hollustu sinni við Guð. Hvað um þig? Ert þú farinn að verja fleiri stundum til veraldlegrar vinnu aðeins til að geta viðhaldið þeim lífsstíl sem þú ert orðinn vanur? Hefur það haft áhrif á þjónustu þína við Jehóva? Eru efnislegar eignir þínar að ýta hagsmunamálum Guðsríkis til hliðar? (Matt. 6:24) Getur þú einfaldað líf þitt til þess að gefa andlegum málum meiri tíma?
5 Hversdagsleg málefni daglegs lífs: Ef við erum ekki varkár getum við orðið svo niðursokkin í hversdagsleg málefni lífsins að við byrjum að vanrækja andlega iðju. Mundu eftir fólkinu á dögum Nóa. Það var á slíku kafi í félagslífinu, borða og drekka, giftast og koma börnunum sínum í hjónaband, að það gaf engan gaum að viðvörunarboðskap Nóa um yfirvofandi flóð. Áður en það rankaði við sér kom flóðið og hreif það allt burt. Truflanirnar þýddu tortímingu fyrir það. Jesús sagði: „Svo mun verða við komu Mannssonarins.“ (Matt. 24:37-39) Svo sannarlega er flest fólk nú á dögum allt of upptekið af sínu eigin lífi til að taka eftir þeim viðvörunarboðskap sem við flytjum því. Það sýnir andlegum málefnum skelfilegt skeytingarleysi.
6 Eru félagslegar athafnir farnar að taka það stórt pláss í lífi þínu að andleg málefni fái þar sífellt minni athygli? Eitt sinn var Jesú boðið að vera gestur á heimili Mörtu og Maríu. María var niðursokkin í að hlusta á það sem hann hafði að segja. En Marta hins vegar „lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu.“ Mörtu var of mikið í mun að vera góð húsfreyja. Hún gerði sér ekki grein fyrir nauðsyn þess að taka sér tíma til að hlusta á Jesú. Hann benti Mörtu vingjarnlega á að margbrotnar veitingar væru ekki nauðsynlegar; andlegum málum skyldi gefinn meiri gaumur. Þarft þú að taka þær ráðleggingar til þín? (Lúk. 10:38-42) Jesús varaði einnig við því að við yrðum að hafa gát á sjálfum okkur svo að við borðuðum ekki yfir okkur eða drykkjum of mikið og sljóvguðum með því skilningarvit okkar. Á þessum tvísýnu tímum í sögu mannkynsins verðum við að halda fullkomlega vöku okkar. — Lúk. 21:34-36.
7 Sókn í skemmtanir: Einhver mesta truflunin, sem djöfullinn notar til að draga athyglina frá því sem varðar Guðsríki, er eftirsókn í skemmtun. Milljónir manna í kristna heiminum hafa sett skemmtun í stað Guðs. Þeir kjósa heldur að skemmta sér við einhverja dægrastyttingu en að sýna orði Guðs verulegan áhuga. (2. Tím. 3:4) Að sjálfsögðu er heilnæm skemmtun og afþreying ekki röng í sjálfri sér. En ef óhóflegum tíma er varið í hverri viku í hluti eins og sjónvarpið, kvikmyndir, myndbönd, íþróttir, lestur veraldlegra rita eða tómstundastarf kann það að gefa sviksömu hjarta tækifæri til að þróast og draga okkur burt frá Jehóva. (Jer. 17:9; Hebr. 3:12) Hvernig getur það gerst? Á kristnum samkomum getur hugur þinn farið að reika. Þú kannt jafnvel að óska þess að samkomunni fari að ljúka svo að þú getir snúið þér aftur að því að skemmta þér. Brátt gætir þú staðið þig að því að leita að ástæðu til að vera heima frekar en að sækja samkomur eða fara út í boðunarstarfið. Núna er tíminn til að finna það út skýrt og skilmerkilega hvort þessi eftirsókn í skemmtun sé farin að trufla líf þitt. (Lúk. 8:14) Væri ekki sumum þeirra dýrmætu stunda, sem skemmtanirnar gleypa, betur varið til að efla sig andlega?
8 Tímafrek hliðarmálefni: Sumir hafa orðið gagnteknir af tilraunum til að leysa hin almennu vandamál í nútímaþjóðfélagi. Kristnir menn verða að forðast það að flækjast í endalausar þrætur heimsins um félagsleg ágreiningsefni eða misheppnað basl hans við að leiðrétta óréttlæti. (Jóh. 17:16) Allt er þetta hluti af ráðagerð Satans til að leiða athyglina frá ráðleggingum Biblíunnar og þeirri grundvallarstaðreynd að það er til aðeins ein varanleg lausn — Guðsríki. Ef við höfum mátt þola persónulegan skaða eða rangindi verðum við að vera á verði gegn því að verða hefnigjörn eða svo örvingluð tilfinningalega að við gleymum hver við erum — vottar Jehóva. Það er fyrst og fremst Jehóva sem gert hefur verið rangt til og það er nafn hans sem verður að helga. — Jes. 43:10-12; Matt. 6:9.
9 Þótt allir vilji halda tiltölulega góðri heilsu er hætta á að menn fái heilsubótarmál á heilann ef þeir gefa óhóflegan gaum að því sem í boði er af endalausum kenningum og læknisúrræðum. Þeir eru ófáir sem mæla stíft með alls konar útgáfum af mataræði, meðhöndlun og meðferðum vegna líkamlegra eða tilfinningalegra vandamála, og rekst þar margt hvert á annars horn. Það sem menn gera í heilsumálum er persónuleg ákvörðun svo lengi sem aðferðirnar brjóta ekki í bága við frumreglur Biblíunnar. Við skulum alltaf varðveita algert traust okkar á Guðsríki sem hina sönnu lækningu á öllum meinum mannkynsins. — Jes. 33:24; Opinb. 21:3, 4.
10 Vertu staðfastur, óbifanlegur: Eftir því sem endirinn færist nær eykur Satan viðleitni sína til að trufla þig í þjónustunni við Jehóva. „Standið gegn honum, stöðugir í trúnni.“ (1. Pét. 5:9) Hvernig? Þú verður að nærast á hugsunum Guðs. (Matt. 4:4) Láttu ekki truflanir heimsins ræna þig og fjölskyldu þína þeim tíma sem þið þurfið til að hugleiða orð Guðs og velta því í næði fyrir ykkur. Þegar fjölskyldan borðar saman skuluð þið skiptast á uppbyggjandi reynslufrásögnum og ræða saman um önnur andleg efni. Haltu þér við reglufasta áætlun hvað snertir einkanám og undirbúning fyrir samkomur.
11 Þegar áhyggjur virðast ætla að koma róti á huga þinn skaltu varpa byrði þinni á Jehóva í bæn. Vertu þess fullviss að hann beri umhyggju fyrir þér. (1. Pét. 5:7) Láttu frið Guðs varðveita hjarta þitt og hugsanir. (Fil. 4:6, 7) Láttu ekki truflanir gera andlega sjón þína óskýra. Hafðu Jehóva ávallt fyrir augum þér, eins og Jesús gerði. (Post. 2:25) Beindu sjón þinni öllum stundum beint fram á við að markmiði þínu, eins og Orðskviðirnir 4:25-27 hvetja okkur til: „Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér. Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir. Vík hvorki til hægri né vinstri.“
12 Þú skalt trúfastlega sækja allar samkomurnar og aga sjálfan þig til þess að þú takir eftir leiðbeiningum frá orði Guðs. (Hebr. 2:1; 10:24, 25) Og í stað þess að leita að skemmtunum, sem þessi hnignandi heimur býður upp á, skaltu setja þér það markmið að halda áfram ávaxtaríkri þjónustu. Það er það sem veitir varanlega gleði og fullnægju. (1. Þess. 2:19, 20) Að síðustu skaltu ekki láta nokkuð eða nokkurn draga athygli þína frá heilagri þjónustu þinni eða trufla hana. „Verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Kor. 15:58.