Kærleikur til Guðs hvati góðs siðgæðis
HEILBRIGÐ skynsemi segir okkur að forðast beri siðleysi og lausung. Prestur við einingakirkjuna í Kanada orðaði það þannig: „Það hefur hræðilegar afleiðingar þegar einstaklingar og þjóðfélag láta siðferðislög lönd og leið; styrjaldir, verðbólga, Watergate og stjórnleysi.“ Eins og bent var á í greininni á undan hafa helstu trúarbrögð heims ekki reynst hvati góðs siðgæðis. Ef við sem einstaklingar viljum lifa siðferðilega hreinu lífi verðum við að leita slíks hvata annars staðar og vera fús til að beygja okkur undir áhrif hans.
Þau áhrif, sem slíkt yfirvald getur haft á menn, eru auðsæ af frásögunni um hebreann Jósef sem var ráðsmaður í húsi embættismanns við egypsku hirðina. Þegar kona húsbónda hans reyndi að fá hann til að hafa kynmök við sig andmælti Jósef og sagði: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:7-9) Jósef virti Guð sem yfirvald sitt og þráði að þóknast honum; það gaf honum það siðferðisþrek sem þurfti til að standa gegn ásókn hennar.
Tvö hundruð árum síðar fékk Ísraelsþjóðin, sem var afkomandi Jakobs, föður Jósefs, boðorðin tíu sem hluta lögmálsins sem Móse miðlaði. Ef þeir óhlýðnuðust þessum lögum kölluðu þeir yfir sig vanþóknun Guðs en nutu blessunar hans er þeir hlýddu þeim. Þessi boðorð voru þjóðinni siðferðilegur vegvísir.
Boðorðin tíu — hvati góðs siðgæðis
Hve sterkur hvati góðs siðgæðis voru boðorðin tíu? Áhrifa þeirra gætir enn nú á 20. öldinni. Árið 1962 sagði þáverandi yfirlandstjóri Nýja-Sjálands: „Ég býst við að sumir haldi að boðorðin tíu séu úrelt. En það myndi hafa mikið að segja ef við öll fylgdum þeim samviskusamlega nú á dögum, því að hin venjulegu landslög yrðu þá óþörf.“
Í samtali við ungan höfðingja meðal Gyðinga benti Jesús Kristur þó á að fleira væri krafist en aðeins að halda boðorðin tíu. Ungi maðurinn hafði spurt: „Hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Þegar Jesús sagði að hann ætti að ‚halda boðorðin‘ og nefndi nokkur af þeim tíu svaraði höfðinginn: „Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?“ Jesús svaraði: „[Þú skalt] fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“ Frásagan heldur áfram: „Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.“ — Matteus 19:16-22.
Samanburður á þessari frásögu og annarri sem líkist henni í Lúkasi 10:25-28 hjálpar okkur að koma auga á hvað var að hjá þessum unga höfðingja. Við lesum: „Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista [Jesú] og mælti: ‚Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilít líf?‘“ Jesús hjálpaði honum að hugleiða málið og það olli því að maðurinn gat sjálfur svarað spurningu sinni. Hann sagði efnislega: ‚Elskaðu Jehóva Guð af öllu hjarta, sálu, mætti og huga og náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Þá sagði Jesús: „Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“
Kemur þú auga á hvað var að hjá unga höfðingjanum sem áður er getið? Ást hans á efnislegum eigum sínum skyggði á kærleika hans til Guðs og náungans. Þótt hann leitaðist við að halda boðorðin tíu átti hann á hættu að missa af eilífu lífi.
Hvað er fólgið í því að elska Guð?
Við lifum þá tíma er kærleikur til Guðs og náungans hefur vikið fyrir kærleika manna til sjálfra sín, efnislegra eigna og kynlífs. Jafnvel trúin á Guð sem skapara hefur í hugum margra vikið fyrir trúnni á hina ósönnuðu þróunarkenningu. Hver er orsök alls þessa?
Um aldaraðir hafa klerkar kristna heimsins notað hina óbiblíulegu kenningu um óttalegan vítiseld sem tæki til að drottna yfir siðferði manna. Alfræðibókin Encyclopedia International segir: „Óttinn við helvíti, sem var vafalaust sterkasti siðgæðishvati meðal almennings á miðöldum, gerði jafnvel konunga og keisara undirgefna kirkjunni, og var sennilega það eina sem fékk þá til að sporna gegn taumlausum fýsnum sínum.“ Kenningin um elda helvítis gaf þá mynd af Guði að hann væri kærleikslaus, miskunnarlaus og hefnigjarn. Jafnvel þótt þessi kenning hafi komið sumum til að hafa hemil á sér, gerði hún margan fráhverfan Guði, með þeim afleiðingum að þeir urðu auðveld bráð óbiblíulegum hugmyndum og kenningum svo sem þróunarkenningunni.
Biblían kennir aftur á móti hvergi að Guð kvelji sálir manna í helvíti. Jóhannes postuli segir okkur að ‚Guð sé kærleikur.‘ „Hann er trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar.“ Móse skrifaði: „[Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8; 1:9; 2. Mósebók 34:6) Hér eru nefndir aðeins fáeinir af eiginleikum Guðs. Þeir gera hann aðlaðandi. Þessir eiginleikar, einkum kærleikur hans, koma okkur til að langa til að elska hann. „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:19) Það er þessi kærleikur til Guðs sem er sterkasti hvati góðs siðgæðis — og hann getur haft eilíft líf í för með sér!
Ósvikinn kærleikur til Guðs er ekki aðeins óhlutlægur eiginleiki. Hann kemur mönnum til að bera hag annarra fyrir brjósti og sýna það í verki. Páll postuli taldi upp mörg dæmi um hvernig hægt sé að sýna þennan kærleika. Lítum á nokkur þeirra: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sé ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Þegar við látum þennan kærleika í ljós erum við að reyna að líkja eftir himneskum föður okkar. Jesús sagði: „Á þessum tveim boðorðum [um að elska Guð og náungann] hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 22:40) Með öðrum orðum, ef við sýnum þennan kærleika, þá hvorki stelum við frá náunga okkar, myrðum hann né fremjum hjúskaparbrot með konunni hans. Jóhannes postuli tók í sama streng og sagði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Kærleikur til Guðs er hvati til góðs
Veittu athygli þeim áhrifum sem þessi kærleikur til Guðs hafði á frumkristna menn. Á annarri öld skoraði Tertúllíanus á andstæðinga sína að benda á aðeins einn kristinn mann í hópi afbrotamanna þjóðarinnar. Þegar þeir gátu það ekki bætti hann við: „Við erum þá þeir einu sem eru án afbrota.“ Bókin The Old Roman World tekur undir þetta sjónarmið og segir: „Við höfum sönnun fyrir ámælislausu líferni þeirra, óaðfinnanlegu siðferði.“ Tímaritið Christianity Today hefur eftir kirkjusagnfræðingnum Roland Bainton: „Allt frá lokum Nýjatestamentistímans fram til áratugarins 170-180 finnum við ekki nokkurt minnsta merki þess að kristnir menn hafi gegnt herþjónustu.“ Kærleikur til Guðs kom þeim til að hlýða honum með því að lifa siðprúðu lífi. Þér kann að vera spurn hvort einhvers staðar sjáist merki um slíkan hvata góðs siðgæðis nú á dögum.
Já, hans sjást sannarlega merki! Dálkahöfundurinn Mike McManus skrifaði í dagblaðið Herald & Review að hann hefði aldrei heyrt prédikun sem mælti gegn kynlífi fyrir hjónaband. Mánuði síðar sagði hann að hann hefði, vegna greinar sinnar, meðal annars fengið bréf frá 14 ára votti Jehóva sem sagði: „Sú tilhugsun að smitast af einhverjum þessara sjúkdóma ætti að nægja til að fæla flesta frá [kynlífi fyrir hjónaband.] En ástæðan fyrir því að vottarnir forðast það er sú að Jehóva býður okkur að flýja saurlifnaðinn.“ (Leturbreyting okkar.) Í athugasemd um bréfið spurði McManus: „Hve margir 14 ára unglingar í þínum söfnuði gætu vitnað svona skýrt í heilagan Pál (1. Kor. 6:18)?“
Vottar Jehóva lifa eftir þessari sömu meginreglu um að hlýða boðum Guðs, sem unga stúlkan gat um, á öðrum sviðum lífsins. Nokkur af boðum Guðs, sem er að finna í Biblíunni, eru efnislega á þessa leið: ‚Verið heiðarlegir í öllum hlutum,‘ ‚Forðist skurðgoð,‘ ‚Haldið ykkur frá blóði og saurlifnaði,‘ ‚Verið sannsögulir,‘ ‚Alið börnin upp í anda og umvöndun Guðs.‘ (Hebreabréfið 13:18; 1. Jóhannesarbréf 5:21; Postulasagan 15:29; Efesusbréfið 4:25; 6:4) Hefur þú veitt því athygli að vottar Jehóva í þínu byggðarlagi eða á þínum vinnustað reyna að hlýða þessum boðorðum? Hefur þú nokkurn tíma velt fyrir þér hvers vegna þeir gera það, hvers vegna þeir vilja ekki láta gefa sér blóð, hvers vegna þeir neita að gegna herþjónustu, hvers vegna þeir ganga í hús og heimsækja fólk, í stuttu máli hvers vegna þeir eru frábrugðnir fjöldanum? Það er kærleikur þeirra til Guðs sem að baki býr.
Kærleikurinn bregst aldrei
Vottar Jehóva vilja þóknast Guði og taka til sín þetta ráð: „Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Þegar þeir læra hver sé „vilji Guðs“ með þá vilja þeir fara eftir honum. Það er kærleikur þeirra til Guðs sem er hvötin að baki því. Telur þú það óraunhæf lífsviðhorf nú á tímum? Hugleiddu eitt andartak eftirfarandi frásögur.
Árið 1963 tók José frá São Paulo í Brasilíu upp sambúð við Eugênia sem var gift fyrir. Tveim árum síðar fóru þau að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Af námi sínu lærðu þau að Guð krefst þess að „hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum.“ (Hebreabréfið 13:4) Þau gerðu sér ljóst að þau ættu að ganga í hjónaband, en í Brasilíu voru þá engin lög sem heimiluðu hjónaskilnað þannig að Eugênia og José gætu gengið í löglegt hjónaband. En árið 1977 voru sett lög sem heimiluðu hjónaskilnað, og Eugênia sótti þá um skilnað. Árið 1980 gátu þau gengið í hjónaband í samræmi við kröfur Guðs. Kærleikur þeirra til Guðs hlaut sína umbun.
Inire hafði prófað alls kyns fíkniefni. Hann bjó með Ann, vinkonu sinni, í New York. Í því skyni að afla fjár fékk hann hana til að senda þekktu „karlmannatímariti“ myndir af sér. Henni var boðin stór fjárhæð fyrir að láta taka af sér nektarmyndir. Meðan þessu fór fram byrjaði Inire að nema Biblíuna með vottum Jehóva, og síðar varð Ann einnig þátttakandi í náminu. Inire hætti að neyta fíkniefna. Að þrem vikum liðnum ákváðu þau að eigin frumkvæði að ganga í hjónaband. Þau lærðu líka af Biblíunni að kristnum mönnum beri að vera sómasamlega til fara, og Ann ákvað þá að hún gæti ekki samvisku sinnar vegna látið taka nektarmyndir af sér, óháð því hve miklir fjármunir væru í boði. (1. Tímóteusarbréf 2:9) Hvað heldur þú að hafi fengið þau til að gera slíkar breytingar? Ann segir að þegar hún gerði sér ljóst að það að vera vottur Jehóva væri ekki bara að ganga í eitthvert trúfélag heldur að helga líf sitt Guði, þá hefði hún skilið að hún yrði að vera fljót að breyta sér. Kærleikur til Guðs er sterkur hvati til góðs.
Sumir halda kannski að þetta séu einstök eða óvenjuleg tilvik. En svo er ekki. Þess eru ótal dæmi að áþekkar breytingar hafi átt sér stað þar sem vottar Jehóva eru starfandi. Væri ekki ráð fyrir þig að kynna þér málið nánar? Sannreyndu að kærleikur til Guðs, eins og hann birtist í gegnum sanna guðsdýrkun, sé enn hinn eini sanni hvati góðs siðgæðis.
[Innskot á blaðsíðu 6]
Bókin „The Old Roman World“ segir um frumkristna menn: „Við höfum sönnun fyrir ámælislausu líferni þeirra, óaðfinnanlegu siðferði.“ Hver var hvati þessa ‚óaðfinnanlega siðferðis‘?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Kærleikur til Guðs getur hjálpað þér að afþakka þegar þín er freistað til rangrar breytni.