Kafli 98
Lærisveinarnir þrátta er dauði Jesú nálgast
JESÚS og lærisveinar hans eru staddir nálægt Jórdan þar sem þeir fara yfir frá Pereu til Júdeu. Nú er aðeins vika til páska, þannig að margir fleiri eru í för með þeim.
Jesús gengur á undan lærisveinunum sem eru forviða yfir dirfsku hans og einbeitni. Þú manst að fáeinum vikum áður, þegar Lasarus dó og Jesús var í þann mun að fara frá Pereu til Júdeu, hvatti Tómas hina: „Vér skulum fara líka til að deyja með honum.“ Þú manst líka að æðstaráðið lagði á ráðin um að drepa Jesú eftir að hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Það er engin furða að lærisveinarnir skuli vera hræddir að koma aftur til Júdeu.
Jesús vill búa postulana tólf undir það sem framundan er og fer með þá afsíðis og segir: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa.“
Þetta er í þriðja sinn á fáeinum mánuðum sem Jesús segir lærisveinunum frá dauða sínum og upprisu, en þótt þeir hlýði á hann skilja þeir ekki hvað hann er að segja. Kannski kemur það til af því að þeir trúa að Ísraelsríki verði endurreist á jörð og hlakka til vegsemdar og virðingar í jarðnesku ríki með Kristi.
Salóme, móðir postulanna Jakobs og Jóhannesar, er meðal ferðafólksins sem er á leið til páskahátíðarinnar. Jesús kallaði þá bræður ‚Þrumusyni,‘ eflaust sökum skaphita þeirra. Tvímenningarnir hafa um tíma alið þá von í brjósti að hljóta háa stöðu í ríki Krists, og þeir hafa sagt móður sinni frá. Hún kemur nú fyrir þeirra hönd að máli við Jesú, lýtur honum og segist vilja biðja hann bónar.
„Hvað viltu?“ spyr Jesús.
Hún svarar: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“
Jesús veit hvaðan beiðnin er ættuð og segir við Jakob og Jóhannes: „Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“
„Það getum við,“ svara þeir. Enda þótt Jesús sé nýbúinn að segja þeim að hans bíði hræðilegar ofsóknir og síðan aftaka virðast þeir ekki skilja að ‚kaleikurinn,‘ sem hann á að drekka, merkir það.
En Jesús segir þeim: „Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum.“
Hinir postularnir tíu komast að raun um hvað Jakob og Jóhannes hafa farið fram á og reiðast. Hugsanlegt er að þeir bræður hafi látið mikið að sér kveða í fyrri deilu postulanna um það hver þeirra væri mestur. Beiðni þeirra nú sýnir að þeir hafa ekki tekið til sín ráðleggingar Jesú í málinu. Því miður eru þeir enn áfjáðir í virðingarstöðu.
Jesús kallar því postulana tólf saman til að setja niður þessa síðustu deilu og óvildina sem hún hefur skapað. Hann leiðbeinir þeim hlýlega og segir: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.“
Jesús hefur gefið fordæmi sem þeir ættu að líkja eftir og segir: „Eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ Jesús hefur ekki aðeins þjónað öðrum heldur á hann eftir að deyja fyrir mannkynið! Lærisveinarnir þurfa að hafa sama hugarfar og hann, þrá að þjóna öðrum í stað þess að láta þjóna sér, og vera minnstir í stað þess að sækjast eftir áberandi stöðu. Matteus 20:17-28; Markús 3:17; 9:33-37; 10:32-45, vers 32 samkvæmt Biblíunni 1912; Lúkas 18:31-34; Jóhannes 11:16.
▪ Af hverju eru lærisveinarnir hræddir?
▪ Hvernig býr Jesús lærisveinana undir það sem framundan er?
▪ Hvaða bónar er Jesús beðinn og hvaða áhrif hefur það á hina postulana?
▪ Hvernig leiðbeinir Jesús postulunum?