Spurningar frá lesendum
Jesús sagði saddúkeunum að þeir sem rísi upp frá dauðum ,kvænist hvorki né giftist‘. (Lúk. 20:34-36) Var hann að tala um þá sem fá jarðneska upprisu?
Þetta er mikilvæg spurning, sérstaklega fyrir þá sem hafa misst maka sinn. Þeir þrá kannski að halda hjónabandinu áfram í nýja heiminum þegar makinn rís upp frá dauðum. Ekkill nokkur sagði: „Við hjónin völdum það ekki sjálf að binda enda á hjónabandið. Okkur langaði til að halda áfram að þjóna Jehóva saman sem hjón að eilífu. Það hefur ekkert breyst af minni hálfu.“ Höfum við ástæðu til að ætla að þeir sem rísa upp geti gifst? Við getum ekki vitað það fyrir víst.
Árum saman hefur komið fram í ritum okkar að það sem Jesús sagði um upprisuna og hjónabönd ætti sennilega við þá sem hljóta jarðneska upprisu í nýja heiminum og að þeir muni líklega ekki giftast.a (Matt. 22:29, 30; Mark. 12:24, 25; Lúk. 20:34-36) En getur verið að Jesús hafi verið að tala um himneska upprisu? Við getum ekki slegið því föstu en skoðum svar Jesú aðeins betur.
Við hverja var Jesús að tala? (Lestu Lúkas 20:27-33.) Hann var að tala við saddúkea en þeir trúðu ekki á upprisu og reyndu að veiða Jesú í gildru með því að spyrja hann spurningar um upprisuna og mágskylduhjónabönd.b Svar Jesú var: „Börn þessarar aldar kvænast og giftast en þau sem þykja þess verð að rísa upp frá dauðum og lifa í komandi veröld kvænast hvorki né giftast. Þau geta ekki heldur dáið framar, þau eru englum jöfn, þau eru risin frá dauðum og eru börn Guðs.“ – Lúk. 20:34-36.
Hvers vegna hefur staðið í ritunum okkar að Jesús hafi sennilega verið að tala um jarðneska upprisu? Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Önnur ástæðan er sú að saddúkearnir hafi líklega verið að hugsa um jarðneska upprisu þegar þeir spurðu Jesú og hann svarað þeim í samræmi við það. Hin ástæðan er að Jesús lauk svari sínu með því að tala um trúföstu ættfeðurna Abraham, Ísak og Jakob sem fá upprisu hér á jörð. – Lúk. 20:37, 38.
Það er þó hugsanlegt að Jesús hafi verið að tala um himneska upprisu. Hvað höfum við fyrir okkur í því? Skoðum tvennt sem Jesús nefndi í svari sínu.
„Þau sem þykja þess verð að rísa upp frá dauðum.“ Guð metur trúfasta andasmurða menn og konur „makleg Guðs ríkis“. (2. Þess. 1:5, 11) Á grundvelli lausnarfórnarinnar lítur hann svo á að þau séu réttlát. Þess vegna deyja þau ekki sem syndarar. (Rómv. 5:1, 18; 8:1) Hinir andasmurðu eru kallaðir „sælir og heilagir“ og taldir verðugir að fá himneska upprisu. (Opinb. 20:5, 6) Aftur á móti eru „ranglátir“ á meðal þeirra sem verða reistir til lífs á jörð. (Post. 24:15) Er hægt að segja að þeir séu þess verðugir að fá upprisu?
„Þau geta ekki heldur dáið framar.“ Jesús sagði ekki að þau myndu ekki deyja framar. Hann sagði að þau gætu ekki dáið framar. Aðrar þýðingar orða versið þannig: „Dauðinn hefur ekkert vald yfir þeim“ og „þau eru ekki undirorpin dauðanum“. Þeir sem halda ráðvendni sinni og verða reistir upp til himna fá ódauðleika – óslökkvandi líf. (1. Kor. 15:53, 54) Dauðinn hefur ekkert vald yfir þeim sem fá himneska upprisu.c
Hvaða ályktun getum við þá dregið af þessu? Það er mögulegt að Jesús hafi verið að tala um himneska upprisu. Ef sú er raunin segir það okkur ýmislegt um þá sem fá himneska upprisu. Þeir giftast ekki, þeir geta ekki dáið og á einhvern hátt eru þeir líkir englunum á himnum. En ef Jesús var að tala um himneska upprisu vakna aðrar spurningar.
Í fyrsta lagi vaknar sú spurning hvers vegna Jesús myndi tala um himneska upprisu þegar saddúkearnir voru sennilega að spyrja hann út í jarðneska upprisu. Jesús gaf andstæðingum sínum ekki alltaf svar við þeirri spurningu sem þeir báru upp. Hann svaraði til dæmis Gyðingum, sem kröfðust tákns frá honum, þannig: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“ Hann vissi eflaust að þeir voru að hugsa um musterið í Jerúsalem. „En Jesús var að tala um musteri líkama síns.“ (Jóh. 2:18-21) Kannski sá Jesús enga þörf á að svara saddúkeunum sem voru ekki einlægir og trúðu hvorki á upprisu né engla. (Orðskv. 23:9; Matt. 7:6; Post. 23:8) Hann vildi kannski frekar opinbera lærisveinum sínum sannindi um himnesku upprisuna. Þeir voru einlægir og myndu seinna öðlast von um upprisu til himna.
Í öðru lagi gætum við spurt okkur hvers vegna Jesús lauk samtalinu á því að nefna Abraham, Ísak og Jakob sem fá upprisu hér á jörð. (Lestu Matteus 22:31, 32.) Taktu eftir að Jesús kynnir þessa ættfeður með orðunum: „En um upprisu dauðra ...“ Með þessum orðum gæti Jesús hafa verið að skipta um umræðuefni og byrja að tala um jarðnesku upprisuna. Jesús vissi að saddúkearnir tóku Mósebækurnar gildar og benti þeim á hvað Jehóva sagði við Móse við brennandi runnann. Hann vildi færa sönnur á að upprisan – jarðneska upprisan – væri hluti af fyrirætlun Jehóva. – 2. Mós. 3:1-6.
Í þriðja lagi getum við spurt: Ef Jesús var að tala um himneska upprisu, þýðir það þá að þeir sem fá jarðneska upprisu geti gifst? Orð Guðs svarar ekki beint þeirri spurningu. Ef Jesús var að tala um himneska upprisu varpa orð hans engu ljósi á hvort þeir sem fá upprisu á jörð geti gifst í nýja heiminum.
Við vitum þó að orð Guðs segir skýrt að dauðinn bindur enda á hjónabandið. Fólki þarf ekki að líða illa yfir því að gifta sig aftur ef það hefur misst maka sinn. Það er persónuleg ákvörðun hvers og eins og við ættum ekki að gagnrýna neinn fyrir að vilja njóta þess félagsskapar sem maki veitir. – Rómv. 7:2, 3; 1. Kor. 7:39.
Það er skiljanlegt að við höfum margar spurningar um það hvernig lífið verður í nýja heiminum. En við verðum að bíða og sjá hvað verður í stað þess að velta því of mikið fyrir okkur. Eitt er samt víst: Jehóva blessar þá sem hlýða honum svo að þeir eiga eftir að hafa allt sem þeir þurfa til að njóta fullkominnar hamingju. – Sálm. 145:16.
a Sjá Varðturninn á ensku 1. júní 1987 bls. 30-31.
b Á biblíutímanum var hefð fyrir mágskylduhjónaböndum. Það var ætlast til þess að karlmaður giftist ekkju látins bróður síns, sem dó án erfingja, til að viðhalda ættlegg hans. – 1. Mós. 38:8; 5. Mós. 25:5, 6.
c Þeir sem fá jarðneska upprisu eiga von á eilífu lífi en ekki ódauðleika. Hægt er að fá að vita meira um muninn á ódauðleika og eilífu lífi í Varðturninum á ensku 1. apríl 1984 bls. 30-31.