Sönn hamingja í þjónustu Jehóva
„Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á [Jehóva], Guð sinn.“ — SÁLMUR 146:5.
1, 2. Hvað hefur verið sagt um skilgreiningu hugtaksins hamingja og hvað merkir hamingja fyrir marga nú á tímum?
HVAÐ er hamingja? Um aldaraðir hafa orðabókahöfundar, heimspekingar og guðfræðingar reynt að skilgreina það, en þeim hefur ekki tekist að koma fram með skilgreiningu sem menn hafa getað verið almennt sammála um. Encyclopædia Britannica viðurkennir: „‚Hamingja‘ er eitt vandskýrðasta hugtak sem til er.“ Hamingja hefur greinilega ólíka merkingu fyrir ólíka einstaklinga og ræðst af lífsviðhorfum þeirra.
2 Fyrir margan manninn er hamingja nátengd góðri heilsu, efnislegum eigum og ánægjulegum félagsskap. Þó er til fólk sem hefur allt þetta en er óhamingjusamt. Í augum karla og kvenna, sem eru vígð Jehóva Guði, er hamingjuhugtak Biblíunnar gerólíkt hinu almenna viðhorfi.
Ólík afstaða til hamingju
3, 4. (a) Hverja lýsti Jesús hamingjusama? (b) Hvað má nefna í sambandi við þau atriði sem Jesús sagði stuðla að hamingju?
3 Í fjallræðu sinni sagði Jesús Kristur ekki að hamingja réðist af góðri heilsu, efnislegum eignum og því um líku. Hann lýsti raunverulega hamingjusama þá sem ‚skynjuðu andlega þörf sína‘ og þá sem ‚hungraði og þyrsti eftir réttlæti.‘ Tengd þessum tveim forsendum sannrar hamingju er að því er virðist þverstæðukennd staðhæfing Jesú: „Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.“ (Matteus 5:3-6) Auðvitað var Jesús ekki að segja að menn yrðu sjálfkrafa hamingjusamir við það að missa ástvin, heldur var hann að tala um þá sem harma syndugt ástand sitt og afleiðingar þess.
4 Páll postuli talaði um að hin mennska sköpun stynji undan syndinni í þeirri von að „verða leyst úr ánauð forgengileikans.“ (Rómverjabréfið 8:21, 22) Menn sem þiggja friðþægingarráðstöfun Jehóva byggða á lausnarfórn Krists og gera vilja Guðs hljóta sannarlega hughreystingu og hamingju. (Rómverjabréfið 4:6-8) Í fjallræðu sinni lýsti Jesús líka hamingjusama þá sem eru „hógværir,“ „miskunnsamir,“ „hjartahreinir“ og „friðflytjendur.“ Hann fullvissaði áheyrendur sína um að jafnvel þótt þessir hógværu menn yrðu ofsóttir myndu þeir ekki glata hamingju sinni. (Matteus 5:5-11) Athyglisvert er að ríkir og fátækir standa jafnfætis gagnvart hamingju sem byggist á þessum forsendum.
Grundvöllur sannrar hamingju
5. Hver er grundvöllur hamingju vígðra þjóna Guðs?
5 Efnislegur auður er ekki uppspretta sannrar hamingju. Hinn vitri konungur Salómon sagði: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ (Orðskviðirnir 10:22, NW) Fyrir sköpunarverur, sem viðurkenna drottinvald Jehóva, er hamingja óaðskiljanleg frá blessun Guðs. Vígður einstaklingur, sem hefur og finnur fyrir blessun Jehóva yfir sér, er í sannleika hamingjusamur. Í biblíulegu samhengi felur hamingja í sér ánægju, lífsfyllingu og fullnægjukennd í þjónustu Jehóva.
6. Hvers er krafist af þjónum Jehóva til að þeir séu raunverulega hamingjusamir?
6 Sönn hamingja er komin undir réttu sambandi við Jehóva. Hún er byggð á kærleika Guðs og trúfesti við hann. Vígðir þjónar Jehóva taka af öllu hjarta undir orð Páls: „Enginn af okkur lifir reyndar eingöngu fyrir sjálfan sig . . . Við lifum fyrir Jehóva . . . Við tilheyrum Jehóva.“ (Rómverjabréfið 14:7, 8, NW) Þess vegna er ekki hægt að njóta sannrar hamingju án þess að hlýða Jehóva og beygja sig glaður undir vilja hans. Jesús sagði: „Sælir eru þeir, sem heyra orð Guðs og varðveita það.“ — Lúkas 11:28.
Breytilegar forsendur hamingjunnar
7, 8. (a) Hvernig má flokka niður það sem stuðlar að hamingju? (b) Hvað er hægt að segja um hjónaband og barneignir?
7 Kalla mætti þær forsendur hamingjunnar, sem nefndar hafa verið hér á undan, „undirstöðuatriði“ eða „fastar forsendur“ vegna þess að þær gilda um vígða þjóna Jehóva á öllum tímum. Auk þeirra bætast svo við þær sem kalla mætti breytilegar forsendur, atriði sem geta haft hamingju í för með sér á einum tíma en lítil eða engin áhrif á öðrum tímum. Á ættfeðratímanum og fyrir daga kristninnar voru hjónaband og barneignir álitnar ómissandi forsendur hamingju. Það endurspeglast í hinum átakanlegu orðum Rakelar við Jakob: „Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.“ (1. Mósebók 30:1) Þetta viðhorf til barneigna þjónaði tilgangi Jehóva á þeim tíma. — 1. Mósebók 13:14-16; 22:17.
8 Hjónaband og barneignir voru álitin blessun frá Guði meðal þjóna Jehóva forðum daga. Eigi að síður fylgdu ýmsir erfiðleikar þessum aðstæðum og öðrum á hörmungatímum í sögu þeirra. (Berðu saman Sálm 127 og 128 við Jeremía 6:12; 11:22; Harmljóðin 2:19; 4:4, 5.) Ljóst er því að hjónaband og barneingir eru ekki varanlegar forsendur hamingjunnar.
Hamingja án hjónbands til forna
9. Hvers vegna hlaut dóttir Jefta hrós á hverju ári?
9 Margir af þjónum Guðs hafa fundið sanna hamingju án hjónabands. Vegna virðingar fyrir heiti föður síns var dóttir Jefta fús til að vera einhleyp. Um tíma grét hún ásamt vinkonum sínum yfir meydómi sínum. Hins vegar hafði hún mikla gleði af því að þjóna í fullu starfi við hús Jehóva, ef til vill meðal „kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.“ (2. Mósebók 38:8) Fyrir það hlaut hún hrós á hverju ári. — Dómarabókin 11:37-40.
10. Hvers krafðist Jehóva af Jeremía og virðist það hafa haft óhamingju í för með sér fyrir hann?
10 Í ljósi þess hve mikla umbrotatíma spámaðurinn Jeremía lifði krafðist Jehóva þess af honum að hann héldi sér frá hjónabandi og barneignum. (Jeremía 16:1-4) En Jeremía kynntist af eigin raun sannleiksgildi orða Jehóva: „Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á [Jehóva] og lætur [Jehóva] vera athvarf sitt.“ (Jeremía 17:7) Út í gegnum 40 ára spámannsþjónustu sína þjónaði Jeremía Jehóva trúfastur sem einhleypur maður. Að svo miklu leyti sem okkur er kunnugt kvæntist hann aldrei né eignaðist börn. En hver getur efast um að Jeremía hafi verið hamingjusamur líkt og hinar trúföstu leifar Gyðinganna sem ‚geisluðu af gleði yfir gæsku Jehóva‘? — Jeremía 31:12, NW.
11. Nefndu nokkur biblíuleg dæmi um að trúfastir þjónar Jehóva hafi verið hamingjusamir þótt hafi ekki átt maka.
11 Margir fleiri hafa þjónað Jehóva glaðir án þess að eiga sér maka. Sumir þeirra hafa aldrei verið í hjónabandi en aðrir eru ekkjur eða ekklar. Meðal þeirra voru spákonan Anna, sennilega Dorkas eða Tabíta, Páll postuli og albesta fyrirmyndin — Jesús Kristur.
Einhleypir en hamingjusamir nútímamenn
12. Hvað hafa sumir hamingjusamir, vígðir þjónar Jehóva nú á tímum getað gert og hvers vegna?
12 Nú á dögum þjóna þúsundir vígðra votta Jehóva af báðum kynjum honum trúfastir án maka. Sumir þeirra hafa getað þegið boð Jesú: „Sá höndli [það að vera einhleypur], sem höndlað fær.“ Þeir hafa gert það „vegna himnaríkis“ (Matteus 19:11, 12) Það merkir að þeir hafa notað vel frelsið sem Guð hefur gefið þeim með því að helga hagsmunum Guðsríkis meiri tíma og krafta. Margir þeirra þjóna sem brautryðjendur, trúboðar eða meðlimir Betelfjölskyldunnar á aðalstöðvum Varðturnsfélagsins eða við eitthvert af útibúum Félagsins.
13. Hvaða dæmi sýna að kristinn maður getur verið einhleypur og hamingjusamur?
13 Ein ástkær, öldruð systir skrifaði ævisögu sína undir titlinum „Einhleyp og hamingjusöm sem brautryðjandi.“ (Varðturninn, ensk útgáfa, 1. maí 1985, bls. 23-6) Önnur einhleyp systir, sem eyddi yfir 50 árum í þjónustu á Betel, sagði: „Ég er fullkomlega ánægð með líf mitt og starf. Ég er önnum kafnari en nokkru sinni fyrr í starfi sem mér þykir afar vænt um. Ég sé ekki eftir neinu. Ég tæki sömu ákvörðun aftur.“ — Varðturninn, ensk útgáfa, 15. júní 1982, bls. 15.
14, 15. (a) Hvað er nauðsynlegt til að geta verið einhleypur, að sögn Páls postula? (b) Hvers vegna segir Páll að einhleypingar geri „betur“ og séu „sælli“ en aðrir?
14 Taktu eftir orðinu „ákvörðun.“ Páll skrifaði: „Ef einhver er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur tekið þá ákvörðun í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn, hann gerir vel. Þar af leiðandi gerir sá líka vel sem gefur sveindóm sinn í hjónaband, en sá sem ekki gefur hann í hjónaband gerir þó betur.“ (1. Korintubréf 7:37, 38, NW) Hvers vegna „betur“? Páll skýrir það: „Ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. . . . Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er . . . Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, . . . til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.“ — 1. Korintubréf 7:32-35.
15 Er ‚óbifanleg fastheldni við Drottin‘ í þeim tilgangi að ‚þóknast Drottni‘ tengd hamingju? Greinilega taldi Páll svo vera. Hann sagði um kristna ekkju: „Henni [er] frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni. Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.“ — 1. Korintubréf 7:39, 40.
Kostir einhleypis
16. Nefndu nokkra kosti þess fyrir votta Jehóva að vera einhleypir.
16 Hvort heldur kristinn maður er ógiftur að eigin ákvörðun eða vegna aðstæðna hefur það marga kosti í för með sér að vera ógiftur. Einhleypt fólk hefur yfirleitt góðan tíma til náms og hugleiðingar. Ef það notfærir sér aðstæður sínar eflir það andlegt hugarfar sitt. Margir sem eiga ekki maka til að deila með vandamálum sínum læra að reiða sig meira á Jehóva og leita handleiðslu hans í öllu. (Sálmur 37:5) Það leiðir af sér nánara samband við Jehóva.
17, 18. (a) Hvaða aukin þjónustutækifæri standa opin ógiftum þjónum Jehóva? (b) Hvernig hafa sumir ógiftir þjónar Jehóva lýst hamingju sinni?
17 Kristnir einhleypingar hafa tækifæri til aukinnar þjónustu við Jehóva. Hin sérstaka þjálfun, sem Félagið býður hæfum bræðrum í Þjónustuþjálfunarskólanum, er takmörkuð við einhleypa bræður eða ekkla. Einhleypar systur eru líka frjálsari til að sækjast eftir sérréttindum í þjónustu Guðs. Aldraða systirin, sem sagði ævisögu sína og minnst var á áðan, bauð sig fram til að þjóna í Afríkulandi á þeim tíma er hún var, svo notuð séu hennar eigin orð, „eilítið veikburða kona komin yfir fimmtugt.“ Og hún dvaldist þar, jafnvel meðan starfið var bannað og öllum trúboðunum var vísað úr landi. Hún þjónar þar enn sem brautryðjandi þótt hún sé nú komin yfir áttrætt. Er hún hamingjusöm? Í ævisögu sinni sagði hún: „Ég gat notað það frjálsræði sem fylgir einhleypi til að vera upptekin í þjónustunni og það hefur veitt mér mikla hamingju. . . . Gegnum árin hefur samband mitt við Jehóva styrkst. Sem einhleyp kona í Afríkulandi hef ég séð hann sem verndara minn.“
18 Einnig eru eftirtektarverð orð bróður sem þjónaði um áratuga skeið á aðalstöðvum Varðturnsfélagsins. Hann var hamingjusamur þótt hann kvæntist aldrei og þótt hann hefði himneska von og alls engar horfur á hjónabandi. Hann skrifaði þegar hann var 79 ára: „Ég bið okkar kæra himneska föður daglega um hjálp og visku til að halda mér hraustum og sterkum jafnt andlega sem líkamlega, þannig að ég geti haldið áfram að gera heilagan vilja hans. Síðastliðin 49 ár í þjónustu Jehóva hef ég svo sannarlega notið hamingju, umbunar og blessunar. Og með óverðskuldaðri náð Jehóva hlakka ég til að þjóna, honum til heiðurs og dýrðar og til blessunar þjónum hans. . . . Gleði Jehóva hjálpar mér að berjast trúarinnar góðu baráttu og hlakka til þess tíma er óvinir Jehóva verða horfnir og öll jörðin er full af hans dýrð.“ — 4. Mósebók 14:21; Nehemía 8:10; Varðturninn, ensk útgáfa, 15. nóvember 1968, bls. 699-702.
Undir hverju er sönn hamingja komin?
19. Undir hverju verður hamingja okkar alltaf komin?
19 Dýrmætt samband okkar við Jehóva, velþóknun hans og blessun — allt eru þetta atriði sem munu veita okkur sanna hamingju um eilífð. Með því að hafa þetta rétta viðhorf til þess hvað veiti sanna hamingju gera jafnvel giftir þjónar Jehóva sér grein fyrir að hjónaband þeirra er ekki það þýðingarmesta í lífinu. Þeir hlýða ráðum Páls postula: „En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki.“ (1. Korintubréf 7:29) Þetta merkir ekki að þeir vanræki konur sínar. Þroskaðir kristnir eiginmenn láta þjónustu Jehóva ganga fyrir og það gera einnig guðræknar, elskuríkar og hjálpsamar eiginkonur þeirra sem eru, sumar hverjar, jafnvel félagar manna sinna í fullu starfi. — Orðskviðirnir 31:10-12, 28; Matteus 6:33.
20. Hvaða rétt viðhorf hafa margir kristnir menn til hjónabandssérréttinda sinna?
20 Kvæntir bræður sem eru farandhirðar, sjálfboðaliðar á Betel, safnaðaröldungar — já, allir kvæntir kristnir menn sem láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir — ‚nota ekki heiminn til fulls‘; þeir vinna að því að láta sérréttindi sín í hjónabandinu samrýmast vígslu þeirra sem þjónar Jehóva. (1. Korintubréf 7:31) Eigi að síður eru þeir hamingjusamir. Hvers vegna? Vegna þess að meginástæðan fyrir hamingju þeirra er ekki hjónabandið heldur þjónusta þeirra við Jehóva. Og margir trúsfastir eiginmenn og eiginkonur — já, og börn þeirra — eru ánægð að hafa það þannig.
21, 22. (a) Hvað ætti, út frá Jeremía 9:23, 24, að fylla okkur hamingju? (b) Hvaða atriði, sem stuðla að hamingju, eru nefnd í Orðskviðunum 3:13-18?
21 Spámaðurinn Jeremía skrifaði: „Svo segir [Jehóva]: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, [Jehóva], sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun — segir [Jehóva].“ — Jeremía 9:23, 24.
22 Hvort sem við erum einhleyp eða í hjónabandi ætti mesta hamingja okkar að koma til af þekkingu okkar á Jehóva og þeirri sannfæringu að við njótum blessunar hans af því að við gerum vilja hans. Við erum líka hamingjusöm yfir því að við skulum hafa innsýn í hvað sé réttur mælikvarði á sönn verðmæti, það sem Jehóva hefur yndi af. Salómon konungur leit ekki á hjónabandið sem eina lykil hamingjunnar, þótt hann ætti margar konur. Hann sagði: „Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull. Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar. Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni. Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Orðskviðirnir 3:13-18.
23, 24. Hvers vegna megum við vera viss um að allir trúfastir þjónar Jehóva verði hamingjusamir í nýja heiminum?
23 Megi öll okkar, sem eru í hjónabandi, njóta eilífrar gleði af því að gera vilja Guðs. Og megi ástkærir bræður okkar og systur, sem eru einhleyp að eigin ákvörðun eða aðstæðna vegna, halda út gegnum allar sínar prófraunir og njóta hamingju og lífsfyllingar í því að þjóna Jehóva núna og að eilífu. (Lúkas 18:29, 30; 2. Pétursbréf 3:11-13) Í hinum komandi nýja heimi Guðs verður lokið upp „bókum.“ (Opinberunarbókin 20:12) Þær munu innihalda ný og spennandi boðorð og reglur sem munu stuðla að hamingju hlýðins mannkyns.
24 Við treystum því svo sannarlega að okkar „sæli Guð“ geymi okkur stórkostleg gæði sem munu hafa í för með sér fullkomna hamingju. (1. Tímóteusarbréf 1:11) Guð mun halda áfram að ‚ljúka upp hendi sinni og seðja allt sem lifir með blessun.‘ (Sálmur 145:16) Engin furða er að það skuli vera og verði alltaf sönn hamingja samfara því að þjóna Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hver er grundvöllurinn að hamingju vígðra þjóna Jehóva?
◻ Nefndu suma af hamingjumsömum, einhleypum þjónum Jehóva á biblíutímanum.
◻ Hvers vegna mælti Páll með einhleypi og hvernig hafa sumir kristnir nútímamenn sannreynt að það hefur hamingju í för með sér?
◻ Á hverju mun hamingja okkar alltaf byggjast?
◻ Hvers vegna ættum við að treysta að allir trúfastir einstaklingar í nýja heiminum verði hamingjusamir?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Margar einhleypar systur þjóna Jehóva hamingjusamar í fullu starfi.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Hamingja kemur fyrst og fremst til af því að þjóna hagsmunum Jehóva.