Þjónar „hins sæla Guðs“ eru hamingjusamir
„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ – SÁLM. 144:15.
1. Hvers vegna eru þjónar Jehóva ánægt fólk? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
VOTTAR JEHÓVA eru sannarlega ánægt fólk. Á samkomum þeirra, mótum og öðrum samverustundum er kliður af ánægjulegum samræðum og hlátri. Hvers vegna eru vottarnir svona glaðir? Aðalástæðan er sú að þeir þekkja og þjóna Jehóva, ,hinum sæla Guði‘, og reyna að líkja eftir honum. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912; Sálm. 16:11) Þar sem Guð er uppspretta hamingjunnar vill hann að við séum hamingjusöm og hann gefur okkur margar ástæður til að gleðjast. – 5. Mós. 12:7; Préd. 3:12, 13.
2, 3. (a) Hvað er hamingja? (b) Hvers vegna getur verið erfitt að halda gleðinni?
2 Hvað með þig? Ert þú hamingjusamur? Geturðu orðið enn hamingjusamari? Hægt er að skilgreina hamingjuna sem „vellíðan sem einkennist af nokkrum stöðugleika, af tilfinningu sem spannar allt frá ánægju til djúprar og ákafrar lífsgleði og af eðlilegri löngun til að viðhalda henni“. Biblían sýnir fram á að sönn hamingja fylgi þeim sem hafa blessun Jehóva. En í heimi nútímans getur verið erfitt að halda gleðinni. Hvers vegna?
3 Erfiðar aðstæður geta rænt okkur gleðinni, svo sem ef við missum ástvin í dauðann eða honum er vikið úr söfnuðinum eða ef við stöndum í skilnaði eða missum vinnuna. Það getur líka verið erfitt að halda gleðinni þegar stöðugar erjur á heimilinu spilla friðinum. Og einelti á vinnustað eða í skóla, ofsóknir vegna trúar okkar eða fangelsisvist getur einnig rænt okkur gleðinni. Það sama á við um hrakandi heilsu, langvinn veikindi og þunglyndi. En Jesús Kristur, „hinn blessaði og eini alvaldur“, hafði ánægju af að hughreysta fólk og gleðja það. (1. Tím. 6:15; Matt. 11:28-30) Í fjallræðunni nefndi Jesús nokkra eiginleika sem stuðla að því að við séum hamingjusöm þrátt fyrir erfiðleikana í heimi Satans.
STERKT SAMBAND VIÐ JEHÓVA ER NAUÐSYNLEGT TIL AÐ VERA HAMINGJUSAMUR
4, 5. Hvernig getum við notið varanlegrar hamingju?
4 Það sem Jesús beinir athyglinni fyrst að er afar mikilvægt: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína því að himnaríki tilheyrir þeim.“ (Matt. 5:3, NW) Við sýnum að við skynjum andlega þörf okkar með því að næra okkur andlega, meta andleg verðmæti mikils og láta tilbeiðsluna á hinum sæla Guði hafa forgang. Ef við gerum það verðum við hamingjusamari og styrkjum trú okkar á að loforð Guðs rætist. Og sú ,sæla von‘, sem við finnum í Biblíunni, hjálpar okkur að halda út í erfiðleikum. – Tít. 2:13.
5 Til að njóta varanlegrar hamingju er nauðsynlegt að byggja upp sterkt samband við Jehóva. Páll postuli sagði undir innblæstri: „Verið ávallt glöð í Drottni [Jehóva]. Ég segi aftur: Verið glöð.“ (Fil. 4:4) Við þurfum að afla okkur visku frá Guði til að geta átt dýrmætt samband við hann. Í orði Guðs segir: „Sæll er sá maður sem öðlast speki, sá sem hlýtur hyggindi. Hún er tré lífsins þeim sem höndla hana og sæll er hver sá er heldur fast í hana.“ – Orðskv. 3:13, 18.
6. Hverju er varanleg hamingja háð?
6 Ef hamingjan á að endast verðum við bæði að lesa í orði Guðs og fara eftir því sem við lesum. Jesús lagði áherslu á mikilvægi þess að fara eftir því sem við lærum. Hann sagði: „Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því.“ (Jóh. 13:17; lestu Jakobsbréfið 1:25.) Þetta er lykillinn að því að sinna andlegri þörf okkar og halda í hamingjuna. En hvernig getum við verið hamingjusöm þegar svo margt getur rænt okkur gleðinni? Skoðum það sem Jesús sagði næst í fjallræðunni.
EIGINLEIKAR SEM STUÐLA AÐ HAMINGJU
7. Hvernig geta syrgjendur verið sælir?
7 „Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.“ (Matt. 5:4) Einhverjir velta kannski fyrir sér hvernig þeir sem syrgja geti verið sælir. Jesús átti ekki við alla sem syrgja. Jafnvel vondir menn harma erfiðleikana sem einkenna ,örðugu tíðirnar‘ sem við lifum á núna. (2. Tím. 3:1) En þeir syrgja af eigingjörnum hvötum og nálægja sig ekki Jehóva. Þar af leiðandi veitir það þeim enga hamingju. Jesús hlýtur að hafa haft í huga þá sem skynja andlega þörf sína og harma hve algengt það er orðið að fólk hafni Guði í orði og verki. Þeir gera sér grein fyrir eigin ófullkomleika og sorglegum afleiðingum syndafallsins. Jehóva tekur eftir slíkum einlægum syrgjendum. Hann huggar þá og hughreystir með orði sínu og veitir þeim hamingju og von um eilíft líf. – Lestu Esekíel 5:11; 9:4.
8. Útskýrðu hvernig það stuðlar að hamingju að vera hógvær.
8 „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matt. 5:5) Hvernig getur það stuðlað að hamingju að vera hógvær? Menn breytast þegar þeir kynnast sannleikanum. Áður voru þeir kannski hranalegir, þrætugjarnir og árásagjarnir en hafa nú ,íklæðst hinum nýja manni‘ með „hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi“. (Kól. 3:9-12) Þess vegna njóta þeir friðar, eiga gott samband við aðra og eru hamingjusamir. Auk þess lofar orð Guðs að slíkir menn muni „jörðina erfa“. – Sálm. 37:8-10, 29.
9. (a) Í hvaða skilningi munu hógværir „jörðina erfa“? (b) Hvers vegna geta þeir sem „hungrar og þyrstir eftir réttlætinu“ verið hamingjusamir?
9 Í hvaða skilningi munu hógværir „jörðina erfa“? Andasmurðir lærisveinar Jesú erfa jörðina þegar þeir ríkja yfir henni sem konungar og prestar. (Opinb. 20:6) Milljónir annarra sem hafa ekki himneska köllun erfa jörðina í þeim skilningi að þeir fá að lifa hér að eilífu við fullkomleika, frið og hamingju. Hinir andasmurðu og aðrir sauðir eru sælir vegna þess að þá „hungrar og þyrstir eftir réttlætinu“. (Matt. 5:6) Andlegu hungri þeirra og þorsta eftir réttlæti verður fullnægt í nýja heiminum. (2. Pét. 3:13) Þegar Guð hefur útrýmt allri illsku fyrir fullt og allt mun lögleysi og óréttlæti aldrei aftur ógna hamingju hinna réttlátu. – Sálm. 37:17.
10. Hvað þýðir það að vera miskunnsamur?
10 „Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matt. 5:7) Hebresk sögn, sem er tengd orðinu miskunn, þýðir „að glóa, að hafa heita og næma tilfinningu ... að vera samúðarfullur“. Á svipaðan hátt felur gríska sögnin í sér að finna til samúðar með einhverjum. En miskunnsemi er meira en tilfinning. Eins og orðið er notað í Biblíunni felur það í sér áþreifanlegt merki um meðaumkun og kemur fram í miskunnarverki.
11. Hvað lærum við um miskunnsemi af dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?
11 Lestu Lúkas 10:30-37. Dæmisaga Jesú um miskunnsama Samverjann dregur upp fallega mynd af því hvað það þýðir að sýna miskunn. Samverjinn hafði innilega samúð með manninum sem þjáðist og það fékk hann til að miskunna sig yfir hann og hjálpa honum. Eftir að hafa sagt dæmisöguna bætti Jesús við: „Far þú og ger hið sama.“ Við getum spurt okkur: Geri ég hið sama? Líki ég eftir miskunnsama Samverjanum? Gæti ég gert betur í að sýna miskunn í verki með því að hjálpa þeim sem þjást? Gæti ég til dæmis boðið eldri trúsystkinum, ekkjum og þeim sem eiga ekki fjölskyldu í sannleikanum aðstoð? Get ég átt frumkvæðið að því að ,hughreysta ístöðulitla‘? – 1. Þess. 5:14; Jak. 1:27.
12. Hvernig stuðlar miskunnsemi að hamingju okkar?
12 Hvernig gerir miskunnsemi okkur hamingjusöm? Við njótum gleðinnar af að gefa þegar við erum miskunnsöm við aðra. Auk þess vitum við að það gleður Jehóva. (Post. 20:35; lestu Hebreabréfið 13:16.) Davíð konungur sagði um þann sem sinnir þörfum annarra: „Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu.“ (Sálm. 41:2, 3) Við hljótum einnig miskunn Jehóva ef við sýnum öðrum samúð en miskunn hans gerir okkur kleift að njóta eilífrar hamingju. – Jak. 2:13.
HVERS VEGNA ERU „HJARTAHREINIR“ HAMINGJUSAMIR?
13, 14. Hver eru tengslin á milli þess að vera hjartahreinn og hamingjusamur?
13 „Sælir eru hjartahreinir,“ sagði Jesús, „því að þeir munu Guð sjá.“ (Matt. 5:8) Við verðum að gæta þess að hugsanir okkar og langanir séu hreinar til að hjartað haldist hreint. Það er mjög mikilvægt til að tilbeiðsla okkar á Jehóva sé hrein í augum hans. – Lestu 2. Korintubréf 4:2; 1. Tím. 1:5.
14 Hjartahreinir geta átt gott samband við Jehóva en hann segir um þá: „Sælir eru þeir sem þvo skikkjur sínar.“ (Opinb. 22:14) Hvað er átt við með því? Þeir sem eru andasmurðir „þvo skikkjur sínar“ í þeim skilningi að þeir eru hreinir í augum Jehóva og hann mun gefa þeim ódauðleika á himnum þar sem þeir njóta óþrjótandi hamingju. Þeir sem tilheyra múginum mikla og vonast eftir lífi á jörðinni geta einnig átt náið vináttusamband við Guð því að hann lítur á þá sem réttláta. Nú þegar ,hvítþvo þeir skikkjur sínar í blóði lambsins‘. – Opinb. 7:9, 13, 14.
15, 16. Hvernig geta hjartahreinir ,séð Guð‘?
15 En hvernig „sjá“ hjartahreinir Guð þar sem „enginn maður fær séð [Guð] og haldið lífi“? (2. Mós. 33:20) Gríska orðið, sem er þýtt „sjá“, getur falið í sér „að sjá með huganum, skynja, vita“. Þeir sem hafa kynnst Guði vel og kunna að meta eiginleika hans sjá hann með „sjón hjartans“. (Ef. 1:18) Jesús endurspeglaði eiginleika Guðs fullkomlega og gat því sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ – Jóh. 14:7-9.
16 Auk þess að kynnast eiginleikum Guðs getum við ,séð hann‘ með því að taka eftir hvernig hann hjálpar okkur. (Job. 42:5) Við beinum einnig „sjón hjartans“ að þeirri dásamlegu blessun sem Guð býður þeim sem leggja sig fram um að vera hreinir og þjóna honum af trúfesti. Að sjálfsögðu munu hinir andasmurðu sjá Jehóva berum augum þegar þeir verða reistir upp til lífs á himnum. – 1. Jóh. 3:2.
HAMINGJUSÖM ÞRÁTT FYRIR ERFIÐLEIKA
17. Hvernig stuðlar það að hamingju okkar að halda friðinn við aðra?
17 Jesús sagði þessu næst: „Sælir eru friðflytjendur.“ (Matt. 5:9) Þeir sem eiga frumkvæði að því að stuðla að friði hafa góða ástæðu til að vera hamingjusamir. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“ (Jak. 3:18) Þegar samband okkar við einhvern í söfnuðinum eða fjölskyldunni er stirt getum við beðið Guð að hjálpa okkur að stuðla að friði. Hann hjálpar okkur þá með heilögum anda sínum að hegða okkur rétt, og það stuðlar að hamingju. Jesús lagði áherslu á hve mikilvægt það er að taka frumkvæðið að því að stuðla að friði. Hann sagði: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ – Matt. 5:23, 24.
18, 19. Hvers vegna geta þjónar Jehóva verið glaðir, jafnvel þegar þeir eru ofsóttir?
18 „Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ Hvað á Jesús við? Hann heldur áfram: „Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ (Matt. 5:11, 12) Þegar postularnir voru barðir og þeim skipað að hætta að prédika ,fóru þeir glaðir burt frá ráðinu‘. Þó að þeir nytu að sjálfsögðu ekki þjáninganna af svipuhöggunum voru þeir „glaðir yfir því að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“. – Post. 5:41.
19 Þjónar Jehóva nú á dögum þola einnig þjáningar og erfiðleika með gleði vegna nafns Jesú. (Lestu Jakobsbréfið 1:2-4.) Við höfum ekkert frekar ánægju af þjáningum en postularnir. En Jehóva getur hjálpað okkur að halda út með hugrekki ef við erum ráðvönd í prófraunum. Tökum dæmi. Í ágúst 1944 voru Henryk Dornik og bróðir hans í sendir í fangabúðir í alræðisríki nokkru. En andstæðingar þeirra sögðu: „Það er ekki hægt að neyða þá til nokkurs. Það veitir þeim gleði að vera píslarvottar.“ Bróðir Henryk sagði: „Þó að ég hefði enga löngun til að vera píslarvottur veitti það mér gleði að þjást með reisn og hugrekki af hollustu við Jehóva ... Innilegar bænir drógu mig nær Jehóva og ég fann að ég gat treyst á hjálp hans.“
20. Hvers vegna gleður það okkur að þjóna ,hinum sæla Guði‘?
20 Þegar við njótum velþóknunar „hins sæla Guðs“ getum við notið hamingju þrátt fyrir trúarofsóknir, andstöðu heima fyrir, veikindi eða öldrun. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Það gleður okkur líka að hugsa um dýrmæt loforð Guðs, hans „sem aldrei lýgur“. (Tít. 1:2) Það verður svo tilkomumikið að sjá loforð hans rætast að við eigum ekki einu sinni eftir að leiða hugann að þeim erfiðleikum og prófraunum sem við þurfum að þola núna. Lífið í paradís verður langtum betra en við getum ímyndað okkur. Við verðum hamingjusamari en nokkru sinni fyrr. Já, við munum sannarlega „gleðjast yfir miklu gengi“. – Sálm. 37:11.