Hvenær mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni?
Sumir trúfastir fylgjendur Jesú vildu vita hvenær ríki Guðs tæki völdin. Jesús svaraði þeim með því að segja að þeir myndu ekki vita nákvæmlega hvenær það myndi fara með stjórn yfir jörðinni. (Postulasagan 1:6, 7) En hann hafði áður sagt þeim að þegar fylgjendur hans sæju vissa atburði gerast alla í einu myndu þeir vita að ,ríki Guðs væri í nánd‘ og að tíminn væri kominn fyrir ríki Guðs að fara með stjórn yfir jörðinni. – Lúkas 21:31.
HVAÐ SAGÐI JESÚS AÐ MYNDI GERAST?
Jesús sagði: „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki. Það verða miklir jarðskjálftar og hungursneyðir og drepsóttir á einum stað eftir annan.“ (Lúkas 21:10, 11) Allir þessir atburðir áttu saman að mynda augljóst tákn, rétt eins og rákir sem mynda fingrafar. Og eins og fingrafar staðfestir að um ákveðinn einstakling sé að ræða staðfesta þessir atburðir sem gerast á sama tíma að ,ríki Guðs sé í nánd‘. Hafa slíkir atburðir gerst á sama tíma og um allan heim? Skoðum málið.
1. STYRJALDIR
Árið 1914 braust út stríð í slíkum mæli að annað eins hafði aldrei sést í sögu mannkyns. Sagnfræðingar segja oft að árið 1914 hafi markað þáttaskil í sögu mannkyns vegna þess að það ár braust út fyrsta heimsstyrjöld sögunnar. Í þessari styrjöld voru skriðdrekar, flugsprengjur, vélbyssur, eiturgas og önnur drápsvopn notuð í miklum mæli í fyrsta sinn. Á eftir henni kom síðari heimsstyrjöldin og í þeirri styrjöld komu kjarnorkuvopn til sögunnar. Menn hafa barist í stríðum víðsvegar um heiminn allt frá 1914 og þessi stríð hafa orðið milljónum manna að bana.
2. JARÐSKJÁLFTAR
Í Britannica Academic segir að á hverju ári séu um 100 jarðskjálftar það stórir að þeir valda „talsverðum skemmdum“. Og jarðfræðistofnun Bandaríkjanna segir að „samkvæmt langtímamælingum (sem hófust í kringum 1900) megi búast við um 16 öflugum jarðskjálftum á hverju ári“. Þó að sumir telji kannski jarðskjálftatíðni aðeins virðast hafa aukist vegna nákvæmari mælinga er sannleikurinn sá að stórir jarðskjálftar víða um heim valda þjáningum og dauðsföllum sem aldrei fyrr.
3. HUNGURSNEYÐIR
Matarskortur er víða um heim vegna stríðsátaka, spillingar, efnahagshruns, lélegrar nýtingar í landbúnaði eða vegna þess að ekki var búið að gera ráð fyrir öfgum í veðri. Í skýrslu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2018 segir: „Um allan heim býr 821 milljón manns við hungur og 124 milljónir þeirra búa við hungursneyð.“ Vannæring dregur um 3,1 milljón barna til dauða á hverju ári. Árið 2011 orsakaði hún um 45 prósent allra barnadauða í heiminum.
4. SJÚKDÓMAR OG FARALDRAR
Í riti frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir: „Miklir faraldrar hafa nú þegar einkennt 21. öldina. Fyrrum þekktir sjúkdómar eins og kólera, svartidauði og gulusótt hafa snúið aftur. Og nýir sjúkdómar eins og HABL, heimsfaraldursinflúensa, MERS-veirusýking, ebóluveira og zíkaveira hafa skotið upp kollinum.“ COVID-19 faraldurinn er síðasta dæmið um heimsfaraldur. Þó svo að vísindamenn og læknar hafi lært margt um veikindi hefur þeim ekki tekist að finna lækningu á öllum sjúkdómum.
5. BOÐUN UM ALLAN HEIM
Jesús benti á enn annan hluta táknsins þegar hann sagði: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann, og síðan kemur endirinn.“ (Matteus 24:14) Á meðan heimurinn glímir við hræðileg vandamál boða meira en átta milljónir manna af öllum þjóðum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs í 240 löndum á meira en 1.000 tungumálum. Þetta hefur aldrei áður verið gert í mannkynssögunni.
HVAÐ MERKIR TÁKNIÐ FYRIR OKKUR?
Atburðirnir sem mynda táknið sem Jesús talaði um eiga sér stað núna. Hvers vegna ætti það að vekja athygli okkar? Vegna þess að Jesús sagði: „Eins skuluð þið vita þegar þið sjáið þetta gerast að ríki Guðs er í nánd.“ – Lúkas 21:31.
Táknið sem Jesús gaf og tímatal Biblíunnar hjálpa okkur að skilja að Guð stofnsetti ríki sitt á himnum árið 1914.a Þá krýndi hann son sinn, Jesú Krist, sem konung. (Sálmur 2:2, 4, 6–9) Bráðlega mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni. Það mun fjarlægja allar stjórnir manna og gera jörðina að paradís sem menn munu búa í að eilífu.
Innan skamms verður það sem Jesús sagði í faðirvorinu að veruleika: „Láttu ríki þitt koma. Láttu vilja þinn verða á jörð eins og á himni.“ (Matteus 6:10) En hverju hefur ríki Guðs áorkað síðan það tók við völdum árið 1914? Og hvers getum við hlakkað til þegar stjórn Guðs fer með allt vald yfir mannkyninu?
a Nánari upplýsingar um árið 1914 er að finna í kafla 32 í bókinni Von um bjarta framtíð. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.