6. KAFLI
Fólk sem boðar fagnaðarerindið – boðberar bjóða sig fúslega fram
1, 2. Hvaða verk átti að vinna að sögn Jesú og hvaða spurning vaknar?
STJÓRNMÁLAMENN gefa oft loforð en efna þau ekki. Jafnvel þótt þeir vilji vel tekst þeim ekki alltaf að standa við gefin fyrirheit. Þar stinga þeir í stúf við konunginn Jesú Krist sem stendur alltaf við orð sín.
2 Eftir að Jesús tók við konungdómi árið 1914 hófst hann handa við að uppfylla spádóm sem hann hafði borið fram um 1.900 árum áður. Hann sagði skömmu áður en hann dó: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ (Matt. 24:14) Uppfylling þessa spádóms átti að vera einn þáttur táknsins um að hann væri nærverandi sem konungur Guðsríkis. En hvernig gat konungurinn kallað saman heilan her fúsra boðbera á síðustu dögum – á tímabili sem myndi einkennast af því að fólk væri eigingjarnt, kærleikslaust og trúlaust? (Matt. 24:12; 2. Tím. 3:1-5) Við þurfum að vita svarið vegna þess að það snertir alla sannkristna menn.
3. Hverju treysti Jesús og hvers vegna?
3 Lítum aftur á spádóm Jesú. „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað,“ sagði hann. Lýsa þessi orð trausti? Tvímælalaust. Jesús var sannfærður um að hann myndi eiga sér fúsa stuðningsmenn á síðustu dögum. Hvernig gat hann treyst á það? Hann lærði það af föður sínum. (Jóh. 12:45; 14:9) Áður en Jesús varð maður sá hann að Jehóva treysti á fúsleika þeirra sem tilbáðu hann. Hvernig lét Jehóva traust sitt í ljós?
„Þjóð þín kemur fúslega“
4. Hvaða verk bauð Jehóva Ísraelsmönnum að styðja og hvernig brugðust þeir við?
4 Rifjaðu upp fyrir þér hvað gerðist þegar Jehóva sagði Móse að gera tjaldbúð sem átti að vera tilbeiðslumiðstöð Ísraelsmanna. Jehóva bauð þjóðinni að styðja verkið. Móse, talsmaður hans, sagði við Ísraelsmenn: „Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður honum.“ Hvað gerðist þá? „Ísraelsmenn komu sjálfviljugir með gjöld sín, hvern morgun.“ Svo örlátir voru þeir að Móse þurfti að biðja þá að hætta að koma með gjafir sínar. (2. Mós. 35:5; 36:3, 6) Ísraelsmenn risu undir traustinu sem Jehóva bar til þeirra.
5, 6. Hvað bjuggust Jehóva og Jesús við að finna meðal sannra guðsdýrkenda á tíma endalokanna, samkvæmt Sálmi 110:1-3?
5 Bjóst Jehóva við að finna sams konar fúsleika meðal dýrkenda sinna á síðustu dögum? Já. Meira en þúsund árum áður en Jesús fæddist á jörð innblés Jehóva Davíð að spá um þann tíma þegar Messías tæki völd. (Lestu Sálm 110:1-3.) Jesús, hinn nýkrýndi konungur, myndi eiga sér óvini og andstæðinga. En hann myndi líka eiga heilan her stuðningsmanna. Það þyrfti ekki að þvinga þá til að þjóna konunginum. Unga fólkið meðal þeirra myndi meira að segja bjóða sig fúslega fram. Slíkur yrði fjöldinn að honum er líkt við daggardropana sem þekja jörðina þegar sólin rennur upp að morgni.a
6 Jesús vissi að spádómurinn í Sálmi 110 átti við hann sjálfan. (Matt. 22:42-45) Hann hafði því fulla ástæðu til að treysta að hann myndi eiga sér dygga stuðningsmenn sem myndu bjóða sig fúslega fram til að boða fagnaðarerindið um alla jörðina. Og hvað sýnir sagan? Hefur konunginum tekist að kalla saman heilan her boðbera núna á síðustu dögum?
„Það er hlutverk mitt og skylda að boða þennan boðskap“
7. Hvaða ráðstafanir gerði Jesús eftir að hann tók við konungdómi til að búa stuðningsmenn sína undir verkið sem var fram undan?
7 Skömmu eftir að Jesús tók völd sem konungur gerði hann ráðstafanir til að búa fylgjendur sína undir það mikla verk sem var fram undan. Eins og fram kom í 2. kafla skoðaði hann ástandið hjá þjónum sínum og hreinsaði þá á árunum 1914 til 1919. (Mal. 3:1-4) Árið 1919 skipaði hann síðan trúa þjóninn til að fara með forystuna meðal fylgjenda sinna. (Matt. 24:45) Þjónninn tók þá til óspilltra málanna að dreifa andlegri fæðu þar sem minnt var á æ ofan í æ að það væri skylda hvers einasta kristins manns að boða fagnaðarerindið. Þetta var gert bæði í ræðum á mótum og á prenti.
8-10. Hvernig voru þjónar Guðs hvattir til þess á mótum að boða ríkið? Nefndu dæmi. (Sjá einnig greinina „Mót sem gáfu boðuninni byr undir báða vængi“.)
8 Ræður á mótum. Biblíunemendurnir söfnuðust saman á móti í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum dagana 1. til 8. september 1919. Þetta var fyrsta stórmótið sem þeir héldu eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Þá þyrsti eftir leiðbeiningum. Á öðrum degi mótsins flutti bróðir Rutherford ræðu þar sem hann sagði skýrt og skorinort við mótsgesti: „Hlutverk kristins manns á jörð ... er að boða boðskapinn um ríki Drottins.“
9 Hámark mótsins var þrem dögum síðar þegar bróðir Rutherford flutti ræðu sem nefndist: „Ávarp til samstarfsmanna.“ Hún var birt síðar í Varðturninum undir heitinu „Að kunngera ríkið“. Rutherford sagði: „Þegar kristinn maður hugleiðir málin er eðlilegt að hann spyrji sig: Hvers vegna er ég hér á jörð? Og svarið hlýtur að vera: Drottinn hefur af náð sinni gert mig að sendiherra sínum til að flytja heiminum sáttarboðskap Guðs. Það er hlutverk mitt og skylda að boða þennan boðskap.“
10 Í þessari sögulegu ræðu tilkynnti bróðir Rutherford að gefið yrði út nýtt tímarit, The Golden Age (nú nefnt Vaknið!). Hlutverk þess átti að vera að benda fólki á að ríki Guðs væri eina von mannkyns. Síðan spurði hann hve margir viðstaddra vildu eiga þátt í að dreifa þessu tímariti. Í grein, sem fjallaði um mótið, sagði: „Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Sex þúsund manns risu úr sætum allir sem einn.“b Konungurinn átti sér greinilega dygga stuðningsmenn sem voru óðfúsir að boða ríki hans.
11, 12. Hvenær átti að boða boðskapinn sem Jesús talaði um, samkvæmt Varðturninum árið 1920?
11 Á prenti. Á síðum Varðturnsins var lögð æ ríkari áhersla á hve mikilvægt væri að boða fagnaðarerindið um ríkið eins og Jesús spáði að gert yrði á síðustu dögum. Lítum á nokkur dæmi frá 1920 og næstu árum á eftir.
12 Hvað átti að boða til að uppfylla Matteus 24:14? Hvenær átti að gera það? Hinn 1. júlí 1920 birtist grein í Varðturninum sem hét „Fagnaðarerindið um ríkið“. Þar sagði eftirfarandi um boðskapinn: „Fagnaðarerindið fjallar um að hin gamla heimsskipan líði undir lok og ríki Messíasar verði stofnsett.“ Í greininni kom fram hvenær ætti að boða þennan boðskap. Þar stóð: „Það á að flytja þennan boðskap frá lokum stríðsins mikla [fyrri heimsstyrjaldarinnar] fram að ‚þrengingunni miklu‘.“ Því sagði í greininni: „Það er núna sem á að ... boða þetta fagnaðarerindi út um kristna heiminn allan.“
13. Hvernig var höfðað til þess í Varðturninum árið 1921 að hina andasmurðu langaði til að vinna verk Guðs?
13 Var þrýst á þjóna Guðs að vinna verkið sem Jesús spáði um? Nei. Í Varðturninum 15. mars 1921 birtist grein sem hét „Verið hugrökk“. Þar var höfðað til þess að andasmurða kristna menn langaði til að vinna verk Guðs. Allir voru hvattir til að spyrja sig: „Er það ekki mesti heiður sem ég get hlotið og jafnframt skylda mín að taka þátt í þessu starfi?“ Síðan sagði í greininni: „Við treystum að þegar þú skilur það [hvílíkur heiður það er] verðir þú eins og Jeremía. Honum fannst orð Drottins vera eins og ‚eldur sem logaði í hjarta hans og brann í beinum hans‘ svo að hann gat ekki þagað.“ (Jer. 20:9) Þessi hlýlega hvatning endurspeglaði það traust sem Jehóva og Jesús bera til þeirra sem styðja ríkið.
14, 15. Hvernig voru andasmurðir kristnir menn hvattir til þess í Varðturninum árið 1922 að bera boðskapinn til fólks?
14 Hvernig áttu sannkristnir menn að koma boðskapnum um ríkið til fólks? Í Varðturninum 15. ágúst 1922 birtist stutt en áhrifamikil grein sem nefndist „Boðunin er nauðsynleg“. Þar voru hinir andasmurðu hvattir til að „bera boðskapinn á prentuðu máli til fólks, tala við það við dyrnar og vitna fyrir því um að himnaríkið sé í nánd“.
15 Síðan 1919 hefur Kristur greinilega látið trúan og hygginn þjón sinn minna á það aftur og aftur að það sé mikill heiður fyrir kristinn mann, og jafnframt skylda hans, að boða boðskapinn um ríkið. En hvernig brugðust Biblíunemendurnir við þessari hvatningu?
„Hinir trúu munu bjóða sig fram“
16. Hvernig tóku sumir kjörnir öldungar þeirri hugmynd að allir ættu að boða fagnaðarerindið?
16 Á þriðja og fjórða áratugnum voru sumir í söfnuðinum andvígir þeirri hugmynd að allir hinna andasmurðu ættu að boða fagnaðarerindið. Í Varðturninum 1. nóvember 1927 kom fram hvað væri á seyði: „Sumir í kirkjunni [söfnuðinum], sem gegna þeirri ábyrgðarstöðu að vera öldungar ... vilja ekki hvetja bræður sína til að taka þátt í þjónustunni og neita að taka þátt í henni sjálfir ... Þeir gera gys að þeirri hvatningu að ganga í hús og bera boðskap Guðs, konungsins og ríkis hans til fólks.“ Síðan var sagt umbúðalaust í greininni: „Það er kominn tími til að hinir trúu merki slíka menn og sniðgangi þá og segi þeim að þeim skuli ekki lengur treyst fyrir öldungsembætti.“c
17, 18. Hvernig tóku flestir í söfnuðunum þeim leiðbeiningum sem bárust frá aðalstöðvunum og hvað hafa milljónir manna gert síðastliðin 100 ár?
17 Sem betur fer tóku flestir í söfnuðunum vel þeim leiðbeiningum sem bárust frá aðalstöðvunum. Þeir töldu það heiður að mega boða boðskapinn um ríkið. Það var orðað þannig í Varðturninum 15. mars 1926: „Hinir trúu munu bjóða sig fram ... til að flytja fólkinu þennan boðskap.“ Þessir trúu þjónar Guðs gerðu eins og spáð var í Sálmi 110:3 og reyndust fúsir stuðningsmenn konungsins Messíasar.
18 Síðastliðin 100 ár hafa milljónir manna boðið sig fúslega fram til að boða ríki Guðs. Í næstu köflum ræðum við hvernig þeir hafa boðað ríkið, það er að segja hvaða aðferðir og verkfæri þeir hafa notað, og sömuleiðis hver árangurinn hefur verið. En fyrst skulum við ræða hvers vegna fólk í milljónatali hefur boðað ríkið fúslega, þótt það búi í heimi þar sem eigingirnin er allsráðandi. Þegar við ræðum þetta mál ættum við að spyrja okkur af hvaða ástæðu við sjálf flytjum fólki fagnaðarerindið.
„Leitið fyrst ríkis hans“
19. Hvers vegna ‚leitum við fyrst ríkis Guðs‘ eins og Jesús hvatti til?
19 Jesús hvatti fylgjendur sína til að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘. (Matt. 6:33) Hvers vegna gerum við eins og hann hvatti til? Fyrst og fremst vegna þess að við gerum okkur grein fyrir hve mikilvægt ríki Guðs er, að það gegnir lykilhlutverki í fyrirætlun hans. Eins og fram kom í kaflanum á undan hefur heilagur andi smám saman opinberað hrífandi sannindi um ríki Guðs. Þegar þessi sannindi snerta hjarta okkar finnum við hjá okkur sterka löngun til að leita fyrst ríkis Guðs.
20. Jesús hvatti fylgjendur sína til að leita fyrst ríkis Guðs. Hvernig er viðbrögðum þeirra lýst í dæmisögunni um fólgna fjársjóðinn?
20 Jesús vissi hvernig fylgjendur hans myndu taka þeirri hvatningu að leita fyrst ríkis Guðs. Lítum á dæmisöguna um fólgna fjársjóðinn. (Lestu Matteus 13:44.) Þar segir frá landbúnaðarverkamanni sem finnur óvænt falinn fjársjóð á akri þar sem hann er að vinna. Hann áttar sig þegar í stað á því hve verðmætur fjársjóðurinn er. Hvað gerir hann þá? „Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.“ Hver er lærdómurinn? Þegar við finnum sannleikann um ríki Guðs og áttum okkur á gildi hans fögnum við því að færa allar þær fórnir sem þarf til að ríki Guðs sé í fyrirrúmi í lífi okkar, eins og það á líka að vera.d
21, 22. Hvernig sýna dyggir stuðningsmenn Guðsríkis að þeir leita þess fyrst. Nefndu dæmi.
21 Dyggir stuðningsmenn Guðsríkis segjast ekki aðeins leita þess fyrst heldur sýna það í verki. Þeir helga boðuninni líf sitt, hæfileika og fjármuni. Margir hafa fært miklar fórnir til að geta boðað ríki Guðs í fullu starfi. Allir þessir fúsu boðberar hafa kynnst af eigin raun að Jehóva blessar þá sem láta ríki hans ganga fyrir öðru. Lítum á dæmi frá fyrri hluta síðustu aldar.
22 Avery og Lovenia Bristow gerðust farandbóksalar (brautryðjendur) í sunnanverðum Bandaríkjunum skömmu fyrir 1930. Mörgum árum síðar sagði Lovenia: „Við Avery höfum átt mörg ánægjuleg ár saman í brautryðjandastarfinu. Oft vissum við ekki hvernig við myndum eiga fyrir mat og bensíni. En einhvern veginn sá Jehóva alltaf fyrir okkur. Við héldum bara okkar striki. Við höfðum alltaf helstu nauðsynjar.“ Lovenia minnist þess að þau hafi einu sinni verið fé- og matarlítil meðan þau störfuðu í Pensacola í Flórída. Þegar þau komu heim í hjólhýsið sitt fundu þau þar tvo stóra poka með matvörum og miða sem á stóð: „Með ástarkveðju frá söfnuðinum í Pensacola.“ Eftir að hafa þjónað í fullu starfi áratugum saman leit Lovenia um öxl og sagði: „Jehóva yfirgefur okkur aldrei. Hann bregst aldrei traustinu sem við sýnum honum.“
23. Hvernig lítur þú á sannleikann um ríki Guðs sem þú hefur fundið og hvað ætlar þú að gera?
23 Við getum ekki öll notað jafn mikinn tíma til að boða ríki Guðs. Aðstæður okkar eru misjafnar. Við getum hins vegar öll litið á það sem mikinn heiður að boða fagnaðarerindið af heilum huga. (Kól. 3:23) Við höfum fundið sannleikann um ríki Guðs og hann er okkur afar dýrmætur. Þess vegna erum við meira en fús til að færa þær fórnir sem þarf til að starfa sem mest við getum. Ert þú ekki ákveðinn í að gera það?
24. Hvert er eitt mesta afrek sem ríki Guðs hefur unnið á síðustu dögum?
24 Konungurinn hefur sannarlega uppfyllt spádóm sinn í Matteusi 24:14 á síðastliðnum 100 árum. Og hann hefur ekki þurft að beita neinum þvingunum til þess. Fylgjendur hans hafa snúið baki við þessum eigingjarna heimi og boðið sig fúslega fram til að boða fagnaðarerindið út um víða veröld. Það er eitt af táknum þess að Jesús sé nærverandi sem konungur. Og það er líka eitt mesta afrek sem ríki Guðs hefur unnið á síðustu dögum.
a Í Biblíunni er döggin látin lýsa gnægð. – 1. Mós. 27:28; Míka 5:6.
b Í bæklingnum To Whom the Work Is Entrusted sagði: „Það á að nota The Golden Age til að boða boðskapinn um ríkið hús úr húsi ... Eftir að hafa kynnt boðskapinn á að skilja eftir eintak af The Golden Age á hverju heimili, hvort sem áskrift er þegin eða ekki.“ Um áratugaskeið voru bræður og systur hvött til að bjóða fólki áskrift að The Golden Age og Varðturninum. Frá og með 1. febrúar 1940 voru þjónar Jehóva hvattir til að dreifa stökum blöðum meðal almennings og gefa skýrslu um hve mörgum þeir dreifðu.
c Á þeim tíma voru öldungar valdir með almennri kosningu í hverjum söfnuði. Söfnuður gat því ákveðið að kjósa ekki menn til starfa sem voru andvígir boðuninni. Í 12. kafla er rætt um þá breytingu að útnefna öldunga undir handleiðslu Guðs í stað þess að kjósa þá.
d Í hliðstæðri dæmisögu segir Jesús frá kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Hann finnur eina dýrmæta perlu, selur allt sem hann á og kaupir hana. (Matt. 13:45, 46) Dæmisögurnar tvær segja okkur einnig að við getum kynnst sannleikanum um ríki Guðs á tvo vegu. Sumir finna hann hálfpartinn af tilviljun en aðrir leita að honum. Hvernig sem við finnum sannleikann erum við tilbúin að færa fórnir til að láta ríki Guðs sitja í fyrirrúmi í lífi okkar.