„Lesandinn athugi það“
„Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — MATTEUS 24:15, 16.
1. Hvað hafði viðvörun Jesú í Lúkasi 19:43, 44 í för með sér?
MEÐ því að fá viðvörun um yfirvofandi hættu getum við forðast hana. (Orðskviðirnir 22:3) Hugsaðu þér aðstöðu kristinna manna í Jerúsalem eftir árás Rómverja árið 66. Jesús hafði varað við að borgin yrði umkringd og lögð í rúst. (Lúkas 19:43, 44) Gyðingar gáfu fæstir gaum að viðvörun hans en lærisveinar hans tóku mark á henni. Fyrir vikið komust þeir undan ógæfunni árið 70.
2, 3. Af hverju ættum við að hafa áhuga á spádómi Jesú í Matteusi 24:15-21?
2 Í spádómi, sem varðar okkur nútímamenn, lýsti Jesús samsettu tákni fólgnu í styrjöldum, hallærum, jarðskjálftum, drepsóttum og ofsóknum á hendur kristnum mönnum sem prédikuðu ríki Guðs. (Matteus 24:4-14; Lúkas 21:10-19) Hann gaf lærisveinunum jafnframt vísbendingu um það hvenær endirinn væri nálægur — þegar ‚viðurstyggð eyðingarinnar stæði á helgum stað.‘ (Matteus 24:15) Við skulum skoða þessi þýðingarmiklu orð á ný og kanna hvernig þau geta haft áhrif á líf okkar núna og í framtíðinni.
3 Eftir að hafa lýst tákninu sagði Jesús: „‚Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,‘ — lesandinn athugi það — ‚þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘“ — Matteus 24:15-21.
4. Hvað sýnir að Matteus 24:15 uppfylltist á fyrstu öld?
4 Frásögur Markúsar og Lúkasar bæta við smáatriðum. Þar sem Matteus segir „standa á helgum stað“ segir Markús 13:14 „standa þar, er ekki skyldi.“ Lúkas 21:20 bætir við orðum Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.“ Þessi orð sýna að fyrri uppfyllingin var tengd árás Rómverja á Jerúsalem og musterið — sem var heilagt í augum Gyðinga en var það ekki lengur í augum Jehóva. Fyrri árás þeirra var gerð árið 66 en árið 70 lögðu þeir bæði borgina og musterið í rúst. Hver var ‚viðurstyggðin‘ þá og hvernig ‚stóð hún á helgum stað‘? Svörin við þessum spurningum varpa ljósi á nútímauppfyllinguna.
5, 6. (a) Af hverju áttu þeir sem lásu 9. kafla Daníelsbókar að vera athugulir? (b) Hvernig uppfylltist spádómur Jesú um ‚viðurstyggðina‘?
5 Jesús hvatti lesandann til að vera athugull og glöggskyggn. Hvaða lesefni átti hann að athuga? Líklega 9. kafla Daníelsbókar. Þar finnum við spádóm um komutíma Messíasar og þar er boðað að hann yrði „afmáður“ eftir þrjú og hálft ár. Spádómurinn segir: „Á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann.“ — Daníel 9:26, 27; sjá einnig Daníel 11:31; 12:11.
6 Gyðingar töldu þetta eiga við vanhelgun Antíokosar 4. á musterinu um 200 árum áður. En Jesús benti á að svo væri ekki, og hvatti til glöggskyggni af því að ‚viðurstyggðin‘ ætti eftir að koma fram og standa á „helgum stað.“ Ljóst er að hann var að tala um rómverska herinn sem koma myndi árið 66 með einkennandi gunnfána sína. Slíkir gunnfánar höfðu verið notaðir lengi og Gyðingar litu á þá sem skurðgoð og þóttu þeir viðurstyggilegir.a En hvenær myndu rómverskir hermenn „standa á helgum stað“? Það gerðist þegar rómverski herinn réðst með gunnfána sína á lofti á Jerúsalem og musterið sem var heilagt í augum Gyðinga. Rómverjar byrjuðu jafnvel að grafa undan múrnum umhverfis musterissvæðið. Það sem löngum hafði verið álitið viðurstyggilegt stóð nú á helgum stað. — Jesaja 52:1; Matteus 4:5; 27:53; Postulasagan 6:13.
„Viðurstyggð“ nútímans
7. Hvaða spádómur Jesú er að uppfyllast á okkar tímum?
7 Frá dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar höfum við séð tákn Jesú í Matteusi 24. kafla hljóta meiri uppfyllingu sína. En minnumst orða hans: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ (Matteus 24:15, 16) Þessi þáttur spádómsins hlýtur einnig að uppfyllast á okkar tímum.
8. Hvað hafa vottar Jehóva bent á um áratuga skeið í sambandi við „viðurstyggð“ nútímans?
8 Varðturninn 1. janúar 1921 fjallaði um tengsl þessa spádóms við þróunina í Miðausturlöndum og sýndi þar með að þjónar Jehóva treystu því að hann rættist. Síðar, hinn 15. desember 1929, sagði Varðturninn mjög ákveðið á bls. 374: „Þjóðabandalagið miðar á allan hátt að því að snúa fólki frá Guði og Kristi og er þess vegna eyðingartæki, verk Satans, viðurstyggð í augum Guðs.“ ‚Viðurstyggðin‘ kom því fram árið 1919. Síðar tóku Sameinuðu þjóðirnar við af Þjóðabandalaginu. Vottar Jehóva hafa lengi afhjúpað þessi friðarsamtök manna og bent á að þau eru viðurstyggð í augum Guðs.
9, 10. Hvað var álitið einu sinni um þrenginguna miklu og hvernig mótaði það skilning okkar á því hvenær ‚viðurstyggðin‘ myndi standa á helgum stað?
9 Greinin á undan tók saman greinagott yfirlit yfir skilning okkar á stórum hluta 24. og 25. kafla Matteusarguðspjalls. Er þörf á nánari skýringum á ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað‘? Svo er að sjá. Spádómur Jesú tengir það að „standa á helgum stað“ við upphaf hinnar boðuðu ‚þrengingar.‘ Þó svo að ‚viðurstyggðin‘ hafi verið til um langt skeið ætti sambandið milli þess að hún ‚standi á helgum stað‘ og þrengingarinnar miklu að móta skilning okkar á henni. Hvernig þá?
10 Fólk Guðs áleit einu sinni að fyrra stig þrengingarinnar miklu hafi hafist árið 1914 og að lokastigið kæmi í stríðinu við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16; samanber Varðturninn (enska útgáfu) 1. apríl 1939, bls. 110.) Við skiljum því hvers vegna einu sinni var álitið að „viðurstyggð“ síðari tíma hlyti að hafa staðið á helgum stað skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina.
11, 12. Hvaða breytt skýring var gefin árið 1969 á þrengingunni miklu?
11 En á síðari árum höfum við séð þetta í öðru ljósi. F. W. Franz, þáverandi varaforseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, flutti hrífandi ræðu fimmtudaginn 10. júlí 1969 á alþjóðamótinu „Friður á jörð“ í New York borg. Bróðir Franz rifjaði upp fyrri skilning á spádómi Jesú og sagði: „Sú skýring var gefin að hin ‚mikla þrenging‘ hefði byrjað árið 1914 og að hún hefði þá ekki fengið að renna skeið sitt á enda heldur hefði Guð stöðvað fyrri heimsstyrjöldina í nóvembermánuði árið 1918. Þaðan í frá hefði hann gert hlé til að smurðar leifar útvalinna kristinna manna gætu starfað áður en hann léti lokaþátt hinnar ‚miklu þrengingar‘ hefjast í orustunni við Harmagedón.“Hliðsjón af w 1.2.71 29:9
12 Síðan kom fram verulega breytt skýring: „Ef atburðarásin á að samsvara því sem gerðist á fyrstu öld . . . hófst hin fyrirmyndaða ‚mikla þrenging‘ ekki árið 1914. Það sem kom yfir hina fyrirmynduðu Jerúsalem á árunum 1914-1918 var aðeins ‚upphaf fæðingarhríðanna‘ . . . ‚Þrengingin mikla,‘ sem mun aldrei eiga sinn líka, er enn þá framundan því að hún þýðir eyðingu heimsveldis falstrúarbragðanna (þeirra á meðal kristna heimsins) en því næst kemur ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón.“ Þetta þýddi að þrengingin mikla var öll framundan.
13. Af hverju er rökrétt að ‚viðurstyggðin‘ eigi eftir að „standa á helgum stað“ í framtíðinni?
13 Þetta hefur bein áhrif á skilning okkar á því hvenær ‚viðurstyggðin‘ stendur á helgum stað. Rifjaðu upp fyrir þér það sem gerðist á fyrstu öld. Rómverjar réðust á Jerúsalem árið 66 en hörfuðu svo skyndilega þannig að kristnir ‚menn‘ komust af. (Matteus 24:22) Samkvæmt því megum við búast við að þrengingin mikla hefjist fljótlega en verði stytt vegna útvalinna þjóna Guðs. Taktu eftir þessu lykilatriði: Í fyrirmynd fortíðarinnar var ‚viðurstyggðin sem stóð á helgum stað‘ tengd árás Rómverja undir forystu Gallusar hershöfðingja árið 66. Upphaf þrengingarinnar miklu er nútímahliðstæða þessarar árásar og það er enn framundan. „Viðurstyggð eyðingarinnar,“ sem hefur verið til frá 1919, á því eftir að standa á helgum stað að því er best verður séð.b Hvernig atvikast það og hvaða áhrif getur það haft á okkur?
Væntanleg árás
14, 15. Hvernig hjálpar 17. kafli Opinberunarbókarinnar okkur að skilja aðdraganda Harmagedón?
14 Opinberunarbókin segir frá væntanlegri eyðingarárás á falstrúarbrögðin. Sautjándi kaflinn lýsir dómi Guðs yfir ‚Babýlon hinni miklu, móður hórkvenna,‘ sem er heimsveldi falskra trúarbragða. Kristni heimurinn gegnir þar stóru hlutverki, enda segist hann standa í sáttmálasambandi við Guð. (Samanber Jeremía 7:4.) Falstrúarbrögðin, þeirra á meðal kristni heimurinn, hafa lengi átt í óleyfilegu sambandi við ‚konunga jarðarinnar‘ en það tekur enda með eyðingu falstrúarbragðanna. (Opinberunarbókin 17:2, 5) Og hver er eyðandinn?
15 Opinberunarbókin segir frá „skarlatsrauðu dýri“ sem er til um tíma, hverfur og kemur svo aftur. (Opinberunarbókin 17:3, 8) Þetta dýr nýtur stuðnings stjórnenda heims. Ýmis smáatriði í spádóminum sýna að þetta dýr táknar friðarsamtökin er komu fram á sjónarsviðið árið 1919 sem Þjóðabandalagið („viðurstyggð“) og eru nú uppi sem Sameinuðu þjóðirnar. Opinberunarbókin 17:16, 17 segir að Guð eigi eftir að leggja vissum mennskum stjórnendum, sem eru forystumenn þessa ‚dýrs,‘ í brjóst að eyða heimsveldi falskra trúarbragða. Með þessari árás brestur þrengingin mikla á.
16. Hvað er að gerast í sambandi við trúarbrögðin?
16 Fyrst þrengingin mikla er ekki hafin, gildir þá hið sama um það að ‚viðurstyggðin standi á helgum stað‘? Svo er að sjá. Enda þótt ‚viðurstyggðin‘ hafi birst snemma á þessari öld og hafi því verið til um áratuga skeið á hún eftir að stilla sér sérstaklega upp „á helgum stað“ í náinni framtíð. Fylgjendur Krists á fyrstu öld hljóta að hafa haft vakandi augu með framvindu mála til að sjá í hverju þessi ‚staða á helgum stað‘ yrði fólgin, og það gera kristnir menn nú á tímum einnig. Að vísu þurfum við að bíða sjálfrar uppfyllingarinnar til að skilja öll smáatriðin. Það er þó eftirtektarvert að í sumum löndum gætir nú þegar vaxandi andúðar á trúarbrögðum. Einstaka stjórnmálaöfl hafa tekið höndum saman við fyrrverandi kristna menn, sem hafa snúið baki við sannri trú, og eru farin að ýta undir fjandskap gegn trúarbrögðum almennt og sérstaklega gegn sannkristnum mönnum. (Sálmur 94:20, 21; 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Þar af leiðandi eru stjórnmálaöfl nú þegar farin að „heyja stríð við lambið,“ og eins og Opinberunarbókin 17:14 gefur til kynna mun þessi barátta harðna. Þau geta ekki náð beint til lambs Guðs — hins upphafna og dýrlega gerða Jesú Krists — heldur fá útrás fyrir andstöðu sína gegn sönnum guðsdýrkendum, einkum „hinum heilögu.“ (Daníel 7:25; samanber Rómverjabréfið 8:27; Kólossubréfið 1:2; Opinberunarbókin 12:17.) Við höfum tryggingu Guðs fyrir því að lambið og þeir sem með því eru beri sigur úr býtum. — Opinberunarbókin 19:11-21.
17. Hvað getum við sagt um það hvernig ‚viðurstyggðin‘ standi á helgum stað, án þess að vera með skoðanahroka?
17 Við vitum að falstrúarbrögðin eiga eyðingu í vændum. Babýlon hin mikla er „drukkin af blóði hinna heilögu“ og hefur látið eins og hún sé drottning. En eyðing hennar er örugg. Hið spillta áhrifavald hennar yfir konungum jarðar gerbreytist þegar samband þeirra snýst upp í ofbeldiskennt hatur ‚hornanna tíu og dýrsins‘ á henni. (Opinberunarbókin 17:6, 16; 18:7, 8) Þegar ‚skarlatsrauða dýrið‘ ræðst á trúarskækjuna stendur ‚viðurstyggðin‘ ógnandi á svokölluðum helgum stað kristna heimsins.c Eyðingin hefst því á hinum trúlausa kristna heimi sem þykist vera heilagur.
Hvernig á að ‚flýja‘?
18, 19. Hvernig sjáum við að ‚flótti til fjalla‘ felst ekki í því að skipta um trú?
18 Eftir að Jesús hafði talað um að ‚viðurstyggðin stæði á helgum stað‘ hvatti hann athugula menn til viðeigandi aðgerða. Átti hann við það að margir myndu flýja falstrúarbrögðin og snúa sér að sannri tilbeiðslu þegar þar væri komið sögu — þegar ‚viðurstyggðin stæði á helgum stað‘? Það getur varla verið. Lítum á fyrri uppfyllinguna. Jesús sagði: „Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið, að það verði ekki um vetur.“ — Markús 13:14-18.
19 Jesús sagði ekki að menn þyrftu einungis að forða sér frá Jerúsalem, rétt eins og hann væri að leggja áherslu á að þeir þyrftu að forða sér frá tilbeiðslumiðstöð Gyðinga. Og hann minntist ekkert á það að skipta um trú — að flýja falska trú og taka upp hina sönnu. Það þurfti ekki að hvetja lærisveina Jesú til að flýja frá einni trú til annarrar; þeir voru þegar orðnir sannkristnir. Og árásin árið 66 varð ekki hvati fyrir áhangendur gyðingdómsins í Jerúsalem og allri Júdeu til að snúa baki við honum og gerast kristnir. Prófessor Heinrich Graetz segir að þeir sem veitt hafi Rómverjum eftirför á flóttanum hafi snúið aftur til borgarinnar: „Sílótar sneru aftur til Jerúsalem (8. október) syngjandi her- og fagnaðarsöngva og með frelsis- og sjálfstæðisvon í hjarta. . . . Hafði Guð ekki hjálpað þeim jafnnáðarsamlega og hann hjálpaði forfeðrum þeirra? Sílótar voru óhræddir við framtíðina.“
20. Hvernig brugðust lærisveinarnir á fyrstu öld við viðvörun Jesú um að flýja til fjalla?
20 Hvernig brást hinn tiltölulega fámenni hópur útvalinna á þeim tíma við ráði Jesú? Með því að yfirgefa Júdeu og flýja til fjallanna handan Jórdanar sýndu þeir að þeir tilheyrðu ekki gyðingakerfinu, hvorki pólitískt né trúarlega. Þeir yfirgáfu akra og heimili og tíndu ekki einu sinni saman eigur sínar heima fyrir. Þeir treystu á vernd og stuðning Jehóva og tóku tilbeiðsluna á honum fram yfir allt annað sem virst gat mikilvægt. — Markús 10:29, 30; Lúkas 9:57-62.
21. Hvað er ekki viðbúið að gerist þegar ‚viðurstyggðin‘ gerir árás?
21 Lítum nú á meiri uppfyllinguna. Við höfum um áratuga skeið hvatt fólk til að yfirgefa falstrúarbrögðin og snúa sér að sannri tilbeiðslu. (Opinberunarbókin 18:4, 5) Milljónir manna hafa gert það. Spádómur Jesú gefur ekki til kynna að menn hópist til sannrar tilbeiðslu eftir að þrengingin mikla brestur á, enda varð ekkert fjöldatrúhvarf meðal Gyðinga árið 66. Sannkristnir menn fá hins vegar sterka hvatningu til að fara eftir viðvörun Jesú og flýja.
22. Hvað getur það falið í sér að fara eftir orðum Jesú um að flýja til fjalla?
22 Við þekkjum ekki á þessari stundu öll smáatriði í sambandi við þrenginguna miklu, en það er rökrétt að ætla að flóttinn, sem Jesús talaði um, sé ekki flótti frá einum stað til annars. Fólk Guðs er að finna í öllum heimshornum, nánast á hverju byggðu bóli. Við getum hins vegar verið viss um að þegar nauðsynlegt reynist að flýja verða kristnir menn að viðhalda hinum skýra mun á sér og falstrúarsamtökum. Það er líka eftirtektarvert að Jesús varaði fylgjendur sína við að fara heim til að sækja yfirhöfn sína eða aðra muni. (Matteus 24:17, 18) Það gæti því reynt á viðhorf okkar til efnislegra hluta í framtíðinni. Eru þeir okkur mikilvægari en allt annað eða er það hjálpræði allra, sem standa Guðs megin, sem skiptir mestu máli? Flóttinn getur haft í för með sér einhverjar þrengingar og skort. Við verðum að vera tilbúin að gera hvaðeina sem til þarf eins og trúbræður okkar á fyrstu öld sem flúðu frá Júdeu til Pereu handan Jórdanar.
23, 24. (a) Hvar er einu verndina að fá? (b) Hvaða áhrif ætti viðvörun Jesú um ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað‘ að hafa á okkur?
23 Við verðum að vera örugg um að við höldum áfram að leita hælis hjá Jehóva og skipulagi hans sem líkja má við fjall. (2. Samúelsbók 22:2, 3; Sálmur 18:3; Daníel 2:35, 44) Það er þar sem við hljótum vernd. Við líkjum ekki eftir fjöldanum sem felur sig „í hellum og í hömrum fjalla“ — leitar verndar hjá samtökum og stofnunum manna sem kunna að standa um skamma hríð eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu. (Opinberunarbókin 6:15; 18:9-11) Vissulega geta erfiðleikarnir vaxið eins og hlýtur að hafa verið árið 66 hjá þunguðum konum sem flúðu Júdeu og hjá hverjum þeim sem þurfti að leggja land undir fót í kulda og regni. En við getum verið viss um að Guð gerir okkur kleift að bjargast. Við skulum því styrkja traust okkar á Jehóva og son hans er ríkir nú sem konungur Guðsríkis.
24 Við höfum enga ástæðu til að hafa beyg af því sem framundan er. Jesús vildi ekki að lærisveinar sínir á þeim tíma væru óttaslegnir, og hann vill ekki að við séum óttaslegin núna eða í framtíðinni. Hann hefur gert okkur viðvart til að við getum verið undirbúin í huga og hjarta. Þegar allt kemur til alls er ekki verið að refsa hlýðnum kristnum mönnum þegar eyðingin kemur yfir falstrúarbrögðin og hið illa heimskerfi í heild sinni. Þeir halda vöku sinni og hlýða viðvöruninni um ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað.‘ Og þeir verða einbeittir í óhagganlegri trú sinni. Gleymum aldrei hverju Jesús lofaði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Markús 13:13.
[Neðanmáls]
a „Gunnfána Rómverja var gætt með trúarlegri lotningu í hofum Rómar, og lotning þeirra fyrir gunnfánum sínum var í beinu hlutfalli við yfirburði þeirra yfir aðrar þjóðir . . . [Í augum hermanna var hann] ef til vill helgasti hlutur jarðar. Rómverskur hermaður sór við gunnfána sinn.“ — The Encyclopædia Britannica, 11. útgáfa.
b Rétt er að minna á að enda þótt uppfylling orða Jesú á árunum 66-70 geti varpað ljósi á uppfyllingu þeirra í þrengingunni miklu geta þessar tvær uppfyllingar ekki verið að öllu leyti hliðstæðar af því að umgjörðin er önnur.
c Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. desember 1975, bls. 741-4.
Manstu?
◻ Hvernig birtist „viðurstyggð eyðingarinnar“ á fyrstu öld?
◻ Af hverju er rökrétt að „viðurstyggð“ nútímans standi ekki enn þá á helgum stað?
◻ Hvaða árás ‚viðurstyggðarinnar‘ er spáð í Opinberunarbókinni?
◻ Hvers konar ‚flótti‘ kann að vera nauðsynlegur hjá okkur í framtíðinni?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Babýlon hin mikla er kölluð „móðir hórkvenna.“
[Mynd á blaðsíðu 25]
Skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar er ‚viðurstyggðin‘ sem Jesús talaði um.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Skarlatsrauða dýrið mun ráðast á trúarbrögðin og eyða þeim.