Barneignir meðal þjóna Guðs
„[Jehóva] . . . gjöri yður þúsund sinnum fleiri.“ — 5. MÓSEBÓK 1:11.
1. Hvernig talar Biblían um barneignir?
„SJÁ, synir eru gjöf frá [Jehóva], ávöxtur móðurkviðarins er umbun. Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku. Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim.“ Svo segir í Sálmi 127:3-5. Barneignir eru dásamleg sérréttindi sem skaparinn Jehóva gaf fyrstu hjónunum og afkomendum þeirra. — 1. Mósebók 1:28.
Barneignir í Ísrael
2. Hvers vegna voru stórar fjölskyldur taldar eftirsóknarverðar meðal afkomenda Abrahams, Ísaks og Jakobs?
2 Stórar fjölskyldur voru taldar mjög eftirsóknarverðar meðal afkomenda Abrahams í gegnum Ísak og Jakob. Jafnvel börn fædd aukaeiginkonum og hjákonum voru talin skilgetin. Svo var um suma af sonum Jakobs er urðu ættfeður hinna tólf ættkvísla Ísraels. (1. Mósebók 30:3-12; 49:16-21; samanber 2. Kroníkubók 11:21.) Enda þótt Guð hafi í upphafi ætlað þjónum sínum að búa við einkvæni umbar hann fjölkvæni og hjákonuhald meðal afkomenda Abrahams, og það stuðlaði að örari aukningu þeirra en ella hefði verið. Ísraelsmenn áttu að verða ‚lýður sem er margur eins og duft jarðar.‘ (2. Kroníkubók 1:9; 1. Mósebók 13:14-16) Af þeirri þjóð átti að fæðast hið fyrirheitna ‚sæði‘ sem „allar þjóðir á jörðinni“ áttu að hljóta blessun fyrir. — 1. Mósebók 22:17, 18; 28:14; 5. Mósebók 1:10, 11.
3. Hvaða ástand ríkti í Ísrael í stjórnartíð Salómons?
3 Augljóst er að barneignir voru í Ísrael skoðaðar sem tákn um blessun Jehóva. (Sálmur 128:3, 4) Rétt er þó að taka eftir því að inngangsorð þessarar greinar, sem tekin eru úr Sálmi 127, skrifaði Salómon konungur og stjórnartíð hans var lengst af mikið sældarskeið í sögu Ísraels. Biblían segir um það tímabil: „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir. . . . Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan [í norðri] til Beerseba [í suðri], alla ævi Salómons.“ — 1. Konungabók 4:20, 25.
Erfiðir tímar fyrir börn í Ísrael
4, 5. (a) Hvers vegna voru barneignir ekki alltaf til gleði í Ísrael? (b) Hvaða átakanleg atvik áttu sér stað að minnsta kosti tvisvar í sögu Jerúsalem?
4 Á sumum öðrum tímabilum í sögu Ísraels voru barneignir allt annað en gleði og fögnuður. Um þær mundir sem Jerúsalem var eytt fyrra sinnið skrifaði spámaðurinn Jeremía: „Augu mín daprast af gráti . . . er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar. . . . Eiga konur að eta lífsafkvæmi sín, börnin sem þær bera á örmum?“ „Viðkvæmar konur suðu með eigin höndum börnin sín.“ — Harmljóðin 2:11, 20; 4:10.
5 Svo virðist sem svipaðir, átakanlegir atburðir hafi átt sér stað nálega sjö öldum síðar. Sagnaritarinn Jósefus, sem var Gyðingur, segir að í umsátrinu um Jerúsalem árið 70 hafi börn hrifsað mat úr munni feðra sinna og mæður úr munni smábarna sinna. Hann greinir frá því hvernig gyðingakona drap barnið sitt, sem hún bar á brjósti, steikti og át hluta þess. Það að ala börn í heim Gyðinganna á árunum áður en dómi Jehóva gegn Júda og Jerúsalem var fullnægt árið 607 f.o.t. og árið 70 gat tæplega skoðast sem ábyrg afstaða.
Barneignir meðal frumkristinna manna
6, 7. (a) Hvað afnam Jesús meðal kristinna manna? (b) Með hvaða hætti átti hinn andlegi Ísrael að vaxa og hvað sannar að svo var?
6 Hvernig var litið á barneignir meðal frumkristinna manna? Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að Jesús afnam fjölkvæni og hjákonuhald meðal lærisveina sinna. Hann reisti við að nýju upprunalegan staðal Jehóva, einkvæni, sem sé að vera skyldi einn maður og ein kona í hjónabandi. (Matteus 19:4-9) Ísrael að holdinu hafði fjölgað vegna barneigna, en andlega Ísraelsþjóðin átti að vaxa með því að gera menn að lærisveinum. — Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8.
7 Ef kristni söfnuðurinn hefði átt að vaxa fyrst og fremst vegna barneigna hefði Jesús ekki hvatt lærisveina sína til að ‚höndla‘ einhleypi „vegna himnaríkis.“ (Matteus 19:10-12) Þá hefði Páll postuli ekki skrifað: „Sá gerir einnig vel sem gefur sveindóm sinn í hjónaband, en sá gerir betur sem gefur hann ekki í hjónaband.“ — 1. Korintubréf 7:38, NW.
8. Hvað sýnir að fjölmargir frumkristnir menn voru giftir og áttu börn?
8 Hvorki Jesús né Páll gerðu kröfu til einhleypis, þótt þeir hvettu til þess sakir þjónustunnar við Guðsríki. Báðir vissu að sumir kristnir menn myndu ganga í hjónaband. Eðlilega myndu ýmsir þeirra eignast börn. Kristnu Grísku ritningarnar veita nokkrum sinnum bein heilræði varðandi barnauppeldi. (Efesusbréfið 6:1-4; Kólossubréfið 3:20, 21) Ef öldungar eða safnaðarþjónar voru kvæntir áttu þeir að vera fyrirmyndarfeður. — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 12.
9. Hvernig gátu barneignir verið sumum kristnum konum til verndar, að sögn Páls postula, en hvers myndu þær þurfa að auki?
9 Páll postuli sagði jafnvel að barneignir gætu verið sumum kristnum konum til verndar. Í umræðu sinni um neyðarhjálp til þurfandi ekkna sagði hann: „Tak ekki við ungum ekkjum. . . . [Þær] temja . . . sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala. Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis. Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.“ Slíkar konur gætu ‚orðið hólpnar sakir barnsburðarins, ef þær stæðu stöðugar í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.‘ — 1. Tímóteusarbréf 5:11-15; 2:15.
‚Þrenging í holdinu‘
10. Hvaða önnur ráð og ólík gaf Páll ekkjum í fyrra bréfi sínu til Korintumanna?
10 Þó er eftirtektarvert að í fyrra bréfi sínu til Korintumanna stakk Páll upp á ólíkri lausn fyrir sumar ekkjur. Hann skilyrti ráð sín um hjónaband með því að hann hefði gefið þau „í tilhliðrunarskyni.“ Hann skrifaði: „Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd. Þó er hún [ekkjan] sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.“ — 1. Korintubréf 7:6, 8, 9, 40.
11. (a) Hvað myndu þeir sem gengju í hjónaband fá að reyna og hvernig varpar millivísun við 1. Korintubréf 7:28 ljósi á það? (b) Hvað átti Páll við þegar hann sagði „Ég vildi hlífa yður“?
11 Páll gefur nánari skýringu: „Þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.“ (1. Korintubréf 7:28) Varðandi slíka ‚þrengingu hér á jörð‘ er í Nýheimsþýðingunni millivísun á spássíu í 1. Mósebók 3:16 þar sem við lesum: „Við konuna sagði hann [Jehóva]: ‚Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.‘“ Auk hugsanlegra erfiðleika í hjónabandi er ‚þrenging‘ þeirra sem giftast vafalaust einnig tengd vandamálum samfara barnsburði. Þótt Páll hafi hvorki lagt bann við hjónabandi né barneignum taldi hann sér greinilega skylt að vara kristna bræður sína við að slíkt gæti haft í för með sér erfiðleika og truflun sem gæti hindrað þá í þjónustunni við Jehóva.
„Tíminn er orðinn stuttur“
12. Hvaða ráð gaf Páll postuli giftum kristnum mönnum og hvers vegna?
12 Á fyrstu öld okkar tímatals nutu kristnir menn ekki frelsis til að lifa eins og fólkið í heiminum. Lífsviðhorf þeirra hlaut að hafa áhrif jafnvel á hjónaband þeirra. Páll skrifaði: „En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki, . . . og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok. En ég vil að þér séuð áhyggjulausir. . . . Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.“ — 1. Korintubréf 7:29-35.
13. Í hvaða skilningi var ‚tíminn orðinn stuttur‘ fyrir kristna menn á fyrstu öld?
13 Biblíufræðimaðurinn Frédéric Godet skrifaði: „Þeir sem ekki eru í trúnni álíta öruggt að heimurinn standi óendanlega en kristinn maður hefur alltaf fyrir hugskotssjónum hinn mikla atburð sem hann væntir, nærveruna [Krists].“ Kristur hafði gefið lærisveinum sínum táknið um ‚nærveru‘ sína og aðvarað þá: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Matteus 24:3, 42) Tíminn, sem var eftir, var orðinn „stuttur“ á þann veg að kristnir menn á fyrstu öld urðu í sífellu að vænta komu Krists. Auk þess vissu þeir ekki hve langan tíma hver og einn þeirra hafði til umráða áður en „tími og tilviljun“ svipti þá lífinu og þar með sérhverjum möguleika á að ‚gjöra köllun sína vissa.‘ — Prédikarinn 9:11; 2. Pétursbréf 1:10.
14. (a) Hvernig ber að skilja Matteus 24:19? (b) Hvernig varð aðvörun Jesú merkingarþrungnari eftir því sem árið 66 nálgaðist?
14 Það var sérstaklega þýðingarmikið fyrir kristna menn í Júdeu og Jerúsalem að ‚vaka.‘ Þegar Jesús varaði við síðari eyðingu Jerúsalemborgar sagði hann: „Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.“ (Matteus 24:19) Að vísu var Jesús ekki að segja kristnum mönnum á fyrstu öld að þeir ættu ekki að eignast börn. Hann var einfaldlega að mæla fram spádómlegan sannleika þess efnis, að þegar táknið um eyðingu Jerúsalem birtist yrði skyndilegur flótti erfiðari fyrir þungaðar konur eða þær sem ættu ungbörn. (Lúkas 19:41-44; 21:20-23) En þegar ókyrrðin jókst meðal Gyðinga í Júdeu á árunum fyrir 66, hefur aðvörun Jesú vafalaust komið upp í huga frumkristinna manna og haft áhrif á viðhorf þeirra til þess að fæða börn í þennan erfiða heim.
Barneignir nú á tímum
15, 16. (a) Hvernig er ‚tíminn orðinn stuttur‘ fyrir kristna nútímamenn? (b) Hvaða spurninga ættu kristnir menn að spyrja sig?
15 Í ljósi þess sem á undan er komið, hvernig ættu kristnir menn að líta á hjónaband og barneignir nú á dögum, á ‚tíma endalokanna‘? (Daníel 12:4) Það er sannara en nokkru sinni fyrr að ‚heimurinn í núverandi mynd er að líða undir lok.‘ — 1. Korintubréf 7:31.
16 Meira en nokkru sinni fyrr er ‚tíminn orðinn stuttur‘ núna. Aðeins skammur tími er eftir fyrir þjóna Jehóva til að ljúka því starfi sem hann hefur falið þeim, það er að segja: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessu starfi þarf að ljúka áður en endirinn kemur. Það er því við hæfi að kristnir menn spyrji sig hvaða áhrif það að ganga í hjónaband eða, ef þeir eru í hjónabandi, hvaða áhrif barneignir geti haft á hlut þeirra í þessu áríðandi starfi.
Fordæmi úr fyrndinni
17. (a) Hvaða verki urðu Nói og synir hans þrír að ljúka fyrir flóðið og hve langan tíma má ætla að það hafi tekið? (b) Hver kann að vera orsök þess að synir Nóa og eiginkonur þeirra létu vera að eignast börn fyrir flóðið?
17 Jesús líkti „komu Mannssonarins“ við ‚daga Nóa.‘ (Matteus 24:37) Nói og synir hans þrír höfðu sérstakt verk að vinna áður en flóðið kom. Það verk var að smíða risastóra örk og prédika. (1. Mósebók 6:13-16; 2. Pétursbréf 2:5) Þegar Jehóva gaf fyrirmæli um smíði arkarinnar virðist sem synir Nóa hafi þegar verið kvæntir. (1. Mósebók 6:18) Við vitum ekki með vissu hve lengi smíði arkarinnar stóð, en líklegt virðist að hún hafi tekið nokkra áratugi. Athyglisvert er að öll þessi ár fyrir flóðið eignuðust synir Nóa og konur þeirra ekki börn. Pétur postuli tekur sérstaklega fram að ‚átta sálir hafi frelsast í vatninu,‘ það er að segja fern barnlaus hjón. (1. Pétursbréf 3:20) Tvær ástæður kunna að hafa legið fyrir því að þau eignuðust ekki börn. Í fyrsta lagi var í nánd eyðing í heimsflóði og Guð hafði falið þeim verk að vinna sem krafðist óskiptrar athygli þeirra. Í öðru lagi þótti þeim vafalaust ekki fýsilegt að fæða börn í heim þar sem „illska mannsins var mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,“ heim sem var ‚fullur af glæpaverkum.‘ — 1. Mósebók 6:5, 13.
18. Hvernig er afstaða sona Nóa og eiginkvenna þeirra umhugsunarefni þótt hún sé ekki sett sem regla?
18 Með þessu er ekki verið að segja að afstaða sona Nóa og eiginkvenna þeirra fyrir flóðið eigi að vera hjónum meðal ‚annarra sauða‘ nútímans einhver regla. Engu að síður getur fordæmi þeirra verið umhugsunarefni, þar eð Jesús líkti dögum Nóa við þá tíma sem við nú lifum.
„Örðugar tíðir“
19. (a) Hvað er líkt með okkar tímum og dögum Nóa? (b) Hvað sagði Páll fyrir um síðustu daga og hvernig varðar spádómur hans barneignir?
19 Eins og Nói og fjölskylda hans búum við líka í ‚heimi hinna óguðlegu.‘ (2. Pétursbréf 2:5) Eins og þau lifum við ‚síðustu daga‘ óguðlegs heimskerfis sem er í þann mund að tortímast. Páll postuli sagði fyrir að „á síðustu dögum“ kerfis Satans myndu koma „örðugar tíðir.“ Hann benti meðal annars á að barnauppeldi yrði erfitt á þessum örðugu tímum og sagði að börn yrðu ‚foreldrum óhlýðin.‘ Hann sagði að fólk almennt, þar með talin börn og unglingar, yrði ‚vanþakklátt, vanheilagt, kærleikslaust.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þótt Páll hafi verið að spá hér um ástandið meðal fólks í heiminum „á síðustu dögum“ er augljóst að útbreidd viðhorf af þessu tagi hljóta að gera barnauppeldi erfitt fyrir kristna menn, eins og raunar margir hafa reynt.
20. Hvað verður skoðað í greininni sem fylgir?
20 Af framansögðu má ljóst vera að nauðsynlegt er að hafa öfgalaust viðhorf til barneigna. Þótt börn geti veitt foreldrum sínum margvíslega gleði geta þau líka fært þeim sorgir og sársauka. Sumt af því verður skoðað í greininni sem á eftir fer.
Upprifjun
◻ Hvers vegna var litið á barneignir sem blessun í Forn-Ísrael?
◻ Hvað gefur til kynna að barneignir hafi stundum verið Gyðingum til sorgar og erfiðleika?
◻ Með hvaða hætti átti andlegu Ísraelsþjóðinni að fjölga?
◻ Í hvaða skilningi var ‚tíminn orðinn stuttur‘ fyrir frumkristna menn?
◻ Hver kann að vera ástæðan fyrir því að synir Nóa og konur þeirra eignuðust ekki börn fyrir flóðið og hvað má segja um ástandið nú á dögum?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Snöggur flótti frá Jerúsalem hefur verið sýnu erfiðari fyrir þá sem áttu ungbörn.