Lausnin er í nánd — fyrir atbeina Guðsríkis
„Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — MATT. 6:10.
1. Hver var kjarninn í kennslu Jesú?
ÞEGAR Jesús Kristur flutti fjallræðuna kenndi hann fylgjendum sínum bæn sem dró saman kjarnann í kennslu hans. Hann hvatti þá til að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9-13) Jesús fór „borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki“. (Lúk. 8:1) Fylgjendur hans áttu að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘. (Matt. 6:33) Þegar þú lest þessa grein skaltu hugleiða hvernig þú getur nýtt þér efnið í boðunarstarfinu. Veltu til dæmis fyrir þér hvernig þú myndir svara þessum spurningum: Hve mikilvægur er boðskapurinn um ríkið? Frá hverju þarf að leysa mannkynið? Og hvernig mun Guðsríki veita lausn?
2. Hve mikilvægur er boðskapurinn um ríkið?
2 Jesús spáði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ (Matt. 24:14) Fagnaðarerindið um Guðsríki er afar mikilvægt. Það er mikilvægasti boðskapur sem hægt er að flytja. Um sjö milljónir votta Jehóva í meira en 100.000 söfnuðum um allan heim taka þátt í boðunarstarfi sem á sér enga hliðstæðu. Þeir boða öðrum að Guðsríki sé stofnsett. Það eru fagnaðartíðindi vegna þess að það þýðir að Guð hefur sett á fót stjórn á himnum sem á að fara með full yfirráð yfir jörðinni. Undir þessari stjórn verður vilji Jehóva gerður á jörðinni eins og á himnum.
3, 4. Hvað hefur það í för með sér þegar vilji Guðs nær fram að ganga á jörðinni?
3 Hvaða áhrif hefur það á mannkynið þegar vilji Guðs nær fram að ganga á jörðinni? Jehóva mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til“. (Opinb. 21:4) Fólk mun hvorki veikjast né deyja vegna erfðasyndar og ófullkomleika. Hinir dánu, sem eru í minni Guðs, fá tækifæri til að lifa að eilífu vegna þess að í Biblíunni er lofað að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Post. 24:15) Aldrei framar verða stríð, sjúkdómar eða hungur. Jörðinni verður breytt í paradís. Dýr, sem eru manninum hættuleg núna, munu jafnvel lifa í friði við mennina og hvert við annað. — Sálm. 46:10; 72:16; Jes. 11:6-9; 33:24; Lúk. 23:43.
4 Fyrst Guðsríki hefur svona stórkostlega blessun í för með sér er engin furða að Biblían skuli lýsa framtíðinni með þessum fallegu orðum: „Hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ En hvað verður um þá sem valda ófriði og skaða? Í Biblíunni segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn.“ Hins vegar munu „þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar“. — Sálm. 37:9-11.
5. Hvað verður um núverandi heimskerfi?
5 Til að þetta geti gerst verður núverandi heimskerfi að víkja ásamt stríðandi stjórnum sínum, trúarbrögðum og viðskiptastarfsemi. Og himneska stjórnin mun einmitt koma því til leiðar. Daníel spámanni var innblásið að skrifa: „Á dögum þessara konunga [sem nú eru uppi] mun Guð himnanna magna upp ríki [á himnum] sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum [núverandi] ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ (Dan. 2:44) Guðsríki — ný himnesk stjórn — mun þá ríkja yfir nýju mannfélagi á jörð. Þá verður ‚nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr‘.— 2. Pét. 3:13.
Brýnni þörf á lausn en áður
6. Hvernig lýsir Biblían illsku mannanna?
6 Átakanleg saga mannkyns hófst þegar Satan, Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Guði og vildu ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. Áður en flóðið skall á meira en 1600 árum síðar var „illska mannanna . . . mikil orðin á jörðinni og . . . allar hneigðir þeirra og langanir snerust ætíð til ills“. (1. Mós. 6:5) Um 1300 árum eftir það var ástandið orðið svo slæmt að Salómon skrifaði: „Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá sem löngu eru dánir, sælli en hina lifandi, þá sem enn eru uppi, en þann sælli þeim báðum sem enn er ekki fæddur og ekki hefur litið ódæðin sem framin eru undir sólinni.“ (Préd. 4:2, 3) Og núna, 3000 árum seinna, er ekkert lát á illskunni.
7. Af hverju hefur aldrei verið brýnna en nú að Guð grípi í taumana?
7 Þótt illskan hafi lengi verið við lýði hefur aldrei verið brýnna en nú að Guð grípi í taumana. Ástandið hefur aldrei verið verra en síðastliðin 100 ár og það heldur áfram að versna. Til dæmis segir í skýrslu frá Worldwatch-stofnuninni: „Þrefalt fleiri féllu í styrjöldum á [tuttugustu] öldinni en í öllum styrjöldum frá fyrstu öld e.Kr. til 1899.“ Meira en 100 milljónir manna hafa fallið í styrjöldum frá 1914. Í alfræðiorðabók segir að allt að 60 milljónir manna hafi látið lífið í seinni heimsstyrjöldinni. Nú ráða sumar þjóðir yfir kjarnavopnum svo að mennirnir hafa möguleika á að útrýma stórum hluta jarðarbúa. Og þótt miklar framfarir hafi orðið í vísindum og læknisfræði verða fimm milljónir barna hungri að bráð á hverju ári. — Sjá 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?
8. Hvað hefur stjórn manna síðustu árþúsundir sýnt rækilega fram á?
8 Manninum hefur mistekist að stemma stigu við illskunni. Stjórnmálaöfl, efnahagskerfi og trúarstofnanir þessa heims hafa aldrei getað fullnægt þeirri frumþörf mannsins að búa við frið, farsæld og góða heilsu. Þessum stofnunum hefur ekki tekist að leysa þau gríðarlegu vandamál sem mannkynið á við að stríða heldur hafa aðeins gert illt verra. Stjórn manna síðustu árþúsundir hefur sýnt rækilega fram á sannleiksgildi orðanna í Jeremía 10:23: „Enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum.“ Já, „einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu“. (Préd. 8:9) „Öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ — Rómv. 8:22.
9. Við hvaða ástandi búast kristnir menn á „síðustu dögum“?
9 Í Biblíunni er spáð um okkar daga: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“ Eftir að hafa lýst ástandinu á síðustu dögum mennskra stjórna segir í spádómnum: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.) Þetta kemur kristnum mönnum ekki á óvart því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“, Satans. (1. Jóh. 5:19) En það er gott til þess að vita að bráðum mun Guð leysa þá sem elska hann undan þessu ástandi. Þeir verða frelsaðir frá þessum heimi sem sífellt magnast í vonskunni.
Eina áreiðanlega vonin um lausn
10. Af hverju er Jehóva eina áreiðanlega vonin um lausn?
10 Þegar þú boðar fagnaðarerindið skaltu benda á að Jehóva sé eina áreiðanlega vonin um lausn. Hann einn hefur máttinn og viljann til að frelsa þjóna sína frá hvaða aðstæðum sem er. (Post. 4:24, 31; Opinb. 4:11) Við getum verið viss um að Jehóva muni alltaf frelsa fólk sitt og hrinda vilja sínum í framkvæmd því að hann hefur svarið: „Það sem ég hef fyrirhugað verður.“ Orð hans „hverfur ekki aftur til [hans] við svo búið“ heldur nær alltaf fram að ganga. — Lestu Jesaja 14:24, 25; 55:10, 11.
11, 12. Hvað ábyrgist Guð að gera fyrir þjóna sína?
11 Jehóva hefur ábyrgst að hann muni frelsa þjóna sína þegar hann fullnægir dómi yfir hinum illu. Þegar hann sendi Jeremía til að flytja þverúðugum syndurum boðskap sinn sagði hann: „Þú skalt ekki óttast þá.“ Af hverju ekki? „Því að ég er með þér til að bjarga þér.“ (Jer. 1:8) Þegar Jehóva ætlaði að eyða Sódómu og Gómorru sökum illsku borgarbúa sendi hann tvo engla til að fylgja Lot og fjölskyldu hans út af svæðinu. „Þá lét Drottinn rigna yfir Sódómu og Gómorru eldi og brennisteini.“ — 1. Mós. 19:15, 24, 25.
12 Jehóva getur frelsað alla í heiminum sem gera vilja hans. Þegar hann eyddi hinum illa heimi fortíðar í flóðinu „varðveitti [hann] Nóa, boðbera réttlætisins, við áttunda mann“. (2. Pét. 2:5) Jehóva mun líka frelsa hina réttlátu þegar hann eyðir þessum illa heimi sem nú er. Í orði hans segir: „Leitið Drottins, allir hógværir í landinu . . . Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt. Ef til vill veitist yður hæli á reiðidegi Drottins.“ (Sef. 2:3) „Hinir ranglátu verða upprættir“ þegar þessi mikla eyðing á sér stað en „hinir hreinlyndu munu byggja landið“. — Orðskv. 2:21, 22.
13. Hvernig bjargar Jehóva látnum þjónum sínum?
13 Margir þjónar Guðs hafa dáið í tímans rás vegna veikinda, ofsókna og annarra ástæðna. (Matt. 24:9) Hvernig bjargar Jehóva þeim öllum? Eins og minnst var á áður segir í Biblíunni að „upp muni rísa . . . réttlátir“. (Post. 24:15) Það er hughreystandi að vita til þess að ekkert getur komið í veg fyrir að Jehóva frelsi þjóna sína.
Réttlát stjórn
14. Af hverju treystum við að ríki Guðs sé réttlát stjórn?
14 Þegar þú ert í boðunarstarfinu geturðu útskýrt fyrir fólki að himneskt ríki Jehóva sé réttlát stjórn. Ástæðan er sú að ríki hans endurspeglar einstaka eiginleika hans eins og réttlæti og kærleika. (5. Mós. 32:4; 1. Jóh. 4:8) Guð hefur falið stjórnina á hendur Jesú Kristi sem er hæfastur allra til að fara með völd yfir jörðinni. Jehóva hefur ákveðið að 144.000 andasmurðir kristnir menn séu teknir frá jörðinni og reistir upp til lífs á himnum. Þeir eru samerfingjar Krists og munu ríkja yfir jörðinni ásamt honum. — Opinb. 14:1-5.
15. Hvernig er stjórn Guðsríkis í samanburði við stjórn manna?
15 Það verður mikill munur á stjórnarháttum Jesú og hinna 144.000 annars vegar og ófullkominna manna hins vegar. Stjórnendur þessa heimskerfis hafa oft verið grimmir og hafa att þegnum sínum út í stríð þar sem milljónir hafa fallið. Það er engin furða að okkur sé ráðlagt í Biblíunni að treysta ekki mönnum „sem enga hjálp geta veitt“. (Sálm. 146:3) En stjórn Krists verður gerólík. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin,“ sagði Jesús, „og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matt. 11:28-30.
Síðustu dagar eru brátt á enda
16. Hvernig lýkur síðustu dögum?
16 Síðustu dagar þessa heims hafa staðið síðan 1914 og stutt er í að ‚veröldin líði undir lok‘. (Matt. 24:3) Innan skamms brestur á sú „mikla þrenging“ sem Jesús talaði um. (Lestu Matteus 24:21.) Heimur Satans líður undir lok í þessari þrengingu sem á sér enga hliðstæðu. En hvernig hefst þrengingin mikla? Og hvernig lýkur henni?
17. Hvað gefur Biblían til kynna um upphaf þrengingarinnar miklu?
17 Þrengingin mikla hefst skyndilega. „Dagur Drottins“ kemur óvænt „þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta.‘“ (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.) Þrengingin hefst þegar þjóðirnar halda að þær séu við það að leysa sum af stóru vandamálunum. Skyndileg eyðing ‚Babýlonar hinnar miklu‘, heimsveldis falskra trúarbragða, kemur heiminum í opna skjöldu. Valdamenn og aðrir verða forviða þegar dómi verður fullnægt yfir Babýlon hinni miklu. — Opinb. 17:1-6, 18; 18:9, 10, 15, 16, 19.
18. Hvað gerir Jehóva þegar Satan ræðst á fólk hans?
18 Á úrslitastundu verða „tákn . . . á sólu, tungli og stjörnum“ og „þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni“. Þá getum við ‚rétt úr okkur og borið höfuðið hátt því að lausn okkar er í nánd‘. (Lúk. 21:25-28; Matt. 24:29, 30) Satan, einnig nefndur Góg, mun leggja til atlögu gegn fólki Guðs. En Jehóva segir við trúfasta þjóna sína þegar ráðist er á þá: „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt.“ (Sak. 2:12) Satan tekst því ekki að tortíma þeim. Af hverju? Af því að alvaldur Drottinn Jehóva bregst skjótt við til að bjarga þjónum sínum. — Esek. 38:9, 18.
19. Hvers vegna getum við treyst því að aftökusveitir Guðs eyði heimskerfi Satans?
19 Þegar Guð ræðst til atlögu gegn þjóðunum munu þær ‚skilja að hann er Drottinn‘ Jehóva. (Esek. 36:23) Hann mun senda aftökusveitir sínar — ótal andaverur undir forystu Jesú Krists — til að eyða því sem eftir stendur af heimskerfi Satans. (Opinb. 19:11-19) Munum að það þurfti aðeins einn engil til að eyða „hundrað áttatíu og fimm þúsund“ óvinum Guðs á einni nóttu. Við getum því treyst að þegar þrengingin mikla nær hámarki í Harmagedón muni hin himneska hersveit eyða heimi Satans svo að ekki verður eftir tangur né tetur. (2. Kon. 19:35; Opinb. 16:14, 16) Satan og djöflum hans verður kastað í undirdjúp þar sem þeir verða í þúsund ár. Að lokum verður þeim eytt. — Opinb. 20:1-3.
20. Hverju áorkar Jehóva fyrir atbeina ríkis síns?
20 Illskan verður fjarlægð af himni og jörð og réttlátir menn munu lifa að eilífu á jörðinni. Jehóva hefur þá sýnt sinn mikla mátt og frelsað þjóna sína. (Sálm. 145:20) Fyrir atbeina Guðsríkis mun hann verja drottinvald sitt, helga nafn sitt og láta vilja sinn með jörðina ná fram að ganga. Við vonum að þú hafir mikla ánægju af því að boða þessi gleðitíðindi og hjálpa þeim sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ til að átta sig á að lausnin er í nánd fyrir atbeina Guðsríkis. — Post. 13:48, NW.
Manstu?
• Hvernig lagði Jesús áherslu á mikilvægi Guðsríkis?
• Af hverju hefur aldrei verið brýnni þörf á lausn en nú?
• Hvaða atburða megum við vænta í þrengingunni miklu?
• Hvernig frelsar Jehóva þjóna sína?
[Myndir á blaðsíðu 12, 13]
Í orði Guðs var sagt fyrir að á okkar dögum yrði fagnaðarerindið prédikað í áður óþekktum mæli um allan heim.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jehóva getur frelsað okkur eins og hann frelsaði Nóa og fjölskyldu.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Jehóva „mun þerra hvert tár. . . og dauðinn mun ekki framar til vera“. — Opinb. 21:4.