Höldum fast við skipulag til björgunar inn í þúsundáraríkið
„Það verður ein hjörð, einn hirðir.“ — JÓHANNES 10:16.
1. Hvernig skynjar hinn eilífi Guð þúsund ár?
JEHÓVA er skapari tímans. Gagnvart honum, hinum ódauðlega Guði sem er frá eilífð til eilífðar, eru þúsund ár rétt eins og dagur sem líður í skyndi eða jafnvel eins og stutt næturvaka miðað við okkar tímaskyn. — Sálmur 90:4; 2. Pétursbréf 3:8.
2. Hve langan tíma hefur Guð afmarkað til að blessa allt mannkyn?
2 Guð hefur sett táknrænan dag, sem er þúsund ára langur, til að blessa allar fjölskyldur jarðar. (1. Mósebók 12:3; 22:17, 18; Postulasagan 17:31) Sú blessun nær til bæði núlifandi manna og þeirra sem dánir eru. Hvernig fer Guð að því? Hann notar til þess ríki sitt í höndum Jesú Krists, „sæði“ táknrænnar konu sinnar. — 1. Mósebók 3:15.
3. (a) Hvernig fékk sæði konu Guðs hælmar en hvernig var sárið læknað? (b) Hvað mun Jesús Kristur gera við hinn táknræna höggorm við lok þúsundáraríkisins?
3 Sæði táknrænnar konu Guðs (hins himneska skipulags hans) fékk táknrænt hælmar þegar Jesús Kristur dó píslarvættisdauða og lá í gröf sinni hluta úr þrem dögum árið 33. En á þriðja degi læknaði alvaldur Guð, lífgjafinn mikli, þetta sár með því að reisa drottinhollan son sinn upp til ódauðleika á andlegu tilverusviði. (1. Pétursbréf 3:18) Þar eð Jesús mun aldrei deyja framar er hann í aðstöðu til að ríkja sem konungur yfir mannkyninu um þúsund ár og „merja“ höfuð hins táknræna höggorms þannig að hann tortímist algerlega eftir að þúsundáraríkinu lýkur. Það verður stórfengleg blessun fyrir trúfast, endurreist mannkyn!
4. Hvað hefur Guð látið þjóna sína gera?
4 Mikið skipulagsstarf hefur verið unnið meðal þjóna Jehóva um allan heim núna á ‚endalokatíma veraldar‘ frá lokum heiðingjatímanna árið 1914. (Matteus 24:3; Lúkas 21:24) Þetta skipulagsstarf fyrir tilkomu þúsundáraríkisins fer fram í samræmi við vilja hins mikla skipulagsfrömuðar, Jehóva Guðs, og undir hans handleiðslu. Árið 1914 fæddi kona Jehóva, himneskt skipulag hans sem líkt er eiginkonu, hið fyrirheitna ríki í höndum Jesú Krists eins og uppfylling biblíuspádómanna ber með sér.
5. Hvaða fæðing var sögð fyrir í Opinberunarbókinni 12:5 og hvenær var hún fyrst skýrð í Varðturninum?
5 Þannig hafa ræst með stórkostlegum hætti orð Opinberunarbókarinnar 12:5: „Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.“ Fæðing ríkis Jehóva í höndum Krists, sem hið nýfædda barn konu Guðs táknar, var fyrst útskýrð í enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. mars 1925. Fæðing Messíasarríkisins á himnum árið 1914 er ekki hið sama og fæðing ‚þjóðar‘ Síonar, ‚barna‘ hennar á jörðinni árið 1919. — Jesaja 66:7, 8.
6. (a) Hvaða starf í tengslum við fæðingu Guðsríkis hafði Jesús sagt fyrir? (b) Hvers krafðist það af þjónum Jehóva og hver hefur árangurinn orðið?
6 Fæðing ríkis Jehóva, sem hann mun nota til að upphefja réttmætt drottinvald sitt yfir alheimi, voru tíðindi sem verðskulduðu að þau yrðu kunngerð um alla jörðina! Nú var runninn upp tíminn til að uppfylla þessi orð Jesú sem hluta af tákni nærveru hans: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14) Sameinuð og samstillt prédikun um víða veröld kallaði á það að komið yrði góðu skipulagi á sýnilegan hluta alheimsskipulags Jehóva. Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn, með þáverandi forseta sinn, J. F. Rutherford, sem fulltrúa, gerði sér grein fyrir því. Af þeim sökum var árið 1919 tekið til við markvissa skipulagningu drottinhollra samverkamanna Félagsins sem endurreistrar þjóðar, og leitað til þess leiðsagnar og blessunar hins æðsta skipulagsfrömuðar, Jehóva Guðs. Þrátt fyrir harða mótstöðu fasista, nasistahreyfingar Hitlers og kaþólskra öfgasamtaka á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar sýndu vottar Jehóva um allan heim órofa samstöðu gagnvart óvinveittum heimi.
7. (a) Hvaða samband hver við annan verða þjónar Jehóva að varðveita til að eiga von um að lifa af þrenginguna miklu? (b) Hvernig lifði Nói og fjölskylda hans af heimsflóðið og hverja táknuðu þau?
7 Einungis vottar Jehóva, hin einhuga samtök hinna smurðu leifa og ‚múgsins mikla‘ undir verndarhendi skipulagsfrömuðarins mikla, hafa nokkra von byggða á biblíulegum forsendum um að lifa af yfirvofandi endalok þessa dæmda heimskerfis Satans djöfulsins. (Opinberunarbókin 7:9-17; 2. Korintubréf 4:4) Þeir eru þeir ‚menn‘ sem Jesús Kristur sagði mundu koma lifandi út úr verstu þrengingu allrar mannkynssögunnar. Jesús sagði að vera myndi við opinberun hans eins og var á dögum Nóa. Inni í örkinni, sem hafði kostað margra ára skipulagningu og samstillta vinnu, lifðu einungis átta mannssálir af heimsflóðið. Þær björguðust sem sameinuð fjölskylda. (Matteus 24:22, 37-39; Lúkas 17:26-30) Kona Nóa svarar til brúðar Krists og synir hans og tengdadætur til ‚annarra sauða‘ Jesú nú á tímum sem eru orðnir að miklum múgi og við vitum ekki hvað á að verða stór áður en yfir lýkur. (Jóhannes 10:16) Vilji þeir bjargast inn í þúsundáraríkið undir forystu hins meiri Nóa, Jesú Krists, verða þeir að varðveita einingu sína við hinar smurðu leifar, ‚hina útvöldu.‘ Það er vegna hinna úvöldu sem ‚þrengingin mikla‘ verður stytt. — Matteus 24:21, 22.
Björgun inn í þúsundáraríkið
8. Með hvaða dæmisögu lauk Jesús spádómi sínum um nærveru sína og hvaða þýðingu hefur 1. júní 1935 í sambandi við skilning á henni?
8 Samkvæmt Matteusarguðspjalli lauk Jesús spádómi sínum um tákn nærveru sinnar með dæmisögu. Hún er yfirleitt nefnd dæmisagan um sauðina og hafrana og er að uppfyllast núna, á endalokatíma þessa heimskerfis sem hófst við lok heiðingjatímanna árið 1914. (Matteus 25:31-46) Laugardagurinn 1. júní 1935 var merkur dagur, því að þá fengu vottar Jehóva, sem samankomnir voru á móti í Washington, D.C., að vita að sauðirnir í dæmisögunni væru múgurinn mikli. Á þessu móti létu 840 einstaklingar skírast til tákns um vígslu sína til Jehóva Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists. Flestir stigu þetta skref sem svar við ræðu J. F. Rutherfords um Opinberunarbókina 7:9-17. Þeir þráðu að verða hluti af miklum múgi annarra sauða góða hirðisins og öðlast þannig tækifæri til að lifa af hina komandi miklu þrengingu inn í þúsundáraríki hirðisins og konungsins, Jesú Krists. Þar eiga þeir síðan í vændum eilíft líf á jörð sem verður paradís. — Matteus 25:46; Lúkas 23:43.
9. Hvers vegna er sauðunum boðið að taka að erfð ‚ríkið sem þeim var fyrirbúið‘ og hvers vegna eru þeir í bestu aðstöðu til að gera bræðrum konungsins gott?
9 Hvers vegna er hinum sauðumlíku boðið að ‚taka að erfð ríkið sem þeim var búið frá grundvöllun heims?‘ Konungurinn segir þeim að það sé vegna þess að þeir hafi gert gott „bræðrum“ hans og þar með honum. Með orðinu „bræður“ á konungurinn við andlega bræður sína sem enn eru á jörðinni á endalokatíma heimskerfisins. Þeir sem orðnir eru ein hjörð með þessum bræðrum hirðisins og konungsins Jesú Krists reyna að halda sem nánustum tengslum við þá og eru því í bestri aðstöðu til að gera þeim gott. Þeir eru í bestri aðstöðu, jafnvel fjárhagslega, til að hjálpa bræðrum Jesú að prédika boðskapinn um stofnsett ríki Guðs um allan heim áður en endirinn kemur. Sauðirnir meta mikils þau sérréttindi að varðveita einingu sína við leifar litlu hjarðar góða hirðisins.
10. Hvað merkir það að sauðirnir erfi ‚ríkið sem þeim var fyrirbúið frá grundvöllun heims‘?
10 Þótt sauðirnir eigi að ‚taka að erfð ríkið sem þeim var búið‘ merkir það ekki að þeir muni ríkja með Jesú Kristi og bræðrum hans í þúsund ár. Það merkir að þeir munu erfa hið jarðneska yfirráðasvæði þúsundáraríkisins um leið og það gengur í garð. Með því að þeir eru afkomendur Adams og Evu hefur þetta jarðneska tilverusvið, sem Guðsríki í höndum Krists mun taka yfirráð yfir, verið búið þeim „frá grundvöllun heims,“ það er þess mannheims sem hægt er að endurleysa. Auk þess erfa sauðirnir hinn jarðneska hluta Guðsríkis í krafti þess að þeir verða jarðnesk börn konungsins sem verður „Eilífðarfaðir“ þeirra. — Jesaja 9:6, 7.
11. Hvernig gefa sauðirnir til kynna að þeir standi Guðsríkis megin og hvaða blessunar njóta þeir þess vegna?
11 Ólíkt hinum táknrænu höfrum sýna sauðirnir ótvírætt að þeir standa Guðsríkis megin. Hvernig? Ekki aðeins í orðum heldur einnig í verkum. Þar eð konungurinn er ósýnilegur á himnum geta þeir ekki stutt ríki hans með því að gera honum gott persónulega. Þeir gera því gott andlegum bræðrum hans sem enn eru á jörðinni. Enda þótt sauðirnir baki sér hatur, andstöðu og ofsóknir hafranna vegna slíkra góðverka segir konungurinn þeim að þeir njóti ‚blessunar föður hans.‘
12. Hverjum munu hinir eftirlifandi sauðir fá tækifæri til að taka á móti og hvað hafa margir af leifunum hugsað sér í því sambandi?
12 Hinn mikli múgur sauðumlíkra manna, sem gera gott andlegum bræðrum konungsins, mun hljóta þau gleðilegu sérréttindi að lifa af inn í þúsundáraríkið. Þegar þar að kemur munu þeir bjóða þá sem liggja látnir í minningargröfunum velkomna aftur til lífs. (Jóhannes 5:28, 29; 11:23-25) Í þeirra hópi verða hinir trúföstu ættfeður og spámenn sem þjáðust og þoldu svo margt til réttlætingar drottinvaldi Jehóva, í þeim tilgangi að þeir myndu ‚öðlast betri upprisu,‘ ef til vill snemma í þúsundáraríkinu. (Hebreabréfið 11:35) Ellefti kafli Hebreabréfsins nafngreinir hluta þeirra karla og kvenna trúarinnar sem hljóta munu upprisu. Jóhannes skírari er einn þeirra. (Matteus 11:11) Sumir hinna smurðu leifa hafa vonast til að geta lifað áfram á jörðinni — eftir að þrengingin mikla er hjá — nógu lengi til að geta tekið á móti slíkum trúarhetjum, sem dóu fyrir hvítasunnuna árið 33, upprisnum. Munu hinir smurðu njóta þeirra sérréttinda?
13. Hvers vegna er ekki nauðsynlegt að leifarnar séu á sjónarsviðinu til að taka á móti þeim sem rísa upp á jörðinni og annast þá?
13 Það er ekki nauðsynlegt. Hinn mikli múgur, sem lifir af þrenginguna, verður nógu fjölmennur til að annast hina upprisnu og hjálpa þeim að kynnast ‚nýju jörðinni‘ undir ‚nýja himninum.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Nú þegar er verið að búa múginn mikla undir þetta starf. Nú eru eftir á jörðinni innan við 9000 af andlegum bræðrum Krists, og þeir sem eftir lifðu af þeim hópi væru hvort eð er of fáir til að geta annast allan undirbúning hinnar almennu upprisu. (Esekíel 39:8-16) Þar mun múgurinn mikli, sem telur nú milljónir manna, geta þjónað með ágætum og á slík sérréttindi vafalaust í vændum.
14. (a) Fyrir hvað er verið að þjálfa marga af múginum mikla og hvers vegna verða margir þeirra nú að taka á sig ábyrgð? (b) Hvaða atburðir munu eiga sér stað innan skamms og hvaða starf bíður hinna annarra sauða?
14 Nú þegar er verið að þjálfa marga af múginum mikla til ábyrgðarstarfa í söfnuðunum og í þeim byggingarframkvæmdum sem skipulag Guðs stendur fyrir út um allan heim. Það er hvetjandi að sjá fleiri og fleiri þroskaða karlmenn af múginum mikla skipaða til aukinna ábyrgðarstarfa í því skipulagi sem Jehóva á sér nú á jörðinni. Þeir sem eftir eru af hinum smurðu eru farnir að eldast og geta ekki borið jafnþunga byrði og áður. Þessir bræður konungsins eru þakklátir fyrir þá kærleiksríku, skipulagslegu hjálp sem andlega hæfir öldungar og safnaðarþjónar af hinum öðrum sauðum geta veitt. Nú er mjög stutt í það að Babýlon hin mikla hverfi af sjónarsviðinu. Þá mun brúðkaup lambsins og brúðarhópsins alls verða fullkomnað á himnum. Hinir aðrir sauðir, sem mynda nýja jörð undir stjórn nýs himins, munu þá vera fulltrúar konungsins í hinni miklu endurreisn uns öll jörðin verður paradís byggð mönnum til lofs Jehóva. — Jesaja 65:17; samanber Jesaja 61:4-6.
15. Hvað á múgurinn mikli í vændum í þúsundáraríkinu?
15 Í þúsundáraríki Krists, þegar endurleystir, látnir menn fá upprisu, mun múgurinn mikli njóta stórkostlegra sérréttinda og mikils heiðurs. Þeir sem mynda hann munu þá vera synir og dætur konungsins. Sumir þessara sona munu fá tækifæri til að verða höfðingjar á sama hátt og synir Davíðs konungs voru höfðingjar og gegndu ýmiss konar ábyrgð.a Þetta leiðir hugann að Sálmi 45 sem ávarpar smurðan ‚konung‘ Jehóva.
16. Hvern ávarpar Sálmur 45 og hvernig er hægt að sýna fram á það?
16 Hvaða konung er eiginlega verið að ávarpa í Sálmi 45? Auðvitað Jesú Krist! Hebreabréfið 1:9 vitnar í Sálm 45:8 og heimfærir á hann, en þar stendur: „Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.“ Það er því við hinn dýrlega gerða Jesú Krist sem Sálmur 45:17 segir: „Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.“
17. Hverju og hverjum hefur konungurinn Jesús Kristur sérstakan áhuga á?
17 Jesús hefur réttilega meiri áhuga á framtíð sinni sem ríkjandi konungur en fortíð sinni á jörð. Hann gleymir þó auðvitað ekki fortíðinni, og sér í lagi ekki jarðneskum forfeðrum sínum sem eiga hlut í því fyrirheiti Jehóva að blessa allar ættir mannkyns vegna afkvæmis Abrahams. Áhugi hans beinist þó fyrst og fremst að því sem gera skal í nánustu framtíð samkvæmt tilgangi Jehóva Guðs. Jesús mun því hafa meiri áhuga á jarðneskum börnum sínum, einkum þeim sonum sem eru hæfir til að þjóna undir hans stjórn sem höfðingjar — enn meiri áhuga en á jarðneskum forfeðrum sínum.
18. Hvernig undirstrika ýmsar þýðingar á Sálmi 45:17 að Jesús hefur meiri áhuga á sonum sínum sem verða höfðingjar en jarðneskum forfeðrum sínum?
18 Ýmsar biblíuþýðingar draga fram hvernig Jesús mun sýna meiri áhuga þeim sonum sínum, sem verða höfðingjar, en jarðneskum forfeðrum. Nokkrar þeirra orða Sálm 45:17 (vers 16 í ýmsum erlendum útgáfum) þannig: „Synir þínir munu koma í stað feðra þinna og verða höfðingjar yfir öllu landinu.“ (Moffatt) „Synir þínir munu taka stað feðra þinna; þú munt gera þá höfðingja um land allt.“ (The New American Bible) „Í stað feðra þinna fæðast þér börn; þú munt gera þau að höfðingjum yfir allri jörðinni.“ — The Septuagint Version í útgáfu Samuels Bagsters and Sons.
19. Hvaða ábyrgð innan safnaðanna bera ýmsir karlmenn af múginum mikla og í hvaða stöðu getur konungurinn Jesús Kristur skipað þá í þúsundáraríkinu?
19 Það er mikið ánægjuefni að á meðal okkar skuli vera margir, væntanlegir höfðingjar. Þá er að finna meðal hinna annarra sauða sem hlýða á rödd góða hirðisins Jesú Krists. Það hafa þeir gert einkanlega frá 1935 þegar gefin var skýring á Opinberunarbókinni 7:9-17 á móti votta Jehóva í Washington, D.C. Núna þjóna þúsundir manna af þessum mikla múgi sem öldungar eða umsjónarmenn í liðlega 60.000 söfnuðum votta Jehóva í 212 löndum um víða veröld. Með því að varðveita skipulagseiningu sína við leifar andlegra bræðra Krists, sem enn eru á jörðinni, eiga þessir menn í vændum að verða ættleiddir sem andlegir synir konungsins Jesú Krists meðan hann fer með völd yfir nýrri jörð um þúsund ár. (2. Pétursbréf 3:13) Sem slíkir kunna þeir að verða skipaðir höfðingjar til að þjóna á nýju jörðinni.
20. (a) Hvaða viðhorf mun konungurinn hafa til þeirra sem hann útnefnir höfðingja á jörðinni? (b) Hverjum mun múgurinn mikli taka á móti og hvaða tækifæri stendur opið þeim sem snúa aftur?
20 Konungurinn Jesús Kristur mun með ánægju viðurkenna þessa nýskipuðu höfðingja, á sama hátt og hann viðurkennir núna trúfasta menn af hópi annarra sauða sem skipaðir eru umsjónarmenn í söfnuðum votta Jehóva. Allir þeir sem mynda hinn mikla múg annarra sauða — konur jafnt sem karlar — munu eiga fyrir sér þau hrífandi sérréttindi að taka á móti hinum upprisnu sem heyra rödd Jesú og rísa upp frá dauðum. Á hreinsaðri jörð, sem breytt hefur verið í heimsparadís, munu þeir hafa tækifæri til að hljóta eilíft líf sem fullkomnir menn. (Jóhannes 5:28, 29) Meðal hinna upprisnu verða endurleystir forfeður Jesú, trúarhetjurnar sem voru fúsar til að sanna hollustu sína við Jehóva Guð jafnvel þótt það kostaði þær lífið, í þeim tilgangi að öðlast „betri upprisu.“ (Hebreabréfið 11:35) En upprisa til lífs og fullkomleika undir stjórn lausnarans og konungsins Jesú Krists er aðeins byrjunin. Með því að varðveita einingu sína undir stjórn Jehóva Guðs í gegnum lokaprófraun hins endurreista mannkyns við lok þúsundáraríkisins munu þeir sanna sig verðuga þess að vera lýstir réttlátir til eilífs lífs í paradís, sem jarðneskur hluti alheimsskipulags Jehóva. — Matteus 25:31-46; Opinberunarbókin 20:1-21:1.
[Neðanmáls]
a Samanber neðanmálsathugasemd við 2. Samúelsbók 8:18 í New World Translation Reference Bible.
Hverju svarar þú?
◻ Hve langt tímabil hefur Jehóva tiltekið til að blessa allt mannkynið?
◻ Hvaða samband hvert við annað verðum við að varðveita til að hafa von um að lifa af þrenginguna miklu?
◻ Hvað merkir það fyrir sauðina að ‚taka að erfð ríkið sem þeim var fyrirbúið frá grundvöllun heims‘?
◻ Hvaða sérréttinda geta sumir af múginum mikla notið í þúsundáraríkinu?