Við göngum í nafni Jehóva, Guðs okkar
„Vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.“ — MÍKA 4:5.
1. Hvernig var ástandið í siðferðismálum á dögum Nóa og hvernig skar hann sig úr?
ENOK var fyrsti maðurinn sem Biblían segir að hafi gengið með Guði. Nói er sá næsti sem er nefndur. „Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði,“ segir Biblían. (1. Mósebók 6:9) Á dögum Nóa höfðu flestir menn vikið frá hreinni tilbeiðslu. Ekki bætti úr skák að ótrúir englar skyldu taka sér konur og geta af sér risa sem voru kallaðir „kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir“. Það er því engin furða að jörðin skyldi fyllast ofbeldi. (1. Mósebók 6:2, 4, 11) En Nói var vandaður maður og Biblían talar um hann sem „prédikara réttlætisins“. (2. Pétursbréf 2:5) Hann hlýddi Guði þegar honum var sagt að smíða örk til að bjarga öllum lifandi verum. „Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22) Já, Nói gekk með Guði.
2, 3. Hvernig gaf Nói okkur gott fordæmi?
2 Nói var einn af þeim sem Páll taldi upp með trúföstum vottum þegar hann skrifaði: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.“ (Hebreabréfið 11:7) Hann gaf okkur svo sannarlega frábært fordæmi. Þar sem Nói var fullviss um að orð Jehóva myndu rætast notaði hann krafta sína, tíma og eigur til að sinna þeim verkefnum sem Guð fól honum. Því er svipað farið með marga nú á tímum. Þeir hafna ýmsum tækifærum sem þessi heimur hefur upp á að bjóða og nota krafta sína, tíma og eigur til að fara eftir fyrirmælum Jehóva. Trú þeirra er eftirtektarverð og gerir bæði þá og aðra hólpna. — Lúkas 16:9; 1. Tímóteusarbréf 4:16.
3 Það hlýtur að hafa verið álíka erfitt fyrir Nóa og fjölskyldu hans að sýna trúfesti eins og fyrir langafa hans, Enok, sem fjallað var um í greininni á undan. Eins og á dögum Enoks voru sannir tilbiðjendur á dögum Nóa í miklum minnihluta — aðeins átta manns reyndust trúfastir og lifðu flóðið af. Nói boðaði réttlæti í ofbeldisfullum og siðlausum heimi. Hann og fjölskylda hans smíðuðu einnig risastóra örk til að búa sig undir flóð um alla jörðina þó að enginn hefði upplifað slíkt flóð fyrr. Þeim sem fylgdust með þeim hlýtur að hafa fundist það mjög skrýtið.
4. Að hvaða mistökum samtímamanna Nóa beindi Jesús athygli?
4 Það er athyglisvert að þegar Jesús minntist á daga Nóa talaði hann ekki um ofbeldi, falstilbeiðslu og siðleysi þó að ástandið hafi verið mjög slæmt í þeim málum. Jesús beindi athygli að þeim mistökum fólks að hunsa viðvörunina sem það fékk. „Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina,“ sagði hann. Var eitthvað rangt við það að borða, drekka, kvænast og giftast? Fólk lifði bara „eðlilegu“ lífi. En stutt var í að flóðið kæmi og Nói boðaði réttlæti. Orð hans og verk hefðu átt að vera fólki til viðvörunar. Samt sem áður gáfu menn engan gaum að því „fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt“. — Matteus 24:38, 39.
5. Hvaða eiginleika þurftu Nói og fjölskylda hans að hafa?
5 Þegar við horfum aftur til þessa tíma sjáum við hve viturleg lífsstefna Nóa var. En á dögunum fyrir flóðið þurfti hugrekki til að vera ólíkur öllum öðrum. Nói og fjölskylda hans urðu að hafa sterka sannfæringu til að smíða þessa risastóru örk og safna dýrunum saman í hana. Ætli einhver í þessari trúföstu fjölskyldu hafi stundum óskað þess að vera minna áberandi og lifa bara „eðlilegu“ lífi? Jafnvel þótt slíkar hugsanir hafi kannski komið upp í hugann drógu þær ekki úr ráðvendni þeirra. Langur tími leið áður en flóðið skall á, miklu lengri en við þurfum að þrauka í þessu heimskerfi. En trú Nóa varð þess valdandi að hann komst lifandi úr flóðinu. Jehóva felldi hins vegar dóm yfir öllum þeim sem lifðu „eðlilegu“ lífi og gáfu engan gaum að því á hve mikilvægum tímum þeir lifðu.
Ofbeldi hrjáir mannkynið aftur
6. Hvernig var ástandið eftir flóðið?
6 Eftir að flóðið hafði sjatnað gat mannkynið byrjað upp á nýtt. En mennirnir voru eftir sem áður ófullkomnir og „hugrenningar mannshjartans“ voru enn þá „illar frá bernsku hans“. (1. Mósebók 8:21) Þar að auki voru illu andarnir enn mjög virkir þótt þeir gætu ekki holdgast lengur. Óguðlegt mannkyn sýndi brátt að það var „á valdi hins vonda“ og sannir tilbiðjendur þurftu að standast „vélabrögð djöfulsins“, rétt eins og við þurfum að gera núna. — 1. Jóhannesarbréf 5:19; Efesusbréfið 6:11, 12.
7. Hvernig færðist ofbeldi í aukana eftir flóðið?
7 Eftir flóðið fylltist jörðin aftur af ofbeldi, að minnsta kosti eftir daga Nimrods. Vegna fólksfjölgunar og tækniframfara hefur ofbeldið aukist með tímanum. Fyrr á tímum börðust menn með sverðum, spjótum, stríðsvögnum, bogum og örvum. Á síðari öldum komu fram á sjónarsviðið fallbyssur og framhlaðnar byssur. Því næst voru rifflar kynntir til sögunnar, ásamt háþróuðum stórskotabyssum snemma á 20. öldinni. Í fyrri heimstyrjöldinni komu enn ógurlegri vopn eins og orustuflugvélar, skriðdrekar, kafbátar og eiturgas. Í stríðinu urðu þessi vopn milljónum manna að aldurtila. Var þetta ófyrirsjáanlegt? Nei.
8. Hvernig hefur Opinberunarbókin 6:1-4 ræst?
8 Árið 1914 var Jesús krýndur konungur í himnesku ríki Guðs og þá hófst ,Drottins dagur‘. (Opinberunarbókin 1:10) Í sýn, sem skráð er í Opinberunarbókinni, er Jesú lýst sem konungi ríðandi til sigurs á hvítum hesti. Á eftir honum koma aðrir reiðmenn sem tákna hver sína pláguna yfir mannkyninu. Einn þeirra ríður rauðum hesti og honum „var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.“ (Opinberunarbókin 6:1-4) Hesturinn og reiðmaðurinn tákna hernað og sverðið mikla táknar ógurlegan eyðingarmátt nútímahernaðar og öflugra vopna. Meðal nútímavopna má nefna kjarnorkusprengjur sem geta hver fyrir sig drepið tugþúsundir manna, eldflaugar sem geta skotið þessum sprengjum á skotmörk þúsundir kílómetra í burtu, háþróuð efnavopn og mannskæð sýklavopn.
Við tökum mark á viðvörunum Jehóva
9. Að hvaða leyti er heimurinn núna líkur heiminum fyrir flóðið?
9 Jehóva eyddi mannkyninu á dögum Nóa sökum mikils ofbeldis risanna og óguðlegra manna. En hvernig er þessu farið nú á tímum? Er ofbeldið eitthvað minna núna? Alls ekki. Auk þess er fólk upptekið af því að sinna eigin málum og reyna að lifa „eðlilegu lífi“ og það hunsar gefnar viðvaranir eins og á dögum Nóa. (Lúkas 17:26, 27) Við höfum því enga ástæðu til að efast um að Jehóva muni eyða mannkyninu aftur.
10. (a) Hvaða viðvörun veita spádómar Biblíunnar hvað eftir annað? (b) Hver er eina viturlega lífsstefnan nú á tímum?
10 Hundruðum ára fyrir flóðið spáði Enok um eyðinguna sem ætti að koma á okkar dögum. (Júdasarbréfið 14, 15) Jesús talaði líka um að mikil þrenging kæmi. (Matteus 24:21) Aðrir spámenn vöruðu við þessum tíma. (Esekíel 38:18-23; Daníel 12:1; Jóel 3:4, 5) Og í Opinberunarbókinni má finna mjög myndræna lýsingu á þessari lokaeyðingu. (Opinberunarbókin 19:11-21) Við líkjum hvert og eitt eftir Nóa og boðum réttlæti af kappi. Við tökum mark á viðvörunum Jehóva og hjálpum fólki að gera slíkt hið sama. Þar af leiðandi göngum við með Guði eins og Nói. Það er svo sannarlega mikilvægt fyrir þá sem vilja lifa að halda áfram að ganga með Guði. Hvernig getum við gert það þar sem við verðum fyrir stöðugu álagi? Til þess þurfum við að rækta með okkur sterka trú á að fyrirætlun Guðs verði að veruleika. — Hebreabréfið 11:6.
Höldum áfram að ganga með Guði á ólgutímum
11. Hvernig líkjum við eftir kristnum mönnum á fyrstu öld?
11 Á fyrstu öldinni var talað um að andasmurðir kristnir menn tilheyrðu ,veginum‘. (Postulasagan 9:2) Allt líf þeirra snerist um trúna á Jehóva og Jesú Krist. Þeir fetuðu í fótspor meistara síns. Trúfastir kristnir menn nú á dögum gera hið sama.
12. Hvað gerðist eftir að Jesús saddi hungur fjöldans?
12 Atburður, sem átti sér stað á þjónustutíð Jesú, varpar ljósi á mikilvægi trúarinnar. Jesús gerði eitt sinn kraftaverk til að seðja hungur 5000 manna. Fólkið var bæði undrandi og hrifið. En taktu eftir því sem gerðist næst. Við lesum: „Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: ‚Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.‘ Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ (Jóhannes 6:10-15) Þetta kvöld færði hann sig um set. Líklega hafa margir verið vonsviknir að hann skyldi hafa neitað að taka við konungdómi, einkum í ljósi þess að hann var augljóslega nógu vitur til að vera konungur og gat sinnt líkamlegum þörfum fólks vel. En tíminn, sem Jehóva hafði ákveðið að Jesús yrði konungur, var ekki enn kominn. Þar að auki átti ríki Jesú að vera himneskt en ekki jarðneskt.
13, 14. Hvaða viðhorf sýndu margir og hvernig var trú þeirra reynd?
13 Mannfjöldinn elti hann engu að síður og fann hann „hinum megin við vatnið“, eins og Jóhannes segir. Hvers vegna eltu þeir hann þótt hann hafi vikið sér undan þegar þeir reyndu að gera hann að konungi? Margir sýndu veraldleg viðhorf með því að tala ákaft um það hvernig Jehóva sá fyrir efnislegum þörfum Ísraelsmanna í eyðimörkinni á dögum Móse. Þannig voru þeir í raun að gefa í skyn að Jesús ætti að halda áfram að sinna efnislegum þörfum þeirra. Jesús gerði sér grein fyrir röngum hvötum þeirra og fór að kenna þeim andleg sannindi til að hjálpa þeim að leiðrétta hugarfar sitt. (Jóhannes 6:17, 24, 25, 30, 31, 35-40) Fyrir vikið mögluðu sumir gegn honum og þá sérstaklega þegar hann sagði þessa líkingu: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi.“ — Jóhannes 6:53, 54.
14 Líkingar Jesú gáfu fólki oft tækifæri til að sýna hvort það vildi einlæglega ganga með Guði eða ekki og þessi líking var engin undantekning. Hún vakti hörð viðbrögð. Við lesum: „Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: ‚Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?‘“ Jesús benti þá á að þeir ættu að reyna að sjá orð hans frá andlegum sjónarhóli. Hann sagði: „Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.“ Samt sem áður voru margir sem vildu ekki hlusta, eins og fram kemur í frásögunni: „Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.“ — Jóhannes 6:60, 63, 66.
15. Hvaða rétta viðhorf höfðu sumir fylgjendur Jesú?
15 Það voru samt ekki allir lærisveinar Jesú sem brugðust þannig við. Að vísu skildu trúföstu lærisveinarnir ekki til hlítar það sem Jesús hafði sagt en traust þeirra til hans var óbifanlegt. Pétur var einn af þessum trúföstu lærisveinum en hann sagði fyrir hönd allra sem eftir voru: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:68) Þetta var frábært viðhorf og gott fordæmi fyrir okkur.
16. Hvernig gætum við verið reynd og hvaða góða hugarfar ættum við að rækta með okkur?
16 Við gætum líka verið reynd eins og þessir lærisveinar forðum daga. Við gætum til dæmis orðið fyrir vonbrigðum með að loforð Jehóva skuli ekki hafa ræst eins fljótt og við hefðum helst kosið. Okkur finnst kannski erfitt að skilja sumar útskýringar á Biblíunni í ritum okkar. Við gætum orðið fyrir vonbrigðum með hegðun einhvers trúsystkinis. Væri rétt af okkur að hætta að ganga með Guði af þessum ástæðum eða einhverjum svipuðum? Nei, auðvitað ekki. Lærisveinarnir, sem yfirgáfu Jesú, sýndu að þeir höfðu holdlegt hugarfar. Við verðum að forðast slíkt.
„Vér skjótum oss ekki undan“
17. Hvað getur hjálpað okkur að ganga með Guði?
17 Páll postuli skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Jehóva segir okkur skýrt og skorinort á síðum Biblíunnar: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jesaja 30:21) Með því að fara eftir orði Guðs getum við ,haft nákvæma gát á hvernig við breytum‘. (Efesusbréfið 5:15) Með því að nema orð Guðs og hugleiða það sem við lærum getum við ,lifað í sannleikanum‘. (3. Jóhannesarbréf 3) Jesús hafði lög að mæla þegar hann sagði: „Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert.“ Eina áreiðanlega leiðsögnin, sem við höfum til að stýra skrefum okkar, er sú sem Jehóva veitir með orði sínu, anda og söfnuði.
18. (a) Hvað reyna sumir að gera? (b) Hvers konar trú þroskum við með okkur?
18 Þeir sem verða óánægðir vegna óuppfylltra væntinga eða holdlegs hugarfars reyna oft að fá sem mest út úr þessum heimi. Þeir missa sjónar á því á hve mikilvægum tímum við lifum og sjá enga þörf fyrir að ,vaka‘ þannig að þeir fara að keppa að eigingjörnum markmiðum í stað þess að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir. (Matteus 24:42) Það er mjög óviturlegt að fara þá leið. Taktu eftir orðum Páls postula: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ (Hebreabréfið 10:39) Við lifum á ólgutímum líkt og Enok og Nói en við fáum þann heiður að ganga með Guði. Við erum fullviss um að við eigum eftir að sjá það loforð Jehóva rætast að illskunni verði útrýmt og að réttlátur nýr heimur gangi í garð. Þetta eru dásamlegar framtíðarhorfur.
19. Hvernig lýsir Míka göngu sannra tilbiðjenda?
19 Spámaðurinn Míka sagði undir innblæstri að þjóðir heims ,gengju hver í nafni síns guðs‘. Síðan talaði hann um sjálfan sig og aðra trúfasta tilbiðjendur og sagði: „Vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.“ (Míka 4:5) Ef þú vilt líkja eftir Míka skaltu vera staðráðinn í að nálægja þig Guði sama hve erfiðir tímarnir verða. (Jakobsbréfið 4:8) Megi það vera einlæg löngun okkar að ganga með Jehóva, Guði okkar, æ og ævinlega.
Hverju svarar þú?
• Hvað er líkt með okkar tímum og dögum Nóa?
• Hvaða veg fetuðu Nói og fjölskylda hans og hvernig getum við líkt eftir trú þeirra?
• Hvaða ranga hugarfar sýndu sumir fylgjendur Jesú?
• Hvað eru sannkristnir menn staðráðnir í að gera?
[Myndir á blaðsíðu 20]
Fólk er upptekið af daglegu amstri eins og var á dögum Nóa.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Boðberar fagnaðarerindisins ,skjóta sér ekki undan‘.