Ertu viðbúinn degi Jehóva?
„Hinn mikli dagur [Jehóva] er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ — SEFANÍA 1:14.
1. Hvernig lýsir Ritningin degi Jehóva?
HINN mikli og ógurlegi dagur“ Jehóva kemur bráðlega yfir þetta illa heimskerfi. Ritningin lýsir degi Jehóva sem degi orustu, niðdimmu, reiði, neyðar, þrengingar, ótta og umturnunar. Sumir lifa þó af því að „hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ (Jóel 3:3-5; Amos 5:18-20) Já, Guð eyðir óvinum sínum og bjargar fólki sínu á þeim degi.
2. Hvers vegna ætti okkur að finnast mikið liggja við í sambandi við dag Jehóva?
2 Spámenn Guðs töluðu um dag Jehóva eins og mikið lægi við. Til dæmis skrifaði Sefanía: „Hinn mikli dagur [Jehóva] er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ (Sefanía 1:14) Nú á dögum liggur enn meira við því að aðalaftökumaður Guðs, konungurinn Jesús Kristur, er í þann mund að ‚gyrða lendar sínar sverði og sækja fram sakir tryggðar og réttlætis.‘ (Sálmur 45:4, 5) Ert þú viðbúinn þessum degi?
Þeir væntu mikils
3. Hvers væntu sumir kristnir menn í Þessaloníku og af hvaða tveim ástæðum höfðu þeir rangt fyrir sér?
3 Oft hafa væntingar manna í sambandi við dag Jehóva brugðist. Sumir hinna frumkristnu í Þessaloníku sögðu að „dagur [Jehóva] væri þegar fyrir höndum.“ (2. Þessaloníkubréf 2:2) En það voru tvær meginástæður fyrir því að svo var ekki. Páll postuli hafði sagt um aðra þeirra: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ (1. Þessaloníkubréf 5:1-6) Núna er endalokatíminn runninn upp og við bíðum sjálf uppfyllingar þessara orða. (Daníel 12:4) Þessaloníkumenn vantaði líka aðra sönnun fyrir því að hinn mikli dagur Jehóva væri runninn upp, því að Páll sagði þeim: „Ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst.“ (2. Þessaloníkubréf 2:3) Þegar Páll skrifaði þessi orð (um árið 51) var „fráhvarfið“ frá sannri kristni ekki komið á fullan skrið. Núna sjáum við það blómstra í kristna heiminum. En þó að vonir þessara smurðu manna í Þessaloníku hefðu ekki ræst hlutu þeir síðar himnesk laun, svo framarlega sem þeir þjónuðu Guði trúfastir allt til dauða. (Opinberunarbókin 2:10) Okkur verður líka umbunað ef við varðveitum trúfesti er við bíðum dags Jehóva.
4. (a) Hverju er dagur Jehóva tengdur í 2. Þessaloníkubréfi 2:1, 2? (b) Hvernig litu hinir svonefndu kirkjufeður á endurkomu Krists og skyld mál?
4 Biblían tengir ‚hinn mikla dag Jehóva‘ við komu eða nærveru Drottins okkar Jesú Krists. (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2) Hinir svokölluðu kirkjufeður höfðu ýmsar hugmyndir um endurkomu Krists, nærveru og þúsund ára stjórn. (Opinberunarbókin 20:4) Á annarri öld ól Papías í Híerapólis í brjósti vonir um stórkostlega frjósemi jarðar í þúsundáraríki Krists. Jústínus píslarvottur talaði margsinnis um nærveru Jesú og vænti þess að endurreist Jerúsalem yrði stjórnarsetur hans. Írenaeus í Lyon áleit að Rómaveldi yrði eytt og Jesús myndi koma fram sýnilegur, fjötra Satan og ríkja í Jerúsalem á jörð.
5. Hvað hafa sumir fræðimenn sagt um „síðari komu“ Krists og þúsund ára stjórn hans?
5 Sagnfræðingurinn Philip Schaff bendir á að „mest áberandi trúarkenningin“ á tímabilinu fyrir kirkjuþingið í Níkeu árið 325 hafi verið sú „að Kristur myndi ríkja sýnilegur í dýrð á jörðinni um þúsund ár ásamt hinum heilögu upprisnum, fyrir almenna upprisu og dóm.“ Orðabókin A Dictionary of the Bible, í ritstjórn James Hastings, segir: „Tertúllíanus, Írenaeus og Hippólytus vænta enn skjótrar komu [Jesú Krists], en með alexandrísku kirkjufeðrunum kemur fram nýr hugsunarháttur. . . . Með því að leggja þúsundáraríkið að jöfnu við kirkjuna á jörð frestar Ágústínus síðari komunni fram í fjarlæga framtíð.“
Dagur Jehóva og nærvera Jesú
6. Hvers vegna ættum við ekki að halda að dagur Jehóva sé víðs fjarri?
6 Ranghugmyndir hafa valdið mönnum vonbrigðum, en við skulum þó ekki halda að dagur Jehóva sé víðs fjarri. Ósýnileg nærvera Jesú, sem Biblían tengir þessum degi, er þegar hafin. Varðturninn og önnur rit votta Jehóva hafa oft bent á biblíulegar sannanir fyrir því að nærvera Krists hafi hafist árið 1914.a Hvað sagði Jesús þá um nærveru sína?
7. (a) Nefndu nokkra þætti táknsins um nærveru Jesú og endalok heimskerfisins. (b) Hvernig getum við bjargast?
7 Nærvera Jesú kom til umræðu skömmu fyrir dauða hans. Eftir að hafa heyrt hann spá því að musterinu í Jerúsalem yrði eytt spurðu postularnir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu [„nærveru,“ NW] þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:1-3; Markús 13:3, 4) Í svari sínu spáði Jesús styrjöldum, hallærum, jarðskjálftum og öðrum þáttum ‚táknsins‘ um nærveru sína og endalok heimskerfisins. Hann sagði líka: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Við verðum hólpin, björgumst, ef við erum staðföst allt til enda núverandi lífs okkar eða þessa illa heimskerfis.
8. Hverju átti að áorka áður en gyðingakerfið liði undir lok og hvað er gert í því máli núna?
8 Áður en endirinn kæmi átti að rætast sérstaklega þýðingarmikið tákn nærveru Jesú. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Áður en Rómverjar eyddu Jerúsalem og gyðingakerfið leið undir lok árið 70 gat Páll sagt að fagnaðarerindið ‚hefði verið prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) En núna vinna vottar Jehóva margfalt umfangsmeira prédikunarstarf „um alla heimsbyggðina.“ Á allra síðustu árum hefur Guð opnað leiðina fyrir mikinn vitnisburð í Austur-Evrópu. Með prentsmiðjum og annarri aðstöðu um heim allan er skipulag Jehóva fært um að auka starf sitt, jafnvel á svæðum þar sem allt er „ógjört“ eða ósnortið. (Rómverjabréfið 15:22, 23) Hvetur hjartað þig til að gera þitt ítrasta við að bera vitni áður en endirinn kemur? Ef svo er getur Guð styrkt þig til að eiga gefandi þátt í starfinu framundan. — Filippíbréfið 4:13; 2. Tímóteusarbréf 4:17.
9. Hvað benti Jesús á eins og fram kemur í Matteusi 24:36?
9 Prédikun Guðsríkis og aðrir þættir táknsins um nærveru Jesú, sem spáð var, eru að uppfyllast núna. Þess vegna er endir þessa illa heimskerfis nálægur. Jesús sagði að vísu: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:4-14, 36) Spádómur Jesú getur engu að síður búið okkur undir „þann dag og stund.“
Þau voru viðbúin
10. Hvernig vitum við að það er hægt að halda andlegri vöku sinni?
10 Til að lifa af hinn mikla dag Jehóva verðum við að halda andlegri vöku okkar og vera staðföst í sannri tilbeiðslu. (1. Korintubréf 16:13) Við vitum að það er hægt að vera þolgóður því að guðrækin fjölskylda var það á sínum tíma og komst lifandi gegnum flóðið sem eyddi óguðlegum mönnum árið 2370 f.o.t. Jesús bar þann tíma saman við nærveru sína og sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu [„nærveru,“ NW] Mannssonarins.“ — Matteus 24:37-39.
11. Hvaða stefnu tók Nói þrátt fyrir ofbeldi samtíðarinnar?
11 Nói og fjölskylda hans bjuggu í ofbeldisfullum heimi líkt og við. Óhlýðnir ‚englasynir Guðs‘ höfðu holdgast og tekið sér eiginkonur og eignast með þeim hina illræmdu risa — yfirgangsseggi sem juku vafalaust á ofbeldið. (1. Mósebók 6:1, 2, 4; 1. Pétursbréf 3:19, 20) En „Nói gekk með Guði“ í trú. Hann „var maður réttlátur og vandaður á sinni öld“ — meðal óguðlegrar kynslóðar samtíðarinnar. (1. Mósebók 6:9-11) Með bænartrausti til Guðs getum við gert hið sama í ofbeldisfullum og illum heimi nútímans er við bíðum dags Jehóva.
12. (a) Hvað gerði Nói auk þess að smíða örkina? (b) Hvernig brást fólk við prédikun Nóa og hvaða afleiðingar hafði það fyrir það?
12 Nói er vel þekktur fyrir örkina sem hann smíðaði til björgunar úr flóðinu. Hann var líka ‚prédikari réttlætisins,‘ en samtíðarmenn hans gáfu engan gaum að boðskapnum sem Guð hafði gefið honum. Þeir átu og drukku, kvæntust og giftust, eignuðust börn og lifðu venjulegu lífi uns flóðið sópaði þeim öllum burt. (2. Pétursbréf 2:5; 1. Mósebók 6:14) Þeir vildu ekki heyra um réttlæti í orði og verki, mjög svipað og ill kynslóð nútímans daufheyrist við því sem vottar Jehóva segja um „afturhvarf til Guðs,“ trú á Krist, réttlæti og „komandi dóm.“ (Postulasagan 20:20, 21; 24:24, 25) Engar heimildir eru til um mannfjölda á jörðinni þegar Nói var að boða boðskap Guðs. Eitt er þó víst að jarðarbúum fækkaði snarlega árið 2370 f.o.t.! Flóðið sópaði hinum illu burt og þeim einum var þyrmt sem voru viðbúnir þessu verki Guðs, það er að segja Nóa og sjö öðrum úr fjölskyldu hans. — 1. Mósebók 7:19-23; 2. Pétursbréf 3:5, 6.
13. Hvaða úrskurði treysti Nói fullkomlega og hvernig breytti hann samkvæmt því?
13 Guð lét Nóa ekki vita með margra ára fyrirvara nákvæmlega hvaða dag og stund flóðið brysti á. En þegar Nói var 480 ára lýsti Jehóva yfir: „Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.“ (1. Mósebók 6:3) Nói treysti þessum úrskurði Guðs fullkomlega. Hann var orðinn 500 ára þegar hann eignaðist þá „Sem, Kam og Jafet,“ og miðað við þeirra tíma siði má ætla að synirnir hafi ekki kvænst fyrr en 50 til 60 árum síðar. Þegar Nóa var sagt að smíða örkina til að bjargast úr flóðinu er ljóst að þessir synir og eiginkonur þeirra aðstoðuðu hann við verkið. Líklegt er að smíði arkarinnar hafi farið saman við þjónustu hans sem „prédikara réttlætisins“ og hafi staðið í að minnsta kosti 40 til 50 ár fyrir flóðið. (1. Mósebók 5:32; 6:13-22) Öll þessi ár sýndi hann og fjölskylda hans trú. Við skulum líka sýna trú er við prédikum fagnaðarerindið og bíðum dags Jehóva. — Hebreabréfið 11:7.
14. Hvað sagði Jehóva Nóa að lokum og hvers vegna?
14 Þegar smíði arkarinnar var næstum lokið hugsaði Nói kannski sem svo að flóðið hlyti að vera yfirvofandi þótt hann vissi ekki nákvæmlega hvenær. Loks sagði Jehóva honum: „Að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur.“ (1. Mósebók 7:4) Það gaf Nóa og fjölskyldu hans rétt tíma til að koma öllum dýrategundum og sjálfum sér í örkina áður en flóðið hófst. Við þurfum ekki að vita daginn og stundina þegar eyðing þessa heimskerfis hefst, því að okkur er ekki falið að bjarga dýrunum og menn eru nú þegar að streyma sér til björgunar inn í táknræna örk sem er hin andlega paradís fólks Guðs.
„Vakið“
15. (a) Útskýrðu orð Jesú í Matteusi 24:40-44 með eigin orðum. (b) Hvaða áhrif hefur það að vita ekki nákvæmlega hvenær Jesús kemur til að fullnægja hefnd Guðs?
15 Jesús sagði um nærveru sína: „Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:40-44; Lúkas 17:34, 35) Að vita ekki nákvæmlega hvenær Jesús kemur til að fullnægja hefnd Guðs stuðlar að árvekni og gefur okkur daglega tækifæri til að þjóna Jehóva af óeigingjörnum hvötum.
16. Hvað verður um þá sem verða ‚eftir skildir‘ og þá sem verða ‚teknir‘?
16 Þeir sem einu sinni voru upplýstir, en láta eigingjarnt líferni gleypa sig, eru meðal þeirra sem verða ‚eftir skildir‘ til að farast með óguðlegum. Megum við vera í hópi þeirra sem verða ‚teknir‘ og eru Jehóva fullkomlega trúir og innilega þakklátir fyrir andlegar ráðstafanir hans fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Við skulum þjóna Guði allt til enda með ‚kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:5.
Heilög breytni nauðsynleg
17. (a) Hvað var sagt fyrir í 2. Pétursbréfi 3:10? (b) Nefndu nokkur verk og breytni sem hvatt er til í 2. Pétursbréfi 3:11.
17 Pétur postuli skrifaði: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ (2. Pétursbréf 3:10) Hinir táknrænu himnar og jörð standast ekki brennandi reiðihita Guðs. Pétur bætir því við: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni.“ (2. Pétursbréf 3:11) Þessi verk og breytni er meðal annars fólgin í því að sækja kristnar samkomur að staðaldri, gera öðrum gott og eiga marktækan þátt í prédikun fagnaðarerindisins. — Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:24, 25; 13:16.
18. Hvað ættum við að gera ef okkur er farið að þykja vænt um heiminn?
18 ‚Heilög breytni og guðrækni‘ útheimtir að við ‚varðveitum okkur óflekkuð af heiminum.‘ (Jakobsbréfið 1:27) En hvað nú ef okkur er farið að þykja vænt um heiminn? Kannski erum við að láta lokkast í hættulega stöðu frammi fyrir Guði með því að sækjast eftir óhreinni skemmtun eða hlusta á tónlist sem kemur óguðlegum anda þessa heims á framfæri. (2. Korintubréf 6:14-18) Ef svo er skulum við leita hjálpar Guðs í bæn þannig að við förumst ekki með heiminum heldur stöndum velþóknanleg frammi fyrir Mannssyninum. (Lúkas 21:34-36; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Ef við erum vígð Jehóva Guði viljum við áreiðanlega gera okkar besta til að byggja upp og viðhalda hlýlegu sambandi við hann og vera þannig viðbúin hinum mikla og ógurlega degi hans.
19. Hvers vegna geta boðberar Guðsríkis vonast til að lifa af endalok þessa illa heimskerfis í stórum hópum?
19 Hinn guðrækni Nói og fjölskylda hans lifðu af flóðið sem eyddi heimi fortíðar. Ráðvandir menn lifðu af endalok gyðingakerfisins árið 70. Til dæmis var Jóhannes postuli enn virkur í þjónustu Guðs á árunum 96 til 98 þegar hann skrifaði Opinberunarbókina, guðspjallið og þrjú innblásin bréf. Líklegt er að margir af þeim þúsundum, sem tóku við sannri trú á hvítasunnunni árið 33, hafi lifað af endalok gyðingakerfisins. (Postulasagan 1:15; 2:41, 47; 4:4) Núna geta boðberar Guðsríkis vænst þess að lifa af endalok hins núverandi illa heimskerfis í stórum hópum.
20. Hvers vegna ættum við að vera kostgæfnir ‚prédikarar réttlætisins‘?
20 Við eigum í vændum björgun inn í nýja heiminn og skulum því vera kostgæfnir ‚prédikarar réttlætisins.‘ Hvílík sérréttindi að mega þjóna Guði núna á síðustu dögum! Og hvílík gleði að geta vísað fólki á „örk“ nútímans, andlegu paradísina sem fólk Guðs býr í! Megi þær milljónir, sem byggja hana, vera trúfastar, andlega vakandi og viðbúnar að mæta hinum mikla degi Jehóva. En hvað getur hjálpað okkur að halda vöku okkar?
[Neðanmáls]
a Sjá 10. og 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða væntingar hafa sumir haft í sambandi við dag Jehóva og nærveru Krists?
◻ Hvers vegna getum við sagt að Nói og fjölskylda hans hafi verið viðbúin flóðinu?
◻ Hvað verður um þá sem ‚vaka‘ og þá sem ekki vaka?
◻ Hvers vegna er heilög breytni nauðsynleg, sérstaklega þegar hinn mikli dagur Jehóva nálgast?