Haltu vöku þinni á ‚endalokatímanum‘
„Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ — MARKÚS 13:33
1. Hvernig ættum við að bregðast við þeim spennandi atburðum sem eru að eiga sér stað á endalokatímanum?
HVER ættu að vera viðbrögð kristinna manna við þeim spennandi atburðum sem eru að eiga sér stað nú á ‚endalokatímanum‘? (Daníel 12:4) Þeir eru ekki skildir eftir í óvissu. Jesús Kristur bar fram spádóminn um hið samsetta tákn sem hefur verið að uppfyllast núna á 20. öldinni. Hann sagði fyrir mörg atriði sem hafa gert tímabilið frá 1914 einstakt í sögunni. Jesús var vel kunnugur spádómi Daníels um ‚endalokatímann‘ og fylgdi eftir sínum mikla spádómi með því að hvetja lærisveina sína til að ‚vaka.‘ — Lúkas 21:36.
2. Hvers vegna er mjög áríðandi að halda sér andlega vakandi?
2 Hvers vegna að vaka? Vegna þess að þetta eru mestu hættutímar mannkynssögunnar. Andleg syfja á þessum tíma væri stórskaðleg fyrir kristna menn. Ef við verðum einhvern tíma sinnulaus eða leyfum hjörtum okkar að þyngjast af áhyggjum lífsins, þá erum við í hættu stödd. Í Lúkasi 21:34, 35 aðvaraði Jesús okkur: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“
3, 4. (a) Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að reiðidagur Guðs kæmi skyndilega yfir menn „eins og snara“? (b) Hvers vegna kemur dagurinn óvænt yfir fólk almennt, úr því að það er ekki Guð sem leggur snöruna?
3 Jesús hafði fullt tilefni til að segja að dagur Jehóva myndi ‚koma skyndilega eins og snara.‘ Snara er gildra, oft með rennilykkju, til að veiða í fugla og spendýr. Snara er með sleppibúnaði og hver sem gengur í snöruna snertir hann. Þá herpist snaran og fórnarlambið situr fast. Allt gerist þetta mjög snögglega. Eins yrði það, sagði Jesús, með þá sem væru andlega óvirkir; þeir yrðu fangaðir sér að óvörum á „degi reiðinnar.“ — Orðskviðirnir 11:4.
4 Er það Jehóva Guð sem leggur snöruna fyrir fólk? Nei, hann bíður ekki átekta til að geta komið fólki að óvörum og tortímt því. Þessi dagur mun hins vegar koma fólki almennt á óvart vegna þess að ríki Guðs er ekki fremsta hugðarefni þess. Það fer sínar eigin leiðir í amstri lífsins og lætur sem það sjái ekki merkingu þeirrar framvindu sem á sér stað í kringum það. En það breytir ekki tímaáætlun Guðs. Hann hefur sinn ákveðna tíma til að gera upp reikninga. Og í miskunn sinni lætur hann mannkynið ekki vera ókunnugt um komandi dóm sinn. — Markús 13:10.
5, 6. (a) Hvaða elskuríka ráðstöfun hefur skaparinn gert fyrir mennina, vegna hins komandi dóms, en hver hafa viðbrögðin almennt verið? (b) Hvað munum við skoða sem hjálp til að halda okkur vakandi?
5 Það er því kærleiksrík ráðstöfun af hendi hins mikla skapara, sem hefur áhuga á velferð þeirra manna sem eru hér á táknrænni fótskör hans, að vara fólk við fyrirfram. (Jesaja 66:1) Hann lætur sér annt um þessa byggjendur staðarins þar sem talað er um að fætur hans hvíli. Því lætur hann sendiherra sína og erindreka vara þá fyrirfram við þeim sérstöku atburðum sem þeir eiga í vændum. (2. Korintubréf 5:20) En þrátt fyrir viðvörunina sem gefin er mun þessi atburður koma jafnóvænt yfir mannkynið eins og hefði það gengið í gildru. Hvers vegna? Vegna þess að fólk almennt er andlega sofandi. (1. Þessaloníkubréf 5:6) Það er einungis tiltölulega fámennur hópur sem tekur til sín viðvörunina og lifir af inn í nýjan heim Guðs. — Matteus 7:13, 14.
6 Hvernig getum við þá haldið okkur vakandi núna á tíma endalokanna þannig að við teljumst meðal þeirra manna sem verður bjargað? Jehóva veitir okkur þá hjálp sem til þarf. Við ætlum að ræða um sjö hluti sem við getum gert.
Berstu gegn því sem truflar
7. Hvernig varaði Jesús við því að láta ekki eitthvað óviðkomandi taka til sín athygli okkar?
7 Fyrsta atriðið er: Berjumst gegn því sem truflar eða dreifir huganum. Í Matteusi 24:42, 44 sagði Jesús: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ Orðalag Jesú hér gefur til kynna að á þessum örlagatímum verði margt sem truflar og dreifir huganum og það að vera annars hugar geti leitt til tortímingar. Á dögum Nóa var fólk upptekið af mörgu. Af því leiddi að þetta upptekna fólk ‚vissi ekki‘ hvað var að gerast og flóðið sópaði því öllu burt. Þess vegna aðvaraði Jesús: „Eins verður við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:37-39.
8, 9. (a) Hvernig geta hin venjulegu hugðarefni lífsins dregið til sín athygli okkar að hættulegu marki? (b) Hvaða viðvörun komu Páll og Jesús með?
8 Hafðu líka hugfast að í viðvörun sinni í Lúkasi 21:34, 35 var Jesús að ræða um venjulega þætti og athafnir lífsins, svo sem það að eta og drekka, og áhyggjur af því að sjá fyrir sér. Þetta eru hlutir sem eru öllum mönnum sameiginlegir, einnig lærisveinum Drottins Jesú. (Samanber Markús 6:31.) Þessi atriði geta verið saklaus í sjálfu sér, en þau geta, ef þeim er leyft það, dregið til sína alla athygli okkar, gert okkur upptekin, og þannig gert okkur hættulega andlega syfjuð.
9 Við skulum því ekki vanrækja það sem er langmikilvægast — það að öðlast velþóknun Guðs. Í stað þess að sökkva okkur niður í amstur hversdagslífsins skulum við sinna því aðeins í þeim takmarkaða mæli sem þarf til að sjá fyrir okkur. (Filippíbréfið 3:8) Það ætti ekki að ryðja hagsmunum Guðsríkis úr vegi. Eins og Rómverjabréfið 14:17 segir: „Ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.“ Munum eftir orðum Jesú er hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Enn fremur lýsti Jesús yfir í Lúkasi 9:62: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.“
10. Hvaða hætta er fyrir hendi ef við látum ekki augu okkar horfa beint fram til marksins?
10 Um leið og við byrjum að plægja, táknrænt talað, viljum við plægja í beina línu. Plógmaður sem horfir aftur fyrir sig plægir ekki í beina línu. Hann er að horfa á annað og getur hæglega farið út af sporinu eða rekist á einhverja hindrun. Við skulum ekki vera eins og kona Lots sem leit aftur fyrir sig og náði aldrei í öruggt skjól. Við þurfum að láta augu okkar horfa beint fram í átt til marksins. Til að gera það verðum við að berjast gegn því sem truflar eða dreifir huganum. — 1. Mósebók 19:17, 26; Lúkas 17:32.
Biddu í allri einlægni
11. Hvað lagði Jesús áherslu á eftir að hafa varað okkur við þeirri hættu að láta athyglina beinast að öðru?
11 En það er hins vegar meira sem við getum gert til að halda okkur vakandi. Annað mikilvægt atriði er þetta: Biðjum í allri einlægni. Eftir að hafa varað okkur við hættunni á að láta hið venjulega amstur lífsins taka alla athygli okkar gaf Jesús þessi ráð: „Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir mannssyninum.“ — Lúkas 21:36.
12. Hvers konar bæn er nauðsynleg og með hvaða árangri?
12 Biðjum því stöðuglega viðvíkjandi þeirri hættulegu aðstöðu sem við erum í og nauðsyn þess fyrir okkur að halda okkur glaðvakandi. Leitum til Guðs með einlægar bænir okkar. Páll segir í Rómverjabréfinu 12:12: „Verið . . . staðfastir í bæninni.“ Og í Efesusbréfinu 6:18 lesum við: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir.“ Hér er ekki einfaldlega um það að ræða að biðja bæna rétt eins og það væri tilviljunarkennt og skipti ekki sérlega miklu máli. Sjálf tilvera okkar er í húfi. Við þurfum því að ákalla Guð einlæglega um hjálp. (Samanber Hebreabréfið 5:7.) Þannig munum við halda okkur Jehóva megin. Ekkert getur hjálpað okkur meira til þess en að ‚biðja allar stundir.‘ Þá mun Jehóva halda okkur glaðvakandi fyrir því hvert þessi gamli heimur stefnir. Það er því sannarlega mikilvægt að vera staðföst í bæninni!
Haltu þér fast við skipulagið og starf þess
13. Hvers konar félagsskapur er nauðsynlegur til að halda sér vakandi?
13 Við viljum umflýja allt þetta sem koma mun yfir heiminn. Við viljum standast frammi fyrir Mannsyninum, hafa velþóknun hans. Til að okkur megi auðnast það má nefna þriðja atriðið sem við getum gert: Höldum okkur órjúfanlega við guðræðisskipulag Jehóva. Við þurfum að bindast skilyrðislaust skipulagi Jehóva og taka þátt í starfsemi þess. Á þann hátt munum við, svo ekki verður um villst, sýna okkur kristna menn sem halda vöku sinni.
14, 15. (a) Hvaða starf hjálpar okkur að halda vöku okkar? (b) Hver ákveður hvenær prédikunarstarfinu er lokið og hvað ættum við að láta okkur finnast um það? (c) Hverju munum við gera okkur grein fyrir eftir þrenginguna miklu, þegar við lítum um öxl og hugleiðum hvernig prédikunarstarfið var unnið?
14 Nátengt þessu er fjórða atriðið sem getur hjálpað okkur að halda okkur vakandi: Við verðum að vera meðal þeirra sem vara fólk við hinum komandi endi þessa heimskerfis. Alger endalok þessa gamla heimskerfis munu ekki eiga sér stað fyrr en „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ hefur verið prédikað í þeim mæli sem alvaldur Guð hefur áformað. (Matteus 24:14) Það eru ekki vottar Jehóva sem ákveða hvenær prédikunastarfinu er lokið. Sú ákvörðun er réttur sem Jehóva ætlar sjálfum sér. (Markús 13:32, 33) Við erum þess vegna staðráðin í að leggja okkur fram af eins miklu kappi og hægt er, svo lengi sem það er nauðsynlegt að prédika um bestu stjórnina sem mannkynið getur hugsanlega haft, Guðsríki. ‚Þrengingin mikla‘ mun skella á meðan við erum enn að rækja þetta starf. (Matteus 24:21) Um allan ókominn tíma mun fólk geta litið um öxl og viðurkennt að Jesús Kristur var ekki falsspámaður. (Opinberunarbókin 19:11) Prédikunarstarfið hefur verið unnið í langtum ríkari mæli en þeir sem taka þátt í því höfðu vænst.
15 Af þessu leiðir að þegar kemur að þeim afdrifaríka tíma er starfið hefur verið unnið í þeim mæli sem Guð er ánægður með, munu líklega fleiri en nokkru sinni fyrr vera þátttakendur í því. Við ættum sannarlega að vera þakklát fyrir að hafa mátt eiga hlutdeild í þessu mikla starfi! Pétur postuli fullvissar okkur um að Jehóva ‚vilji ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.‘ (2. Pétursbréf 3:9) Af þeim sökum vinnur starfskraftur Guðs af meira afli núna en nokkru sinni fyrr og vottar Jehóva þrá að halda áfram þessu starfi sem andinn knýr þá til. Haltu þér því fast við skipulag Jehóva og vertu önnum kafinn í hinni opinberu þjónustu þess. Það mun reynast þér hjálp til að halda þér vakandi.
Rannsakaðu sjálfan þig
16. Hvers vegna ættum við að rannsaka sjálfa okkur til að kanna andlegt ásigkomulag okkar?
16 Fimmta atriðið, sem við getum gert til að hjálpa okkur að halda okkur vakandi, er þetta: Sem einstaklingar ættum við að gera sjálfsrannsókn til að rannsaka stöðu okkar eins og hún er núna. Það á betur við núna en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að sanna hvorum megin við stöndum einbeitt í bragði. Í Galatabréfinu 6:4 sagði Páll: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín.“ Gerðu sjálfsrannsókn í samræmi við orð Páls í 1. Þessaloníkubréfi 5:6-8: „Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir. Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni. En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.“
17. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur þegar við gerum sjálfsrannsókn?
17 Hvað um okkur? Þegar við skoðum okkur í ljósi Ritningarinnar, sjáum við þá að við höldum okkur vakandi og berum von hjálpræðisins sem hjálm? Erum við menn sem hafa ótvírætt aðgreint sig frá gamla heimskerfinu og aðhyllast ekki lengur hugmyndir þess? Höfum við í sannleika anda nýja heimsins? Erum við fullkomlega vakandi fyrir því hvert þetta heimskerfi stefnir? Ef svo er mun dagur Jehóva ekki koma okkur að óvörum eins og við værum þjófar. — 1. Þessaloníkubréf 5:4.
18. Hvaða fleiri spurninga getum við þurft að spyrja okkur og með hvaða árangri?
18 En hvað skal gera leiði sjálfsrannsókn okkar í ljós að við leggjum kapp á að skapa okkur notalega, þægilega og rólega tilveru? Hvað nú ef við uppgötvum að andleg augu okkar eru orðin þung af syfju og svefndrunga? Erum við í draumkenndu ástandi að eltast við einhverja veraldlega draumóra? Ef svo er, þá skulum við vakna! — 1. Korintubréf 15:34.
Ígrundaðu uppfyllta spádóma
19. Nefndu nokkra spádóma sem við höfum séð uppfyllast.
19 Nú komum við að sjötta atriðinu sem hjálpar okkur að halda okkur vakandi: Að ígrunda hina mörgu spádóma sem hafa uppfyllst núna á endalokatímanum. Nú er þegar liðið 77. árið síðan tilteknum tíðum þjóðanna lauk árið 1914. Þegar við lítum um öxl yfir síðustu þrjá aldarfjórðunga sjáum við hvernig einn spádómur af öðrum hefur uppfyllst — endurreisn sannrar guðsdýrkunar; frelsun hinna smurðu leifa, ásamt miklum múgi félaga þeirra, inn í andlega paradís; prédikun fagnaðarerindisins á heimsmælikvarða og tilkoma hins ‚mikla múgs.‘ (Jesaja 2:2, 3; 35. kafli; Sakaría 8:23; Matteus 24:14; Opinberunarbókin 7:9) Nafn Jehóva og drottinvald yfir alheimi hefur verið miklað, og eins hefur hinn minnsti orðið að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð, og Jehóva hefur hraðað því þegar að því kom. (Jesaja 60:22; Esekíel 38:23) Og sýnir Jóhannesar postula, sem segir frá í Opinberunarbókinni, eru nú að nálgast hámark sitt.
20. Hvað eru vottar Jehóva sannfærðir um og hvað hafa þeir reynst vera?
20 Vottar Jehóva eru því sannfærðari um það en nokkru sinni fyrr að skilningur þeirra á merkingu heimsástandsins frá 1914 sé réttur. Slík sannfæring hefur gert þá að verkfærum í hendi hins hæsta Guðs. Það eru þeir sem hefur verið falið að flytja boðskap Guðs á þessum örlagaríku tímum. (Rómverjabréfið 10:15, 18) Já, orð Jehóva fyrir okkar tíma hafa ræst. (Jesaja 55:11) Það ætti síðan að örva okkur til að halda áfram uns við sjáum öll fyrirheit Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists rætast til fulls.
Hjálpræðið er nær en þegar við tókum trú
21. Hvaða sjöunda atriði er okkur hjálp til að halda andlegri vöku okkar?
21 Að lokum er að nefna síðasta atriðið sem hjálpar okkur að halda okkur vakandi: Höfum alltaf í huga að hjálpræði okkar er nær nú en þegar við fyrst tókum trú. Og það sem þýðingarmeira er: Réttlæting drottinvalds Jehóva yfir alheimi og helgun nafns hans er langtum nær. Það er því brýnna en nokkru sinni fyrr að halda sér vakandi. Páll postuli skrifar: „Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd.“ — Rómverjabréfið 13:11, 12.
22. Hvaða áhrif ætti nálægð hjálpræðis okkar að hafa á okkur?
22 Með því að hjálpræði okkar er miklu nær verðum við að halda okkur vakandi. Við viljum ekki láta nein persónuleg eða veraldleg áhugamál vera þyngri á metunum en jákvætt mat okkar á því sem Jehóva er að gera fyrir þjóna sína núna á endalokatímanum. (Daníel 12:3) Við þurfum að sýna meiri þrautseigju en nokkru sinni fyrr þannig að við víkjum ekki út af veginum sem orð Guðs markar okkur svo skýrt. (Matteus 13:22) Sönnunargögnin sýna greinilega að þessi heimur er á fallanda fæti. Innan skamms verður hann þurrkaður út til að rýma fyrir nýjum heimi réttlætisins. — 2. Pétursbréf 3:13.
23. Á hvaða vegu mun Jehóva hjálpa okkur og með hvaða blessunarríkum árangi?
23 Við verðum því fyrir alla muni að halda okkur vakandi. Meira en nokkru sinni fyrr þurfum við að halda okkur vakandi fyrir því hvar við stöndum í straumi tímans. Munum að Jehóva mun aldrei sofna gagnvart þessu máli. Hann mun alltaf hjálpa okkur við að halda okkur vakandi núna á endalokatímanum. Langt er liðið á nóttina. Dagurinn er í nánd. Höldum okkur því vakandi! Bráðlega munum við fá að sjá fegursta dag allra daga er Messíasarríki Jehóva uppfyllir loforð sín gagnvart jörðinni! — Opinberunarbókin 21:4, 5.
Hver eru svör þín?
◻ Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að reiðidagur Guðs myndi koma yfir fólk „eins og snara“?
◻ Hvers vegna verðum við að berjast gegn því sem truflar og dregur til sín athygli okkar?
◻ Hvers konar bæn er nauðsynleg til að halda okkur vakandi?
◻ Hvers konar félagsskapur er lífsnauðsynlegur?
◻ Hvers vegna er sjálfsrannsókn á andlegri stöðu okkar nauðsynleg?
◻ Hvert er hlutverk spádómanna í því að halda okkur vakandi?