Trúi þjónninn stenst prófið
„Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:17.
1. Hvers varð Jesús áskynja þegar hann kannaði hvernig ,þjónninn‘ sinnti verkefni sínu?
Á HVÍTASUNNU árið 33 útnefndi Jesús ,þjón‘ sem átti að gefa ,hjúum‘ hans mat á réttum tíma. Árið 1914 var Jesús krýndur konungur og fljótlega eftir það var tími til kominn að kanna hvernig ,þjónninn‘ sinnti verkefni sínu. Hann komst að raun um að ,þjónninn‘ var að mestu leyti ,trúr og hygginn‘. Hann setti hann því „yfir allar eigur sínar“. (Matteus 24:45-47) En illur þjónn var einnig á sjónarsviðinu og hann var hvorki trúr né hygginn.
„Sá hinn illi þjónn“
2, 3. Hvaðan kom ,illi þjónninn‘ og hvernig varð hann til?
2 Jesús talaði um illa þjóninn strax á eftir trúa og hyggna þjóninum. Hann sagði: „Ef illur þjónn [„sá hinn illi þjónn“, Biblían 1912] segir í hjarta sínu: ‚Húsbónda mínum dvelst,‘ og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ (Matteus 24:48-51) Nafngiftin „sá hinn illi þjónn“ beinir athygli okkar að því sem Jesús sagði á undan um trúa og hyggna þjóninn. Já, illi þjónninn kom úr röðum trúa þjónsins.a Hvernig þá?
3 Fyrir 1914 gerðu margir af hinum trúa þjónshópi sér miklar vonir um að hitta brúðgumann á himni það ár, en vonir þeirra rættust ekki. Þetta og fleira varð til þess að margir urðu fyrir vonbrigðum og nokkrir urðu beiskir. Sumir þeirra fóru að „berja“ fyrrverandi bræður sína með orðum og umgangast ,svallara‘, trúarhópa kristna heimsins. — Jesaja 28:1-3; 32:6.
4. Hvað gerði Jesús við ,illa þjóninn‘ og hvað hefur hann gert við alla sem hafa sýnt sama hugarfar?
4 Þessir fyrrverandi kristnu menn reyndust vera illi þjónninn og Jesús ,hjó þá‘, það er að segja refsaði þeim harðlega. Hvernig? Með því að hafna þeim þannig að þeir glötuðu himneskri von sinni. Þeim var hins vegar ekki eytt strax. Fyrst þurftu þeir að gráta og gnísta tönnum í ,myrkrinu‘ utan kristna safnaðarins. (Matteus 8:12) Síðan þetta átti sér stað hafa fáeinir andasmurðir menn til viðbótar sýnt sams konar slæmt viðhorf og þannig samsamað sig ,illa þjóninum‘. Sumir af ,öðrum sauðum‘ hafa líkt eftir ótrúfesti þeirra. (Jóhannes 10:16) Allir slíkir óvinir Krists lenda úti í sama andlega ,myrkrinu‘.
5. Hvernig brást hinn trúi og hyggni þjónn við, ólíkt illa þjóninum?
5 Þeir sem tilheyrðu hinum ,trúa og hyggna þjóni‘ gengu í gegnum sömu prófraunirnar og ,illi þjónninn‘. En í stað þess að verða beiskir þáðu þeir leiðréttingu. (2. Korintubréf 13:11) Kærleikur þeirra til Jehóva og bræðra sinna styrktist. Fyrir vikið hafa þeir verið „stólpi og grundvöllur sannleikans“ á þessum róstusömu „síðustu dögum“. — 1. Tímóteusarbréf 3:15; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
Hyggnar og fávísar meyjar
6. (a) Hvernig lýsti Jesús hyggni trúa þjónshópsins? (b) Hvaða boðskap kunngerðu andasmurðir kristnir menn fyrir 1914?
6 Eftir að Jesús hafði talað um illa þjóninn sagði hann tvær dæmisögur til að sýna fram á hvers vegna sumir andasmurðir kristnir menn myndu reynast trúir og hyggnir en aðrir ekki.b Hann lýsti hyggni á eftirfarandi hátt: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.“ (Matteus 25:1-4) Meyjarnar tíu minna okkur á andasmurða kristna menn fyrir 1914. Þeir höfðu reiknað út að brúðguminn, Jesús Kristur, væri við það að birtast. Þeir „fóru“ því til móts við hann með því að prédika að ,tímum heiðingjanna‘ myndi ljúka árið 1914. — Lúkas 21:24.
7. Hvenær og hvers vegna má segja að andasmurðir kristnir menn hafi ,sofnað‘?
7 Þeir höfðu rétt fyrir sér. Tímum heiðingjanna lauk árið 1914 og Guðsríki, undir stjórn Jesú Krists, tók til starfa. En það gerðist á himnum, hulið sjónum manna. Hér á jörðinni þjáðist mannkynið eins og spáð hafði verið. (Opinberunarbókin 12:10, 12) Reynslutími fylgdi í kjölfarið. Andasmurðir kristnir menn héldu að ,brúðgumanum hefði dvalist‘ þar sem þeir skildu málin ekki til hlítar. Þeir voru ráðvilltir og máttu þola fjandskap heimsins og því hægðu þeir almennt ferðina, og boðunarstarfið meðal almennings stöðvaðist að heita mátti. Eins og meyjarnar í dæmisögunni urðu þeir ,syfjaðir og sofnuðu‘ í andlegum skilningi, líkt og ótrúir nafnkristnir menn gerðu eftir að postular Jesú dóu. — Matteus 25:5; Opinberunarbókin 11:7, 8; 12:17.
8. Hvað varð til þess að hrópað var: „Sjá, brúðguminn kemur,“ og hvað áttu smurðir kristnir menn þá að gera?
8 En árið 1919 gerðist nokkuð óvænt. Við lesum: „Um miðnætti kvað við hróp: ‚Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.‘ Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.“ (Matteus 25:6, 7) Einmitt þegar útlitið var sem dekkst kom boð um að hefjast handa. Árið 1918 hafði Jesús, „engill sáttmálans“, komið til andlegs musteris Jehóva til að kanna söfnuð hans og hreinsa hann. (Malakí 3:1) Nú þurftu andasmurðir kristnir menn að hitta hann í jarðneskum forgarði þessa musteris. Það var kominn tími til að ,skína‘. — Jesaja 60:1; Filippíbréfið 2:14, 15.
9, 10. Hvers vegna voru sumir kristnir menn ,hyggnir‘ en aðrir ,fávísir‘ árið 1919?
9 En bíðum við! Sumar af ungu konunum í dæmisögunni áttu í vandræðum. Jesús hélt áfram: „Þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ‚Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘“ (Matteus 25:8) Án olíu gæfu lamparnir ekki frá sér ljós. Lampaolían minnir okkur á sannleiksorð Guðs og heilagan anda hans sem gerir sönnum tilbiðjendum kleift að vera ljósberar. (Sálmur 119:130; Daníel 5:14) Fyrir 1919 höfðu andasmurðir kristnir menn lagt sig alla fram við að skilja hvað Guð ætlaðist fyrir með þá, þrátt fyrir að þeir misstu mátt um tíma. Þeir voru því reiðubúnir þegar þeim var sagt að skína. — 2. Tímóteusarbréf 4:2; Hebreabréfið 10:24, 25.
10 Sumir hinna andasmurðu voru hins vegar ekki tilbúnir til að færa fórnir eða að leggja eitthvað á sig, þó langaði þá einlæglega að vera með brúðgumanum. Þegar tíminn var kominn til að hefjast handa voru þeir ekki viðbúnir. (Matteus 24:14) Þeir reyndu jafnvel að draga úr kappsfullum félögum sínum og báðu þá í raun um nokkuð af olíubirgðum þeirra. Hver voru viðbrögð hyggnu meyjanna í dæmisögu Jesú? Þær sögðu: „Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.“ (Matteus 25:9) Drottinhollir smurðir kristnir menn neituðu á svipaðan hátt árið 1919 að gera nokkuð sem myndi draga úr getu þeirra til að láta ljós sitt lýsa. Þeir stóðust prófið.
11. Hvað varð um fávísu meyjarnar?
11 Jesús lýkur dæmisögunni með því að segja: „Meðan þær [fávísu meyjarnar] voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.‘ En hann svaraði: ‚Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.‘“ (Matteus 25:10-12) Já, sumir voru óviðbúnir komu brúðgumans þannig að þeir stóðust ekki prófið og misstu af tækifærinu til að vera viðstaddir brúðkaupsveisluna á himnum. En sorglegt.
Dæmisagan um talenturnar
12. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús til að lýsa trúmennsku? (b) Hver var maðurinn sem ,fór úr landi‘?
12 Eftir að Jesús hafði sagt dæmisögu sem fjallaði um hyggni sagði hann aðra sem fjallaði um trúmennsku. Hann sagði: „Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.“ (Matteus 25:14, 15) Maðurinn í dæmisögunni er Jesús sjálfur sem ,fór úr landi‘ þegar hann steig upp til himna árið 33. En fyrir uppstigningu sína fól hann trúföstum lærisveinum sínum „eigur sínar“. Hvernig þá?
13. Hvernig lagði Jesús grunninn að umfangsmiklu starfi og hvernig fól hann ,þjónum‘ sínum að ávaxta eigur sínar?
13 Meðan Jesús þjónaði á jörð lagði hann grunninn að umfangsmiklu starfi með því að prédika fagnaðarerindið um ríkið út um allt Ísraelsland. (Matteus 9:35-38) Áður en hann ,fór úr landi‘ fól hann trúföstum lærisveinum sínum að halda þessu starfi áfram er hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:18-20) Með þessum orðum veitti Jesús þjónum sínum umboð, „hverjum eftir hæfni“, til að ávaxta eigur sínar þar til hann kæmi aftur.
14. Hvers vegna var þess ekki krafist að allir ávöxtuðu talenturnar jafnmikið?
14 Þetta orðalag gefur til kynna að kristnir menn á fyrstu öld bjuggu við ólíkar aðstæður og höfðu misjafna möguleika. Sumir, eins og Páll og Tímóteus, gátu notað mestallan tíma sinn til að boða trúna og kenna. Aðstæður annarra hafa kannski skert mjög frelsi þeirra. Til dæmis voru sumir kristnir menn þrælar og aðrir voru heilsuveilir, komnir á efri ár eða höfðu fyrir fjölskyldu að sjá. Og auðvitað voru ákveðin verkefni í söfnuðinum sem stóðu ekki öllum lærisveinum til boða. Andasmurðar konur og sumir andasmurðir karlmenn kenndu ekki í söfnuðinum. (1. Korintubréf 14:34; 1. Tímóteusarbréf 3:1; Jakobsbréfið 3:1) En hverjar svo sem kringumstæður andasmurðra lærisveina voru, jafnt karla sem kvenna, var þeim öllum falið að ávaxta talenturnar, það er að segja að nýta vel þau tækifæri og þær aðstæður sem þeir höfðu í hinni kristnu þjónustu. Lærisveinar Krists nú á dögum gera það sama.
Könnunin hefst
15, 16. (a) Hvenær var kominn tími til að gera skil? (b) Hvaða ný tækifæri fengu trúir þjónar til að ávaxta eigur húsbóndans?
15 Dæmisagan heldur áfram: „Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.“ (Matteus 25:19) Árið 1914, sannarlega löngu eftir árið 33, hóf Jesús nærveru sína sem konungur. Þremur og hálfu ári síðar, árið 1918, kom hann til andlegs musteris Guðs og uppfyllti orð Péturs: „Nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs.“ (1. Pétursbréf 4:17; Malakí 3:1) Tími var kominn til að gera skil.
16 Hvað höfðu þjónarnir, andasmurðir bræður Krists, gert við ,talentur‘ konungsins? Frá árinu 33, þar á meðal á árunum skömmu fyrir 1914, höfðu margir unnið hörðum höndum að því að ávaxta eigur Jesú. (Matteus 25:16) Þeir sýndu sterka löngun til að þjóna húsbóndanum jafnvel meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Nú var rétti tíminn til að gefa trúum þjónum ný tækifæri til að ávaxta eigur húsbóndans. Endalokatími þessa heimskerfis var runninn upp. Prédika þurfti fagnaðarerindið út um allan heim. „Sáðland jarðarinnar“ var tilbúið til uppskeru. (Opinberunarbókin 14:6, 7, 14-16) Finna þurfti þá síðustu af hveitihópnum og „mikill múgur“ af öðrum sauðum safnaðist inn. — Opinberunarbókin 7:9; Matteus 13:24-30.
17. Hvernig gengu trúfastir smurðir kristnir menn „inn í fögnuð herra“ síns?
17 Uppskerutíminn er ánægjulegur. (Sálmur 126:6) Það á því vel við að Jesús skyldi segja er hann fól andasmurðum bræðrum sínum aukna ábyrgð árið 1919: „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ (Matteus 25:21, 23) Og fögnuður herrans, sem nú hafði tekið við konungdómi, var meiri en við getum gert okkur í hugarlund. (Sálmur 45:2, 3, 7, 8) Hinn trúi þjónshópur á hlutdeild í þessum fögnuði því að hann er fulltrúi konungsins og ávaxtar eigur hans hér á jörð. (2. Korintubréf 5:20) Hin spádómlegu orð í Jesaja 61:10 lýsa gleði þeirra: „Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins.“
18. Hvers vegna stóðust ekki allir prófið og með hvaða afleiðingum?
18 En því miður stóðust ekki allir prófið. Við lesum: „Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ‚Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.‘“ (Matteus 25:24, 25) Sumir andasmurðir kristnir menn höfðu ekki ,ávaxtað‘ talenturnar. Fyrir 1914 höfðu þeir ekki sagt öðrum kostgæfilega frá von sinni og þeir ætluðu sér ekki að byrja á því árið 1919. Hvernig brást Jesús við óskammfeilni þeirra? Hann svipti þá öllum verkefnum. Þeir voru ,reknir út í ystu myrkur og þar yrði grátur og gnístran tanna‘. — Matteus 25:28, 30.
Könnunin heldur áfram
19. Á hvaða hátt heldur könnunin áfram og hvað eru allir smurðir kristnir menn ákveðnir í að gera?
19 Auðvitað voru fæstir, sem yrðu andasmurðir þjónar Jesú á endalokatímanum, farnir að þjóna Jehóva þegar Jesús hóf könnun sína árið 1918. Misstu þeir af könnuninni? Alls ekki. Könnunin á árunum 1918-19, þegar hinn trúi og hyggni þjónn stóðst prófið sem hópur, var aðeins byrjunin. Hver einstakur andasmurður kristinn maður sætir áfram könnun uns hann hlýtur endanlegt innsigli. (Opinberunarbókin 7:1-3) Andasmurðir bræður Krists gera sér þetta ljóst og halda trúfastlega áfram að ávaxta eigur hans. Þeir eru staðráðnir í að vera hyggnir með því að hafa alltaf nægar olíubirgðir svo að ljósið skíni skært. Þeir vita að þegar þeir ljúka æviskeiði sínu í trúfesti fara þeir í hinn himneska bústað þar sem Jesús tekur á móti þeim. — Matteus 24:13; Jóhannes 14:2-4; 1. Korintubréf 15:50, 51.
20. (a) Hvað eru aðrir sauðir nú á dögum ákveðnir í að gera? (b) Um hvað eru smurðir kristnir menn sér meðvita?
20 Hinn mikli múgur annarra sauða hefur líkt eftir andasmurðum bræðrum sínum. Þeim er ljóst að þekkingin á fyrirætlunum Guðs hefur mikla ábyrgð í för með sér. (Esekíel 3:17-21) Þeir nýta sér hjálp orðs Jehóva og anda hans með því að nema og sækja samkomur svo að þeir eigi alltaf nægar olíubirgðir. Og þeir láta ljós sitt lýsa með því að taka þátt í að prédika og kenna og ávaxta þannig eigur húsbóndans ásamt andasmurðum bræðrum sínum. Smurðum kristnum mönnum er hins vegar fullljóst að talenturnar voru fengnar þeim í hendur. Þeir verða að standa reikningsskil fyrir það hvernig farið er með jarðneskar eigur herrans. Þótt fámennir séu geta þeir ekki afsalað sér ábyrgð sinni og látið hana á herðar múginum mikla. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur þetta skýrt í huga og heldur áfram að taka forystuna í að ávaxta eigur konungsins og er þakklátur fyrir dyggan stuðning hins mikla múgs. Meðlimir hins mikla múgs gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem andasmurðir bræður þeirra hafa og finnst heiður að vinna undir forystu þeirra.
21. Hvaða hvatning á við alla kristna menn frá því fyrir 1919 og fram á okkar daga?
21 Þó að þessar dæmisögur varpi ljósi á atburði árið 1919 eða um það leyti, eiga meginreglur þeirra við alla sannkristna menn á hinum síðustu dögum. Hvatningin, sem Jesús gaf í lok dæmisögunnar um meyjarnar tíu, á því fyrst og fremst við andasmurða kristna menn fyrir 1919 en meginreglan á við alla kristna menn. Tökum því öll til okkar hvatningu Jesú: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ — Matteus 25:13.
[Neðanmáls]
a Eftir dauða postulanna komu á líkan hátt fram „skæðir vargar“ úr röðum andasmurðra öldunga í kristna söfnuðinum. — Postulasagan 20:29, 30.
b Einnig er fjallað um dæmisögu Jesú í 5. og 6. kafla bókarinnar Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans, gefin út af Vottum Jehóva.
Geturðu útskýrt?
• Hvenær kannaði Jesús fylgjendur sína og að hverju komst hann?
• Hvers vegna tileinkuðu sumir andasmurðir kristnir menn sér viðhorf ,illa þjónsins‘?
• Hvernig getum við sýnt að við séum andlega hyggin?
• Hvernig getum við líkt eftir trúföstum andasmurðum bræðrum Krists í því að ávaxta eigur hans?
[Rammagrein á blaðsíðu 15]
Hvenær kemur Jesús?
Í 24. og 25. kafla Matteusar er Jesús sagður „koma“ í mismunandi hátt. Hann þarf ekki að færa sig bókstaflega úr stað til að „koma“ heldur ,kemur‘ hann í þeim skilningi að hann beinir athygli sinni að mannkyninu eða fylgjendum sínum, oft í þeim tilgangi að dæma. Árið 1914 „kom“ hann til að hefja nærveru sína sem krýndur konungur. (Matteus 16:28; 17:1; Postulasagan 1:11) Árið 1918 „kom“ hann sem engill sáttmálans og byrjaði að dæma þá sem sögðust þjóna Jehóva. (Malakí 3:1-3; 1. Pétursbréf 4:17) Í Harmagedón „kemur“ hann til að fullnægja dómi á óvinum Jehóva. — Opinberunarbókin 19:11-16.
Í Matteusi 24:29-44 og 25:31-46 er talað nokkrum sinnum um að Jesús komi og er þá átt við komu hans í „þrengingunni miklu“. (Opinberunarbókin 7:14) Koman, sem talað er nokkrum sinnum um í Matteusi 24:45 til 25:30, vísar hins vegar til dómsins yfir þeim sem segjast vera lærisveinar hans en hann hófst árið 1918. Það væri órökrétt að álykta sem svo að umbun trúa þjónsins, dómurinn yfir fávísu meyjunum og dómurinn yfir lata þjóninum, sem faldi talentu húsbóndans, eigi sér allt stað þegar Jesús „kemur“ í þrengingunni miklu. Það þýddi að margir hinna andasmurðu myndu reynast ótrúir þegar þar að kæmi og aðrir þyrftu því að koma í stað þeirra. Opinberunarbókin 7:3 gefur hins vegar til kynna að þá verði búið að innsigla alla andasmurða þjóna Krists.
[Mynd á blaðsíðu 13]
,Illi þjónninn‘ hlaut enga blessun árið 1919.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Hyggnu meyjarnar voru viðbúnar þegar brúðguminn kom.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Trúi þjónninn hafði ,ávaxtað talenturnar‘.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Lati þjónninn hafði ekki gert það.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Hinir andasmurðu og múgurinn mikli halda áfram að láta ljós sitt lýsa.