Kafli 111
Tákn síðustu daga
ÞAÐ er komið fram yfir miðjan dag á þriðjudegi. Jesús situr á Olíufjallinu og horfir yfir musterið fyrir neðan þegar Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes koma einslega að máli við hann. Þeir hafa áhyggjur af musterinu því að Jesús er nýbúinn að spá því að ekki verði skilinn þar eftir steinn yfir steini.
En að öllum líkindum hafa þeir ýmislegt fleira í huga þegar þeir koma að máli við hann. Fyrir fáeinum vikum hafði hann talað um „nærveru“ sína „er Mannssonurinn opinberast,“ og áður hafði hann sagt þeim frá „endi veraldar.“ Postularnir eru því mjög forvitnir.
„Segðu okkur,“ spyrja þeir, „hvenær verður þetta [sem leiðir til eyðingar Jerúsalem og musterisins] og hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ Spurningin er í rauninni þríþætt. Í fyrsta lagi vilja þeir vita meira um endalok Jerúsalem og musterisins, í öðru lagi um nærveru Jesú sem konungur Guðsríkis og í þriðja lagi um endalok heimskerfisins alls.
Jesús svarar öllum þrem spurningunum í löngu máli. Hann segir frá tákni sem sýnir hvenær gyðingakerfið líður undir lok, en ekki nóg með það. Hann greinir líka frá tákni sem gerir lærisveinum hans í framtíðinni viðvart um að nærvera hans standi yfir og að endalok alls heimskerfisins séu í nánd.
Postularnir sjá spádóm Jesú rætast þegar árin líða. Já, það sem hann sagði fyrir tekur að rætast á þeirra dögum. Eyðing Gyðingakerfisins og musterisins árið 70, 37 árum síðar, kemur þálifandi kristnum mönnum því ekki að óvörum.
Nærvera Krists sem konungur Guðsríkis hefst þó ekki árið 70 heldur löngu síðar. En hvenær? Athugun á spádómi Jesú leiðir það í ljós.
Jesús boðar „hernað og ófriðartíðindi.“ „Þjóð mun rísa gegn þjóð,“ segir hann, og það verður hungur, jarðskjálftar og drepsóttir. Lærisveinar hans verða hataðir og drepnir. Falsspámenn koma fram og leiða marga í villu. Lögleysi magnast og kærleikur flestra kólnar. Samtímis verður fagnaðarerindið um Guðsríki prédikað til vitnisburðar öllum þjóðum.
Enda þótt spádómur Jesú uppfyllist að hluta til fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70 á hann sér aðaluppfyllingu á nærverutíma hans og endalokatíma heimskerfisins. Nákvæm athugun á heimsatburðunum frá 1914 sýnir að aðaluppfylling hins mikla spádóms Jesú hefur átt sér stað frá því ári.
Annar hluti táknsins, sem Jesús greinir frá, er að „viðurstyggð eyðingarinnar“ komi fram. Árið 66 birtist þessi viðurstyggð í mynd rómverskra ‚herfylkinga‘ sem umkringja Jerúsalem og grafa undan musterisveggnum. ‚Viðurstyggðin‘ stendur þar sem hún á ekki að standa.
Í aðaluppfyllingu táknsins er viðurstyggðin Þjóðabandalagið og arftaki þess, Sameinuðu þjóðirnar. Kristni heimurinn lítur á þessi heimsfriðarsamtök sem staðgengil Guðsríkis. Viðurstyggilegt! Þess vegna eiga stjórnmálaöfl innan Sameinuðu þjóðanna eftir að snúast gegn kristna heiminum (sem Jerúsalem táknaði) og eyða honum.
Jesús segir því: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur. Eyðing Jerúsalem árið 70 er vissulega mikil þrenging. Talið er að meira en milljón manna hafi látið lífið. Aðaluppfylling þessa hluta spádóms Jesú verður margfalt meiri í sniðum.
Trúartraust á síðustu dögum
Degi er tekið að halla þriðjudaginn 11. nísan en Jesús heldur áfram að ræða við postulana um tákn nærveru sinnar sem konungur Guðsríkis og endaloka heimskerfisins. Hann varar þá við því að elta falskrista. Reynt verður að „leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.“ En eins og sjónskarpir ernir safnast þessir útvöldu þangað sem ósvikna andlega fæðu er að finna, það er að segja til hins sanna Krists við ósýnilega nærveru hans. Þeir safnast ekki um einhvern falskrist sem leiðir þá afvega.
Falskristar geta aðeins komið fram í sýnilegri mynd en nærvera Jesú verður aftur á móti ósýnileg. Eftir að þrengingin skellur á, segir Jesús, mun „sólin sortna og tunglið hætta að skína.“ Já, þetta verður myrkasta tímabil mannkynssögunnar. Það verður rétt eins og sólin sortni að degi og tunglið hætti að skína að nóttu.
‚Kraftar himnanna munu bifast,‘ heldur Jesús áfram. Með því á hann við að hinn bókstaflegi himinn verði óheillavænlegur á að líta. Óttinn og ofbeldið verður meira en nokkru sinni fyrr í sögunni.
Afleiðingin, segir Jesús, er „angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ Þegar dregur að lokum þessa myrkasta tímabils mannkynssögunnar mun „tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi.“
En ekki kveina allir þegar ‚Mannssonurinn kemur með mætti‘ til að eyða þessu illa heimskerfi. Hinir „útvöldu,“ hinir 144.000 sem fá hlutdeild með Kristi í ríki hans á himnum, kveina ekki né heldur félagar þeirra, þeir sem Jesús kallaði áður „aðra sauði“ sína. Enda þótt þeir lifi myrkustu tíma mannkynssögunnar fara þeir eftir hvatningu Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“
Til að lærisveinar Jesú á síðustu dögum geti vitað með vissu hve nálæg endalokin séu kemur hann með þessa líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.“
Þegar lærisveinar hans sjá hina mörgu þætti táknsins rætast ætti þeim að vera ljóst að endir heimskerfisins er nálægur og að Guðsríki afmáir bráðlega alla illsku. Endirinn á sér stað á æviskeiði þeirra sem sjá uppfyllingu alls þess sem Jesús sagði fyrir! Hann hvetur þá lærisveina sem verða uppi á hinum örlagaríku síðustu dögum:
„Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“
Hyggnu og fávísu meyjarnar
Jesús hefur verið að svara spurningu postulanna um tákn nærveru sinnar sem konungur Guðsríkis. Nú gefur hann meiri upplýsingar um táknið í þrem dæmisögum.
Þeir sem lifa á nærverutíma hans sjá allar þessar dæmisögur uppfyllast. Hann byrjar þá fyrstu með orðunum: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.“
Með orðunum ‚líkt er um himnaríki og tíu meyjar‘ á Jesús ekki við að helmingur þeirra, sem erfa ríkið á himnum, séu fávísir og helmingurinn hygginn. Nei, hann á við að ákveðnar aðstæður eða ákveðin mál í tengslum við himnaríki verði svona og svona.
Meyjarnar tíu tákna alla kristna menn sem eiga í vændum eða segjast eiga í vændum að erfa himnaríki. Það var á hvítasunnunni árið 33 sem kristni söfnuðurinn var heitbundinn hinum upprisna og dýrlega gerða brúðguma, Jesú Kristi. En brúðkaupið átti að eiga sér stað á himnum síðar, á einhverjum ótilgreindum tíma.
Meyjarnar tíu í dæmisögunni leggja af stað til að bjóða brúðgumann velkominn og slást í för með brúðarfylkingunni. Þegar hann kemur lýsa þær upp leiðina með lömpum sínum til að heiðra hann er hann leiðir brúðina í húsið sem hann hefur búið henni. En Jesús segir: „Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.“
Hin langa bið eftir brúðgumanum táknar að nærvera Krists sem ríkjandi konungur eigi sér stað löngu síðar. Loks sest hann í hásæti sitt árið 1914. Allar meyjarnar sofna þessa löngu nótt sem líður þangað til. En þær eru ekki fordæmdar fyrir það. Fávísu meyjarnar eru fordæmdar fyrir að hafa ekki með sér olíu á lampa sína. Jesús segir hvernig meyjarnar vakna áður en brúðguminn kemur: „Um miðnætti kvað við hróp: ‚Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.‘ Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ‚Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘ Þær hyggnu svöruðu: ‚Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.‘“
Olían táknar það sem lætur kristna menn skína sem ljósbera. Það er hið innblásna orð Guðs sem kristnir menn halda fast í, ásamt heilögum anda sem hjálpar þeim að skilja orðið. Andlega olían gerir hyggnu meyjunum kleift að láta ljós sitt skína til að fagna brúðgumanum á leiðinni til brúðkaupsveislunnar. En fávísi meyjahópurinn hefur ekki nauðsynlega andlega olíu í sér, á könnum sínum. Jesús lýsir atburðarásinni:
„Meðan [fávísu meyjarnar] voru að kaupa [olíu], kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.‘ En hann svaraði: ‚Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.‘“
Eftir að Kristur kemur í himnesku ríki sínu vakna hyggnu meyjarnar, sem eru smurðir sannkristnir menn, gagnvart þeim sérréttindum sínum að skína í þessum myrkvaða heimi, hinum endurkomna brúðguma til lofs. En þeir sem fávísu meyjarnar tákna eru ekki undir það búnir að fagna honum á þennan hátt. Þegar tíminn kemur opnar Kristur ekki fyrir þeim dyrnar að brúðkaupsveislunni á himnum. Hann lætur þá standa fyrir utan í svartnætti heimsins til að farast með öllum öðrum lögleysingjum. „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina,“ segir hann.
Dæmisagan um talenturnar
Jesús heldur áfram að ræða við postulana á Olíufjallinu og segir þeim aðra dæmisöguna af þrem. Í Jeríkó sagði hann dæmisöguna um pundin nokkrum dögum áður, til að benda á að Guðsríki kæmi ekki fyrr en að löngum tíma liðnum. Dæmisagan sem hann segir núna er að mörgu leyti lík henni en uppfyllist í starfi sem fram fer meðan Kristur er nærverandi sem konungur Guðsríkis. Hún sýnir fram á að lærisveinar hans verði að vinna að því að auka ‚eigur hans‘ meðan þeir eru á jörðinni.
Jesús hefur dæmisöguna: „Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.“ Jesús er maðurinn sem fær þjónunum — lærisveinum sem eiga í vændum að erfa himnaríkið — eigur sínar í hendur áður en hann fer úr landi til himna. Þessar eigur eru ekki efnislegar heldur tákna ræktaðan akur sem býður upp á möguleika á fleiri lærisveinum.
Jesús felur þjónunum eigur sínar skömmu áður en hann stígur upp til himna. Hvernig gerir hann það? Með því að segja þeim að halda áfram að vinna á þessum ræktaða akri með því að prédika boðskapinn um ríkið allt til endimarka jarðar. Eins og hann segir: „Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.“
Talentunum átta — eigum Krists — er því skipt milli þjónanna eftir hæfni þeirra eða andlegum möguleikum. Þjónarnir tákna lærisveinahópa. Á fyrstu öld voru postularnir greinilega í þeim hópi sem fékk fimm talentur. Jesús segir síðan að þjónarnir, sem fengu fimm talentur og tvær talentur, hafi tvöfaldað þær með því að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. En þjónninn, sem fékk eina talentu, gróf hana í jörð.
„Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil,“ heldur Jesús áfram. Það var ekki fyrr en á 20. öldinni, um 1900 árum síðar, sem Kristur kom aftur til að gera upp reikningana, svo sannarlega „löngu síðar.“ Síðan útskýrir hann:
„Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ‚Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.‘ Húsbóndi hans sagði við hann: ‚Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.‘“ Þjónninn, sem fékk tvær talentur, tvöfaldaði líka féð og fékk sama hrós og sömu laun.
En hvernig ganga þessir trúföstu þjónar inn í fögnuð herra síns? Fögnuður herra þeirra, Jesú Krists, var sá að fá í hendur ríkið er hann fór úr landi til föður síns á himnum. Trúfastir þjónar á okkar dögum hafa af því mikinn fögnuð að vera trúað fyrir meiri ábyrgð í tengslum við Guðsríki, og þegar þeir ljúka lífi sínu á jörðinni nær fögnuðurinn hámarki með upprisu til ríkisins á himnum. En hvað um þriðja þjóninn?
„Herra, ég vissi, að þú ert maður harður,“ kvartar þjónninn. „Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.“ Þjónninn neitaði af ásettu ráði að vinna á ræktaða akrinum með því að prédika og gera menn að lærisveinum. Herrann kallar hann því ‚illan og latan‘ og fellir dóm yfir honum: „Takið af honum talentuna . . . Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þeir sem tilheyra þessum illa þjónshópi eru reknir út og sviptir öllum andlegum fögnuði.
Í þessu er fólginn alvarlegur lærdómur fyrir alla sem segjast vera fylgjendur Krists. Vilji þeir fá hrós hans og umbun og komast hjá því að hann reki þá út í ystu myrkur til að tortímast að lokum, verða þeir að leggja sig fram um að auka eigur herra síns á himnum með því að gera allt sem þeir geta í prédikunarstarfinu. Ert þú kostgæfinn þátttakandi í því?
Þegar Kristur kemur sem konungur Guðsríkis
Jesús er enn með postulunum á Olíufjallinu. Þeir höfðu spurt hann um tákn nærveru hans og endaloka heimskerfisins, og nú segir hann þeim síðustu dæmisöguna af þrem. „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu,“ segir hann.
Þessi koma á sér stað þegar endalok heimskerfisins eru mjög nærri. En hver er tilgangur hennar? Jesús útskýrir: „Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“
Jesús lýsir svo hvað verður um þá sem eru velþóknunar megin: „Þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.‘“ Sauðirnir í þessari dæmisögu ríkja ekki með Kristi á himnum heldur erfa ríkið í þeim skilningi að þeir verða jarðneskir þegnar þess. „Grundvöllun heims“ átti sér stað þegar Adam og Eva byrjuðu að eignast börn sem gátu notið góðs af lausnarráðstöfun Guðs fyrir mannkynið.
En af hverju eru sauðirnir skildir frá og skipað konunginum á hægri hönd til tákns um velþóknun hans? „Því hungraður var ég,“ svarar konungurinn, „og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.“
Þar eð sauðirnir eru á jörðinni spyrja þeir hvernig þeir hafi getað gert himneskum konungi sínum svona gott. „Herra,“ spyrja þeir, „hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?“
„Sannlega segi ég yður,“ svarar konungurinn, „það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ Bræður Krists eru þeir sem eftir eru á jörðinni af hinum 144.000 sem eiga að ríkja með honum á himnum. Og að gera þeim gott, segir Jesús, er sama og að gera honum gott.
Síðan ávarpar konungurinn hafrana: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.“
En hafrarnir mögla: „Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?“ Hafrarnir fá óhagstæðan dóm eftir sömu reglum og sauðirnir fá hagstæðan dóm. „Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér,“ svarar Jesús.
Nærvera Krists sem konungur Guðsríkis, rétt fyrir endalok þessa illa heimskerfis í þrengingunni miklu, felur því í sér dómstíma. Hafrarnir „fara til eilífrar refsingar [eyðingar], en hinir réttlátu [sauðirnir] til eilífs lífs.“ Matteus 24:2–25:46, 24:3 samkvæmt NW; 13:40, 49; Markús 13:3-37; Lúkas 21:7-36; 19:43, 44; 17:20-30; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 14:1-3.
▪ Hver er kveikjan að spurningu postulanna en hvað annað hafa þeir að öllum líkindum í huga?
▪ Hvaða hluti spádóms Jesú uppfyllist árið 70 en hvað gerist ekki á þeim tíma?
▪ Hvenær á spádómur Jesú sér byrjunaruppfyllingu og hvenær lokauppfyllingu?
▪ Hver er viðurstyggðin í fyrri uppfyllingunni og þeirri síðari?
▪ Af hverju fær spádómurinn um þrenginguna miklu ekki lokauppfyllingu með eyðingu Jerúsalem?
▪ Hvaða ástand heimsmála einkennir nærveru Krists?
▪ Hvenær munu „allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi“ en hvað gera fylgjendur Krists?
▪ Hvaða líkingu segir Jesús til að hjálpa lærisveinum sínum í framtíðinni að skilja hvenær endirinn sé í nánd?
▪ Hvaða viðvörun gefur Jesús þeim lærisveinum sem verða uppi á síðustu dögum?
▪ Hverja tákna meyjarnar tíu?
▪ Hvenær var kristni söfnuðurinn heitbundinn brúðgumanum en hvenær kemur brúðguminn til að leiða brúði sína til brúðkaupsveislunnar?
▪ Hvað táknar olían og hvað gerir hún hyggnu meyjunum kleift?
▪ Hvar fer brúðkaupsveislan fram?
▪ Hvaða stórkostleg laun fara fávísu meyjarnar á mis við og hvaða örlög bíða þeirra?
▪ Hvað má læra af dæmisögunni um talenturnar?
▪ Hverjir eru þjónarnir og hverjar eru eigurnar sem þeim er trúað fyrir?
▪ Hvenær kemur húsbóndinn til að gera upp reikninga og hvað uppgötvar hann?
▪ Hver er fögnuðurinn sem trúföstu þjónarnir ganga inn í, en hvað verður um illa þjóninn?
▪ Hvaða dómsstarf vinnur Kristur á nærverutíma sínum?
▪ Í hvaða skilningi taka sauðirnir ríkið að erfð?
▪ Hvenær var „grundvöllun heims“?
▪ Á hvaða forsendum er fólk dæmt annaðhvort sauðir eða hafrar?