Eflum traust okkar á réttlæti Guðs
„Til þess að traust þitt sé á [Jehóva], fræði ég þig.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 22:19.
1, 2. (a) Af hverju treysta vottar Jehóva honum? (Orðskviðirnir 22:19) (b) Hvað bendir til að sumir þurfi að efla traust sitt á Jehóva?
SANNKRISTNIR menn njóta þeirrar blessunar að búa yfir nákvæmri þekkingu á Jehóva og tilgangi hans. ‚Trúr og hygginn þjónn‘ miðlar þeim andlegum „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Þekkingin, sem þeir afla sér, er þeim góður grundvöllur til að byggja á traust sitt á Guði. Sem heild sýna vottar Jehóva því einstakt traust á Jehóva og réttlæti hans.
2 Þó virðist sem sumir vottar þurfi að byggja upp traust sitt. Félaginu berast af og til bréf sem lýsa efasemdum um þær skýringar sem gefnar eru í ritum þess. Þessar efasemdir eru gjarnan viðbrögð við breyttum skilningi eða varða mál sem snerta spyrjandann, einkum tilfinningalega. — Samanber Jóhannes 6:60, 61.
3. Hvernig getur farið fyrir jafnvel trúföstum þjónum Jehóva og hvers vegna?
3 Jafnvel sannir þjónar Jehóva finna fyrir sannleikanum í orðum Prédikarans 9: 11: „Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ Hvernig gæti þetta komið fram í víðari eða andlegum skilningi? Við höfum kannski þekkt einhverja sem voru fljótir að fara eftir ráðum Biblíunnar, kappsamir að verja sannleikann, hyggnir í að fara eftir meginreglum Biblíunnar og kostgæfnir að sækjast eftir nákvæmri þekkingu. En „tími og tilviljun“ setur sumum skorður, til dæmis vegna elli eða slysa. Þeim kann að vera spurn hvort þeir komist inn í nýjan heim Guðs án þess að deyja nokkurn tíma.
4, 5. Af hverju hafa kristnir menn enga ástæðu til að missa traust sitt á réttlæti Jehóva?
4 Það er mikill og sár missir að sjá á bak maka sínum í dauðann. Kristin hjón hafa kannski þjónað Jehóva saman í áratugi. Eftirlifandi maki veit að hjónabandinu er lokið með dauðanum.a (1. Korintubréf 7:39) Nú þarf hann að hafa stjórn á tilfinningum sínum til að traust hans dvíni ekki. — Samanber Markús 16:8.
5 Það er viturlegt að líta á dauða maka, foreldris, barns eða náins vinar í söfnuðinum sem tækifæri til að sýna traust á réttlæti Jehóva. Jafnvel þegar við verðum fyrir persónulegum missi getum við treyst því að Jehóva sé ekki ranglátur. Við getum treyst því að allir verði hamingjusamir sem hljóta eilíft líf — hvort heldur þeir komast lifandi gegnum Harmagedón eða hljóta upprisu. Sálmaritarinn segir um Guð: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun. [Jehóva] er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum. [Jehóva] er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ — Sálmur 145:16-19.
Ef okkur finnst við hafa þjáðst að þarflausu
6, 7. (a) Af hverju getur skilningur sumra, sem þjáðust í fortíðinni, hafa breyst? (b) Af hverju ættum við ekki að álíta Jehóva ranglátan þótt hann hafi leyft slíkar þjáningar í fortíðinni?
6 Sumir vottar hafa þjáðst áður fyrr fyrir að taka ekki þátt í starfsemi sem þeir gætu kannski núna gert samviskunnar vegna. Ef til vill tengist það afstöðu þeirra til einhverrar borgaralegrar þjónustu á sínum tíma. Núna finnst bróður ef til vill að hann geti samviskunnar vegna gegnt slíkri þjónustu og jafnframt varðveitt kristið hlutleysi gagnvart þessu heimskerfi.
7 Var það ranglátt af Jehóva að leyfa að hann þjáðist fyrir að neita að gera það sem hann gæti gert núna án eftirmála? Fæstir myndu hugsa þannig heldur fagna því að þeir skuli hafa fengið tækifæri til að sýna opinberlega og afdráttarlaust að þeir hafi verið staðráðnir í að hvika ekki í deilunni um alheimsyfirráðin. (Samanber Jobsbók 27:5.) Getur nokkur haft ástæðu til að harma að hann skuli hafa hlýtt samviskunni og tekið eindregna afstöðu með Jehóva? Með því að halda sér dyggilega við kristnar meginreglur eins og þeir skildu þær eða hlýða ábendingum samviskunnar sönnuðu þeir sig verðuga vináttu Jehóva. Það er viturlegt að forðast hvaðeina sem myndi trufla samvisku manns eða líklegt er að hneykslaði aðra. Hér á vel við að hugleiða fordæmi Páls postula. — 1. Korintubréf 8:12, 13; 10:31-33.
8. Hvers vegna höfðu kristnir Gyðingar, sem áður héldu lögmálið, enga ástæðu til að véfengja réttlæti Jehóva?
8 Til að þóknast Jehóva þurftu Gyðingar að hlýða boðorðunum tíu og um 600 öðrum lagaákvæðum um margvísleg mál. Þegar kristnin tók við var þess ekki lengur krafist að hlýða þessum lögum sem slíkum til að þjóna Jehóva. Jafnvel Gyðingar að holdinu voru undanþegnir því. Lögin, sem ekki voru bindandi lengur, fjölluðu um umskurn, hvíldardaga og dýrafórnir, auk ýmissa ákvæða um mataræði. (1. Korintubréf 7:19; 10:25; Kólossubréfið 2:16, 17; Hebreabréfið 10:1, 11-14) Gyðingar sem tóku kristna trú, þeirra á meðal postularnir, voru leystir undan þeirri kvöð að halda lög sem þeim bar að hlýða meðan þeir voru undir lagasáttmálanum. Kvörtuðu þeir yfir því að það hefði verið ranglátt af Guði að krefjast einhvers áður sem ekki var nauðsynlegt lengur? Nei, þeir glöddust yfir víðari skilningi á tilgangi hans. — Postulasagan 16:4, 5.
9. Hvað hefur gerst hjá sumum vottum en af hverju þurfa þeir ekki að syrgja það?
9 Á okkar tímum hafa sumir vottar verið mjög strangir gagnvart því hvað þeir mættu gera og hvað ekki. Fyrir vikið þjáðust þeir meira en aðrir. Með tímanum jókst þekking þeirra og víðsýni. En þeir hafa enga ástæðu til að sjá eftir því að hafa hlýtt samviskunni áður, jafnvel þótt það hafi kannski valdið þeim meiri þjáningum en ella hefði verið. Það er hrósunarvert að þeir skuli hafa sýnt sig fúsa til að þjást sakir trúfesti sinnar við Jehóva, fyrir að ‚gera allt vegna fagnaðarerindisins.‘ Jehóva blessar þess konar guðrækni. (1. Korintubréf 9:23; Hebreabréfið 6:10) Orð Péturs postula bera vott um innsæi: „Ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.“ — 1. Pétursbréf 2:20.
Lærum af Jónasi
10, 11. Hvernig sýndi Jónas að hann treysti ekki Jehóva (a) þegar hann fékk það verkefni að fara til Níníve? (b) þegar Guð þyrmdi Nínívemönnum?
10 Þegar Jónasi var sagt að fara til Níníve kunni hann greinilega ekki að meta það traust sem Jehóva sýndi honum. Eftir skelfilega lífsreynslu, sem Jónas lenti í vegna þess að hann var tregur til að hlýða, kom hann til sjálfs sín, gerði sér grein fyrir mistökum sínum, tók að sér verkefnið sem honum var falið og varaði Nínívemenn við yfirvofandi eyðingu. Þá gerðist hið óvænta: Nínívemenn iðruðust og Jehóva ákvað að hætta við eyðinguna. — Jónas 1:1–3:10.
11 Hvernig brást Jónas við? Hann var óánægður og kvartaði við Guð í bæn. Kvörtunin var efnislega þessi: ‚Ég bjóst við að þetta færi svona. Þess vegna vildi ég ekki fara til Níníve upphaflega. Og nú gerist þetta eftir allt sem ég hef mátt þola, meðal annars þá ógn og þá auðmýkingu að láta stórfisk gleypa mig, og eftir að ég hef lagt mig fram um að vara Nínívemenn við yfirvofandi eyðingu. Allt þetta erfiði og allar þessar þjáningar voru til einskis! Ég gæti alveg eins verið dauður!‘ — Jónas 4:1-3.
12. Hvað getum við lært af Jónasi?
12 Hafði Jónas tilefni til að kvarta? Var það ranglátt af Jehóva að sýna iðrunarfullum syndurum miskunn? Í rauninni hefði Jónas átt að fagna því að tugþúsundum manna var forðað frá lífláti! (Jónas 4:11) En virðingarleysi hans og kvörtunarsemi sýndi að hann bar ekki mikið traust til réttlætis Jehóva. Jónas hugsaði of mikið um sjálfan sig og of lítið um aðra. Við skulum draga lærdóm af þessu með því að láta sjálf okkur og tilfinningar okkar vera aukaatriði. Verum sannfærð um að það sé rétt að hlýða Jehóva, fylgja leiðsögn skipulags hans og viðurkenna ákvarðanir hans. Við erum sannfærð um að „guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna.“ — Prédikarinn 8:12.
Núna er rétti tíminn til að efla traust okkar
13. Hvernig getum við öll byggt upp traust okkar til Jehóva?
13 Það er viturlegt að efla traust sitt til Jehóva. (Orðskviðirnir 3:5-8) Það er auðvitað ekki nóg að biðja hann aðeins að hjálpa okkur að treysta sér betur. Traust vex með nákvæmri þekkingu þannig að bæði lestur Biblíunnar og biblíuskýringarita þarf að vera þáttur í daglegu lífi okkar. Það er nauðsynlegt að sækja kristnar samkomur að staðaldri, undirbúa sig vel fyrir þær og taka eftir föngum þátt í þeim. Við aukum jafnframt traust okkar til Jehóva og orðs hans með því að temja okkur að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar og sigrast nærgætnislega á mótbárum. Þannig tengjumst við Jehóva betur dags daglega.
14. Af hverju þarf fólk Guðs bráðlega að sýna honum traust sitt betur en nokkru sinni fyrr?
14 Mesti þrengingatími mannkyns skellur skyndilega á innan skamms. (Matteus 24:21) Þegar það gerist þurfa þjónar Jehóva Guðs að treysta réttlæti hans og forystu skipulags hans meir en nokkru sinni fyrr. Á táknrænan hátt hlýða þeir þessari hvatningu Guðs í fullu trausti til hans: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá.“ (Jesaja 26:20) Þeir eru nú þegar komnir inn í verndað umhverfi rösklega 85.000 safnaða í 232 löndum. Við getum treyst því að Jehóva hjálpi okkur að gera hvaðeina annað sem kann að felast í þeirri hvatningu að ‚ganga inn í herbergið.‘
15. Hvernig hefur verið lögð áhersla á traust á árinu 1998 og af hverju er það viðeigandi?
15 Það er nauðsynlegt að styrkja traust sitt núna. Ef við treystum ekki kristnum bræðrum okkar, skipulagi Jehóva og síðast en ekki síst Jehóva sjálfum, þá getum við alls ekki bjargast. Það er því viðeigandi að vottar Jehóva um heim allan skuli hafa verið minntir margsinnis á það árið 1998 að ‚hver sem ákalli nafn Jehóva muni hólpinn verða,‘ eins og árstextinn segir. (Rómverjabréfið 10:13) Því verðum við að treysta áfram. Ef við finnum fyrir jafnvel minnstu óvissu ættum við að ráða bót á því nú þegar, strax í dag.
Dómur Jehóva verður réttlátur
16. Hvað getur orðið um traust ef ekki er lögð rækt við það og hvernig getum við komið í veg fyrir að það gerist?
16 Smurðir kristnir menn eru varaðir við í Hebreabréfinu 3:14: „Vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.“ Í meginatriðum eiga þessi orð líka við kristna menn með jarðneska von. Upphaflegt traust þeirra getur dvínað ef ekki er lögð rækt við það. Það er mjög mikilvægt að halda áfram að sækjast eftir nákvæmri þekkingu og styrkja með því grundvöllinn sem traust okkar er byggt á.
17. Hvernig getum við treyst að Jesús dæmi menn rétt?
17 Bráðlega mun Kristur rannsaka allar þjóðir til að „skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ (Matteus 25:31-33) Við megum treysta því að hann verði réttlátur er hann dæmir hverjir séu björgunar verðir. Jehóva hefur veitt honum visku, innsæi og annað sem þarf til að „dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ (Postulasagan 17:30, 31) Megi traust okkar vera eins og traust Abrahams sem sagði: „Fjarri sé það þér [Jehóva] að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ — 1. Mósebók 18:25.
18. Af hverju ættum við ekki að gera okkur óþarfar áhyggjur af því sem við vitum ekki núna?
18 Við getum treyst fullkomlega á réttlæti Jehóva og þurfum ekki að gera okkur áhyggjur af spurningum eins og: ‚Hvernig verða ungbörn og lítil börn dæmd? Getur hugsast að það takist ekki að koma fagnaðarerindinu til mikils fjölda manna áður en Harmagedón kemur? Hvað um geðsjúka? Hvað um . . . ?‘ Við vitum auðvitað ekki á þessari stundu hvernig Jehóva afgreiðir þessi mál. Hann á hins vegar eftir að gera það á réttlátan og miskunnsaman hátt. Við ættum aldrei að efast um það. Kannski kemur það okkur gleðilega á óvart þegar við sjáum hann afgreiða þau á einhvern hátt sem við hefðum aldrei ímyndað okkur. — Samanber Jobsbók 42:3; Sálm 78:11-16; 136:4-9; Matteus 15:31; Lúkas 2:47.
19, 20. (a) Af hverju er ekki rangt að spyrja skynsamlegra spurninga? (b) Hvenær veitir Jehóva þau svör sem við þurfum?
19 Skipulag Jehóva letur okkur ekki að spyrja einlægra og tímabærra spurninga eins og sumir andstæðingar halda ranglega fram. (1. Pétursbréf 1:10-12) Biblían varar okkur hins vegar við heimskulegum vangaveltum. (Títusarbréfið 3:9) Ef við spyrjum skynsamlegra spurninga og leitum svara í Biblíunni og kristnum ritum getum við aukið nákvæma þekkingu okkar og styrkt traust okkar á Jehóva. Skipulagið fylgir fordæmi Jesú. Hann svaraði ekki spurningum sem ekki var tímabært að svara. Hann útskýrði: „Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.“ (Jóhannes 16:12) Hann viðurkenndi einnig að sumt vissi hann ekki einu sinni á þeim tíma. — Matteus 24:36.
20 Jehóva hefur enn margt að opinbera. Það er viturlegt að bíða hans í trausti þess að hann opinberi tilgang sinn eftir því sem við á. Við getum treyst því að við njótum þeirrar gleði að fá aukinn skilning á vegum hans þegar hann telur það tímabært. Já, okkur verður umbunað, svo framarlega sem við treystum algerlega á Jehóva og skipulagið sem hann notar. Orðskviðirnir 14:26 fullvissa okkur: „Í ótta [Jehóva] er öruggt traust, og synir slíks manns munu athvarf eiga.“
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. október 1967, bls. 638; 1. júní 1987, bls. 30.
Hvað finnst þér?
◻ Af hverju er óskynsamlegt að láta tilfinningar grafa undan trausti sínu á Jehóva?
◻ Hvað getum við lært af Jónasi?
◻ Af hverju eru biblíunám og samkomusókn mjög mikilvæg?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Við getum treyst því að Jehóva sé réttlátur, jafnvel þótt við verðum fyrir missi.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Ertu viss um að þú treystir Jehóva?