Er Biblían mótsagnakennd?
RITHÖFUNDURINN Henry Van Dyke skrifaði einu sinni: „Fædd í austri og íklædd formi og myndmáli Austurlandabúa gengur Biblían kunnuglegu fótataki um allar jarðir inn í hvert landið af öðru til að öðlast alls staðar viðurkenningu. Hún hefur lært að tala á hundruðum tungna til hjartna manna. Börn hlýða á sögur hennar með undrun og ánægju og vitrir menn ígrunda þær sem dæmisögur um lífið. Hinir drambsömu og óguðlegu skjálfa við aðvaranir hennar en til særðra og iðrandi talar hún móðurlegri röddu. . . . Enginn maður er fátækur eða yfirgefinn sem hefur tileinkað sér fjársjóð hennar.“
Biblían hefur svo sannarlega „lært að tala á hundruðum tungna.“ Að minnsta kosti ein af hinum 66 bókum hennar hefur verið þýdd á 1982 tungumál. Milljónir manna líta á Biblíuna sem gjöf frá Guði og lesa hana sér til gagns og gleði. Sumir segja hins vegar að það séu mótsagnir í henni og að hún sé þess vegna óáreiðanleg. Hvað leiðir nákvæm rannsókn í ljós?
Eins og forsíðumyndin gefur til kynna notaði Guð trúfasta menn til að rita Biblíuna. Nákvæm athugun á Biblíunni sýnir að Guð notaði um 40 menn til að skrifa hana á 16 alda tímabili. Voru þeir rithöfundar að atvinnu? Nei, í þeirra hópi má finna fjárhirði, fiskimann, skattheimtumann, lækni, tjaldgerðarmann, prest, spámann og konung. Í ritum sínum nefna þeir oft þjóðir og siðvenjur sem koma okkur ókunnuglega fyrir sjónir núna á 20. öldinni. Reyndar skildu biblíuritararnir ekki alltaf þýðingu þess sem þeir voru að skrifa. (Daníel 12:8-10) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að rekast á ýmis torskilin atriði við lestur Biblíunnar.
Er hægt að varpa ljósi á þessi torskildu atriði? Er Biblían mótsagnakennd? Við skulum kanna það með hjálp nokkurra dæma.
Eru þetta raunverulegar mótsagnir?
▪ Hvar náði Kain sér í konu? (1. Mósebók 4:17)
Ætla mætti að eftir morðið á Abel hafi einu mennirnir á jörðinni verið bróðurmorðinginn Kain og foreldrar hans, Adam og Eva. En svo var ekki. Adam og Eva áttu fjölda barna. Samkvæmt 1. Mósebók 5:3, 4 eignaðist Adam son sem hét Set. Frásagan bætir við: „Dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur.“ Kain gekk því að eiga eina af systrum sínum eða ef til vill bróður- eða systurdóttur. Þar eð menn voru svo nærri því að vera fullkomnir á þeim tíma höfðu hjónabönd svona náinna skyldmenna greinilega ekki þá heilsufarshættu í för með sér fyrir afkomendur þeirra sem nú er.
▪ Hver seldi Jósef til Egyptalands?
Fyrsta Mósebók 37:27 segir að bræður Jósefs hafi afráðið að selja hann nokkrum Ísmaelítum, en í næsta versi segir: „En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir [bræður Jósefs] seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.“ Var Jósef seldur Ísmaelítum eða Midíanítum? Vera kann að Midíanítar hafi líka verið kallaði Ísmaelítar, enda voru þeir skyldir þeim gegnum Abraham, forföður sinn. Eins má vera að midíanskir kaupmenn hafi verið í för með úlfaldalest Ísmaelíta. Að minnsta kosti voru það bræður Jósefs sem seldu hann eins og hann gat sagt þeim síðar: „Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands.“ — 1. Mósebók 45:4.
▪ Hve margir Ísraelsmenn dóu vegna siðlausra maka sinna við móabískar konur og fyrir að hafa tilbeðið Baal Peór?
Fjórða Mósebók 25:9 segir: „Þeir sem dóu í plágunni [frá Guði vegna illrar breytni sinnar], voru tuttugu og fjórar þúsundir.“ Páll postuli sagði hins vegar: „Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra [Ísraelsmenn í eyðimörkinni] drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“ (1. Korintubréf 10:8) Ef til vill lá tala látinna milli 23.000 og 24.000 þannig að báðar tölurnar teljast fullnægjandi. Fjórða Mósebók gefur samt til kynna að dómarar hafi drepið „alla höfðingja lýðsins“ sem áttu aðild að syndinni. (4. Mósebók 25:4, 5) Ef til vill voru þessir seku ‚höfðingjar‘ 1000 talsins þannig að heildartalan verði 24.000 þegar þeim er bætt við þær 23.000 sem Páll nefnir. Svo er að sjá sem 23.000 hafi orðið bein fórnarlömb plágunnar frá Guði, en allir 24.000 dóu í plágu frá Jehóva vegna þess að hver einasti þeirra dó vegna þess dóms sem hann felldi. — 5. Mósebók 4:3.
▪ Úr því að Agag var samtíða Sál Ísraelskonungi, er þá ekki ósamræmi í því að Bíleam skuli löngu áður hafa talað um þjóðhöfðingja Amalekíta með því nafni?
Árið 1473 f.o.t. spáði Bíleam að konungur Ísraels myndi „meiri verða en Agag.“ (4. Mósebók 24:7) Ekkert er síðan minnst á Agag fyrr en í valdatíð Sáls konungs (1117-1078 f.o.t.). (1. Samúelsbók 15:8) Þetta var þó ekki misræmi því að „Agag“ kann að hafa verið konungstitill líkt og Faraó var í Egyptalandi. Eins er hugsanlegt að Agag hafi verið eiginnafn sem þjóðhöfðingjar Amalekíta notuðu aftur og aftur.
▪ Hver kom Davíð til að taka manntal í Ísrael?
Síðari Samúelsbók 24:1 segir: „Reiði [Jehóva] upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð [eða „þegar Davíð var egndur,“ NW Ref. Bi. neðanmáls] upp í móti þeim með því að segja: ‚Far þú og tel Ísrael og Júda.‘“ En það var ekki Jehóva sem kom Davíð konungi til að syndga því að 1. Króníkubók 21:1 segir: „Satan [eða „andstæðingur,“ NW Ref. Bi. neðanmáls] hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.“ Ísraelsmenn misþóknuðust Guði og þess vegna leyfði hann Satan djöflinum að koma þeim til að drýgja þessa synd. Af þeirri ástæðu hljóðar 2. Samúelsbók 24:1 eins og Guð hafi gert það sjálfur. Athyglisvert er hvernig biblíuþýðing Josephs B. Rotherhams hljóðar: „Reiði Jahve upptendraðist gegn Ísrael þannig að hann leyfði Davíð að fara gegn þeim og sagði: Far og tel Ísrael og Júda.“
▪ Hvernig er hægt að samræma hinar ólíku tölur sem gefnar eru upp um Ísraelsmenn og Júdamenn í talningu Davíðs?
Í 2. Samúelsbók 24:9 eru gefnir upp 800.000 Ísraelsmenn og 500.000 Júdamenn en 1. Kroníkubók 21:5 segir vopnfæra Ísraelsmenn 1.100.000 og Júdamenn 470.000. Í fastri þjónustu konungs voru 288.000 hermenn sem skiptust í tólf 24.000 manna hópa. Hver hópur þjónaði einn mánuð á ári. Að auki voru 12.000 þjónar hinna 12 ættkvíslahöfðingja, eða alls 300.000 manns. Greinilega eru þessir 300.000 menn innifaldir í tölunni 1.100.000 í 1. Kroníkubók 21:5 en ekki í 2. Samúelsbók 24:9. (4. Mósebók 1:16; 5. Mósebók 1:15; 1. Kroníkubók 27:1-22) Hvað Júdamenn áhrærir eru 30.000 menn í varðstöðu við landamæri Filisteu greinilega meðtaldir í 2. Samúelsbók 24:9 en ekki í tölunni í 1. Kroníkubók 21:5. (2. Samúelsbók 6:1) Ef við höfum hugfast að 2. Samúelsbók og 1. Kroníkubók voru ritaðar af tveim mönnum með ólík sjónarmið og markmið er auðvelt að samræma tölurnar.
▪ Hver var faðir Sealtíels?
Sumir textar gefa til kynna að Jekonja (Jójakín konungur) hafi verið holdlegur faðir Sealtíels. (1. Kroníkubók 3:16-18; Matteus 1:12) Guðspjallaritarinn Lúkas kallar hins vegar Sealtíel ‚son Nerí.‘ (Lúkas 3:27) Greinilegt er að Nerí gaf Sealtíel dóttur sína fyrir konu. Hebrear voru vanir að tala um tengdason sem son, einkum í ættartölum, og Lúkas gat því réttilega kallað Sealtíel son Nerí. Á sama hátt talar Lúkas um Jósef sem son Elí, en hann var í reyndinni faðir Maríu, eiginkonu Jósefs. — Lúkas 3:23.
Textar um Jesú samræmdir
▪ Út af hve mörgum mönnum rak Jesús Kristur illu andana sem tóku sér bólfestu í stórri svínahjörð?
Guðspjallaritarinn Matteus nefnir tvo menn en Markús og Lúkas aðeins einn. (Matteus 8:28; Markús 5:2; Lúkas 8:27) Að því er virðist vöktu Markús og Lúkas athygli aðeins á öðrum manninum, sem haldinn var illum anda, vegna þess að Jesús talaði við hann og hans tilfelli var sérstæðara. Vera má að hann hafi verið ofbeldisfyllri en hinn eða hafi verið haldinn illum anda lengur. Vera kann að einungis þessi maður hafi viljað fylgja Jesú eftir þetta. (Markús 5:18-20) Við eilítið hliðstæðar aðstæður talaði Matteus um tvo blinda menn sem Jesús læknaði en Markús og Lúkas nefna aðeins annan. (Matteus 20:29-34; Markús 10:46; Lúkas 18:35) Það var engin mótsögn því að um var að ræða að minnsta kosti einn slíkan mann.
▪ Hvernig var flíkin á litinn sem Jesús klæddist á dánardegi sínum?
Samkvæmt frásögn Markúsar (15:17) og Jóhannesar (19:2) lögðu hermennirnir purpuralita kápu á herðar Jesú, en Matteus (27:28) kallar hana „skarlatsrauða kápu“ og leggur þar með áherslu á rauða litinn. Með því að purpuri er samsettur úr rauðum lit og bláum eru Markús og Jóhannes sammála um að kápan hafi haft rauðleitan blæ. Birtuskilyrði og bakgrunnur hafa getað gefið flíkinni mismunandi litblæ og guðspjallaritararnir nefnt þann lit sem þeim eða heimildarmönnum þeirra fannst sterkastur. Þessi smávægilegu frávik bera vott um einstaklingseðli ritaranna og sanna að ekki var um neitt leynimakk að ræða milli þeirra.
▪ Hver bar kvalastaur Jesú?
Jóhannes (19:17) segir: „Og hann [Jesús] bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.“ Matteus (27:32), Markús (15:21) og Lúkas (23:26) segja hins vegar að ‚á leiðinni hafi þeir hitt Símon frá Kýrene og neytt hann til að bera kross Jesú.‘ Jesús bar kvalastaur sinn eins og Jóhannes sagði. Hann bætir því hins vegar ekki við í þjappaðri frásögu sinni að Símon frá Kýrene hafi síðar verið neyddur til að taka við staurnum. Frásögum guðspjallanna ber því saman um þetta efni.
▪ Hvernig dó Júdas Ískaríot?
Matteus 27:5 segir að Júdas hafi hengt sig en Postulasagan 1:18 talar um að hann hafi ‚steypst á höfðið og brostið sundur í miðju, svo að iðrin öll hafi fallið út.‘ Matteus virðist lýsa því með hvaða hætti hann reyndi að svipta sig lífi en Postulasagan lýsir því hvernig fór. Júdas virðist hafa bundið reipi í trjágrein, sett lykkju um háls sér og reynt að hengja sig með því að stökkva fram af kletti. Svo virðist sem reipið hafi annaðhvort slitnað eða trjágreinin brotnað með þeim afleiðingum að hann steyptist niður og brast sundur á grjótinu fyrir neðan. Slík ályktun er trúleg miðað við landslagið í grennd við Jerúsalem.
Hvaða augum ætlar þú að líta málin?
Ef okkur virðist vera ósamræmi einhvers staðar í Biblíunni er gott að hafa hugfast að fólk segir oft ýmislegt sem virðist vera mótsagnakennt en er í raun auðskýrt og auðskilið. Til dæmis getur kaupsýslumaður átt bréfaskipti við annan mann með því að lesa ritara sínum fyrir bréf. Aðspurður myndi hann segjast hafa sent bréfið. En með því að ritarinn vélritaði bréfið og póstlagði gæti hann sagst hafa sent það. Eins var það engin mótsögn þegar Matteus (8:5) sagði að herforingi hafi komið til Jesú og beðið hann ásjár en Lúkas (7:2, 3) sagði aftur á móti að maðurinn hafi sent fulltrúa sinn.
Dæmin hér á undan sýna að hægt er að skýra torskilin atriði í Biblíunni. Þess vegna er full ástæða til að hafa jákvætt viðhorf til Biblíunnar. Hvatt er til þeirra viðhorfa í fjölskyldubiblíu sem gefin var út árið 1876:
„Rétt er að glíma við þessi torskildu atriði með því hugarfari að leysa úr þeim eins og kostur er, og að halda fast við og lúta sannleikanum, jafnvel þótt ekki sé hægt að draga hvert ský frá honum. Við ættum að líkja eftir fordæmi postulanna sem, þegar sumir lærisveinanna hneyksluðust á því sem þeir kölluðu ‚þunga ræðu‘ og yfirgáfu Krist, þögguðu niður sérhverja mótbáru með þessum orðum: ‚Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.‘ . . . Þegar okkur virðist sannleiksatriði stangast á við annað sannleiksatriði, þá skulum við reyna að samræma þau og sýna þau öllum þannig samræmd.“ — Jóhannes 6:60-69.
Ætlar þú að taka slíka afstöðu? Eftir að hafa skoðað aðeins fáein atriði til að sýna fram á samræmi Ritningarinnar er það von okkar að þú samsinnir sálmaritaranum sem sagði við Guð: „Inntak orðs þíns er sannleikur.“ (Sálmur 119:160, NW) Vottar Jehóva hafa það viðhorf til allrar Biblíunnar og eru meira en fúsir til að færa rök fyrir trú sinni á hana. Hví ekki að ræða við þá um þessa óviðjafnanlegu bók? Vel má vera að hinn styrkjandi boðskapur hennar fylli þig sannri von og hamingju.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hefur þú spurt votta Jehóva hvers vegna þeir beri traust til Biblíunnar?