Kafli 125
Á kvalastaurnum
TVEIR ræningjar eru leiddir til aftöku með Jesú. Fylkingin nemur staðar skamman spöl frá borginni þar sem heitir Golgata eða Hauskúpustaður.
Fangarnir eru afklæddir og boðið myrrublandað vín sem greinilegt er að konurnar frá Jerúsalem láta í té. Rómverjar neita föngum ekki um þennan kvalastillandi drykk en Jesús vill ekki drekka vínið eftir að hann hefur bragðað á því. Af hverju? Greinilegt er að hann vill hafa fullkomlega skýra hugsun í þessari mestu trúarraun sinni.
Jesús er nú lagður á staurinn með báðar hendur strekktar yfir höfði sér. Hermennirnir reka stóra nagla gegnum hendur hans og fætur. Hann engist af sársauka þegar naglarnir stingast gegnum hold og sinar. Sársaukinn er næstum óbærilegur þegar staurinn er reistur og það strekkist á naglagötunum undan líkamsþunga hans. En í stað þess að ógna rómversku hermönnunum biður Jesús fyrir þeim: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“
Pílatus hefur látið setja skilti á staurinn með áletruninni „JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.“ Ætla má að það sé ekki bara virðing fyrir Jesú sem veldur, heldur ekki síður fyrirlitning á prestum Gyðinga sem hafa þvingað hann til að dæma Jesú til dauða. Svo allir megi lesa áletrunina lætur Pílatus gera hana á þrem tungumálum — hebresku, latínu sem er hið opinbera tungumál, og á alþjóðamálinu grísku.
Æðstuprestarnir, þeirra á meðal Kaífas og Annas, eru skelkaðir. Þessi jákvæða yfirlýsing spillir sigurgleði þeirra svo að þeir mótmæla: „Skrifaðu ekki ‚konungur Gyðinga‘, heldur að hann hafi sagt: ‚Ég er konungur Gyðinga‘.“ Pílatusi svíður það að hafa verið peð í hendi prestanna og svarar einbeittur og með fyrirlitningu: „Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.“
Prestarnir safnast nú saman ásamt miklum mannfjölda á aftökustaðnum og reyna að hrekja vitnisburðinn á skiltinu. Þeir endurtaka upploginn vitnisburðinn frá réttarhöldum æðstaráðsins. Þess vegna kemur ekki á óvart að þeir sem fram hjá ganga skuli spotta Jesú, hrista höfuðið hæðnislega og segja: „Þú sem ætlaðir að rífa niður musterið og byggja það á þrem dögum, bjargaðu sjálfum þér! Stígðu niður af kvalastaurnum ef þú ert sonur Guðs!“
„Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað!“ hrópa æðstuprestarnir og trúarlegir vildarmenn þeirra taka undir. „Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af kvalastaurnum og þá skulum við trúa á hann. Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ‚Ég er sonur Guðs‘?“
Í hita augnabliksins taka hermennirnir líka að hæða Jesú. Þeir skopast að honum með því að bjóða honum edik eða súrt vín en halda því rétt fyrir framan skrælnaðar varir hans. „Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér,“ segja þeir háðslega. Jafnvel ræningjarnir, sem eru staurfestir honum til beggja handa, gera gys að honum. Hugsaðu þér! Mesta mikilmenni sem lifað hefur, já, sá hinn sami og tók þátt í að skapa alla hluti með Jehóva Guði, þolir slíka háðung með reisn!
Hermennirnir taka yfirhöfn Jesú, skipta í fjóra hluta og varpa hlutkesti um hver fái þá. En kyrtill hans er mjög vandaður og saumlaus svo hermennirnir segja hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.“ Óafvitandi eru þeir þar með að uppfylla ritningargreinina sem segir: „Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.“
Um síðir áttar annar ræninginn sig á því að Jesús hljóti virkilega að vera konungur. Hann ávítar því félaga sinn og segir: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ Síðan ávarpar hann Jesú og biður: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“
„Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís,“ svarar Jesús. Þetta fyrirheit rætist þegar Jesús ríkir sem konungur á himnum og reisir þennan iðrunarfulla illvirkja upp frá dauðum. Þannig fær hann að lifa í jarðneskri paradís en hana rækta þeir sem komast lifandi gegnum Harmagedón og félagar þeirra. Matteus 27:33-44, vers 40, 42 samkvæmt NW; Markús 15:22-32; Lúkas 23:27, 32-43, vers 43 samkvæmt NW; Jóhannes 19:17-24.
▪ Af hverju vill Jesús ekki drekka myrrublandaða vínið?
▪ Af hverju lætur Pílatus setja skilti á kvalastaur Jesú, og til hvaða orðaskipta kemur út af því milli hans og æðstuprestanna?
▪ Hvernig er Jesús hæddur á kvalastaurnum og af hverju?
▪ Hvernig rætist spádómur í sambandi við föt Jesú?
▪ Hvernig breytist afstaða annars ræningjans og hvernig mun Jesús verða við bón hans?