Kafli 126
„Sannarlega var þessi maður sonur Guðs“
UM MIÐJAN dag, skömmu eftir að Jesús er staurfestur, skellur á dularfullt myrkur sem stendur í þrjár stundir. Ekki er það sólmyrkvi sem veldur, því að hann á sér ekki stað nema á nýju tungli en núna er fullt tungl, enda páskar. Og sólmyrkvi stendur aðeins í fáeinar mínútur. Myrkrið er því Guðs verk! Sennilega þaggar það um stund niður í þeim sem hæða Jesú, eða jafnvel alveg.
Hafi þetta uggvekjandi fyrirbæri átt sér stað áður en annar illvirkinn ávítar félaga sinn og biður Jesú að minnast sín, þá kann það að hafa átt sinn þátt í iðrun hans. Kannski er það í myrkrinu sem fjórar konur, þær móðir Jesú og Salóme systir hennar, María Magdalena og María móðir postulans Jakobs yngri, færa sig alveg að aftökustaurnum. Jóhannes, elskaður postuli Jesú, er með þeim þar.
Það hlýtur að ‚nísta‘ móður Jesú í hjartað að sjá soninn, sem hún ól og annaðist, hanga þarna sárkvalinn! En Jesús hugsar ekki um sína eigin kvöl heldur velferð hennar. Með erfiðismunum kinkar hann kolli til Jóhannesar og segir við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan kinkar hann kolli í átt til Maríu og segir Jóhannesi: „Nú er hún móðir þín.“
Þar með felur Jesús þessum ástfólgna postula sínum að annast móður sína sem er greinilega orðin ekkja. Þetta gerir hann af því að aðrir synir Maríu hafa enn ekki sýnt trú á hann. Hann setur gott fordæmi með því að sjá þannig bæði fyrir líkamlegum og andlegum þörfum móður sinnar.
Um þrjúleytið síðdegis segir Jesús: „Mig þyrstir.“ Hann skynjar að faðir hans hefur tekið vernd sína frá honum, ef svo má segja, til að ráðvendni hans verði reynd til hins ítrasta. Hann kallar því hárri röddu: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Nokkrir nærstaddir, sem heyra þetta, segja þá: „Heyrið, hann kallar á Elía!“ Einn þeirra hleypur þá til, setur svamp fylltan súru víni eða ediki á reyrstaf og gefur honum að drekka. Aðrir segja: „Látum sjá, hvort Elía kemur að taka hann ofan.“
Þegar Jesús fær edikið hrópar hann: „Það er fullkomnað.“ Já, hann hefur lokið öllu því sem faðir hans sendi hann til jarðar að gera. Að lokum kallar hann: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ Þar með felur hann Guði lífskraft sinn í trausti þess að hann gefi honum hann aftur. Síðan hneigir hann höfuðið og deyr.
Mikill jarðskjálfti ríður yfir um leið og Jesús gefur upp andann, og björgin klofna. Svo öflugur er skjálftinn að grafirnar utan við Jerúsalem opnast og líkin kastast út. Þeir sem leið eiga hjá sjá líkin og segja frá í borginni.
Og á sömu stundu og Jesús deyr rifnar fortjaldið mikla milli hins heilaga og hins allra helgasta í musteri Guðs í tvennt, ofan frá og niður úr. Þetta fallega skreytta fortjald er líklega um 18 metra hátt og mjög þungt. Þetta sérstæða kraftaverk ber ekki aðeins vott um reiði Guðs gegn morðingjum sonar síns heldur táknar líka að leiðin inn í hið allra helgasta, sjálfan himininn, sé nú opin eftir dauða Jesú.
Mikill ótti grípur um sig þegar jarðskjálftinn gengur yfir og fólk sér hvað gerst hefur. Liðsforinginn, sem sér um aftökuna, vegsamar Guð. „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs,“ segir hann. Trúlega var hann viðstaddur þegar Pílatus réttaði yfir Jesú og rætt var um hvort hann væri sonur Guðs. Og nú er hann sannfærður um að Jesús sé sonur Guðs, að hann sé sannarlega mesta mikilmenni sem lifað hefur.
Aðrir eru líka dolfallnir yfir þessum undraverðu atburðum, og þeir tínast heim á leið og berja sér á brjóst til tákns um djúpan harm sinn og skömm. Margar konur, sem eru lærisveinar Jesú, hafa staðið álengdar og horft á og eru djúpt snortnar af þessum miklu atburðum. Jóhannes postuli er einnig viðstaddur. Matteus 27:45-56; Markús 15:33-41; Lúkas 23:44-49; 2:34, 35; Jóhannes 19:25-30.
▪ Af hverju er það ekki sólmyrkvi sem veldur þriggja stunda myrkri?
▪ Hvaða gott fordæmi um að sjá fyrir öldruðum foreldrum setur Jesús skömmu fyrir dauða sinn?
▪ Hvernig hljóða fjórar síðustu setningarnar sem Jesús segir áður en hann deyr?
▪ Hvað gerist í jarðskjálftanum og hvaða þýðingu hefur það að fortjald musterisins rifnar í tvennt?
▪ Hvaða áhrif hafa þessi kraftaverk á liðsforingjann sem sér um aftökuna?