Kröftug kennsla í smæsta staf hebreska stafrófsins
Getum við verið fullviss um að öll loforð Guðs rætist? Jesús var sannfærður um það og kennsla hans byggði upp trú hjá þeim sem hlustuðu á hann. Hugleiddu það sem Jesús sagði í fjallræðunni í Matteusi 5:18: „Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram.“
Smæsti stafur hebreska stafrófsins er י (jód). Hann er fyrsti stafurinn í fjórstafanafninu, heilögu nafni Guðs, Jehóva.a Fræðimenn og farísear töldu ekki aðeins orðin og stafina í lögmálinu þýðingarmikil heldur líka hvern ,stafkrók‘.
Jesús sagði að það væri líklegra að himinn og jörð myndu líða undir lok en að minnsta smáatriði lögmálsins félli úr gildi. En Biblían fullvissar okkur um að himinninn og jörðin standi að eilífu. (Sálmur 78:69) Þessi fullyrðing gaf til kynna að jafnvel minnstu smáatriði Móselaganna skyldu uppfyllast.
Er Jehóva Guði sama um smáatriði? Nei, alls ekki. Ísraelsmönnum til forna var sagt að þeir mættu ekki brjóta nein bein í páskalambinu. (2. Mósebók 12:46) Þetta gæti virst vera smáatriði. Sennilega skildu Ísraelsmenn ekki hvers vegna þeir máttu ekki brjóta beinin. En Jehóva Guð vissi hins vegar að þetta smáatriði var spádómleg fyrirmynd um að ekkert bein Messíasar skildi brotið þegar hann yrði tekinn af lífi á kvalastaur. – Sálmur 34:21; Jóhannes 19:31-33, 36.
Hvað lærum við af orðum Jesú? Við getum verið alveg viss um að öll loforð Jehóva Guðs muni rætast – hvert einasta smáatriði. Já, það er kröftug kennsla í smæsta staf hebreska stafrófsins.
a Smæsti stafur gríska stafrófsins er jóta og er augljóslega líkur hebreska stafnum י (jód). Jesús var sennilega að vísa til hebreska stafsins þar sem Móselögin voru upprunalega skrifuð á hebresku og bárust á milli kynslóða á því máli.